Aðalfundur BSSL 2017

109. aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands
haldinn 11. apríl 2017 að Félagslundi í Flóahreppi.

1. Fundarsetning, Gunnar Kr. Eiríksson formaður.
Gunnar Kr. Eiríksson setti fundinn og bauð fulltrúa, starfsmenn, gesti og formann Bændasamtaka Íslands velkomna. Oddný Steina Valsdóttir nýkjörinn formaður LS bað fyrir góðar kveðjur til fundarins. Hann gerði það að tillögu að Helgi Eggertsson, Kjarri, stýrði fundi og Helga Sigurðardóttir, starfsmaður Búnaðarsambandsins ritaði fundargerð.

2. Skipan kjörbréfanefndar, Sveinn Sigurmundsson.
Sveinn Sigurmundsson bar upp tillögu um skipan kjörbréfanefndar; Jón Vilmundarson, Skeiðháholti, Þórarinn Bjarnason, Þykkvabæ og Baldur Björnsson, Fitjarmýri. Tillagan samþykkt.

3. Skýrsla stjórnar, Gunnar Kr. Eiríksson formaður.
Gunnar fór yfir stöðuna frá síðasta aðalfundi á Höfðabrekku. Stjórnarbreyting varð er hann tók við formennsku og Jón Jónsson, Prestsbakka gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu. Því var kosinn einn fulltrúi úr V-Skaftafellssýslu, Sigurjón Eyjólfsson, Pétursey í hans stað og Björn Helgi Snorrason, Kálfafelli til vara. Baldur Indriði sat ekki stjórnarfundi þetta árið en Helgi Eggertsson, Kjarri sat fundi í hans stað, aðrir stjórnarmenn voru Erlendur og Ragnar.
Stjórnin hittist 6 sinnum á formlegum fundum, en átti samskipti á óformlegum fundum oftar. Formannafundur var á Stóra-Ármóti 9. febrúar og sótti formaður líka aðra fundi á vegum BÍ auk tilraunanefndafundar á Stóra-Ármóti.
Breytingar á fjósi á Stóra-Ármóti eru fyrirhugaðar sem munu kosta talsvert, en breytinga er þörf til að aðlagast nýrri aðbúnaðarreglugerð.
Formaður hefur sótt marga fundi út af Nautís en það verkefni er í þróun og von að mikill tími fari í það svona í byrjun.
Tilraunastarfsemi á Stóra-Ármóti er of lítil og þarf að finna leiðir til að auka tilraunastarf í íslenskum landbúnaði.
Þróun á nýju félagskerfi er líka það sem brennur á stjórn og þar eru breyttir tímar og þarf að aðlaga að nýjum aðstæðum.
Máttur bænda er mikill þegar þeir standa saman.

