Aðalfundur BSSL 2006

98. aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands
Haldinn í Félagsheimilinu á Flúðum, föstudaginn 21. apríl 2006

1. Fundarsetning, Þorfinnur Þórarinsson formaður
Þorfinnur setti fund og bauð fullltrúa, starfsmenn og gesti velkomna til fundar. Kynnti jafnframt tillögu að starfsmönnum fundarins; Gunnar Kr. Eiríksson, Túnsbergi sem fundarstjóra og Pétur Halldórsson og Guðlaugu B. Guðgeirsdóttur sem fundarritara. Tillagan samþykkt.

2. Skipan kjörbréfanefndar
Framkvæmdastjóri kynnti tillögu að kjörbréfanefnd; Helga Eggertsson Kjarri, Þóri Jónsson Selalæk og Sigursvein Guðjónsson Lyngum. Tillagan samþykkt.

3. Skýrsla stjórnar, Þorfinnur Þórarinsson, formaður
 Fór yfir síðastliðið starfsár og gerði grein fyrir störfum stjórnar, m.a. formannafundi sem haldinn var á Höfðabrekku í Mýrdal. Þorfinnur gerði grein fyrir samþykktum tillögum á formannafundi og hvern framgang viðkomandi tillögur fengu, þ.e. hvaða stofnun/ stjórnsýsluaðila þær voru sendar til frekari afgreiðslu.
Formaður gerði grein fyrir nýtilkomnum breytingum á sjóðagjöldum mismunandi búgreina sem að endingu felur í sér lækkun tekjustofns Bssl úr 33 milljónum í 28. Þorfinnur velti fyrir sér viðbrögðum búnaðarsambandsins við þessari tekjuþróun hvort ætti að taka upp frekari sölu þjónustu eða jafnvel að minnka þjónustu. Hugsanlegt að sambland beggja leiða verði fyrir valinu.
Formaður ræddi breytingar í fjámálaumhverfi bænda og viðsnúning í eftirspurn eftir fjármálaráðgjöf hjá Bssl í tengslum við aukna þjónustu bankanna.
Þá ræddi Þorfinnur um áherslur í leiðbeiningaþjónustunni, hvert stefnir og hvar hefur kröftunum helst verið beitt. Ræddi m.a. aukna þörf fyrir leiðbeiningar varðandi heilfóðrun mjólkurkúa, ræddi  leiðbeiningar í kornrækt og meðhöndlun korns og nýja aðila sem bjóða orðið ráðgjöf á þessu sviði við hlið hefðbundinna leiðbeiningamiðstöðva.
Formaður skýrði frá rekstri og árangri starfsins á Stóra-Ármóti á liðnum misserum, greindi m.a. frá nýjum fundarsal sem útbúinn hefur verið, veglega búinn til námskeiðahalds og funda. Skýrði frá áætlunum á Stóra-Ármóti um að hverfa frá rúlluheyskap yfir í laust hey í gryfjum og stæðum. Taldi mikla möguleika á Stóra-Ármóti.
Formaður kom inn á væntanlega nýbyggingu uppeldisstöðvar fyrir nautkálfa, sem að öllum líkindum verður reist í Borgarfirði, í grennd við Hvanneyri, ef að líkum lætur.  Þá nefndi hann hagkvæman bifreiðarekstur kynbótastöðvarinnar miðað við samanburðartölur.
Formaður ræddi tímabundna erfiðleika í bændabókhaldi Bssl þar sem verið er að þjálfa nýja starfsmenn. Greindi frá nauðsynlegum hækkunum gjaldskrár fyrir þessa þjónustu og kvað nauðsynlegt að styrkja þessa þjónustu enn  frekar.
Loks kom formaður  inn á hina nýju stöðu landbúnaðarins sem við blasir, þ.e. vöntun bæði á mjólk og kjöti og gott aðgengi að lánsfjármagni. Velti fyrir sér áhrifum þessa og líklegri þróun leiðbeiningaþjónustunnar í takt við nýja tíma. Klárlega hægt og sígandi aukning í sértækri gjaldtöku þjónustunnar. Þorfinnur taldi einsýnt að leiðbeiningastarfið yrði í framtíðinni meira rekið á landsvísu fremur en sem héraðsmiðstöðvar.
Þá sagði Þorfinnur Búnaðarsamband Suðurlands bæði fjárhagslega og faglegt sterkt – stjórnað af bændum; og það væru þeir sem ættu að stýra ferðinni.

