Aðalfundur BSSL 2016

108. aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands
haldinn 14. apríl 2016 að Hótel Kötlu, Höfðabrekku.

1. Fundarsetning, Ragnar Lárusson formaður.
Ragnar Lárusson setti fundinn og bauð fulltrúa, starfsmenn, heiðursfélaga, gesti og framkvæmdastjóra Bændasamtakanna velkomna. Hann gerði það að tillögu að Jón Jónsson, Prestsbakka, stýrði fundi og Helga Sigurðardóttir, starfsmaður Búnaðarsambandsins ritaði fundargerð.

2. Skipan kjörbréfanefndar, Sveinn Sigurmundsson.
Sveinn Sigurmundsson bar upp tillögu um skipan kjörbréfanefndar; Jón Vilmundarson, Skeiðháholti, Borghildur Kristinsdóttir, Skarði og Sigurður Ómar Gíslason, Hemru. Tillagan samþykkt.

3. Skýrsla stjórnar, Ragnar Lárusson formaður.
Ragnar Lárusson fór yfir skýrslu stjórnar. Á síðasta aðalfundi var kosið um stjórnarmenn í Rangárvallasýslu og urðu þar engar breytingar á stjórn. Vegna breytinga á lögum þurfti að gera hlé á fundi á meðan stjórnarmenn skiptu með sér verkum, en lagabreytingin fólst í því að formaður er sjálfkjörinn á Búnaðarþing. Á árinu voru haldnir 8 stjórnarfundir. Helstu verkefnin ársins lutu að stofnun og þróun á einangrunarstöð fyrir holdanaut að Stóra-Ármóti í samvinnu við Bændasamtök Íslands og Landsamtök kúabænda. Nýja fyrirtækið heitir Nautgriparræktarmiðstöð Íslands og í stjórn eru Gunnar Kr. Eiríksson(BSSL), Sveinbjörn Eyjólfsson(BÍ) og Sigurður Loftsson(LK). Fleira var markvert á Stóra-Ármóti en Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri réð Hrafnhildi Baldursdóttur í 40% stöðu sem tilraunastjóra og þar með er tilraunastarf byrjað á nýju.
Samkeppnisstofnun sendi kæru vegna vinnu við lóðasamninga, sem við fengum Heiðrúnu Lind hjá Lex lögmannsstofu til að svara fyrir okkur, niðurstaða þeirra samskipta var að Samkeppnisstofnun lét málið niður falla.
Búnaðarsambandið stóð fyrir fjölmennum fundi um tollasamninga á Hótel Selfossi í október. Erindi á fundinum fluttu þau Sigurður Ingi Jóhannsson og Erna Bjarnadóttir.
Formannafundur Búnaðarsambandsins var haldinn í Gunnarsholti þann 26. janúar 2016 og þar var gestur fundarins Einar Ófeigur Björnsson, varaformaður BÍ. Þar ræddi hann um tollasamninga, stöðuna í gerð búvörusamninga og búnaðargjald.
Formaður mætti líka á formannafund BÍ sem haldinn var á Hótel Sögu 23. nóvember síðastliðinn og var aðalumræðuefnið staðan í búvörusamningunum. Að lokum þakkaði hann stjórn og starfsmönnum og bændafólki öllu fyrir samstarf á árinu.

4. Reikningar BSSL og skýrsla framkvæmdastjóra, Sveinn Sigurmundsson.
Sveinn byrjaði á að fara yfir breytingar síðustu ára. Gríðalegar sviftingar hafa verið í starfsemi sambandsins á liðnum árum. Þróunin hefur verið að ýmis verkefni hafa farið frá BSSL og BÍ yfir til MAST, svo sem kvótamál, forðagæsla og margt fleira. Ráðgjafastarfsemin yfir til RML, samstarfi Búnaðarsambands A-Skaftafellssýslu til 11 ára er lokið og mikil breyting er á samstarfi við LbhÍ (áður RALA). BSSL er eftir með rekstur fyrirtækja, eignaumssýslu, úttektir, túnkortagerð, félagskerfið og ýmis verkefni, sem sum hver munu tengjast nýjum búvörusamningum. BSSL hefur haldið í það að halda nokkra bændafundi á hverju ári og fengið að borðinu þá aðila sem þörf er á hverju sinni. Vinnuverndarverkefni í samvinnu við BÍ er í þróun og reynt er að fá fleiri aðila til samstarfs í því. Á næstu árum þurfum við að selja okkur í auknum mæli og innheimta fyrirtækin okkar fyrir aukin þátt í rekstri samstæðunnar.
Umhverfisstofnun skipaði 4 manna nefnd til að gera tillögur um aðgerðir gagnvart ágangi álfta og gæsa.Tillögur hópins voru tvíþættar. Fyrri hlutinn beinist að tjóni bænda af ágangi álfta og gæsa í tún og akra og mögulegum griðlöndum fyrir þessa fugla. Seinni hlutinn beinist að því að sett verði viðmið um ákjósanlega verndarstöðu álfta- og gæsastofna á Íslandi. Jafnframt að kannað verði hvort grípa megi til aðgerða samkvæmt skýrum leikreglum til að takmarka vöxt þeirra ef stofnstærð fer umfram þá verndarstöðu.