4. Reikningar BSSL og skýrsla framkvæmdastjóra, Sveinn Sigurmundsson.
Sveinn byrjaði á að þakka góða mætingu og sagði að þetta væri í fyrsta skipti sem ársritið væri eingöngu unnið af okkur, eða starfsmanni okkar Helgu Sigurðardóttur.
Tekjur hjá Búnaðarsambandinu voru 78 milljónir, Kynbótastöð 125 milljónir, Sauðfjársæðingastöð tæpar 14 milljónir og Bændabókhald 28 milljónir. BSSL hefur ekki utanaðkomandi tekjur aðrar en félagsgjöld og þær sem ætlaðar eru í úttektarvinnu seinni hluta ársins. Mikill kostnaður var í viðhald á húsnæði sambandsins eða rúmar 6 milljónir. Markaðsverðbréf skiluðu litlum vöxtum á síðasta ári. Hagnaður ársins var tæpar 1,9 milljónir. Fyrirtæki Búnaðarsambandsins þurfa að koma í auknum mæli að kostnaði vegna stjórnunar, bókhalds og aðstöðu.
Kynbótastöðin var með tap upp á 960 þúsund. Kjarasamningar við frjótækna standa yfir. Kynbótastöðin annast 45% af sæðingum á landinu. Akstur á sæðingu er 17 km en á Austurlandi eru 45 km að baki hverrar sæðingar. Aksturskostnaður er lítill eða 36 kr/km. Starfsstöð í Vík lagðist niður og kúabúum í Vestur-Skaftafellssýslu fækkar mikið. Sæðingar á Suðurlandi eru ódýrastar á landinu fyrir utan Eyjafjörð. Klaufskurður var framkvæmdur á 4613 kúm á 93 búum. Tveir nýir frjótæknar, Sigurður Max Jónsson og Eyþór Karl Ingason voru þjálfaðir til starfa á árinu.
Sauðfjársæðingastöðin er með 111 þúsund í hagnað. Metþátttaka var á síðasta ári eða 15.570 ær sæddar með fersku sæði. Nýting á útsendu sæði var 68% en þarf helst að ná 70%. Sæðingahrúturinn Bergur var eftirsóttastur og meiri en hægt var að anna en aðeins hægt að verða við helming af óskum bænda. Ávinningur af sauðfjársæðingum er ótvíræður. Frá áramótum verða Sauðfjársæðingastöðin og Kynbótastöðin Laugardælum sameinuð í Kynbótastöð ehf. Engin útflutningur var á hrútasæði því ekki náðist í tíma að verða við auknum kröfum innflutningslandana.
Rekstur bændabókhalds er í jafnvægi. Breytingar urðu í starfsliði. Sigurlaug Jónsdóttir og Skafti Bjarnason létu af störfum Gunnar Ríkharðsson kom til starfa um áramót. Það eru sóknarfæri í þessu fyrirtæki. Stofnað verður nýtt félag Bændabókhald ehf sem tekur gildi frá áramótum.
Stóra-Ármót er með svipaðar afurðartekjur og á fyrra ári. Rekstrarkostnaður hækkar vegna viðhalds húsa. Gamla fjósið var endurbætt með það fyrir augum að hægt væri að taka þar inn kýr og setja fósturvísa í vegna innflutnings á erfðaefni holdagripa.
Niðurstöður fóðurtilraunar sem gerð var í fyrravetur á Stóra Ármóti sýndu að það er hægt að hafa áhrif á fitu í mjólk með gjöf á fitu í fóðri. Tilraunastjórinn Hrafnhildur Baldursdóttir lét af störfum þar sem LbhÍ treysti sér ekki til að fastráða hana.
Fyrirhugað er að breyta fjósinu á Stóra Ármóti í lausagöngu með legubásum. Kostnaðaráætlun er upp á 23 milljónir.
Búnaðarsambandið mun sjá um úttektir vegna landgreiðlsna og jarðræktarstyrkja í haust en yfirumsjón hefur Búnaðarstofa hjá MAST. Alls eru þetta rúmlega 600 milljónir sem renna til bænda. Heimilt er að nota hluta af þessum fjármunum til að greiða út á tjón vegna álfta og gæsa.
Um áramótin var hætt að innheimta sjóðagjöld sem bændur hafa greitt til stoðkerfisins alls um 600 hundruð milljónir. Félögin þurfa því að fjármagna starfsemi sína á félagsgjöldum. Sveinn hefur mætt á fjölmarga fundi hjá aðildarfélögum BSSL til að kynna þær breytingar sem framundan eru og um leið að hvetja bændur til að standa vörð um félögin sín. Búin greiða mun minna nema þau allra minnstu. Stóra Ármótsbúið greiddi um 600 þúsund krónur í sjóðagjöld sem er þá af 50 milljóna krónu veltu. Með því að taka þátt í LK, BÍ og LS mun þetta bú greiða 160 þúsundir og hafa því 440 þúsundir í afgang. Tillaga kemur frá stjórn um að hafa félagsgjöldin óbreytt eða 3 þúsund krónur á aðila.
Lög Búnaðarsambandsins kveða á um að aðildarfélögin skuli standa skil á árgjöldum til sambandsins. Búnaðarsambandið ætlar að bjóða aðildarfélögum sínum upp á þjónustu við innheimtu félagsgjalda, bókhald og fleira ef þau þess óska.
Búnaðarsambandið er grasrótarsamtök bænda/og landsbyggðarfólks á Suðurlandi. Félagsmenn fá m.a. afslátt af þeirri vinnu sem samtökin sinna, aðgang að þeirri aðstöðu sem samtökin geta boðið upp á, aðild að BÍ og kosningarrétt til Búnaðarþings. Sameiningartákn bænda í 110 ár á næsta ári.
Umrót og endurskipulagning félagskerfisins stendur yfir, bændur eiga að standa saman og taka þátt í félagsstarfi. BSSL á öflug fyrirtæki með miklar eignir. Óvissa er um hver þróunin verður um úttekt vegna jarðræktarstyrkja en ýmis stjórnsýsluverkefni eru farin frá BÍ og BSSL yfir til MAST.
Mikilvægast að bændur standi saman.

