Fréttir
Styrkir vegna sauðfjársæðinga – hvati til notkunar á verndandi hrútum

Ákveðið hefur verið að greiða styrki til bænda sem nota hrúta með verndandi og/eða mögulega verndandi arfgerðir. Styrkirnir eru hugsaðir til að hvetja til notkunar á hrútum með þessar arfgerðir og þar með hvetja til innleiðingar á verndandi arfgerðum m.t.t. riðumótstöðu. Matvælaráðuneytið leggur fram fjármagn og mun ráðuneytið einnig sjá um að greiða út styrkina í gegnum Afurð.
Fyrirkomulag:
- Innheimt verður fyrir notkun á sæði með hefðbundnum hætti og samkvæmt því sem búnaðarsamböndin hafa þegar auglýst.
- Styrkir verða síðan greiddir til bænda eftir áramót og miðast styrkgreiðslur við skráðar sæðingar í Fjárívs.
- Bændur þurfa því að skrá sæðingarnar inn í Fjárvís.is (undir „skrá sæðingar“, ekki er nóg að skrá sæðinguna eingöngu í fangskráningu) og þarf skráningum að vera lokið eigi síðar en mánudaginn 8. janúar til þess að styrkur fáist.
- Styrkur á sædda á með hrút sem ber verndandi arfgerð (ARR/x) verður 1.030 kr.
Styrkur á sædda á með hrút sem ber mögulega verndandi arfgerð verður 515 kr. (Hrútar sem teljast með mögulega verndandi arfgerð eru merktir í hrútaskrá með ljósgrænu flaggi en þeir bera breytileikana T137, C151 eða H154 (AHQ)).
Á myndinni má sjá Móða frá Þernunesi sem er gráhöttóttur leistóttur með stjörnu og lauf og ber verndandi arfgerðina ARR
Hæst stiguðu lambhrútarnir á Suðurlandi

Á meðfylgjandi töflu er yfirlit yfir efstu lambhrútana á Suðurlandi í lambhrútaskoðun hjá RML. En efsti hrúturinn yfir svæðið er frá Hannesi Þór Ottesen Dísarstöðum. Hann er undan Fróða 18-880 og hlaut í heildareinkunn 91,5 stig. Á myndinni má sjá eigendur 5 efstu lambhrútana í Árnessýslu
Djúpfrysting á hrútasæði

Djúpfrysting á hrútasæði hófst um miðjan nóvember og að 6 sæðistökudögum liðnum höfðu náðst nærri 1900 skammtar. Sæðisgæði voru mikil og sæðið þoldi frystingu mun betur en fyrri ár. Ástæður eru m.a. nýr blöndunarvökvi sem er að reynast vel. Lambhrútarnir sem eru 17 að tölu reyndust allir góðir í sæðistöku en svo á eftir að koma í ljós hvernig þeir standa sig í sæðistökuvertíðinni þegar að það fer að reyna á þá.
Á myndinni má sjá Gullmolasoninn Birkiland 23-927 frá Austurhlíð Hér er svo skrá yfir frosið sæði frá því í haust Birgðir frosið 2023