Ef félagsgjöldin eiga að ná yfir allan kostnað stjórnar og skoðunarmanna, þyrftu þau að vera 3.500 kr á einstakling. Gert er ráð fyrir því að búnaðargjald verði fellt út í ársbyrjun 2017. Fjármögnun félagskerfisins er verkefni sem öll félög tengd bændum standa frammi fyrir á næstu misserum. Miðað við dóminn um ólögmæti iðnaðarmálagjalds þarf upplýst samþykki fyrir félagsaðild og gjaldtöku félagsgjalds. Til að verða aðili að BÍ þarf að samþykkja 0,3 % veltuskatt og vera aðili að einu af aðildarfélögum BÍ. BSSL ætlar ekki að leita eftir samþykki fyrir veltuskatti að svo stöddu. Umhugsunarefni hvernig menn munu velja sér félag til að vera í. Mjög mikilvægt að bændur standi saman
Jarðabótaúttektir hafa aðeins dregist saman á liðnu ári, þó fóru um 800 vinnustundir í þá vinnu. Flestar úttektir hér á Suðurlandi, af landinu öllu.
Kynbótastöðin er með veltuaukningu, enda hefur umfangið vaxið eftir að við tókum yfir sæðingar á Austurlandi. Aukningar í sæðingum voru talsverðar og voru sæðingar í allt um 25 þúsund gripir eða tæplega helmingur af því sem sætt var á landsvísu. Kostnaður við hverja sæðingu er 4.800 kr/sæð en 7.900 kr/sæð á Austurlandi. Akstur á hverja sæðingu er frá 15,6 km og upp í 46 km (á Austurlandi). Starfsstöðin í Vík leggst af þegar Smári Tómasson hættir sæðingum á þessu ári og Hermann Árnason tekur við. Frjótæknar fóru á fangskoðunarnámskeið, en mikill breytileiki er milli manna hvort og þá hve mikið þeir hafa sinnt þessu.
Klaufskurður var gerður á 5.000 kúm á 100 bæjum, en kostnaður hefur aukist og er meðalverð 1.560 kr á grip. Birkir Þrastarson hefur tekið við klaufskurðinum af Þorsteini Loga Einarssyni, en með honum er Ingvar Hersir Sveinsson.
Reksturinn á Sauðfjársæðingastöðinni er ásættanlegur. Þar voru flestar ær sæddar á Suðurlandi í Árnessýslu, eða 3.284 ær. Alls voru sæddar rúmlega 15 þúsund ær en vertíðin byrjaði óvenju seint. Útflutningur var enginn þetta árið, vegna breytinga á innflutningsreglum í USA.
Á vinnuborðinu er holdanautastöðin Nautís ehf. sem er samstarfsverkefni LK, BÍ og BSSL. Markmið hennar er að endurnýja erfðaefni holdanautagripa og flytja inn fósturvísa úr Aberdeen Angus kyni frá Noregi. Holdanautastöðin á að rísa á Stóra Ármóti og verður 40 ha afgirt lóð undir stöðina og alger einangrun. Þar á að byggja 500m2 fjós með rými fyrir 20 kúa ræktunarkjarna.
Bændabókhaldið er að velta 26 milljónir. Þar er tap upp á 1,4 milljónir og ýmislegt sem kom þar inní, veikindi ofl. Framtöl fyrir 190 og vsk fyrir 112, sem er svipað og undanfarin ár.
Rekstur fyrirtækjanna er í heildina aðeins yfir núlli. Rekstrartekjur fyrirtækjanna fyrir utan Stóra Ármót er 206,6 milljónir sem er aukning frá fyrra ári úr 195,5 milljónum. Rekstrargjöld eru 216,3 milljónir og er því rekstrartap 9,6 milljónir. Fjármunaliðir skila 9,3 milljónum og Stóra Ármót kemur út með 1,6 milljón króna hagnað. Tekjuskattur er 95 þúsund. Lokaniðurstaðan er því hagnaður upp á 1,4 milljón. Samkvæmt efnahagsreikningi eru heildareignir 281,8 milljónir króna og aukast lítillega. Veltufjármunir eru 141 milljónir í árslok, nánast óbreytt frá fyrra ári. Veltufé til rekstrar 2,8 milljónir sem reksturinn tekur til sín. Rekstrartap er á öllum fyrirtækjunum. Bændabókhaldið veltir 27 milljónum og er með 1,5 milljóna tap. Sauðfjársæðingastöðin veltir 14 milljónum og tap upp á 832 þúsund. Veltuaukning var hjá Kynbótastöðinni um rúmar 20 milljónir og fer í 120 milljónir, aðallega vegna sæðinganna á austurlandi. Rekstrartap er 1,8 milljónir. Rekstur Búnaðarsambandsins heldur áfram að dragast samanog er veltan nú tæpar 69 milljónir. Rekstrartap 5,4 milljónir en að teknu tilliti til fjármagnsliða og dótturfélags lagast satða og þá er hagnaðurinn 1,8 milljónir. Rekstrartekjur á Stóra Ármóti voru 56 milljónir. Rekstrargjöld eru 54,3 milljónir og hagnaður því 1,6 milljónir þegar búið er að taka tillit til skatta og fjármagnsliða. Ef samstæðureikningurinn við Stóra Ármót er skoðaður þá er heildarveltan 262 milljónir og bókfærðar eignir 293 milljónir.
Tilraunastarf á Stóra Ármóti var til umfjöllunar en Hrafnhildur Baldursdóttir er í 40% starfi tímabundið, LbhÍ er að öllum líkindum að taka peninga af rannsóknarstörfum í rekstur skólans. Fjósið komið til ára sinna og breytinga er þörf í takt við aðbúnaðarreglugerð. Erlendis er farið að framkvæma úrval útfrá erfðamörkum, þá eru erfðamengi skoðuð um leið og hann fæðist og ráðið um afdrif hans í framtíðinni.
Miklar breytingar eru framundan svo sem tollasamningar, nýjir búvörusamningar, búnaðargjaldið á útleið, þá er mikilvægast að bændur standi saman.