5. Umræður um skýrslur og reikninga.
Ólafur Þ. Gunnarsson Giljum, þegar taka átti leiðbeiningarþjónustuna frá BSSL, vissu bændur á Suðurlandi að þeir myndu ekki græða á þessari breytingu. Hann tekur undir orð Sveins að mikilvægt sé að bændur standi saman. Til að vinna gegn félagslegri einangrun er mikilvægt að bændur sameinist í að standa vörð um BSSL. Hefur áhuga á að vera áfram fulltrúi á Búnaðarþingi, og fékk hvatningu til að vera til staðar fyrir yngri bændur.
Daníel Magnússon, Akbraut tekur undir orð Ólafs og finnst umræðan ekki vera á réttri leið þegar talað er um að leggja niður Búnaðarsambandið.
Erlendur Ingvarsson Skarði, lýsti yfir framboði til Búnaðarþings og tilbúinn að leggja sitt af mörkum til uppbyggingar á íslenskum landbúnaði.
Trausti Hjálmarsson Austurhlíð lýsir yfir framboði til Búnaðarþings.
Ragnar Lárusson Stóra Dal lýsti yfir framboði til Búnaðarþings og þakkar fyrir að áðurnefndir menn gefi kost á sér.
Gunnar Kr. Eiríksson gefur kost á sér áfram, hefur setið á 4 búnaðarþingum og þakkar fyrir hið góða starf sem hefur verið unnið á undaförnum árum.
Páll Eggertsson, Arngeirsstöðum, hefur verið fulltrúi á síðasta Búnaðarþingi og gefur kost á sér áfram.

6. Matarhlé.

7. Kjörbréfanefnd skilar áliti.
Jón Vilmundarson , formaður nefndarinnar tók til máls. Rétt til setu eiga 31 búnaðarfélög, þar af 2 með 2 fulltrúa. Búgreinafélögin 5 eiga rétt á 14 fulltrúum alls 47 fulltrúar. Kjörbréf eru lesin upp og í ljós kemur að eftirfarandi fulltrúar eru mættir:

Búnaðarfélag Gaulverjabæjarhrepps
Þorsteinn Ágústsson, Syðra-Velli.
Búnaðarfélag Stokkseyrarhrepps
Björn Harðarson, Holti.
Búnaðarfélag Sandvíkurhrepps
María Hauksdóttir, Geirakoti.
Búnaðarfélag Hraungerðishrepps
Ragnar Finnur Sigurðsson, Litla-Ármóti.
Búnaðarfélag Villingaholtshrepps
Reynir Þór Jónsson, Hurðarbaki.
Búnaðarfélag Skeiðahrepps
Jón Vilmundarson, Skeiðháholti.
Búnaðarfélag Gnúpverjahrepps
Jón Marteinn Finnbogason, Minni-Mástungu.
Búnaðarfélag Hrunamannahrepps
Benedikt Ólafsson, Auðsholti,
Þórunn Andrésdóttir, Bryðjuholti.
Búnaðarfélag Bláskógabyggðar
Trausti Hjálmarsson, Austurhlíð 2,
Ingvi Þorfinnsson, Spóastöðum.
Búnaðarfélag Þingvallahrepps
Gunnar Þórisson, Fellsenda.
Búnaðarfélag Grímsneshrepps
Ágúst Gunnarsson, Stærri-Bæ.
Búnaðarfélag Ölfushrepps
Pétur B. Guðmundsson, Hvammi.
Búnaðarfélag Eyrabakka
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag A-Eyjafjallahrepps
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag V-Eyjafjallahrepps
Eyvindur Ágústsson, Stóru-Mörk.
Búnaðarfélag A- Landeyjarhrepps
Jóhann Nikulásson, Stóru-Hildisey
Búnaðarfélag V-Landeyjarhrepps
Guðmundur Jónsson, Berjanesi.
Búnaðarfélag Fljótshlíðarhrepps
Páll Eggertsson, Arngeirsstöðum.
Búnaðarfélag Hvolhrepps
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag Rangárvallahrepps
Björgvin Reynir Helgason, Lambhaga.
Búnaðarfélag Landmannahrepps
Páll Sigurjónsson, Galtalæk.
Búnaðarfélag Holtahrepps
Daníel Magnússon, Akbraut.
Búnaðarfélag Djúpárhrepps
Ágúst Sæmundsson, Bjólu.
Búnaðarfélag Ásahrepps
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag Hörgslandshrepps
Rúnar Þorri Guðnason, Keldunúpi.
Búnaðarfélag Kirkjubæjarhrepps
Þórarinn Bjarnason, Þykkvabæ 1.
Búnaðarfélag Álftavers
Gottsveinn Eggertsson, Holti.
Búnaðarfélag Leiðvallahrepps
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag Skaftártungu
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag Hvammshrepps
Ólafur Þorsteinn Gunnarsson Giljum.
Búnaðarfélag Dyrhólahrepps
Gunnar Þormar Þorsteinsson, Dyrhólum.
Félag sauðfjárbænda í Árnessýslu
Geir Gíslason, Stóru-Reykjum,
Jökull Helgason, Ósabakka 1.
Félag sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu
Erlendur Ingvarsson, Skarði,
Stefán Þór Sigurðsson, Þjóðólfshaga,
Baldur Björnsson, Fitjarmýri.
Félag sauðfjárbænda í V-Skaftafellssýslu
Sæunn Káradóttir,
Marvin Einarsson.
Loðdýraræktarfélag Suðurlands
Hjalti Logason, Neðri-Dal.
Félag kúabænda á Suðurlandi
Rafn Bergsson, Hólmahjáleigu,
Borghildur Kristinsdóttir, Skarði,
Samúel U. Eyjólfsson, Bryðjuholti,
Karel Geir Sverrisson, Seli,
Ágúst Ingi Ketilsson, Brúnastöðum .
Mættir eru 40 fulltrúar.
Álit kjörbréfanefndar er samþykkt samhljóða.

