Aðalfundur BSSL 2010

102. aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands
haldinn 31. ágúst 2010 á Kirkjubæjarklaustri.

1. Fundarsetning, Guðbjörg Jónsdóttir formaður.
Guðbjörg Jónsdóttir setti fundinn og bauð fulltrúa, starfsmenn og gesti velkomna. Minntist á að fundurinn hefði frestast af óviðráðanlegum orsökum og óskaði eftir athugasemdum við að fundartíminn færi á skjön við samþykktir BSSL. Engar athugasemdir bárust. Minntist látinna félaga á sl. ári, Hjalta Gestsonar ráðunautar og Júlíusar Jónssonar bónda og fyrrverandi stjórnarmanns. Fundarmenn risu úr sætum og vottuðu þeim virðingu sína. Því næst kynnti hún tillögu um skipan starfsmanna á fundinum; Ólafur Helgason, Hraunkoti, sem fundarstjóra og Eggert Þröstur Þórarinsson sem fundarritara. Tillagan samþykkt. Ólafur þakkaði traustið og bauð fundarmenn velkomna á Kirkjubæjarklaustur.

2. Skipan kjörbréfanefndar, Sveinn Sigurmundsson framkvæmdastjóri.
Sveinn Sigurmundsson bar upp tillögu um skipan kjörbréfanefndar; Kjartan Magnússon, Fagurhlíð, Ágúst Rúnarsson, Vestra-Fíflholti, og Bjarni Þorkelsson, Þóroddsstöðum. Tillagan samþykkt.

3. Skýrsla stjórnar, Guðbjörg Jónsdóttir formaður.
Guðbjörg fer yfir síðasta starfsár. Þar bar hæst eldgos fyrst á Fimmvörðuhálsi og síðar í Eyjafjallajökli. Starfsmenn BSSL hafa frá upphafi eldsumbrotanna lagt sig fram um að veita bændum á svæðinu sem mesta aðstoð. Aðstoðin hefur verið fjölþætt allt frá aðstoð við flutninga búfjár yfir í ráðgjöf og mat á tjóni. Guðbjörg minntist einnig á að BSSL hefði haldið áfram með öfluga fjármálaráðgjöf við bændur í kjölfar efnahagshrunsins. Þau mál væru viðkvæm og lausnir lægju ekki alltaf í augum uppi. Samhliða þessu hefði hefðbundnum störfum BSSL verið sinnt af kostgæfni.
Á sl. starfsári hefðu verið haldnir 6 stjórnarfundir. Skipan stjórnarinnar hefði verið óbreytt frá fyrra starfsári. Guðbjörg fór yfir tillögur frá síðasta aðalfundi og greindi frá afdrifum þeirra. Kom inn á störf í nefnd um sameiningu/samvinnu búnaðarsambandanna á landsvísu. Hún taldi ekki ástæðu fyrir BSSL að draga vagninn í sameiningu ráðgjafaþjónustunnar nema að augljósar fjárhagslegar og faglegar forsendur lægðu þar að baki. Guðbjörg fór einnig yfir stöðu á búnaðarlagasamningsins sem rennur út í lok þessa árs. Kom að lokum inn á ákvörðun Alþingis að sækja um aðild að ESB.

4. Reikningar BSSL og skýrsla framkvæmdastjóra, Sveins Sigurmundssonar.
Sveinn fór í upphafi í gengum reikninga BSSL fyrir árið 2009. Hagnaður nemur 24,6 milljónum og stjórn BSSL leggur til að þetta verði fært til hækkunar á eigin fé sambandssins. Lykiltölur úr rekstrarreikningi samstæðunnar, án dótturfélagsins Stóra-Ármóts, sýna tekjur alls upp á um 220,5 milljónir og rekstrargjöld upp á um 205,5 milljónir. Hagnaður af reglulegri starfssemi var um 15 milljónir. Fjármagnstekjur voru jákvæðar um tæpar 7,8 milljónir og tekjuskattur er um 2,2 milljónir. Hagnaður án dótturfélaga er um 20,6 milljónir. Stóra-Ármót er með hagnað upp á tæpar 4 milljónir, sem er nokkur viðsnúningur frá fyrri árum. Alls er því hagnaður upp á 24,6 milljónir. Fjármagnstekjur hafa þarna nokkur áhrif. Almennt þá lækkuðu gjöld og tekjur hækkuðu. Efnahagsreikningur sýnir eignir alls upp á rúmar 230 milljónir og skuldir upp á 23,6 milljónir.

