Meðhöndlun sæðis

Ferskt sæði
Ferskt sæði skal flytja og geyma við 5 °C. Forðast skal allar hitasveiflur en þær geta drepið sæðisfrumurnar. Hiti undir frostmarki drepur sæðisfrumurnar!
Ferskt sæði skal helst nota innan við 12 tímum eftir sæðistöku en þó getur sæði sem geymt er við réttar aðstæður lifað í rúman sólarhring. Eftir því sem sæðið verður eldra minnka þó gæði þess.

 

Fryst sæði
Sæðiskúturinn inniheldur fljótandi köfnunarefni (-196 °C) sem endist í 5-7 vikur án þess að bætt sé á hann. Ef allt köfnunarefnið gufar upp eyðileggst sæðið. Það er mikilvægt að fylgjast með því að nóg köfnunarefni sé á kútnum. Það má gera með því að stinga hreinum járntein ofan í kútinn og hafa hann þar í eina mínútu. Hrímið á teininum sýnir hversu mikið köfnunarefni er í kútnum. Ekki mega vera minna en 5 cm af köfnunarefni í kútnum.
Þegar sæðisstrá er tekið úr kútnum er mikilvægt að lyfta ekki hylkinu með stráunum upp úr kútnum heldur taka eitt strá úr hylkinu með þar til gerðri töng með hylkið ofan í hálsi kútsins. Hylkinu má ekki halda upp úr köfnunarefninu í meira en 5-10 sek. í einu. Þurfi meiri tíma til að finna viðkomandi strá látið hylkið þá aftur niður í um eina mínútu.

back to top