4. Reikningar BSSL og skýrsla framkvæmdastjóra, Sveinn Sigurmundsson
Fór gróflega yfir rekstrarniðurstöður síðastliðins árs hjá BSSL og dótturfélögum. Kom m.a. inn á að lækkun er á heildarstarfsfé jafnvel þó Bs. A-Skaft. skili nú inn hluta rekstrartekna. Sveinn greindi skýrlega frá einstökum liðum. Heildargjöld um 99 milljónir, heildartekjur um 93 milljónir, án dótturfélagsins Stóra-Ármóts ehf. Tap í raun um 2,7 milljónir þegar tekið hefur verið tillit til vaxtatekna.
Sveinn gerði grein fyrir mannabreytingum hjá BSSL þar sem Unnsteinn Eggertsson og Berglind Guðgeirsdóttir láta af störfum. Minntist einnig á barnalán starfsfólks þar sem allmargir hafa verið í eða munu taka fæðingarorlof á næstu misserum.
Sveinn greindi frá því hvernig tekjustoðir BSSL skiptast í flokka og enn fremur hvernig Bssl er heimilt að beita samþykktri gjaldskrá með mismunandi afslætti við sölu á veittri leiðbeiningaþjónustu. Þar ættu þær greinar sem greiða hærri hlutfallstölu búnaðargjalds meiri afslátt á veitta þjónustu.
Sveinn greindi frá ágætri rekstrarniðurstöðu Sauðfjársæðingastöðvarinnar á árinu 2005 en hún skilað hagnaði. Sauðfjársæðingastöðin er á góðri leið að fá ESB-leyfi en mikill áhugi hefur komið fram m.a. frá Noregi og Bandaríkjunum á þjónustu stöðvarinnar. Kynbótastöðin skilað einnig hagnaði á síðastliðnu rekstrarári, tæpum 3,5 milljónum króna, sá hagnaður fyrst og fremst til kominn vegna ákvæða í nýjum mjólkursamningi (í stað auragjalds). Sveinn greindi frá tillögu sem lögð yrði fyrir fundinn um lækkun á sæðingagjöldum, framkomin vegna þeirrar reynslu sem komin er á áhrif hins nýja mjólkursamnings, kom inn á mismunandi kostnað sæðinga eftir landshlutum og héruðum á landinu.
Sveinn greindi frá rekstrarniðurstöðu búsins á Stóra-Ármóti og nýlegum og væntanlegum framkvæmdum/tilraunum. Stefnt er að gerð flatgryfju og útistæðu strax á árinu 2006.
Sveinn kom inn á neikvæða rekstrarniðurstöðu bændabókhalds Bssl sem á skýringar í ýmsum þáttum, m.a. of lágri gjaldskrá, örum mannabreytingum og tilfallandi skrá-veifum.
Sveinn greindi frá margþættu samstarfi við önnur fyrirtæki og stofnanir m.a. í starfs-mannahaldi og þjónusturekstri. Kom inn á rekstrarverkefnið Sunnu og taldi hlut Sunnlendinga í því fjármagni sem verkefninu tilheyrir, samkvæmt búnaðar-lagasamningi,  heldur rýran.
Greindi frá verkefnum komandi missera á sviði nautgripa, hrossa- og sauðfjárræktar.
Talsverðar mannabreytingar fyrirséðar einkum í sauðfjárræktinni þar sem Guðlaug Berglind Guðgeirsdóttir lætur af störfum í apríl 2006 og Fanney Ólöf Lárusdóttir mun væntanlega fara í fæðingarorlof um mitt sumar 2006.
Að endingu fór Sveinn yfir heildarreikninga Búnaðarsambandsins og greindi frá niðurstöðum einstakra eininga. Sveinn taldi eignastöðu sambandsins afar sterka en blikur á lofti varðandi harðnandi rekstrarumhverfi.
Sveinn greindi frá áhyggjum sínum af mismunandi virkni þeirra grunneininga, búnaðar- og búgreinafélaga, sem mynda grunn félags- og aðildarkerfis Búnaðarsambands Suðurlands, kallaði á umræðu um þessi mál hið fyrsta.