5. Umræður um skýrslur og reikninga.
Páll Sigurjónsson, Galtalæk vakti menn til umhugsunar um það hvaða áhrif aukinn innflutningur á matvælum hefði á samfélagið. Hvernig er innkoma annara búgreina en hinna hefðbundnu að búvörusamningi, mikil óvissa um framvindu samningsins.
Einar Freyr Elínarson, Loðmundarstöðum. þakkaði greinagóða skýrslu og nú er mikil þörf að taka umræðuna um félagskerfi bænda. Í dag er þetta allt of mikill frumskógur og eðlilegast að regnhlífasamtök BÍ innheimti og greiði til aðildarfélaganna. Nauðsynlegt að tryggja örugga hagsmunagæslu.
Sveinn Sigurmundsson, svaraði Einari og taldi farsælast að hagsmunafélög bænda væru með eina tölu í veltuskatti og byðu eina stóra gulrót, en það var ekki samstaða um það. Því verður úr að margir bjóða litlar gulrætur með mismunandi útfærslum. Óvissan er líka hversu margir vilja vera aðilar að félögunum. Þegar Danir byrjuðu með svipað kerfi þá var félagsaðild um 30% en er í dag 70%. Engum dettur í hug að það verði 100% aðild. Hver á að borga úttektir t.d. vegna kals. Hugmynd er komin fram um Hamfarasjóð í stað Bjargráðasjóðs. Þegar eldgosin í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum stóðu yfir kom fram mikilvægi þess að bændur heima í héraði eigi samnefnara eins og Búnaðarsambandið sem aðstoðaði bændur mikið. Það þrengir að Búnaðarsambandinu á næstunni. Þá verður að bregðast við eins og bændur myndu gera ef framundan væri fóðurskortur.Finna fóður fyrir „féð“ eða fækka. Bændasamtökin eiga að vera regnhlífasamtök og halda mönnum saman í félagskerfinu.