Eftir að hafa farið í gengum reikninga samstæðunnar fór Sveinn yfir hvert fyrirtæki fyrir sig. Aðildarfélögum BSSL fækkaði um eitt á árinu. Félag skógarbænda sagði sig úr sambandinu, aðildarfélögin eru 38 í dag. Tekjur af búnaðargjaldinu jukust verulega frá fyrra ári, voru um 39% af heildartekjum sambandsins. Seld þjónusta var um 25% af heildartekjum, þar eru hrossasýningarnar að skila mestu. Sauðfjársæðingarstöðin er með halla upp á 1,6 milljónir. Sent var í fyrsta skipti fryst sæði til Noregs. Útflutningi haldið áfram til USA. Kynbótastöðin var með hagnað upp á 8,3 milljónir. Kostnaður á sæðingu var tæplega 4.000 kr. Á sl. starfsári voru klaufskornar tæplega 2.000 kýr á um 80 búum. Stóra-Ármót er með hagnað upp á tæpa 4 milljónir. Rekstur búsins á síðasta ári gekk mjög vel og fékk búið m.a. umhverfisverðlaun Flóahrepps. Opið hús var á búinu á vormánuðum. Athugun á lystugleika á fóðri af öskufallssvæðinu er í gangi. Bændabókhaldið var með tap upp á tæplega 200.000 kr. Virðisaukaskýrslur færðar fyrir 95 bændur. Skattframtöl fyrir 168 bændur og um 350 einstaklinga. Í lok rekstraryfirlitanna kom Sveinn inn á stöðu afmælissjóðs BSSL og LÍ.

Í skýrslu sinni fór Sveinn yfir starf BSSL tengda eldgosinu í Eyjafjallajökli. Þakkaði sértaklega fyrir samvinnu og samstarf við BÍ, sérlega Eirík Blöndal framkvæmdastjóra BÍ. Minntist á ráðunautaferð á gossvæðið 12. – 13. maí. Taldi að starfsmenn BSSL hefðu gert það sem hægt væri. Alls hefði BSSL lagt til um 2.000 vinnustundir vegna gossins. Um 1.600 fullorðnar kindur hefðu verið fluttar austur í Skaftárhrepp vegna gossins á vegum BSSL. Kom inn á möguleika á heymiðlun. Birgðir á gossvæðinu þrátt fyrir 20% afföll af birgðum hefðu verið til um hálfsárs. Spurningin væri hins vegar um gæði heysins. Bjargráðasjóður hefur þegar greitt út rúmlega 40 milljónir og um 10 milljónir liggja óafgreiddar. BSSL hefur greitt fyrir fjárflutningana og Bjargráðasjóður mun bæta það tjón beint til BSSL. Mikil vinna er framundan í úttektum. Kom inn á afleysingaþjónustu á gossvæðinu. Um er að ræða hugmynd og hugverk Eiríks Blöndal. Mögulega fjármagnað af gjafafé frá norskum bændum. Langtímaáhrif á búpening væri hins vegar óljós. Framundan eru hefðbundin hauststörf í sauðfjárræktinni, tjónamat fyrir Bjargráðasjóð, úttektir þróunarverkefna, fóðurleiðbeiningar, túnkortagerð og þannig mætti áfram telja. Kom eilítið inn á framtíð búnaðarlagasamningsins og búnaðargjaldsins. Tekjustofnar BSSL af þessu þáttum væru í uppnámi. Taldi að lokum að öll él stytti upp um síðir, hvort sem væri vetur eða eldgos.

5. Umræður um skýrslur og reikninga.
Fundarstjóri gaf því næst orðið laust og hvatti fundarmenn til að taka til máls. Enginn hvaddi  sér hljóðs.

