Fréttir

12. nóvember 2019
Heimsókn norskra holdanautabænda

Síðustu helgina í október komu 27 norskir holdanautabændur  ásamt starfsmönnum og framkvæmdastjóra Tyr sem er félagsskapur holdanautabænda í heimsókn til Nautís til að kynna sér innflutninginn á Aberdeen Angus gripunum og heimsækja holdanautabændur.  Á fögrum haustdegi var farið með hópinn austur að Sandhóli í Meðallandi þar sem m.a er rekið holdanautabú. Þá var á bakaleiðinni komið við á Þorvaldseyri og Nýjabæ. Þeir holdanautabændur sem hafa lagt til erfðaefnið sem flutt hefur verið inn voru flestir með í för og afar áhugasamir um framvindu verkefnisins. Við fengum ábendingu um nýtt úrvalsnaut til að nota við innflutning á næsta erfðaefni. Nautið heitir Jens av Grani undan áströlsku nauti sem er óskylt öðrum  Angus nautum í Noregi og auk þess glæsilega kynbótaeinkunn eða 119.

11. nóvember 2019
Haustfundir BSSL í sauðfjárrækt

Búnaðarsamband Suðurlands í samstarfi við RML, Sláturfélag Suðurlands, Fóðurblönduna og Jötunn vélar, heldur sína árlegu hrútafundir eða haustfundi í sauðfjárrækt á næstunni.  Þá verður Hrútaskráin 2019 komin í hús, þar sem ráðunautar RML lýsa kostum hrútanna. Fundirnir verða eins og undanfarin ár fjórir og mun Sláturfélag Suðurlands bjóða upp á kaffiveitingar og verðlaun veitt fyrir bestu lambhrútana, gefin af Fóðurblöndunni og verðlaun fyrir bestu Blup hrútana gefa Jötunn vélar.

Fundirnir verða haldnir sem hér segir:

Miðvikudagur 20. nóvember Hótel Smáratún, Fljótshlíð kl. 13:30
Miðvikudagur 20. nóvember Þingborg í Flóahrepp  kl. 20.00
Fimmtudagur 21 .nóvember í Ferðaþjónustan Smyrlabjörgum kl. 13:30
Fimmtudagur 21. nóvember í Icelandair Hótel Klaustur, Kirkjubæjarklaustri kl. 20:00

Lesa meira

6. nóvember 2019
Sauðfjársæðinganámskeið Stóra-Ármóti

Endurmenntun LbhÍ heldur sauðfjársæðinganámskeið á Stóra-Ármóti föstudaginn 29. nóvember kl. 13.00-18.00, kennari á námskeiðinu er Þorsteinn Ólafsson.  Námskeiðið er fyrir alla sauðfjárbændur og þá sem hafa áhuga á að starfa eða starfa nú þegar við sauðfjársæðingar.
Fjallað er örstutt um sögu sauðfjársæðinga. Æxlunarfærum sauðkinda er lýst og greint er frá helstu atriðum varðandi æxlunarlíffræði þeirra. Fjallað er um sæðingar, hvernig best er að standa að þeim, hvenær rétti sæðingatíminn er og í hverju samstilling gangmála er fólgin. Kennd er meðferð sæðis og verklag við sæðingar er kennt í fjárhúsi. Einnig er rætt um smitvarnir. Ætlast er til þess að nemendur geti sætt ær og sagt til um það hvernig bestum árangri verður náð.

Fara í fréttalista

Viðburðir

Engir viðburðir á skrá.

Það eru 0 viðburðir skráðir. Sjá alla
back to top