6. Matarhlé.

7. Kjörbréfanefnd skilar áliti.
Jón Vilmundarson , formaður nefndarinnar tók til máls. Rétt til setu eiga 31 búnaðarfélög, þar af 2 með 2 fulltrúa. Búgreinafélögin 6 eiga rétt á 19 fulltrúum. Kjörbréf eru lesin upp og í ljós kemur að eftirfarandi fulltrúar eru mættir:

Búnaðarfélag Gaulverjabæjarhrepps
Bárður Magnússon, Hólshúsum.
Búnaðarfélag Stokkseyrarhrepps
Enginn fulltrúi
Búnaðarfélag Sandvíkurhrepps
Ari Páll Ögmundsson, Stóru-Sandvík.
Búnaðarfélag Hraungerðishrepps
Gísli Hauksson, Stóru Reykjum.
Búnaðarfélag Villingaholtshrepps
Þorsteinn Logi Einarsson, Egilsstaðakoti.
Búnaðarfélag Skeiðahrepps
Jón Vilmundarson, Skeiðháholti.
Búnaðarfélag Gnúpverjahrepps
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag Hrunamannahrepps
Aðalsteinn Þorgeirsson, Hrafnkelsstöðum.
Gunnar Eiríksson, Túnsbergi.
Búnaðarfélag Bláskógabyggðar
Trausti Hjálmarsson, Austurhlíð 2.
Ingvi Þorfinnsson, Spóastöðum.
Búnaðarfélag Þingvallahrepps
Gunnar Þórisson, Fellsenda.
Búnaðarfélag Grímsneshrepps
Björn Snorrason, Björk II.
Búnaðarfélag Ölfushrepps
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag Eyrabakka
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag A-Eyjafjallahrepps
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag V-Eyjafjallahrepps
Ragnar Lárusson, Stóra-Dal.
Búnaðarfélag A- Landeyjarhrepps
Rafn Bergsson, Hólmahjáleigu.
Búnaðarfélag V-Landeyjarhrepps
Guðmundur Jónsson, Berjanesi.
Búnaðarfélag Fljótshlíðarhrepps
Páll Eggertsson, Arngeirsstöðum.
Búnaðarfélag Hvolhrepps
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag Rangárvallahrepps
Björgvin Reynir Helgason, Lambhaga.
Búnaðarfélag Landmannahrepps
Páll Sigurjónsson, Galtalæk.
Búnaðarfélag Holtahrepps
Daníel Magnússon, Akbraut.
Búnaðarfélag Djúpárhrepps
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag Ásahrepps
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag Hörgslandshrepps
Björn Helgi Snorrason, Kálfafelli.
Búnaðarfélag Kirkjubæjarhrepps
Þórarinn Bjarnason, Þykkvabæ 1.
Búnaðarfélag Álftavers
Margrét Harðardóttir, Mýrum.
Búnaðarfélag Leiðvallahrepps
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag Skaftártungu
Sigurður Ómar Gíslason, Hemru.
Búnaðarfélag Hvammshrepps
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag Dyrhólahrepps
Gunnar Þormar Þorsteinsson, Dyrhólum.
Félag sauðfjárbænda í Árnessýslu
Sævar Bjarnhéðinsson, Arnarholti.
Jökull Helgason, Ósabakka 1.
Félag sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu
Erlendur Ingvarsson, Skarði.
Sigríður H. Heiðmundsdóttir, Kaldbak.
Baldur Björnsson, Fitjamýri.
Félag sauðfjárbænda í V-Skaftafellssýslu
Einar Freyr Elínarson, Loðmundarstöðum.
Loðdýraræktarfélag Suðurlands
Hjalti Logason, Neðri-Dal.
Hrossaræktarsamtök Suðurlands
Helgi Eggertsson, Kjarri.
Sigríkur Jónsson, Syðri-Úlfsstöðum.
Þuríður Einarsdóttir, Oddgeirshólum.
Félag kúabænda á Suðurlandi
Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ.
Borghildur Kristinsdóttir, Skarði.
Samúel U. Eyjólfsson, Bryðjuholti
Ásmundur Lárusson, Norðurgarði (varam).
Sævar Einarsson, Stíflu (varam).
Mættir eru 38 fulltrúar.
Álit kjörbréfanefndar er samþykkt samhljóða.