6. Ávörp gesta.
Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtaka Íslands.
  Í  máli Haraldar kom fram að eldgosið í Eyjafjallajökli hefði sameinað íslensku bændastéttina á sl. mánuðum. Fór því næst yfir framlög frá ríkinu. Trúir því að staðið verði við búvörusamningana, frá sl. vori. Hætta á að niðurskurðurinn verði líklega sóttur í aðra liði er tengjast landbúnaðnum. Þar er búnaðarlagasamningurinn undir hnífnum, en hann er opinn frá næstu áramótum. Nýr samningur er væntanlegur á haustmánuðum. Boðar verulegar skerðingar. Taldi að hugsa þyrfti ráðgjafastarfssemina upp á nýtt. Framlög til LSB hafa verið skert um 50% frá árinu 2009. Engir samningar hafa staðið um framlögin til LSB mjög lengi. Því bein kjaraskerðing við íslenska bændur. Starfshópur hefur verið skipaður um sjóðinn en engin niðurstaða liggur fyrir. LSB á ágætlega fyrir sínum skuldbindingum, vandi sjóðsins liggur aðallega í lágum inngreiðslum sjóðsfélaga. Vísir að jarðakaupalánum hjá LSB í dag. Telur að LSB þurfi að vera óháður framlögum frá ríkinu. Innheimta búnaðargjaldsins er í uppnámi eftir dóm Mannréttindadómsstóls Evrópu um iðnaðarmálasjóðsgjaldið nú í sumar. Dómurinn taldi að félagafrelsi þyrfti að ríkja og verkefni sem fjármögnuð væru með slíkum gjöldum þyrftu að vera yfir allan vafa hafin fyrir stéttina. Endurskoða þarf löggjöfina um búnaðargjaldið og mögulega þarf að breyta hvernig ráðstöfun þeirra fjármuna sem á sér stað í dag. Taldi að ESB umsóknin og samningaferlið væri í raun aðlögunarferli. Vilji BÍ til að taka þátt í umræðunni um ESB er óbreyttur. Taldi almennt að umræða um landbúnaðarmál væri í einhverjum tilvikum á villigötum. Því tengt er fyrirhugað að auka dreifingu á Bændablaðinu. Ef íslenska búvaran hefði hækkað um 10% á sl. 12 mánuðum væri hækkun á meðalskuldum íslenskra heimila um hálf milljón á heimili. Ávinninginn af tollverndinni væri almenningur að taka út. Taldi að ávinningur af góðri félagslegri samstöðu væri ávinningur fyrir stéttina í heild. Að lokum kom Haraldur inn á stjórnlagaþing sem kosið verður til á næstu vikum og taldi að afar mikilvægt að borin yrði virðing fyrir eignar- og afnotarétti í þeirri vinnu sem þar væri framundan.

Eiríkur Blöndal framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands  þakkaði fyrir boðið á fundinn. Efst í huga hans er eldgosið í Eyjafjallajökli og afleiðingar þess. Taldi að mest hefði mætt á Sveini Sigurmundssyni framkvæmdastjóra BSSL í þessari vinnu. Kom inn á ráðunautaferð á gossvæðið 12. – 13. maí sl. Telur að þetta sýna og sanni tilverurétt ráðgjafaþjónustu í eigu bænda. Kom inn á samstarf við norsku bændasamtökin til að mynda sjóð til stuðnings fyrir íslenska bændur. Komið hefur verið á fót afleysingaþjónustu og orlofssjóði. Söfnuninni lýkur á næstu dögum. Framhald á þessu samstarfi kemur í ljós á næstu vikum.

7. Frá Stóra Ármóti, Grétar Hrafn Harðarson, tilraunastjóri.
Sagði í upphafi að mikill niðurskurður væri á tilraunastarfi LBHÍ. Fór yfir helstu verkefni í tilraunastarfssemi í nautgriparækt sem eru í gangi eða nýlega lokið. Meginverkefnið á Stóra Ármóti er samspil fóðrunar, afurða og heilsufars. Fór nokkuð nákvæmlega yfir hvern þessara þátta. Meðalafurðir hefðu aukist verulega og þannig aukist hagkvæmnin í framleiðslunni. Gæði í gróffóðrinu hefðu aukist og samhliða aukinni kjarnfóðurgjöf, þar sem bygg spilaði orðið verulegan þátt, hefur orðið veruleg aukning í framleiðslu á grip. Telur að bygg geti ýtt út maís úr fóðri mjólkurkúa á Íslandi. Kynnti verkefnið kvígur 24, markmið að nýta vaxtagetu gripanna sem best og áhrif mismunandi fóðrunar. Meðal burðaraldur á Íslandi er um 28-30 mánuðir. Markmiðið á að vera að kvígurnar beri nálægt 24 mánaða aldurinn. Þetta myndi auka hagkvæmni verulega og auka afurðir. Nú er að hefjast verkefni um júgurhreysti, sem snýst um áhrif bóluefnis á júgurhreystis. Nú í sumar var gerð athugun á sýrustigslækkun í heyi af gossvæðinu. Fram kom að sýrustiglækkun í heyi frá Þorvaldseyri var ekki ásættanlegt en í Eystri-Pétursey, Bollakoti og Þjórsárnesi var lækkunin eðlileg. Varðandi lystugleikann virðist þurrkstigið hafa meiri áhrif en askan. Almennt virðist heyið á gossvæðinu innihalda járn í fullmiklu mæli. Það getur valdið eitrunaráhrifum.
8. Umræður og fyrirspurnir.
Fundarstjóri gaf orðið laust. Þórir Jónsson, Selalæk. Spurði hvort BÍ ætlaði að svara niðurskurðinum sem framundan er með ákveðnum hætti, t.d. með því að virkja Búnaðarþing.