8. Innflutningur á fósturvísum, Sigurður Loftsson
Sigurður fór yfir erindi sem flutt var á aðalfundi Landsambands kúabænda í síðasta mánuði um innflutning erfðaefnis holdagripa. Í dag eru á landinu til 3 stofnar af holdakynjum. Galloway var flutt inn um 1930. Fyrir síðustu aldamót voru svo flutt inn fósturvísar úr Aberdeen Angus og Limousine. Þetta var hugsað sem blendingsræktun við íslenska stofninn og til að fá meiri kjötgæði.
Fyrir nokkrum árum var farið að vinna meira í að opna fyrir innflutningi á fósturvísum og frá 2009 hafa verið nokkrir fundir með ráðherra og ályktanir gerðar til að vinna að innflutningi. Á þessum tíma hafa nokkur áhættumöt verið unnin bæði hér heima og eins frá erlendum aðilum. Niðurstöður voru þær að hverfandi áhætta væri á því að flytja inn ferskt sæði. Vinna við gerð á heilbrigðisvottorðum milli matvælastofnana Noregs og Íslands lauk í október 2016.
Taka á fósturvísa um mánaðarmótin apríl maí en uppsetning þeirra mun ekki verða fyrr en í ágúst eða september. Kálfarnir munu því koma í heiminn eftir u.þ.b. ár. Þeir þurfa svo að vera í einangrun í stöðinni í 9 mánuði. Afkvæmi hér á landi munu koma í heiminn um mitt ár 2020 og afurðir á markað um 2021. Ferlið frá upphafi og þangað til að afurðir koma á markað er orðið ansi langt.
Stöðin er í eigu Nautgriparæktarmiðstöðvar Íslands ehf (NautÍs), sem aftur er í jafnri eigu Landssambands kúabænda, Bændasamtaka Íslands og Búnaðarsambands Suðurlands. Í stjórn NautÍs sitja þeir Sigurður Loftsson sem fulltrúi LK, Sveinbjörn Eyjólfsson, fulltrúi BÍ og Gunnar Kr. Eiríksson sem fulltrúi BSSL. Sigurður er formaður stjórnar. Framkvæmdastjóri félagsins er Sveinn Sigurmundsson. Dýralæknir stöðvarinnar er Þorsteinn Ólafsson og starfsmaður er Baldur Indriði Sveinsson. Þá hefur Baldur Helgi Benjamínsson, búfjárerfðafræðingur verið félaginu til ráðuneytis undanfarna mánuði. Í nýjum búvörusamningi var samið um sérstakt 100 m.kr. framlag til uppbyggingar á stöðinni. Þá hefur þróunarsjóður nautgriparæktar styrkt stöðina um 6,4 milljónir til kaupa á fósturvísum. Einnig er gert ráð fyrir að hluta af stuðningi búvörusamningsins við nautakjötsframleiðslu verði ráðstafað til að reka stöðina á komandi árum.
Holdakynið Aberdeen Angus var valið vegna þess að þetta eru harðgerðir gripir, með gott skap sem nýta gróffóður og beit vel. Kýrnar eru mjólkurlagnar og kjötgæði eru góð. Eftirspurn eftir nautakjöti er meiri en innanlandsframleiðsla annar og hugmyndin að baki innflutningnum er að styðja við og bæta nautakjötsframleiðslu á Íslandi.
Ræktunarfélag holdagripa í Noregi Tyr mun velja 10 kýr frá tveim búum til skolunar. Alls verða keyptir 40 fósturvísar. Nautin hafa verið valin eftir tillögu Baldurs Helga Benjamínssonar búfjárerfðafræðings og samþykkt af fagráði í nautgriparækt. Erum að leggja drög að starfi sem mun standa í framtíðinni og er mikið brautryðjendastarf, því mikilvægt að vera með góðan grunn.