8. Landssamtök landeigenda, Örn Bergsson.
Landssamtök landeigenda voru stofnuð fyrir 9 árum um þjóðlendumálið. Fyrsta verkefni stjórnarinnar var að snúa ofan af þjóðlendumálinu. Það mál snerist í stuttu máli um að Hæstiréttur Íslands gerði landeigendum skylt að sýna sönnunarbyrði á sínum eignarhlut gagnvart ríkinu en ekki öfugt. Breytingarnar urðu þær að ríkið hætti að áfrýja mörgum málum og kröfugerð ríkisins varð allt önnur en hún var, í dag er hún svipuð og lagt var með upp í upphafi.
Í upphafi átti aðeins að beita sér í þjóðlendumálum, en á fyrsta ári komu lög sem við fórum að skipta okkur af, en það voru lög um frístundabyggð. Í lögunum átti það að vera þannig að þegar samningi um leigulóð lauk og ekki náðist sátt, þá gat leigjandinn einhliða framlengt leiguna um 10 ár, þessu var breytt. Í lögum félagsins urðum við hagsmunaaðilar gagnvart ríki og öðrum opinberum aðilum en félaginu er bannað að skipta sér af deilum milli landeigenda.
Félagið beitti sér þegar ný náttúruverndarlög voru í smíðum, þau voru upphaflega flutt 2013, gildistöku frestað vegna deilna. Lögin voru unnin í samráði m.a. við landeigendur og eru núna ásættanleg fyrir þá. Gömlu lögin leyfðu umferðarrétt manna á óræktuðu landi í byggð, (máttu hafa þar næturdvöl) en í dag þarf leyfi landeigenda til þess að fara um óræktað land í byggð. Útivistarsamtök eru ósátt við þetta, við lifum á öðrum tímum og við þurfum að hafa heimildir til að vernda okkar land. Í lögunum átti líka að banna allan utanvegaakstur, en ekki gerður greinarmunur á akstri landeigenda eða annara, þessu varð breytt.
Ýmsum öðrum lögum hafa samtökin komið að og láta vinna fyrir sig faglegar umsagnir sem oft eru notuð í alþingisnefndum til ákvarðanatöku og við undirbúning lagasetninga.
Í dag eru 400 aðildarfélagar, árgjaldið er 8.000 kr en nokkur sveitarfélög eru í félaginu sem borga hærra gjald. Þyrftum að hafa að minnsta 1.000 félagsmenn til að félagið geti beitt sér í fleiri málum. Að lokum, við stöndum á tímamótum og þurfum að hafa þol til að vinna saman og meira með regnhlífasamtökunum BÍ í þessum málum.

9. Landbúnaður á tímamótum, Sigurður Eyþórsson.
Sigurður Eyþórsson framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands byrjaði á að fjalla um breytta tíma í þjóðmálunum. Nýr Landbúnaðarráðherra getur vonandi farið að vinna að nýjum búvörusamningi af fullum krafti. Í framhaldinu kynnti hann niðurstöður kosninga um samninginn, sem var samþykktur af meirihluta bænda. Í undirbúningsferlinu var mikið tekist á um samningana. Þar komu inní nýjir tollasamningar sem gerðu samningsferlið erfiðara en á lokametrunum var samingstíminn lengdur. Ekki er þó búið að samþykkja þá á Alþingi og hafa ýmsir hagsmunaaðilar beinlínis beint því til þingmanna að fella samninginn, þetta eru aðilar eins og Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið. Hefðum við frekar óskað eftir meiri stuðning frá þessum stóru hagsmunaaðilum. Þar sem ekki er búið að samþykkja samningana þá eru ýmsum spurningum ósvarað og mikið verk óunnið.
Félagskerfið mun eiga í miklum breytingum á komandi árum þegar búnaðargjaldið leggst af og tekjustofnar BÍ og aðildarfélaga hverfa. Greiðslur í B-deild Bjargráðasjóðs munu líka leggjast af, en sumir bændur líta á þetta sem einskonar tryggingavernd sem hún er ekki. Því þegar greiðslur úr sjóðnum fyrir ákveðna deild eru uppurnar þá er ekki greitt úr sjóðnum óháð því hversu mikið einstaka bændur hafa greitt. Sumar búgreinar eins og loðdýrarrækt og garðyrkja (að undanskildum ræktun á kartöflum og gulrófum) hafa ekkert greitt í sjóðinn á meðan aðrar eins og alifuglar greiða allt sitt í sjóðinn. BÍ er í viðræðum við tryggingafélögin um næstu skref og hugmyndir að framtíðarlausn. Fyrir liggur að gera A-deildina að einskonar hamfarasjóð, sem á að bæta tjón af völdum eldgosa, jarðskjálfta ofl bæði í landbúnaði og annarsstaðar.
Framtíðin mun verða óljós, ef félagatal BÍ er skoðað þá eru flestir skráðir í fleiri en 1 félag. Starfsemi hagsmunagæslu bænda verður eins öflug og bændur vilja hafa hana. Miklir umbótatímar og mörg tækifæri í framtíðinni. Spurningin verður þó alltaf þessi hvað fæ ég fyrir að vera í félagi, afslátt á móti vöru eða þjónustu, tengslamyndun í bændastéttinni. Það verður erfitt fyrir bændur að meta í sínum rekstri kostnað við t.d. samningaviðræður í búvörusamningum og fleiri samninga, hvernig metur þú tengslamyndun og vinnuspjall.
Við göngum til þessara verka eins og við göngum að öllum verkum í sveitinni af fullum dugnaði.