5. Umræður um skýrslur og reikninga.
Orðið gefið laust um skýrslu stjórnar og reikninga.
Ágúst Rúnarsson í V-Fíflholti spyr úr sæti um hlutabréf BSSL í fyrirtækinu Orf líftækni sem ekki virðast koma fram sem eignarhlutur á efnahagsyfirliti. Sveinn Sigurmundsson til svara og greinir frá tilkomu þess hlutafjár.

Sigurlaug Leifsdóttir. Ræddi þekkingarmiðlun frá eignarbúi sunnlenskra bænda, Stóra-Ármóti, hvernig þeirri þekkingarsköpun væri dreift og hverjir borguð brúsann. Sigurlaug tiltók sérstaklega þá þekkingu sem orðið hefur til í heilfóðrun. Taldi ótækt að sá aðili sem stýrði tilraunum á St-Ármóti og þar í vinnu hjá bændum gæti svo rekið leiðbeiningaþjónustu samhliða með tilheyrandi gjaldtöku. Sigurlaug kallaði á umræður um þessi mál.  Sigurlaug taldi sig hafa náð ágætum tilboðum frá Írlandi í heyefnagreiningar og beindi þeim tilmælum til Bssl að allar færar leiðir yrðu skoðaðar til að bæta greiningaþjónustu og hagkvæmni.
Beindi orðum sínum til Þorfinns og spurði hvort almenn sátt ríkti nú í stjórn varðandi staðsetningu nýrrar uppeldisstöðvar kynbótanauta í Borgarfirði? Taldi þar vanta upp á hagsmunagæslu stjórnar Bssl.
Þorfinnur svarar: Búnaðarsambandið rekur Stóra-Ármót, LBHÍ stendur straum af tilraunastarfi og stöðu Grétars H. Harðarsonar. Taldi að hugmynd Bssl væri að leiðbeina öllum viljugum bændum varðandi heilfóðrun. Sagði stjórn hafa andmælt (í smáum stíl) framkomnum hugmyndum um staðarval uppeldisstöðvar – ákvörðun sem þó sé á hendi BÍ.
Sigríður Jónsdóttir. Lýsti undrun sinni á kaupum BSSL á hlut í fyrirtækinu Orf-líftækni miðað við samþykkta tillögu síðasta aðalfundar.
Jóhann Nikulásson. Spurði um áætlaða fækkun kúa sem hann taldi fram komna í fjárhagsáætlun kynbótastöðvarinnar? Hvað þar stæði að baki.
Egill Sigurðsson. Kvað nautastöðina vera á hendi BÍ. Skýrði frá samskiptum stjórnar Bssl við BÍ varðandi staðarval nautastöðvar. Greindi frá því m.a. að a.m.k. 2/3 þeirra kálfa sem á stöðina koma nú um stundir séu einmitt af Suðurlandi. Enn fremur að hagkvæmast hlyti að vera að hafa slíka stöð á þeim slóðum þar sem mest framleiðslan er. Svaraði fyrirspurn Sigríðar Jónsdottur um hvenær ákvörðun um kaup í Orf var tekin (árið 2004) en þó rétt að eignin ætti að koma fram í efnahagsreikningi. Egill kom inn á framkvæmd nýs mjólkursamnings í tengslum við þær fjárhæðir sem ætlaðar eru til kynbótastarfs, minnti á að þær samningsbundnu upphæðir eru verðtryggðar og munu dansa í takt við verðlagsþróun.
Sveinn Sigurmundsson, svarar fyrirspurn Sigríðar Jónsdóttur. Greindi frá að hlutur í Orf hafi verið keyptur fyrir síðasta aðalfund og að Afmælisgjafasjóður frá Landsbanka Íslands hefði verið notaður til hlutabréfakaupanna. Taldi sig nokkuð vanbúinn að svara að fullu fyrirspurn Jóhanns Nikulássonar vegna þess að frumgögnin hefði hann ekki undir höndum á fundinum.

– Matarhlé –

6. Verðlaunaveiting fyrir besta naut árgangsins 1999, Þoll 99008 frá Þverlæk.
Jón Viðar Jónmundsson ræddi kosti nautsins og afhenti viðurkenningu,  Kristni Guðnasyni bónda á Þverlæk.