9. Sindri Sigurgeirsson, formaður BÍ ávarpar fundinn
Sindri flutti kveðjur frá stjórn og starfsfólki BÍ, en síðasta ár hefur verið mikið umbreytingaár. Í febrúar 2016 var skrifað undir nýja búvörusamninga. Eftir það tók við smíði verklagsreglna og samninga við bændur. Alþingi afgreiddi ekki búvörusamninga fyrr en haustið 2016, en þá var endurskoðunarákvæði sett inn og 9 atriðum breytt, m.a. skipan vinnuhópsins sem var ekki með okkar samþykki. Yfirfærsla verkefna til MAST var um áramótin og því skammur tími til að ganga frá greiðslum til bænda, sem drógust og má flokkast sem byrjunarerfiðleikar.
Samráðshópurinn hefur ekkert með samningagerð að gera, fyrst og fremst að vinna að sátt um framtíðarsýn á landbúnaðarmálum almennt. Þar reynum við að nálgast vinnuna með opnum huga og hafa upplýsta umræðu.
BÍ er að vinna að greiningu á sérstöðu íslensk landbúnaðar m.v. landbúnað í Bandaríkjunum og Evrópu. Greiningin á að sýna m.a. kolefnisfótspor, loftslagsmál og umhverfismál íslensk landbúnaðar.
Umhverfismál tilheyra umhverfisráðuneyti, vegvísir um losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði er í vinnslu sem og umhverfisstefna um landbúnaðinn í heild.
Heilnæmur íslenskur landbúnaður er það sem við þurfum að leggja áherslu á og landbúnaður sem er stundaður í sátt við samfélagið. Upprunamerkingar eiga að vera í góðu lagi, sem og dýravelferð og lyfjamál. Almenningur þarf að vita að þessi mál eru í lagi og oft mun betri en í öðrum löndum.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra kom á aðalfund BÍ í Hofi og hélt fína ræðu um mikilvægi landbúnaðar á Íslandi. Sú ræða var þó ekki í samræmi við gjörðir hennar nokkrum dögum síðar, er hún fór að gagnrýna samkeppnisstöðu mjólkuriðnarðarins. Staðan í sauðfjárræktinni er eins og í öðrum útflutningsgreinum þar erum að takast á við sterkt gengi íslensku krónunnar og erfitt að flytja út kjöt. Verðfall er yfirvofandi á haustdögum og ljóst að eitthvað þarf að gera og kannski þarf að finna leiðir til að draga tímabundið úr framleiðslu.
Enginn ræður örlögum félaga nema félagsmenn sjálfir. Félagsmenn hafa fengið senda greiðsluseðla en vinna við þessa útsendingu er m.a. í höndum Guðbjargar Jónsdóttur, starfsmanns verkefnisins. Móttökurnar hafa verið góðar nú þegar skilað sér inn félagsgjöld fyrir um 70 milljónir kr. en við þurfum 100 milljónir. Peningarnir verða nýttir til að gera öflug samtök sem standa vörð um hagsmunamál bænda. Til að verða fullgildur félagi þarf að greiða 42 þúsund og vera aðilar í a.m.k. einu aðildarfélaga BÍ. Félagið vinnur að hagsmunamálum bænda og félagsaðild veitir 30% afslátt að forritum BÍ, félagar geta líka sótt styrk í starfsmenntasjóð, væntanlegan velferðarsjóð og afslátt á Hótel Sögu og orlofsíbúðum ofl. Höfum í huga að samtakamáttur heildarinnar verður meiri ef fjöldanum er náð.