Umræður:
Erlendur Ingvarsson, Skarði. Þakkaði erindin og vildi hvetja bændur til að ganga í félag landeigenda, sem eru í mikilli sókn og eru samtök sem bændur þurfa að passa upp á. Sigurður nú er ný staða sem lýtur að félagskerfi bænda, Erlendur telur að BÍ eigi að rukka heildarpakkann og deila til aðildarfélaga, af hverju getur BÍ ekki séð um það? Það þarf kannski að fækka félögum, hvernig förum við að því? Búnaðarsambandsleiðin eða búgreinaleiðin hvor er betri? Við erum enn með öflugt búnaðarsamband. Hagkvæmarar að vera í BSSL en búgreinafélögum. Hvað verður ef það verður hrun í búgreinafélögum hvað verður þá, við vorum að gera hlutina of flókna.
Sveinn Sigurmundsson, þakkaði erindin og spyr Sigurð hvernig BÍ ætli að standa að innheimtu búnaðargjalds? Hvað með úttekt á landgreiðslur og jöfnuð sæðingagjalda í nýjum búnaðarsamningi. Skýrsla um ágang álfta og gæsa, hver eru næstu skref, munu bændur fá leyfi til að verja akra sína?
Jökull Helgason, Ósabakka, Sigurður hvað varð um úttektina sem Strandamenn og Húnvetningar fengu RML til að gera, í kjölfar vinnu við búvörusamninga? Kvótakaup hvaðan koma peningarnir?
Páll Sigurjónsson, Galtalæk þakkaði Erni fyrir kynningu á Landeigendafélaginu. Ræddi breytingar á félagskerfinu, aðskilja hagsmunabaráttu og félagskerfi
Sigurður Eyþórsson, svaraði Erlendi. Það var ekki vilji allra aðildarfélaganna til að hafa þessi gjöld á einni hendi, vilji var hjá BÍ að hafa þetta svona og það hefði verið einfaldara. Næstu skref eru ákvarðanir um hvernig á að framkvæma innheimtu félagsgjalda. Sveinn, varðandi félagsskrá þá munum við spyrja bændur hvort þeir vilji vera aðilar að sambandinu í nýju kerfi. Vinna við þetta hefst í haust. Bændur þurfa að ákveða hvort þeir ætli að vera í BÍ, þeir geta verið í aðildarfélagi en ekki BÍ. Vinnan við búvörusamningana er bara rétt að hefjast. Stuðningur við sæðingarkostnað var í mjólkusamningi en var fluttur yfir í nautgripasamning. Þeir aðilar sem ætla að fá styrk út á jarðrækt þurfa að vera með spildurnar inní jörð.is, það á eftir að setja nýjar reglur inn í sambandi við jarðrækt og landgræðslu. Er á leið á fund um ágang álfta og gæsa og þá vonandi fara málin að skýrast. Í nýjum samningi eiga menn að geta fengið bætt að hluta það tjón sem menn verða fyrir af völdum álfta og gæsa. Jökull varðandi skýrslu sem RML gerði á áhrif sauðfjársamnings í Strandasýslu og Vestfjörðum, þá er ekkert hægt að upplýsa um innihald hennar þar sem hún er eign þessara aðila og hefur ekki verið birt opinberlega. Innlausn mjólkurkvóta, þeir sem vilja geta innleyst kvótann á næsta ári verður verðið 140 kr. ákveðnir aðilar fá forgang, nýliðar og þeir sem framleiddu mikið af umframmjólk. Erfitt að dæma um það hvort einhver vill kaupa eða ekki.
Örn Bergsson, kvaddi fundarmenn og þakkaði fyrir að fá að koma. Ítrekaði að samstaða þarf að vera hjá bændum og samvinna við regnhlífasamtökin BÍ.