7. Ávarp Haraldar Benediktssonar formanns BÍ.
 Þakkaði góða framsögur. Ræddi nýjan búnaðarlagasamning og m.a. fjármagn sem ætlað er umhverfisverkefnum þar í. Ræddi vandamál því fylgjandi að sumar búgreinar telja sig ekki eiga samleið með búnaðarsamböndum. Ráðgjöf sem unnin er beint fyrir einstaka bændur er söluvara, s.s. áburðaráætlanir, fóðuráætlanir o.s.frv. Svaraði ýmsum spurningum  úr erindum morgunsins.

8.Ávarp Guðna Ágústssonar, landbúnaðarráðherra.
Fór vítt yfir sviðið í málefnum dagsins í dag, mjólkurframleiðslu, sauðfjárrækt og hrossarækt. Guðni sagðist sannfærður um það að Suðurland væri og yrði mekka margra þeirra greina landbúnaðarins sem stundaðar eru nú. Fagnaði uppbyggingu Landbúnaðarstofnunar og MS á Selfossi. Kom inn á gildi þess að eiga öflugar menntastofnanir sem undirbyggja starf og framfarir í landbúnaðinum. Minntist á áhyggjur sínar af niðurstöðum WTO-viðræðna og afleiðinga þeirra á íslenskan landbúnað. Samningunum mun verða mætt og unnið úr þeirri stöðu.  Ræddi söluna á Lánasjóði landbúnaðarins sem hann kvaðst afar ánægður með.

9. Umræður um ávörp Haraldar og Guðna
Sigurður Hannesson
á Villingavatni kom í pontu og lýsti áhyggjum sínum af jarða-söfnum auðmanna í íslenskum sveitum.
Björn Harðarson, Holti, fór með ferskeytlu ætlaða Guðna ráðherra um uppbyggingu reiðhalla.
Haraldur Benediktsson: Svarar umræðu um áhyggjur manna af eignarhaldi jarða og jarðasöfnun auðmanna. Gerði grein fyrir sams konar umræðu sem fram fór á nýliðnu Búnaðarþingi.

10. Erindi Sigurðar Inga Jóhannssonar, oddvita Hrunamannahrepps – Landbúnaður og skipulagsmál

11. Kjörbréfanefnd skilar áliti sínu
Helgi Eggertsson f. hönd nefndarinnar.
Eftirtaldir fulltrúar eru mættir:

Búnaðarfélag Gaulverjabæjarhrepps
Bragi Ásgeirsson, Selparti

Búnaðarfélag Stokkseyrarhrepps
Björn Harðarson, Holti

Búnaðarfélag Sandvíkurhrepps
Ólafur Kristjánsson, Geirakoti

Búnaðarfélag  Hraungerðishrepps
Ketill Ágústsson, Brúnastöðum

Búnaðarfélag Villingaholtshrepps
Ólafur Einarsson, Hurðabaki

Búnaðarfélag Skeiðahrepps
Jón Vilmundarson, Skeiðháholti

Búnaðarfélag Gnúpverjahrepps
Björgvin Þór Harðarson, Laxárdal.

Búnaðarfélag Hrunamannahrepps
Aðalsteinn Þorgeirsson, Hrafnkelsstöðum
Gunnlaugur Magnússon, Miðfelli

Búnaðarfélag Biskupstungnahrepps
Óttar Bragi Þráinsson, Miklaholti
Eiríkur Jónsson, Gýgjarhólskoti

Búnaðarfélag Þingvallahrepps
Kjörbréf bárust ekki

Búnaðarfélag Laugardalalshrepps
Jón Þormar Pálsson, Böðmóðsstöðum

Búnaðarfélag Grímsneshrepps
Ágúst Gunnarsson Stærri Bæ

Búnaðarfélag Grafningshrepps
Sigurður Hannesson Villingavatni

Búnaðarfélag Ölfushrepps
Þórarinn Snorrason, Vogsósum

Búnaðarfélag Eyrarbakka
Kjörbréf bárust ekki

Búnaðarfélag A-Eyjafjallahrepps
Kristinn Stefánsson, Raufarfelli.

Búnaðarfélag V-Eyjafjallahrepps
Sigurlaug Hanna Leifsdóttir, Nýjabæ

Búnaðarfélag A-Landeyjahrepps
Elvar Eyvindsson, Skíðbakka.