10. Umræður
Erlendur Ingvarsson spurði hvort ekki hefði verið betra að BÍ væri síðast en ekki fyrst í að innheimta félagsgjöld þar sem skilyrði til að vera í BÍ er að vera aðili í einu aðildarfélagi.
Samúel Eyjólfsson kom með fyrirspurn um hvað áætlað væri að holdagripafjósið muni kosta og benti á að möguleiki væri á að sækja um fjármuni sem ætlaðir eru í framleiðslujafnvægi í búvörusamningunum.
Sindri svaraði Erlendi. Við þurftum að drífa þetta af til að gera þetta. Um mitt ár förum við yfir stöðuna varðandi félagsaðild í öðrum félögum. Við þurfum a.m.k. þetta ár til að þróa félagskerfið.
Sigurður svaraði Samúel varðandi kostnað við byggingu á stöðinni. Höfum unnið ítarlega kostnaðaráætlun með byggingu hússins sem hljóðar upp á 120 millj en er bjartsýnn á að kostnaðurinn verður minni. Einangrunarstöðin er 2 fjós með millibyggingu og að öllu er farið í ítrustu kröfur vegna sóttvarna. Aðskilin haughús með kanalkerfi er undir báðum einingunum og haughrærur við hvort þeirra. Ljóst að það þarf meiri pening í verkefnið og þar horfir hann til ákvæðis um framleiðslujafnvægi í búvörusamningum. Ekki vilji til að taka fjármuni af peningum sem eiga að fara beint til bænda. Þá munu fósturvísar, kýr, kostnaður við sýnatöku og við að koma þeim í kosta um 15 milljónir.
Erlendur spyr um árlegan rekstrarkostnað við holdagripabúið.
Sigurður gerði grein fyrir því að í búvörusamningum er gert ráð fyrir 25 milljón króna rekstrarframlagi á ári. Tekjur búsins verða; Gripagreiðslur, sala á lífgripum, sala á sæði og sláturafurðir. Kostnaður verður vegna launa, dýralæknis, erfðaefnis auk hefðbundins kostnaðar við rekstur á nautgripabúi.

11. Kosningar. Kosið um 2 stjórnarmenn og 2 í varastjórn úr Árnessýslu.
Fundarstjóri óskaði eftir hléi á fundi og fundarmenn úr Árnessýslu héldu fund um hvaða fulltrúa þeir sammæltust um.
Fundarstjóri bar upp tillögu að stjórnarmönnum úr Árnessýslu, þ.e. Gunnar Kristinn Eiríksson og Helgi Eggertsson sem aðalmenn og Þórunn Andrésdóttir og Ragnar Finnur Sigurðsson sem varamenn. Samþykkt með lófaklappi.

12. Tillögur lagðar fram og kynntar
Sveinn kynnti tillögur stjórnar um óbreytt félagsgjald og þjónustu Búnaðarsambandsins við aðildarfélögin.
Jökull Helgason vill flytja verkefni sem voru hjá búnaðarsamböndum frá MAST og setja þau aftur til búnaðarsambanda.

13. Nefndir hefja störf
Sveinn Sigurmundsson lagði til að nefndirnar yrðu 2 sem hér segir; Allsherjarnefnd formaður Jóhann Nikulásson, fjárhagsnefnd formaður Páll Eggertsson.

14. Kosningar til Búnaðarþings.
Sigríður Jónsdóttir Arnarholti, lýsti yfir framboði til setu á Búnaðarþingi, vegna þess að hún hefur áhyggjur af dreifbýlisþróun á Íslandi. Aðeins 6,2 % af heildarmannfjölda á Íslandi býr nú í dreifbýli. Stjórnmálaflokkarnir sem buðu fram til Alþingis voru flestir með fólk af höfuðborgarsvæðinu í efstu sætum lista sinna úti á
landi og enginn flokkur um málefni landsbyggðar í stefnuskrá sinni. Stefna BÍ virðist vera að etja bændum saman og eyðileggja kerfið sem við höfum verið að byggja upp. Sumir sjá það sem möguleika að sauðfjárbúskapur á Suðurlandi leggist af. Sunnlendingar geti lifað af með því að stunda ferðaþjónustu. Við erum í samkeppni við alla veröldina og þá er erfitt að þurfa að etja kappi við nágranna.
Þórunn Andrésdóttir, Bryðjuholti kom í pontu og lýsti yfir framboði til setu á Búnaðarþingi.
Jóhann Nikulásson Stóru Hildisey, hefur setið á Búnaðarþingi sl. 8 ár, 5 fyrir LK og 3 fyrir BSSL. Hann hefur áhyggjur af þróun félagskerfisins. Þarf að fara í alsherjar uppstokkun á því og þurfa menn að koma að því með opnum hug. Bændum er að fækka og því er nauðsynlegt að gera eitthvað í málunum. .