10. Tillögur lagðar fram og kynntar.
Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ, vill leggja fram breytingatillögu við tillögu Búnaðarfélags Hraungerðishrepps sem barst fyrir fundinn. Tillagan er mjög bagaleg fyrir framleiðendur nautakjöts ef hún dregst lengur en þörf er. Þessi mál eru loksins komni á rekspöl með stuðningi stjórnvalda. Í dag er verið að flytja inn nautakjöt fyrir 1. milljarð á ári. Þarna eru sóknarfæri og íslenskir nautakjötsframleiðendur þurfa að fá nýtt erfðaefni inn í stofninn.
Tillaga frá Búnaðarfélagi Hraungerðishrepps til aðalfundar Búnaðarsambands Suðurlands 14. apríl 2016. Aðalfundur Búnaðarfélags Hraungerðishrepps haldinn að Stóra-Ármóti 11. apríl 2016 beinir því til stjórnar Búnaðarsambands Suðurlands og Nautgriparæktarfélags Íslands að innflutningur á erfðaefni úr holdanautakyni fari ekki af stað fyrr en búið er að byggja og gera lokaúttekt á þeirri einangrunarstöð sem fyrirhugað er að reisa á Stóra-Ármóti. Tillagan samþykkt samhljóða.
Gísli Hauksson, Stóru Reykjum, vildi skýra út hvað fram fór hjá fundarmönnum hjá Búnaðarfélgai Hraungerðishrepps. Það væri tryggt að gripir færu beint í nýja aðstöðu, og hvað verður þá um kálfana, ef ný aðstaða er ekki tilbúin. Ef eitthvað kemur uppá þá munu bændur í 3 km radíus þurfa að slátra gripum, svolítið óljóst hjá MAST hvað gerist.
Sveinn Sigurmundsson, það eru tafir nú þegar í þessu máli og við eigum ekki að taka fósturvísa fyrr en byggingin er komin af stað. Gunnar Þorkelsson héraðsdýralæknir hjá MAST sagði á fundi á dögunum að ef eitthvað kæmi uppá þá yrði það metið eftir umfangi og hættu. Förum varlega en ef við tökum þá ákvörðun að bíða þangað til allt er tilbúið þá mun málið tefjast til muna.
Valdimar tók undir þau sjónarmið að við sjáum öll leyfi fyrir væntanlegri byggingu og framvindu mála.

11. Nefndir hefja störf.
Sveinn Sigurmundsson lagði til að nefndirnar yrðu 3 sem hér segir; Allsherjarnefnd formaður Gunnar Kristinn Eiríksson, fjárhagsnefnd formaður Páll Eggertsson, Arngeirsstöðum, fagmálanefnd formaður Samúel Unnsteinn Eyjólfsson, Bryðjuholti.

12. Kosningar.
Kosið um 1 stjórnarmenn og 1 í varastjórn úr Vestur-Skaftafellssýslu.
Niðurstöður kosninga – Sigurjón Eyjólfsson, Pétursey fékk 36 atkvæði. Björn Helgi Snorrason, Kálfafelli er varamaður í stjórn, var kosin með lófaklappi.