Búnaðarfélag V-Landeyjahrepps
Ágúst Rúnarsson, V-Fíflholti

Búnaðarfélag Fljótshlíðarhrepps
Kristinn Jónsson Staðarbakka

Búnaðarfélag Hvolhrepps
Kjörbréf bárust ekki

Búnaðarfélag Rangárvallahrepps
Þórir Jónsson, Selalæk

Búnaðarfélag Landmannahrepps
Kjörbréf bárust ekki

Búnaðarfélag Holtahrepps
Daníel Magnússon, Akbraut

Búnaðarfélag Djúpárhrepps
Sigurbjartur Pálsson, Skarði

Búnaðarfélag Ásahrepps
Jón Þorsteinsson, Syðri-Hömrum

Búnaðarfélag Hörgslandshrepps
Ragnar Jónsson, Dalshöfða

Búnaðarfélag Kirkjubæjarhrepps
Helga Jónsdóttir, Þykkvabæ

Búnaðarfélag Álftavers
Jóhannes Gissurarson, Herjólfsstöðum

Búnaðarfélag Leiðvallahrepps
Sigursveinn Guðjónsson, Lyngum

Búnaðarfélag Skaftártungu
Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, Ljótarstöðum

Búnaðarfélag Hvammshrepps
Ólafur Þ. Gunnarsson, Giljum

Búnaðarfélag Dyrhólahrepps
Sigurjón Eyjólfsson, Pétursey

Félag sauðfjárbænda í Árnessýslu
Sigríður Jónsdóttir, Arnarholti
Björn Snorrason, Björk

Félag sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu
Baldur Björnsson, Fitjarmýri
Ragnar Lárusson, Stóra-Dal
Guðrún Stefánsdóttir, Hlíðarendakoti

Félag sauðfjárbænda í V-Skaftafellssýslu
Fanney Ólöf Lárusdóttir, Kirkjubæjarklaustri
Jónas Erlendsson, Fagradal

Loðdýraræktarfélag Suðurlands
Þorbjörn Sigurðsson, Ásgerði

Félag skógarbænda á Suðurlandi
Sigríður Jónsdóttir, Fossi

Hrossaræktarsamtök Suðurlands
Helgi Eggertsson, Kjarri
Hrafnkell Karlsson, Hrauni
María Þórarinsdóttir, Fellskoti
Bergur Pálsson, Hvolsvelli
Þuríður Einarsdóttir Oddgeirshólum

Félag kúabænda á Suðurlandi
Sigurður Loftsson, Steinsholti
Katrín Birna Viðarsdóttir, Ásólfsskála
Jóhann Nikulásson, Stóru-Hildisey II
Gunnar Kr. Eiríksson, Túnsbergi
Arnheiður Dögg Einarsdóttir, Guðnastöðum

Samband garðyrkjubænda
Engin mættur.

50 fulltrúar mættir

12.Framlagning tillagna –  nefndastörf.
Sigurður Loftsson,
Steinsholti kemur í pontu og mælir fyrir tillögu er varðar staðsetningu nýrrar nautastöðvar BÍ
Elvar Eyvindsson Skíðbakka, kynnir tillögu frá Búnaðarfélagi A-Landeyja er varðar félagskerfi landbúnaðararins. Meginefni tillögunnar er að koma á fulltrúakerfi gegnum búgreinafélögin fremur en búnaðarfélög sveitanna.
Sveinn Sigurmundsson kynnti fleiri tillögur sem borist hafa og kynnti nefndaskipan, formenn nefnda eru eftirtaldir: Allsherjarnefnd: Sigurður Loftsson, Fagmálanefnd; Jón Vilmundarson og Fjárhagsnefnd: Jóhann Nikulásson.

Nefndir tóku til starfa og störfuðu fram að kaffihlé um kl 16. Að því loknu hófst fundur á ný.

13. Kosningar
Kjósa skal um tvo stjórnarmenn úr Rangárvallasýslu og tvo til vara. Eggert Pálsson tók til máls og tilkynnti að hann tæki ekki endurkjöri, væri búinn að starfa i 12 ár í stjórn sem að sínu mati væri orðinn hæfilegur tími. Fram fór leynileg kosning úrslit urðu eftirfarandi:
Egill Sigurðsson:                 35 atkvæði
Ragnar Lárusson:                22
Sigurlaug Hanna Leifsdóttir:  18
Eggert Pálsson:                    2
Elvar Eyvindsson:                  1
Auðir:                                 11

Kosningu sem aðalmenn hlutu því Egill Sigurðsson og Ragnar Lárusson.

