BSSL til fróðleiks

Búnaðarsamband Suðurlands er samband búnaðar og búgreinafélaga, og var stofnað 6. júlí árið 1908 af búnaðarfélögum á Suðurlandi. Félagssvæði þess nær yfir Árnes-, Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslur. Starfssvæðið nær yfir áður nefndar þrjár sýslur auk A-Skaftafellssýslu.

Fyrst um sinn var starfsemin aðallega í formi námskeiða um breytta og bætta búskaparhætti, einkum í plægingum.

Fyrsti formaður Búnaðarsambandsins var Sigurður Guðmundsson frá Selalæk eða frá 1908 til 1910. Ágúst Helgason frá Birtingaholti frá 1910 til 1916 en þá tók Guðmundur Þorbjarnarson frá Stóra Hofi við til 1949. Dagur Brynjólfsson frá Gaulverjabæ var formaður frá 1949 til 1959. Páll Diðriksson frá Búrfelli var formaður frá 1959 til 1969 en þá tók Stefán Jasonarson frá Vorsabæ við til 1987. Ágúst Sigurðsson Birtingaholti er formaður til 1993 en þá var kjörinn Bergur Pálsson frá Hólmahjáleigu sem gegndi formennsku til ársins 2000. Þorfinnur Þórarinsson á Spóastöðum tók við formennsku af Bergi og gengdi henni til ársins 2008. Frá 2008 til 2014 var Guðbjörg Jónsdóttir bóndi á Læk formaður og var það í fyrsta sinn í sögunni sem kona varð formaður.  Ragnar M. Lárusson, Stóra-Dal tók við formennsku af Guðbjörgu er núverandi formaður er Gunnar Kr Eiríksson Túnsbergi

Starfsmenn Búnaðarsambandsins sáu um að mæla jarðabætur ásamt margháttuðum leiðbeiningastörfum. Voru þeir í hlutastörfum og gengu oft undir nafninu mælingamenn. Seinna var þeim sett erindisbréf og voru nefndir trúnaðarmenn. Fyrsti héraðsráðunauturinn var ráðinn 1932 og var það Guðjón A. Sigurðsson síðar Gufudal. Búnaðarsambandið tók Gunnarsholt á leigu 1933 og sinnti Kristján Karlsson síðar skólastjóri á Hólum bústjórn og ráðunautsstörfum til 1935. Árið 1946 dregur til tíðinda en þá hóf Búnaðarsambandið leiðbeiningar með skipulögðum hætti í búfjárrækt og Hjalti Gestsson frá Hæli sem numið hafði búfjárrækt við Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn kom til starfa í hálft starf. Starfsmönnum fjölgaði fljótt og 1953 var þriðja ráðunautnum bætt við.

Árið 1954 opnaði sambandið skrifstofu að Reynivöllum 5 Selfossi. Af verkefnum þeirra tíma stóðu búnaðarnámskeiðin sem haldin voru að Stóru Sandvík og landbúnaðarsýningin 1958 upp úr. Rekstur tilraunabús hófst í Laugardælum 1952 og árið 1958 var Kynbótastöðin í Þorleifskoti stofnuð. Flutt var í rúmbetri skrifstofu að Reynivöllum 10 árið 1963. Sauðfjársæðingastöð Suðurlands hóf starfsemi sína 1968. Búnaðarsambandið stóð fyrir landbúnaðarsýningu á Selfossi 1978 sem í alla staði tókst frábærlega. Árið 1979 gáfu systkinin á Stóra Ármóti þau Jón, Sigríður og Ingileif Búnaðarsambandinu jörðina. Fljótlega var tekin ákvörðun um að flytja tilraunastarfsemina frá Laugardælum þangað. Árið 1987 er svo allri starfsemi hætt í Laugardælum og flutt að Stóra Ármóti.

Verkefni bættust á búnaðarsamböndin t.d. framleiðslustjórnun, bændabókhald og skattframtöl, aukin verkefni í forðagæslu og stóraukin verkefni í hrossarækt. Húsnæðið að Reynivöllum 10 reyndist alltof lítið og var þá ráðist í að kaupa skrifstofuhúsnæði að Austurvegi 1. Árið 2002 var nafni þess breytt í Búnaðarmiðstöðin en þar fá inni fyrir starfsemi sína auk Búnaðarsambandsins; Veiðimálastofnun, Suðurlandsskógar o.fl.

Þegar best lét var Búnaðarsambandið með um 10 stöðugildi ráðunauta. Flestir höfðu aðsetur á Selfossi en 3-4 voru staðsettir á Hvolsvelli, Kirkjubæjarklaustri og Höfn. Búnaðarsambandið á og rekur tilraunabúið á Stóra Ármóti en Landbúnaðarháskóli Íslands sér um tilraunaþáttinn. Auk þess rekur Búnaðarsambandið Bændabókhald BSSL,  Kynbótastöð Suðurlands sem sér um kúasæðingar frá Ölfusi austur á Hornafjörð og Sauðfjársæðingastöð Suðurlands sem sér bændum fyrir fersku og frosnu hrútasæði.  Heildarfjöldi starfsmanna allra fyrirtækjanna er milli 20 og 30.

Búnaðarsambandið hefur frá stofnun starfað í þágu sunnlenskra bænda og unnið að því að efla framfarir í landbúnaði og auka hagsæld þeirra sem landbúnað stunda. Búnaðarsambandið vinnur í samvinnu við Bændasamtök Íslands við að framfylgja gildandi lögum er varða landbúnað hverju sinni. Búnaðarsambandið hefur leitast við að veita faglega ráðgjöf í flestu því er lýtur að landbúnaði og sér einnig um bændabókhald og skattframtöl fyrir bændur.

Búnaðarsambandið vinnur að faglegum og félagslegum málum bænda, sinnir opinberri stjórnsýslu auk þess að reka sín fyrirtæki.

Miðstöð Búnaðarsambands Suðurlands er að Austurvegi 1 á Selfossi og nefnist Búnaðarmiðstöðin. Einnig eru starfandi einstaklingar út um héraðið sem veita bókhaldsþjónustu fyrir bændur á vegum Búnaðarsambandsins. Ýmsir aðilar, m.a. Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Suðurlandsskógar, Veiðimálastofnun-Suðurlandsdeild, leigja aðstöðu fyrir starfsemi sína í Búnaðarmiðstöðinni.

Um áramótin 2012-2013 breyttist starfsemi Búnaðarsambandsins þannig að allur hluti ráðgjafarstarfsins fór yfir í nýtt fyrirtæki Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins.  Við þá breytingu fækkaði starfsmönnum töluvert og breytingar urðu á starfseminni sem ekki eru að fullu mótaðar.

back to top