9. Kjörbréfanefnd skilar áliti.
Bjarni Þorkelsson, Þóroddsstöðum, formaður nefndarinnar tók til máls. Rétt til setu eiga 32 búnaðarfélag, þar af 2 með 2 fulltrúa. Búgreinafélögin 6 eiga rétt á 18 fulltrúum. Kjörbréf eru lesin upp og í ljós kemur að eftirfarandi fulltrúar eru mættir:

Búnaðarfélag Gaulverjabæjarhrepps
Enginn fulltrúi.

Búnaðarfélag Stokkseyrarhrepps
Sigurfinnur Bjarkarson, Tóftum.

Búnaðarfélag Sandvíkurhrepps
Ólafur Kristjánsson, Geirakoti.

Búnaðarfélag Hraungerðishrepps
Gísli Hauksson, Stóru-Reykjum

Búnaðarfélag Villingaholtshrepps
Reynir Jónsson, Hurðarbaki

Búnaðarfélag Skeiðahrepps
Jón Vilmundarson, Skeiðháholti.

Búnaðarfélag Gnúpverjahrepps
Björgvin Harðarson, Laxárdal 1a.

Búnaðarfélag Hrunamannahrepps
Aðalsteinn Þorgeirsson, Hrafnkelsstöðum.
Sigurjón Sigurðsson, Kotlaugum.

Búnaðarfélag Bláskógabyggðar
Óttar Bragi Þráinsson, Miklaholti.
Theódór Vilmundarson, Efstadal.

Búnaðarfélag Þingvallahrepps
Gunnar Þórisson, Fellsenda.

Búnaðarfélag Grímsneshrepps
Björn Snorrason, Björk II.

Búnaðarfélag Grafningshrepps
Sigurður Hannesson, Villingavatni.

Búnaðarfélag Ölfushrepps
Pétur Guðmundsson, Hvammi.

Búnaðarfélag Eyrabakka
Enginn fulltrúi.

Búnaðarfélag A-Eyjafjallahrepps
Enginn fulltrúi.

Búnaðarfélag V-Eyjafjallahrepps
Ragnar Lárusson, Stóra-Dal.

Búnaðarfélag A- Landeyjahrepps
Enginn fulltrúi.

Búnaðarfélag V-Landeyjahrepps
Ágúst Rúnarsson, Vestra-Fíflholti.

Búnaðarfélag Fljótshlíðarhrepps
Páll Eggertsson, Arngeirsstöðum.

Búnaðarfélag Hvolhrepps
Enginn fulltrúi.

Búnaðarfélag Rangárvallahrepps
Viðar Hafsteinn Steinarsson, Kaldbak.
Búnaðarfélag Landmannahrepps
Hannes Ólafsson, Austvaðsholti.

Búnaðarfélag Holtahrepps
Daníel Magnússon, Akbraut.

Búnaðarfélag Djúpárhrepps
Enginn fulltrúi.

Búnaðarfélag Ásahrepps
Egill Sigurðsson, Berustöðum.

Búnaðarfélag Hörgslandshrepps
Jón Jónsson, Prestbakka.

Búnaðarfélag Kirkjubæjarhrepps
Kjartan Magnússon, Fagurhlíð.

Búnaðarfélag Álftavers
Páll Eggertsson, Mýrum.

Búnaðarfélag Leiðvallahrepps
Einar Jónsson, Efri-Steinsmýri.

Búnaðarfélag Skaftártungu
Sigurður Ómar Gíslason, Hemru.

Búnaðarfélag Hvammshrepps
Guðni Einarsson, Þórisholti.

Búnaðarfélag Dyrhólahrepps
Sigurjón Eyjólfsson, Eystri- Pétursey.

Félag sauðfjárbænda í Árnessýslu
Þorsteinn Logi Einarsson, Egilsstaðarkoti.
Margrét Ósk Ingjaldsdóttir, Þjórsárnesi.

Félag sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu
Guðrún Stefánsdóttir, Hlíðarendakoti.
Baldur Björnsson, Fitjamýri.
Oddný Steina Valsdóttir, Butru.

