Aðalfundur BSSL 2020

112. aðalfundur

Búnaðarsambands Suðurlands

haldinn 18. nóvember 2020 sem fjarfundur

1. Fundarsetning og ávarp – Gunnar Kr. Eiríksson formaður BSSL.
Gunnar Kr. Eiríksson á Túnsbergi setti fundinn með fjarfundabúnaði kl 13 og bauð fulltrúa og gesti velkomna að skjánum og þar með á fundinn. Hann gerði það að tillögu sinni að Sigurður Eyþórsson framkvæmdastjóri BÍ stýrði fundi og að Gunnar Ríkharðsson starfsmaður BSSL ritaði fundargerð. Formaður fór yfir starf stjórnar á liðnu ári en taldi að kynntar breytingar á skipulagi Bændasamtakanna væru óásættanlegar að sínu mati gagnvart Búnaðarsambandi Suðurlands.

2. Ávarp formanns BÍ – Gunnar Þorgeirsson
Ræddi m.a. um nýtt skipulag Bændasamtakanna og lagði áherslu á samstöðu bænda.
Ræddi tollamál og misræmi í skráningu innflutnings og hugsanlegar breytingar í farvatninu. Sagði frá breytingum á útboði tollkvóta sem gefist hefur illa að mati bænda.
Hulda Brynjólfsdóttir og Kjartan Ólafsson lögðu orð í belg varðandi erindi formanns.

3. Farið yfir kjörbréf – Sigurður Eyþórsson fundarstjóri
Fundarstjóri lét fulltrúa staðfesta viðveru sína við skjáinn. Niðurstaðan var að mættir voru
34 fulltrúar af 44 sem rétt áttu á fundarsetu frá 23 búnaðarfélögum og 5 búgreinafélögum.
Sjá töflu aftast í fundargerð.

4. Reikningar BSSL og skýrsla framkvæmdastjóra: Sveinn Sigurmundsson.
Sveinn fór yfir reikninga Búnaðarsambandsins og helstu lykiltölur dótturfyrirtækjanna ásamt helstu atriðum úr starfseminni.
Rekstrartekjur fyrirtækjanna með Stóra Ármóti eru 334 milljónir en þegar búið er að taka innbyrðis sölu milli fyrirtækjanna út eru það 309,7 milljónir sem er aukning frá fyrra ári úr 291 milljónum. Rekstrargjöld eru 306 milljónir og er því rekstrarhagnaður upp á 3,6 milljónir. Fjármunaliðir skila 5,8 milljónum sem er meira en á fyrra ári. Hagnaður með vaxtatekjum er því 9,5 milljónir króna en eftir skatta er það 9,1 milljónir. Samkvæmt efnahagsreikningi er eigið fé 257,1 milljónir. Eignir eru alls 309 milljónir. Veltufjármunir eru 165,5 milljónir á móti 160,3 milljónir. Eiginfjárhlutfall er 92 %.

Bændabókhaldið veltir 43,8 milljónum og er með 143 þúsund í hagnað.
Kynbótastöð ehf er með veltu upp á 170,3 milljónir og hagnað upp á 4,7 milljónir króna sem er mikill viðsnúningur frá fyrra ári en þá var tæplega 14 milljón króna tap. Sæðingar á Suðurlandi eru með ódýrustu sæðingar á landinu fyrir utan Eyjafjörð.
Búnaðarsambandið er með veltu sem nemur 56,7 milljónum og tap upp á 1,2 milljónir en þegar búið var að taka tillit til dótturfélags og skatta er hagnaður rúmar 9 milljónir.
Rekstrartekjur á Stóra Ármóti voru 63,2 milljónir en rekstrargjöld eru 58,8 milljónir og hagnaður 5,2 milljónir þegar búið er að taka tillit til skatta og fjármagnsliða.