15. Viðurkenning til starfsmanna fyrir langa og farsæla starfsævi.
Sveinn talaði um að mesta gæfa hvers fyrirtækis væri að eiga góða starfsmenn og fengu eftirtaldir starfsmenn viðurkenningu fyrir langa og farsæla starfsævi.
Smári Tómasson fyrir 42 ára starf sem frjótæknir
Þorsteinn Ólafsson dýralæknir fyrir 31 árs starf að frjósemi nautgripa og sauðfjár
Kristjáni Bj Jónssyni fyrir 43 ára starf sem jarðræktarráðunautur.

Þorsteinn Ólafsson þakkaði fyrir þessa viðurkenningu. Tilviljanir eru skemmtilegar og af hverju fór hann í sveit í Gnúpverjahrepp, af hverju fór hann að læra dýralækni og fór að vinna við að gera það sem hann var slakastur í þ.e. að fangskoða kýr. Væri mögulega enn dýralæknir í Búðardal, ef hann hefði ekki farið í framhaldsnám. Fór í Hrísey og svo til Kynbótastöðvar Suðurlands, þakkar fyrir að hafa fengið að vinna með öllu þessu góða fólki hér á Suðurland.

16. Tillögur lagðar fram frá nefndum, umræður, afgreiðsla.

Tillaga nr. 1 frá allsherjarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Félagslundi 11. apríl 2017, beinir því til stjórnar að aðildarfélögum sé boði upp á þjónustu (gegn gjaldi) við innheimtu alls árgjalds aðra bókhaldsvinnu og sjái um félagatalið. Samrýmist það samþykktum Búnaðarsambands Suðurlands.
Orðið gefið laust um tillöguna. Enginn tók til máls. Tillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 2 frá allsherjarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Félagslundi Flóa 11.apríl 2017 skorar á fyrirtæki sem eru í vinnslu og sölu á íslenskum landbúnaðarafurðum að merkja vörur sínar á fleiri tungumálum en einungis íslensku, jafnframt að upprunamerkingar séu augljósar á umbúðum.
Greinargerð: Mikil aukning hefur verið á fjölda ferðamanna á Íslandi á síðustu árum. Mörg þekkt dæmi eru um að ferðamenn kaupi landbúnaðarafurðir sem þeir vita ekki hverjar eru vegna ófullnægjandi merkinga. Viljum við því skora á fyrirtæki sem eru í vinnslu og sölu á íslenskum landbúnaðarafurðum að bæta merkingar á vörum sínum þannig að heiti vörunnar, uppruni, innihaldslýsing og notkunarleiðbeiningar komi fram á fleiri tungumálum en einungis íslensku.

Tillaga nr. 3 frá allsherjarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Félagslundi Flóa 11.apríl 2017, beinir því til stjórnar að gera langtímasamning við Matvælastofnun um þau verkefni sem snúa að úttektum í samræmi við búvörusamninga.
Orðið gefið laust um tillöguna. Enginn tók til máls. Tillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

17. Niðurstöður kosninga til Búnaðarþings.
Erlendur Ingvarsson fékk 31 atkvæði, Ragnar Lárusson 30 atkvæði, Ólafur Þorsteinsson 27 atkvæði, Jóhann Nikulásson 24 atkvæði, og Sigríður Jónsdóttir 24 atkvæði og Trausti 22 atkvæði, aðrir fengu færri atkvæði.