Þá var gengið til kosninga um 2 menn í varastjórn úr Rangárþingi. Niðurstaðan var eftirfarandi:
Ólafur Eggertsson:               30 atkvæði
Sigurlaug Hanna Leifsdóttir:  29
Þórir Jónsson:                     20
Baldur Björnsson:                  3
Brynjar Vilmundarson:            1
Jóhann Nikulásson:                1
Ari Árnason.:                         1

Kosningu sem varamenn hlutu því Ólafur Eggertsson og Sigurlaug Leifsdóttir.

Þá voru kosnir tveir skoðunarmenn reikninga: Kosningu hlutu Elvar Eyvindsson með 42 atkvæðum og Ólafur Kristjánsson með 26 atkvæði. Eiríkur Jónsson fékk 15 atkvæði.

Þá var Arnór Eggertsson kosinn endurskoðandi með lófataki.

14. Afgreiðsla tillagna

Tillaga I Niðurskurðarsamningar
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn á Flúðum 21. apríl 2006, leggur til að Búnaðarsambandið bjóðist nú þegar til að aðstoða sauðfjárbændur á riðusvæðum við öll samskipti við hið opinbera varðandi gerð niðurskurðarsamninga og efndir á þeim.
Greinargerð:
Allmargir bændur á félagssvæðinu hafa skorið niður undanfarin ár í baráttunni við riðuveiki. Reglur um bætur eru flóknar og mörg álitamál geta komið upp á hverjum bæ fyrir sig. Víða hefur dregist að fá gengið frá samningum og oftar en ekki hefur bændum gengið brösuglega að fá hið opinbera til að standa við gerða samninga.
Margir eru vanbúnir til að gæta hagsmuna sinna þar sem um svo flókin og umfangsmikil mál er að ræða og er því löngu tímabært að þær stofnanir sem reknar eru til að gæta hagsmuna bænda og leiðbeina þeim, taki málið upp og komi þessu fólki til aðstoðar.
Það yrði bændum mikill styrkur að fá dugandi ráðunaut til liðs við sig og að geta leitað til hans um upplýsingar og ráðleggingar í þessum erfiðu málum.
Hér er um töluverða hagsmuni að tefla fyrir þá bændur sem hafa skorið niður og ekki ríður minna á fyrir sauðfjárræktina á Íslandi að árangur náist í baráttunni við riðuveiki.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga II Landbótasjóður
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn á Flúðum 21. apríl 2006, fer fram á við landbúnaðar- og fjármálaráðherra að þeir beiti sér fyrir því að þeir fjármunir sem samþykkt þingsályktun um landgræðsluáætlun 2003-2014 gerir ráð fyrir að sé veitt í landbótasjóð skili sér að fullu. Aðeins hafa 42 milljónir verið til ráðstöfunar af 90 milljónum sem áætlun 2003-2006 hljóðaði upp á.

Greinargerð:
Stórauknar kröfur eru gerðar til bænda um uppgræðslu á afréttum og heimalöndum vegna gæðastýringar í sauðfjárrækt. Fjármögnun þessara uppgræðsluverkefna er að nánast öllu leyti háð fjárframlögum úr landbótasjóði. Ekki er ásættanlegt að bændur beri auknar álögur vegna landbótaáætlana ef ríkið skorast undan að standa við sinn hlut.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga III  Vanþóknun á Embætti yfirdýralæknis
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn á Flúðum 21. apríl 2006, lýsir vanþóknun á þeim vinnubrögðum sem Embætti yfirdýralæknis hefur viðhaft undanfarin ár, hvað varðar viðskipti við bændur sem glímt hafa við búfjársjúkdóma.  Fundurinn krefst þess að Landbúnaðarstofnun komi þessum málum nú þegar í betra horf, fari að lögum og standi við gerða samninga.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga IV Afdrif tillagna
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn á Flúðum 21. apríl 2006, fer fram á við stjórn BSSL að betur sé gerð grein fyrir afdrifum og eftirfylgni þeirra ályktana sem hlotið hafa samþykki aðalfundar árinu áður.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga V Efnainnihald áburðar
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn á Flúðum 21. apríl 2006, beinir því til Landbúnaðarstofnunar og landbúnaðarráðuneytis að sett verði fram skýr skilyrði um að áburðarsalar birti á samræmdan hátt efnainnihald þess áburðar sem þeir ætla að bjóða til sölu hér á landi.

