Saga og staða

Árið 1979 gáfu systkinin Ingileif, Jón og Sigríður Árnabörn Búnaðarsambandi Suðurlands jörðina Stóra Ármót í Hraungerðishreppi til tilraunastarfsemi. Frá árinu 1952 hafði Búnaðarsambandið þá leigt Laugardæli í sömu sveit og rekið þar tilraunabú. Búnaðarsambandið tók strax við fjárstofninum sem var á Stóra Ármóti 1979 en það var ekki fyrr en 8 árum síðar sem starfsemin tengd nautgripunum fluttist að staðnum. Á þeim árum og fram til þessa hefur uppbygging verið umfangsmikil á Stóra Ármóti. Nýtt land hefur verið brotið, lagfæring eldri mannvirkja og nýbyggingar hafa litið dagsins ljós. Með flutningi nautgripa og tilraunastarfsemi tengdri þeim frá Laugardælum á árinu 1987 lauk 35 ára tilraunasögu Búnaðarsambandsins þar.

Árið 1981 voru samþykkt lög um tilraunastöð Búnaðarsambands Suðurlands og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, nú Landbúnaðarháskóla Íslands, á Stóra Ármóti. Samkvæmt þeim er landbúnaðarráðherra heimilt að semja við stjórn Búnaðarsambandsins um sameiginlegan rekstur tilraunastöðvar að Stóra Ármóti. Þar kemur einnig fram að við tilraunastöðina skuli starfa sérfræðingur í fóðurfræði og rannsóknamaður, ráðnir af Landbúnaðarháskóla Íslands, en launaðir af ríkissjóði.

Samkvæmt fyrr nefndum samningi ber Búnaðarsamband Suðurlands sem á jörðina fjárhagslega ábyrgð á búinu. Það ræður verktaka (bústjóra) til að inna af hendi þau störf sem snúa að daglega búrekstrinum. Um áramótin 1999/2000 var stofnað einkahlutfélagið Stóra-Ármót ehf. sem sér um rekstrur búsins frá sama tíma. Tilraunastjóri er ráðinn af Landbúnaðarháskóla Íslands til að hafa umsjón með tilraunastarfseminni sem fram fer.

Stóra Ármót er um 650 ha að stærð. Jörðin liggur að ármótum þar sem Sogið og Hvítá renna saman í Ölfusá. Jarðvegurinn er að stærstum hluta grunnur móajarðvegur á hrauni. Þess á milli eru grunnar mýrar og sendnir þurrlendisbakkar eru með ánni.

Allt frá því Búnaðarsamband Suðurlands tók við jörðinni hefur mikil ræktun átt sér stað og þekur ræktaða landið um 115 ha jarðarinnar. Lögð hefur verið áhersla á að sá hreinu grasfræi með samanburð á fóðurgildi mismunandi grastegunda í huga. Jafnframt er fylgst með endingu grastegundanna í sverðinum en notkun túnanna er skráð árlega.

Undanfarin ár eða frá árinu 1997 hefur nánast allt gróffóður verið hirt í rúllur.

Mjólkurkvóti búsins eru rúmir 263 þúsund lítrar og mjólkurkýrnar eru um 55. Aðeins kvígukálfar eru settir á. Kvígur í uppeldi og kálfar telja annað eins og kýrnar þannig að um 110 gripir eru í fjósinu. Um 60 vetrarfóðraðar ær eru á búinu auk hrossa starfsfólks.

back to top