Tillaga nr. 4 frá fjárhagsnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Félagslundi, 11. apríl 2017, samþykkir að árgjald til Búnaðarsambands Suðurlands fyrir árið 2017 verði óbreytt kr. 3.000,- á félagsmann.
Orðið gefið laust um tillöguna. Enginn tók til máls. Tillagan var borin upp og samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 5 frá fjárhagsnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Félagslundi 11. apríl 2017, samþykkir að þóknun aðalfundarfulltrúa miðist við sem svarar einföldum dagpeningum ríkisstarfsmanna. Það er kr. 11.200,-
Orðið gefið laust um tillöguna. Enginn tók til máls. Tillagan var borin upp og samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 6 frá fjárhagsnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Félagslundi 11. apríl 2017, samþykkir að laun stjórnarmanna verði kr. 10.000 fyrir hvern stjórnarfund auk dagpeninga samkvæmt ríkistaxta og aksturs kr. 80 pr.km. Formaður fái tvöföld laun og dagpeninga á við aðra stjórnarmenn auk aksturs kr. 80 pr.km. Formaður fái að auki eingreiðslu sem nemur kr. 300.000,-
Orðið gefið laust um tillöguna. Enginn tók til máls. Tillagan var borin upp og samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 7 frá fjárhagsnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Félagslundi 11. apríl 2017, samþykkir fyrirliggjandi fjárhagsáætlun Búnaðarsambands Suðurlands fyrir árið 2017.
Sveinn útskýrði áætlunina, en hluti af áætluðu tapi er kostnaður við þak viðgerð á skrifstofuhúsnæði sem nemur 6 milljónum. Engar utanaðakomandi tekjur hjá Búnaðarsambandinu aðrar en félagsgjöld og greiðsla fyrir úttektarvinnu vegna land- og jarðræktastyrkja.
Erlendur, finnst Sveinn of svartsýnn. Á þessu ári er ætlunin að ganga á sjóði og fækka starfsfólki.
Orðið gefið laust um tillöguna. Enginn tók til máls. Tillagan var borin upp og samþykkt samhljóða.

18. Reikningar bornir undir atkvæði.
Reikningur BSSL fyrir 2016 samþykktur samhljóða með handauppréttingu.

19. Önnur mál.
Erlendur þakkaði fyrir góða kosningu og ætlar að reyna að standa við sitt. Félagskerfið og búvörusamningar er það sem helst brennur á mönnum.
Ragnar þakkar fyrir það traust sem honum er sýnt, óskar nýjum stjórnarmönnum til hamingju með kjörið og hefði heldur kosið að kosningin hefði verið skrifleg. Ætlar að standa vörð um Búnaðarsambandið.
Trausti óskar nýkjörinni stjórn velfarnaðar og þakkar fundinum fyrir kjörið. Hann mun halda vörð um Búnaðarsambandið og félagskerfið. Endurskoðun búvörusamninga er honum ofarlega í huga.
Gunnar fjallar um kúasæðingar og greindi frá að komið hafi tillaga á aðalfund LK að kúasæðingar á Íslandi verði á hendi LK. Hann vill sjá framkvæmd kúasæðinga á vegum búnaðarsambanda og telur góða sátt um það.
Jóhann þakkar traustið við kosningu til Búnaðarþings. Ræddi kúasæðingar og hefur staðið vörð um þessa starfsemi hér á Suðurlandi.Hann er hlynntur samvinnu öflugustu búnaðarsamandanna um rekstur kúasæðinga. BSSL, BSE og BúVest eiga að setjast yfir þetta og vinna að samvinnu um að taka að sér kúasæðingar á landsvísu.
Sveinn bendir á í sambandi þá hugmynd að framkvæmd sæðingastarfsins sé á einni hendi að stjórnun í nærumhverfi er oft auðveldari og skilvirkari en í fjærumhverfi. Ef framkvæmdin er vel unnin heimafyrir og í sátt við bændur er þá ástæða til að breyta því.
Helgi greindi frá niðurstöðu kosninga varamanna til Búnaðarþings en atkvæðin féllu þannig. Þórunn Andrésdóttir 31, Páll Eggertsson 28, Rafn Bergsson, 10, Ágúst Ketilsson 10, Jón Vilmundarson 7, Borghildur Kristinsdóttir 6 og Jökull Helgason með 5 atkvæði.
Fulltrúar Búnaðarsambands Suðurlands á Búnaðarþing til næstu tveggja ára eru;
Gunnar Kr. Eiríksson Túnsbergi sem formaður BSSL, Erlendur Ingvarsson Skarði, Ragnar M. Lárusson Stóra Dal, Ólafur Þ. Gunnarsson Giljum, Jóhann Nikulásson Stóru-Hildisey, Sigríður Jónsdóttir Arnarholti, Trausti Hjálmarsson Austurhlíð.

Til vara; Þórunn Andrésdóttir Bryðjuholti, Páll Eggertsson Kirkjulæk, Rafn Bergsson Hólmahjáleigu, Ágúst Ketilsson Brúnastöðum, Jón Vilmundarson Skeiðháholti, Borghildur Kristinsdóttir Skarði, Jökull Helgason Ósabakka

20. Fundarslit, Gunnar Kr. Eiríksson
Gunnar Kr. Eiríksson fann að félagskerfið brennur á mönnum. Að lokum þakkaði hann fundarmönnum og starfsmönnum góðan fund og óskaði öllum góðrar heimferðar
Fundið slitið kl: 16:57
Helga Sigurðardóttir

back to top