Fréttir

23. júní 2020
Fréttir frá Nautís

Nú fæðast kálfar undan Emil av Lillebakken sem er eitt af bestu Angus nautunum sem eru í boði í Noregi. Þegar hafa fæðst  3 kvígur og eitt naut.  Kálfarnir frá því í fyrra eru að verða ársgamlir og hafa þrifist vel.  Meðalþungi frá fæðingu 1362 gr. Nautin þyngjast eðlilega meira og Haukur 0013 með 1835 gr frá fæðingu.  Hann var 684 kg þegar hann var 346 daga gamall sem gæti þýtt a.m.k 350 kg fall. Kálfarnir undan Hovin Hauk sýna áberandi mikinn vaxtarhraða en kálfarnir undan Horgen Erie eru með mikla vöðvafyllingu.

Kvígurnar sem fæddar eru 2018 hafa verið sæddar með Jens av Grani og svo virðist sem 6 kvígur af 7 hafi haldið við fyrstu sæðingu og munu þær bera um miðjan febrúar.

Sæðistaka úr nautunum 4 hefst á morgun en útboð á þeim verður fljótlega.

Myndin er af Hauki 0013 en þarna er hann 200 daga gamall og vóg 427 kg.

19. júní 2020
Staðfesting á gjaldskrá

 

Þann 5. júní sl. staðfesti ANR gjaldskrá um eftirlit búnaðarsambanda með haustskýrsluskilum og úttektir á fjárfestingarstuðningi í landbúnaði:  Gjaldinu er ætlað að standa undir raunkostnaði búnaðarsambanda við eftirliti í samræmi við samning við ráðuneytið. Ráðuneytið ákveður umfang eftirlitsins sem byggir á lista yfir bú sem ekki hafa skilað inn fullnægjandi haustskýrslum og lista yfir þær framkvæmdir sem þarfnast úttektar vegna fjárfestingarstuðnings í landbúnaði:

  1. Skoðun framkvæmd með heimsókn og haustskýrsla skráð í Bústofn: kr. 12.000 án vsk.  Innifalið er akstur á viðkomandi heimsóknar stað, símtal fyrir heimsókn til að tryggja að aðili sé viðstaddur heimsókn, teknar niður upplýsingar sem eru samkvæmt samningi og síðan skráning niðurstöðu í gagnagrunn. Tímagjald 9.000 kr. Áætlaður heildartími á skýrslu 1 klst. auk aksturs. Tímataxti byggir á dagvinnutaxta ráðunauta að grunni til, með álagi vegna launatengdra gjalda, fastakostnaðar vegna aðstöðu og tækjabúnaðar.
  2. Skoðun framkvæmd án heimsóknar (fjareftirlit): kr. 3.500 án vsk. Samskipti svo sem símtal, tölvupóstur eða önnur tölvusamskipti með fjarvinnslubúnaði. Eftirlitsaðili skoðar forða, ef um það er að ræða, búfjárfjölda og skráir haustskýrslu í Bústofn. Kostnaður felst í vinnu við undirbúning, samanburð á gögnum, samskipti við umráðamann og skráningu haustskýrslu með athugasemd ásamt föstum skrifstofukostnaði. Til grundvallar er tímagjald 9.000 kr. án vsk. og fastur kostnaður skrifstofukostnaður (símakostnaður, tölvubúnaður o.fl.). Meðaltalsraunkostnaður 4.000 kr. fyrir hverja skoðun og skráningu á haustskýrslu.
  3. Skoðun framkvæmd með heimsókn í hesthúsahverfi: kr. 3.500 án vsk. Kostnaður felst í vinnu við undirbúning, akstri í hestahúsahverfi, vinnu á staðnum og skráningu á haustskýrslu í Bústofni og skráningu/leiðréttingum í WF, upprunaættbók íslenska hestsins.Tímagjald til grundvallar er 9.000 kr. án vsk. og akstur á staðinn. Lægra gjald en í 1. lið byggist á að fjöldi haustskýrsla sem má afgreiða á hverjum stað, aðeins er um fá hross að ræða fyrir hvern umráðamanna, og akstur umtalsvert minni.
  4. Vinna  og heimsóknir vegna úttektar fjárfestingarstyrkja: kr 7.000,- á tímann og kr 80 á km þegar um vinnu og heimsóknir vegna úttektar  fjárfestingastyrkja er að ræða. Tímagjald er haft í lágmarki og einnig akstur sem verður endurskoðað þegar reynsla er komin á verkið. Tímataxti byggir á dagvinnutaxta ráðunauta að grunni til, með álagi vegna launatengdra gjalda, fastakostnaðar vegna aðstöðu og tækjabúnaðar.
15. júní 2020
YFIRLÝSING VEGNA UMMÆLA LANDGRÆÐSLUSTJÓRA

Á stjórnarfundi Búnaðarsambands Suðurlands þann 11. júní sl. var til umræðu ummæli landgræðslustjóra um að banna ætti lausagöngu búfjár. Stjórnin tekur undir svohljóðandi yfirlýsingu Bændasamtaka Íslands og landssamtaka sauðfjárbænda.

„Landssamtök sauðfjárbænda og Bændasamtök Íslands harma þessi ummæli enda eru þau til þess fallin að mynda gjá milli bænda og Landgræðslunnar. Samstarf Landgræðslunnar og bænda byggir á gömlum merg og hefur eflst mjög á undanförnum áratugum. Unnið er sameiginlega að mörgum góðum verkefnum eins og verkefninu Bændur græða landið, verkefnum innan Landbótasjóðs og Grólind átaksverkefni um kortlagningu gróðurauðlindarinnar sem fjármagnað er í gegnum búvörusamninga.  Bændur leggja árlega fram gríðarmikla vinnu við landgræðsluverkefni.  Landgræðslan hefur stutt mörg þeirra með áburðarkaupum en bændur leggja fram vinnu og tækjabúnað án nokkurrar þóknunar. Ljóst er að með þessum ummælum hefur Landgræðslustjóri skaðað það gagnkvæma traust sem byggst hefur upp í samstarfinu.  Óhjákvæmilegt er annað en að fara yfir framkvæmd og fjármögnun þessara verkefna með stjórnvöldum.“

Fara í fréttalista

Viðburðir

Engir viðburðir á skrá.

Það eru 0 viðburðir skráðir. Sjá alla
back to top