5. Umræður um skýrslur og reikninga og þeir bornir undir atkvæði
Haraldur Einarsson taldi að hafa ætti bíla Kynbótastöðvar í kaskó tryggingu og spurði hvers vegna kosið var að fá úttekt Creditinfo á rekstri BSSL. Sveinn svaraði og sagði að BSSL hafi ekki beðið um neina úttekt og ekki lagt í neinn kostnað vegna hennar.
Ragnar Sigurðsson spurði varðandi tilraunamál á Stóra Ármóti. Sveinn sagði að LBHÍ hafi áhuga á að byggja upp aðstöðu á Hvanneyri en hafi ekki mikinn áhuga á að nýta aðstöðu á Stóra Ármóti.
Samúel spurði hvað hefði verið gert í hagsmunagæslu fyrir bændur á síðasta ári.
Sveinn og Gunnar reifuðu málið en Búnaðarsambandið sinnir margháttuðum verkefnum sem snúa að hagsmunum bænda má þar m.a. nefna hagkvæmar sæðingar bæði fyrir kýr og kindur, úttektir vegna jarðræktar, landgreiðlsna og garðyrkju og auk þess fá félagsmenn 15 % afslátt frá raforkuverði sem á búi eins og Stóra Ármóti nemur 130 þúsundum króna á ári.
Haraldur spurði varðandi framtíðar áform á Stóra Ármóti. Sveinn taldi mikla möguleika á ýmiss konar starfsemi þar fyrir bændur t.d. námskeiðahald og ýmsar athuganir.
Gunnar Þorgeirsson taldi að tengja þyrfti LBHÍ betur við grasrótina þ.e. bændurna sjálfa. Sagði frá erfiðum samskiptum garðyrkjubænda við forsvarsmenn LBHÍ varðandi starfsemi á Reykjum í Ölfusi.
Reikningar BSSL því næst bornir undir atkvæði og samþykktir á rafrænan hátt með öllum greiddum atkvæðum.

6. Oddný Steina Valsdóttir varaformaður BÍ fjallar um tillögur BÍ um breytingar á félagskerfinu.
Í nýjum tillögum er m.a. lagt til að bændur hafi beina sjálfstæða aðild að Bændasamtökum Íslands, en aðild þeirra sé ekki í gegnum mismunandi aðildarfélög eins og nú er í flestum tilvikum. Ennfremur er lagt til að Búgreinafélögin sameinist Bændasamtökunum og þannig megi samþætta starfsemina betur og auka þannig hagkvæmni, skilvirkni og slagkraft samtakanna. Búnaðarsambönd verði áfram landshlutabundin samtök bænda og sinni skýrt skilgreindum verkefnum.

