Fréttir

21. desember 2020
Sæðistökuvertíð lokið

Í dag 21. desember lauk 53 sæðistökuvertíðinni hjá Sauðfjársæðingastöð/Kynbótastöð ehf. Þátttaka er meiri en í fyrra og veðurfar hefur verið hagstætt fyrir utan hvassviðri við suðurströndina  fyrstu dagana. Ekki er vitað til að sending hafi misfarist vegna veðurs.   Heildarútsending var 18200 skammtar af hrútasæði og miðað við nýtingu síðustu ára gætu verið að 12.000 til 12.500 ær hafi verið sæddar með sæði frá stöðinni þetta haustið . Sæðistakan gekk nokkuð vel en sæðisgæði eru misjöfn og óvenju margir hrútar tæpir í þeim. Ásókn í hrútana var óvenju jöfn. Mest af sæði var sent úr Blossa 16-837 frá Teigi í 1695 ær, Amori 17-831 frá Snartarstöðum í 1395 ær, Berki 17-842 frá Kjalvarastöðum í 1245 ær og Heimakletti 16-826 frá Hriflu í  1235 ær.  Af kollóttum hrútum var mest sent úr Fálka 17-825 frá Bassastöðum í 1075 ær og svo Þristi 18-856 frá Stað í Steingrímsfirði í 900 ær. Að lokum þakkar starfsfólk Sauðfjársæðingastöðvar fjárbændum um allt land ánægjulegt samstarf. Myndin er af Blossa frá Teigi.

10. desember 2020
Af sauðfjársæðingum

Í dag 10. desember var sent sæði í 2070 ær frá Sauðfjársæðingastöðinni og er það mesta útsending á einum degi í mörg ár. Einn hrútur hefur verið felldur en það er Mínus frá Mýrum 2 í Hrútafirði sem var úr hnjálið á afturfæti.  Ónothæft sæði var úr Muninn frá Yzta Hvammi í Aðaldal þangað til í gær og er hann vonandi með úr þessu. Þátttaka hefur verið jöfn og drjúg flesta dagana og er orðin mun meiri en á sama tíma og í fyrra en þá setti óveður og ótíð verulegt strik í reikninginn. Ásókn í hrútana er óvenju jöfn sem er gleðilegt en í hyrndu hrútunum er mest sótt í Blossa frá Teigi í Fljótshlíð en hann gefur frjósamar og mjólkurlagnar ær. Af kollum er mest sótt í Fálka frá Bassastöðum í Steingrímsfirði en hans sterkustu einkenni eru afbragðs lærahold.

Myndin er af Blossa frá Teigi

26. nóvember 2020
Hrútaskráin komin til dreifingar

Lokið var við að prenta hrútaskránna fyrir 2020-2021 í gær og er hún því komin í hús hér hjá Búnaðarsambandinu að Austurvegi 1 Selfossi. Einnig verður hægt að nálgast hana í þeim sveitaverslunum og þjónustustöðum sem gefa leyfi fyrir því að hún liggi frammi. Frjótæknarnir verða með hana í bílunum amk fyrst um sinn og svo munu þau Fanney Ólöf Klaustri og Pétur Halldórsson Hvolsvelli hafa hana hjá sér

Fara í fréttalista

Viðburðir

Engir viðburðir á skrá.

Það eru 0 viðburðir skráðir. Sjá alla
back to top