Tillaga nr. 1 frá allsherjarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Höfðabrekku, 14. apríl 2016 beinir því til stjórnar Búnaðarsambands Suðurlands og Nautgriparæktarmiðstöðvar Íslands að innflutningur á erfðaefni úr holdanautakyni fari fram með ítrustu aðgát gagnvart smithættu. Ítrekað er að fyrirhugaðar framkvæmdir á Stóra-Ármóti vegna verkefnisins séu áfram unnar í nánu samstarfi við MAST á öllum stigum.
Einnig að fósturvísar verði ekki settir upp fyrr en tryggt er að öll leyfi og áætlanir liggi fyrir og að nýfæddir gripir geti farið beint í væntanlega einangrunarstöð.
Orðið gefið laust um tillöguna. Enginn tók til máls. Tillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 2 frá allsherjarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Höfðabrekku, 14. apríl 2016 beinir því til stjórnar Búnaðarsambands Suðurlands að vinna að framtíðarstefnumótun í tilraunastarfi í nautgriparækt á Stóra-Ármóti í samvinnu við LbhÍ, LK, FKS og BÍ.
Orðið gefið laust um tillöguna. Enginn tók til máls. Tillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 3 frá fjárhagsnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Höfðabrekku, 14. apríl 2016, samþykkir að árgjald til Búnaðarsambands Suðurlands fyrir árið 2016 verði alls kr. 3.000,- á félagsmann.
Orðið gefið laust um tillöguna. Enginn tók til máls. Tillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 4 frá fjárhagsnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Höfðabrekku, 14. apríl 2016, samþykkir að þóknun aðalfundarfulltrúa miðist við sem svarar einföldum dagpeningum ríkisstarfsmanna. Það er kr. 11.200,-
Orðið gefið laust um tillöguna. Enginn tók til máls. Tillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 5 frá fjárhagsnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Höfðabrekku, 14. apríl 2016, samþykkir að laun stjórnarmanna verði kr. 10.000 fyrir hvern stjórnarfund auk dagpeninga samkvæmt ríkistaxta og aksturs kr. 80 pr.km. Formaður fái tvöföld laun og dagpeninga á við aðra stjórnarmenn auk aksturs kr. 80 pr.km. Formaður fái að auki eingreiðslu sem nemur kr. 300.000,-
Orðið gefið laust um tillöguna. Enginn tók til máls. Tillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 6 frá fjárhagsnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Höfðabrekku, 14. apríl 2016, samþykkir fyrirliggjandi fjárhagsáætlun Búnaðarsambands Suðurlands fyrir árið 2016.
Orðið gefið laust um tillöguna. Enginn tók til máls. Tillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 7 frá fagmálanefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Höfðabrekku, 14. apríl 2016, hvetur bændur til að senda bókhaldsgögn í sameiginlegan gagnagrunn BÍ .
Greinargerð:
Til að styrkja forsendur ráðgjafar og hagsmunagæslu bænda er mikilvægt að þar til bærir aðilar hafi marktækan gagnagrunn til að vinna úr.
Orðið gefið laust um tillöguna. Enginn tók til máls. Tillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

15. Reikningar bornir undir atkvæði.
Reikningur BSSL fyrir 2015 samþykktir samhljóða með handauppréttingu.

16. Önnur mál.
Trausti Hjálmarsson, Austurhlíð vildi fá að leyfa BSSL að bjóða upp á ráðunautaþjónustu. Vildi líka vita um ávöxtun á fé BSSL.
Samúel Eyjólfsson, Bryðjuholti vakti athygli fundarins á að margir neyta afurða okkar og vill hvetja bændur til að bæta sína ásýnd. Þegar við keyrum um sveitir landsins að við getum horft upp að hverjum bæ og sagt þarna er matvælaframleiðsla og þaðan vil ég kaupa mat. Verðum að skoða vel þessi mál og vinna heimavinnuna okkar. Þarf oft svo lítið til að bæta ásýnd. Oft er það hugarfarsbreyting sem þarf. Hvað er á matseðli veitingahúsa? Við bændur erum bestu sölumennirnir.

17. Fundarslit, Ragnar Lárusson.
Ragnar Lárusson, þakkaði Sveini Sigurmundssyni fyrir vel unnin störf og setu á 30 aðalfundum og færði honum smá þakklætisvott frá stjórn og starfsfólki.
Fundarstjóri, dró saman helstu atriði fundarins, þakkaði góðan fund og gaf Ragnari Lárussyni formanni orðið. Ragnar þakkaði fundargestum fyrir fundarsetuna, starfsmönnum fyrir vel unnin störf. Þá óskaði hann fólki góðrar heimferðar og sleit fundi.
Fundið slitið kl: 16:59
Helga Sigurðardóttir

back to top