Greinargerð:
Um þessar mundir er töluverð samkeppni í sölu áburðar hér á landi en áburðarsalar setja efnamagn áburðarins ýmist fram í hreinum efnum, sýrlingum eða hvoru tveggja. Á þetta fyrst og fremst við um framsetningu í innihaldi áburðar á fosfór og kalí en þó hefur komið fyrir að önnur steinefni hafi líka verið birt með ósamræmdum hætti. Þetta ósamræmi veldur stundum alvarlegum ruglingi og misskilningi og getur valdið því að bændur panti og noti í raun rangar áburðartegundir miðað við þarfir. Skaðinn getur komið fram hvort heldur sem er í dýrari áburðarkaupum en þarf að vera og ekki síður í óheppilegum efnahlutföllum gróffóðurs sem getur haft slæm áhrif á heilsufar búfjár.

Ósamræmd framsetning býður auk þess upp á hættuna á að þeir aðilar sem birta efnamagn áburðar í sýrlingum njóti þess að bændur telji þeirra áburð efnameiri og þar með ódýrari miðað við efnamagn. Framsetningin ein og sér skekkir því samkeppni.

Á það skal bent að í áratugi hafa íslenskar áburðarleiðbeiningar miðast við hrein efni í ræðu og riti og því væri eðlilegt að gera kröfu um að allir áburðarsalar settu fram og auglýstu efnamagn áburðar í hreinum efnum eingöngu.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga VI Fóður og áburður sem ekki stenst kröfur Aðfangaeftirlits.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn á Flúðum 21. apríl 2006, tekur undir tillögu frá aðalfundi Landssambands kúabænda sem haldinn var í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006 um áskorun til Landbúnaðarstofnunar að birta ætíð upplýsingar um þær áburðar- og fóðurtegundir sem ekki standast kröfur hennar og upplýsa hvernig þeim er ráðstafað.

Greinargerð:
Á heimasíðu Aðfangaeftirlits kemur fram að árið 2004 voru tekin 31 sýni úr innfluttum áburði frá nokkrum innflytjendum, þar af reyndust 8 sýni ekki standast uppgefin gildi. Árið 2005 voru síðan tekin 45 sýni, þar af stóðust 10 sýni ekki uppgefin gildi. Ekki kemur fram um hvaða tegundir áburðar er að ræða eða frá hvaða innflytjendum hann er, né heldur hvernig honum er ráðstafað. Þar eð sýni úr umræddum áburðartegundum eru væntanlega ekki tekin fyrr en hann er kominn til landsins, hlýtur að vakna sú spurning hvað gert er við hann. Er það raunin að hann sé seldur á markaði eða er honum ráðstafað með öðrum hætti. Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa bænda að þeir viti hvort á markaði eru slík vara og þá hver hún er og frá hvaða seljendum.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga VII Nautastöð
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn á Flúðum 21. apríl 2006 tekur undir ályktun síðasta búnaðarþings, um að vinna við endurnýjun aðstöðu Nautastöðvar BÍ verði hraðað. Jafnframt leggur fundurinn þunga áherslu á að komi til flutnings stöðvarinnar verði kostir þess að staðsetja hana í Gunnarsholti skoðaðir í alvöru m.t.t. sjúkdómavarna og rekstrarhagkvæmni.