7. Umræður um erindi Oddnýjar.
Kjartan Ólafsson taldi Bændablaðið mjög got, nýta þyrfti betur Stóra Ármót til tilraunastarfsemi og skoða þyrfti vel aðkomu Búnaðarsambanda að fyrirhuguðum samtökum bænda. Spurði út í starfsemi RML og tengsl þess við bændur.
Egill Sigurðsson taldi að það væri verið að ýta Búnaðarsamböndum til hliðar, ætti að nýta betur sterka stöðu þeirra. Fannst þó ýmislegt gott í kynntum tillögum. Samstaða væri nauðsynleg en alltaf myndu þó hagsmunir einstakra búgreina rekast á að einhverju leyti.
Fannst að tengja ætti áhrif innan kerfisins við upphæð félagsgjalds.
Erlendur í Skarði sagði verkefni hafa verið að færast frá Búnaðarsamböndum síðastliðin ár. Ræddi um starfssemi RML og hvort hugsanlega ætti að færa ráðgjafastarfið heima í héraði til Búnaðarsambanda aftur.
Jóhann Nikulásson taldi að kynna þyrfti þessar tillögur um nýtt skipulag félagskerfis betur og þær væru ekki nógu mikið unnar ennþá. Tók undir nauðsyn á samstöðu bænda en lagði áherslu á fjárhagslega öflug samtök og samvinnu við afurðasölufyrirtæki. Vildi nýta Búnaðarsamböndin betur í nýju skipulagi.
Oddný svaraði framkomnum spurningum og vangaveltum. Taldi málið nokkuð vel kynnt og vel unnið í góðu samstarfi við búgreinafélög enda mest að sækja með aukinni samþættingu þeirra og BÍ. Einnig væri hægt að skoða betur hvernig RML tengist best væntanlegum heildarsamtökum.
Gunnar Þorgeirsson formaður BÍ taldi að skilgreina ætti vel hver verkefni búnaðarsambanda ættu að vera. Leist ekki á vel á að veltutengja atkvæðavægi til Búnaðarþings.
Haraldur Einarsson minnti á nauðsyn þess að félagsgjald til samtakanna tryggi fjárhagslegan ávinning félaga og sér ákveðin tækifæri í nýju skipulagi.
Trausti Hjálmarsson þakkaði góðan reksur á fyrirtækjum BSSL. Hann taldi margt gott í nýjum tillögum um félagskerfi og hvatti stjórn BSSL til að vinna að framgangi málsins.
Samúel í Bryðjuholti taldi að bara ein leið ætti að vera fyrir fulltrúa inn á Búnaðarþing.
Egill Sigurðsson ræddi betur um atkvæðavægi og einnig að hagtölusöfnun í landbúnaði þyrfti að bæta.
Páll Eggertsson á Mýrum vildi auka beint lýðræði við kosningar á fulltrúum á Búnaðarþing.
Gunnar Eiríksson þakkaði góða kynningu á málinu. Lagði áherslu á skýra verkaskiptingu Búnaðarsambanda, RML og BÍ. Ræddi einnig um skipan Fagráðs í nautgriparækt og taldi Sunnlendingu standa þar höllum fæti um þessar mundir.
Oddný svaraði. Taldi 5 manna stjórn duga ef Búgreinaráð væri í góðum tengslum við stjórnina. Sagði frá vinnu hóps um verkefni Búnaðarsambanda og taldi nauðsynlegt að þau störfuðu áfram sökum þekkingar á aðstæðum í heimahéraði.
Aðild að BÍ er nú þegar í boði sem bein aðild bónda. Vildi fara varlega í að tengja áhrif við veltu. Lagði áherslu á að það þjónustustig sem hægt væri að bjóða upp á í nýjum samtökum færi eftir þeim slagkrafti sem þau fengju.
Gunnar Þorgeirsson formaður BÍ þakkaði fundarmönnum málefnalega umræðu.

8. Tillögur lagðar fram
a) Tillaga frá stjórn um óbreytt árgjald fyrir árið 2020 eða kr 6.000 á félagsmann
Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum án umræðu.

9. Kosningar.
Kosið um tvo aðalmenn í stjórn og tvo í varastjórn úr Árnessýslu.
Starfandi stjórnar og varamenn gáfu áfram kost á sér. Aðrar tillögur komu ekki fram og voru þau þeir því sjálfkjörnir
Sem aðalmenn í stjórn: Helgi Eggertsson Kjarri og Gunnar Eiríksson Túnsbergi
Sem varamenn: Ragnar Sigurðsson Litla-Ármóti og Þórunn Andrésdóttir Bryðjuholti.

Kosið um tvo skoðunarmenn reikninga til næstu tveggja ára.
Fram kom tillaga um Rafn Bergsson í Hólmahjáleigu og Valdimar Guðjónsson í Gaulverjabæ. Aðrar tillögur komu ekki og voru þeir því sjálfkjörnir.

10. Umræður
Jóhann Nikulásson ræddi um atkvæðavægi og skilgreiningu á því. Ræddi um tilraunastarf á Stóra Ármóti og hvort ætti að leggja aukið fjármagn í að laga aðstöðu þar.
Samúel í Bryðjuholti ræddi um kolefnisjöfnun hjá Kynbótastöðinni.
Kjartan Ólafsson þakkaði gott starf Búnaðarsambandsins og góðan fund en taldi að efla mætti starfið ennfrekar.
Fundarstjóri gaf Gunnari formanni BSSL orðið. Hann þakkaði fundarmönnum traustið við kosningar í stjórn og góðar umræður. Þakkaði og fundarstjóra góða stjórnun og sleit síðan fundi um kl 16:40.

back to top