Greinargerð:
Í ályktun síðasta búnaðarþings er lögð áhersla á að kanna til hlítar þá kosti sem fyrir liggja með tilliti til kostnaðar, rekstraröryggis og staðsetningar. Jafnframt segir í greinargerð að “skoða verði til hlítar þær staðsetningar sem til greina koma út frá öryggi, fagumhverfi og nálægð við notendur”. Gunnarsholt er vel í sveit sett hvað varðar smitvarnir og hreinleika umhverfis en varasamt er að staðsetja einangrunarstöð í nálægð við búfénað sem borið getur með sér smitsjúkdóma eins og garna- og riðuveiki. Enn fremur má minna á að Gunnarsholt er í öflugasta nautgriparæktarhéraði landsins. Í því sambandi má geta þess að af síðustu 59 kálfum sem teknir voru inn á stöðina voru 38 af Suðurlandi. Á svæðinu er stundað kröftugt fagstarf á sviði landbúnaðar, í námunda við er rekin ein öflugasta leiðbeiningamiðstöð landsins  í nautgriparækt og greitt til allra átta hvað varðar samgöngur. Eins er í Gunnarsholti gnótt bygginga- og ræktunarlands, því yrði rúmt um starfssemina og fóðuröflun hagkvæm. Að lokum tekur fundurinn undir með búnaðarþingi þar sem lögð er þung áhersla á að málinu verði hraðað og það unnið  í sem allra bestri sátt við notendur.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga VIII Einstaklingsmerkingakerfið Mark
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn á Flúðum 21. apríl 2006, skorar á Landbúnaðarstofnun að hluti þess gjalds sem innheimtur er í gegnum einstaklingsmerkingakerfið MARK, renni til búnaðarsambanda þar sem verulegur kostnaður hlýst af umsjón og umsýslu sem þau hafa með framkvæmd þess.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga IX  Fjárhagsáætlun BSSL
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn á Flúðum 21. apríl 2006, leggur til að fjárhagsáætlun BSSL fyrir árið 2006 verði samþykkt.

Samþykkt samhljóða

Tillaga X Fjárhagsáætlun Kynbótastöðvar
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn á Flúðum 21. apríl 2006, leggur til að við gerð fjárhagsáætlunar Kynbótastöðvar Suðurlands fyrir rekstrarárið 2006 verði sæðingagjöld lækkuð í kr 800,- á kú. Jafnframt að afsláttur vegna skýrsluhalds verði afnuminn.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga XI Árgjald
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn á Flúðum 21. apríl 2006, samþykkir óbreytt árgjald til BSSL, alls kr 1.000,- á félagsmann.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga XII Laun aðalfundarfulltrúa
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn á Flúðum 21. apríl 2006, samþykkir að þóknun aðalfundarfulltrúa verði kr. 10.000,- , að viðbættri vísitölubreytingu á grunni launavísitölu frá og með apríl 2005.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga XIII Laun stjórnar og formanns
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn á Flúðum 21. apríl 2006, samþykkir að laun stjórnarmanna verði kr 10.000,- á hvern stjórnarfund auk dagpeninga og aksturs skv. ríkistaxta og framreiknist með vísitölubreytingum samkvæmt grunni í launavísitölu frá apríl 2005. Formaður fái tvöföld laun og dagpeninga á við aðra stjórnarmenn auk aksturs. Formaður fái að auki eingreiðslu sem nemur kr 150.000,- m.v. árið 2003 sem framreiknast með launavísitölu.

Samþykkt samhljóða.

15. Önnur mál.

Ragnar Lárusson þakkar það traust sem honum er sýnt með kjöri í stjórn.
Sigurlaug Hanna Leifsdóttir þakkar það traust sem henni er sýnt með kjör í varastjórn. Ræddi fram kominn búnaðarþingslista og röðun efstu manna á hann.
Egill Sigurðsson þakkar það traust sem honum hefur verið sýnt. Taldi óheppilega þá staðreynd, og tók þar undir með Sigurlaugu,  að nú sé í annað sinn í röð aðeins fram kominn einn listi til búnaðarþings. Taldi hugsanlegt að forvalið gæti farið fram með öðrum hætti en til þess þyrfti jafnvel breytingar á samþykktum BÍ. Ræddi röðun á lista frá ýmsum sjónarhornum og verklagsreglur því fylgjandi. Endaði mál sitt á því að telja að óánægja með listann væri tæplega mikil þar sem enginn annar listi kom fram.
Elvar Eyvindsson sagði að sér hefði ekki komið á óvart að tillaga A-Landeyinga varðandi félagsaðild og félagskerfi bænda skildi ekki hljóta náð fyrir augum aðalfundar. Taldi hins vegar ljóst að þetta kerfi myndi innan tíðar deyja sínum drottni, það væri aðeins spurning um tíma.

16. Fundarslit
Þorfinnur Þórarinsson. Fór yfir mál dagsins, framkomnar  og samþykktar tillögur og erindi. Þakkaði Eggerti Pálssyni sérstaklega fyrir hans góðu störf í þágu Búnaðarsambands Suðurlands, bauð einnig velkominn til starfa nýjan stjórnarmann Ragnar Lárusson.

Fundi slitið kl. 18.00

Pétur Halldórsson,
Guðlaug B. Guðgeirsdóttir,
fundarritarar

back to top