Félag sauðfjárbænda í V-Skaftafellssýslu
Fanney Ólöf Lárusdóttir, Kirkjubæjarklaustri.

Loðdýraræktarfélag Suðurlands
Enginn fulltrúi.

Hrossaræktarsamtök Suðurlands
Helgi Eggertsson, Kjarri.
Þuríður Einarsdóttir, Oddgeirshólum.
Bertha Kvaran, Miðhjáleigu.
Bjarni Þorkelsson, Þóroddsstöðum.
Gísli Kjartansson, Geirlandi.

Félag kúabænda á Suðurlandi
Þórir Jónsson, Selalæk.
Arnheiður D. Einarsdóttir, Guðnastöðum.
Ólafur Helgason, Hraunkoti.
Elín B. Sveinsdóttir, Egilsstaðakoti.
Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ.

Mættir eru 44 fulltrúar.

Álit kjörbréfanefndar er samþykkt samhljóða.

Kaffihlé.

10. Tillögur lagðar fram og kynntar.
Fyrirliggjandi tillögum er fylgt úr hlaði, frá stjórn Búnaðarfélags Gnúpverja, Björgvin Harðarson, Laxárdal 1a, og fundastjóri las upp tillögur frá Félagi kúabænda á Suðurlandi. Sveinn Sigurmundsson, framkvæmdarstjóri BSSL, tekur til máls og gerir tillögur um skipan nefndarmanna í fagnefndir. Fyrirliggjandi tillögum er vísað til allsherjanefndar og fyrirliggjandi fjárhagsáætlun er vísað til fjárhagsnefndar.

Nefndastörf hefjast.

11. Kosningar.
Kjósa á um 1 stjórnarmann og 1 í varastjórn úr Vestur-Skaftafellssýslu. Guðni Einarsson, Þórisholti, baðst undan endurkjöri. Fundarstjóri bar upp tillögu um Jón Jónsson, Prestbakka, sem aðalmann og Sigurjón Eyjólfsson, Eystri-Pétursey, sem varamann. Samþykkt samhljóða.

Þá var kosið um 5. varamann til Búnaðarþings. Guðrún Stefánsdóttir í Hlíðarendakoti bar upp að auka þyrfti veg hrossabænda í fulltrúum Suðurlands á Búnaðarþingi og stingur upp á Vigni Siggeirssyni, Hemlu. Samþykkt samhljóða.

Að lokum var kosinn löggiltur endurskoðandi. Stungið er upp á úr sal Arnóri Eggertssyni. Samþykkt samhljóða.

12. Tillögur lagðar fram frá nefndum, umræður og afgreiðsla.
Fyrir allsherjarnefnd fór Egill Sigurðsson, Berustöðum, fyrir fjárhagsnefnd fór Jón Vilmundarson, Skeiðháholti, og fyrir fagmálanefnd fór Fanney Ólöf Lárusdóttir, Kirkjubæjarklaustri.

Tillögur allsherjarnefndar voru fyrst lagðar fram.
Björgvin Harðarson, Laxárdal 1a, bar upp tillögu nr. 1 frá allsherjarnefnd.

Tillaga nr. 1 frá allsherjarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn á Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 skorar á stjórnvöld og Bændasamtök Íslands að tryggja innlendri kornrækt eðlilegt starfsumhverfi. Íslenskum landbúnaði verði þannig gert kleift að nýta betur sóknarfæri með aukinni kornrækt og gjaldeyrissparnaði fyrir þjóðarbúið.

Greinargerð
Á undanförnum árum hafa orðið stórstígar framfarir í innlendri kornrækt. Með aukinni þekkingu og reynslu bænda af kornrækt hafa myndast sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað, sem mikilvægt er að hlúa að. Þannig liggur fyrir að hægt er að auka notkun byggs við mjólkurframleiðslu og stórefla hlutdeild byggs í fóðri svína. Einnig er hægt að nota umtalsvert magn af byggi í loðdýrarækt og við kjúklingaeldi.
Bændur hafa lagt áherslu á þá stefnumótun að akuryrkja þróist samhliða annarri búvöruframleiðslu, með það að markmiði að stuðla að hagkvæmari framleiðslu í landinu á grundvelli innlendrar fóðuröflunar og landnýtingar. Með því skapast augljóst sóknarfæri sem skylt er að nýta eins og kostur er, ekki síst m.t.t. fæðuöryggis þjóðarinnar, gjaldeyrissparnaðar og nýtingar landgæða.
Tryggja þarf að innlend kornframleiðsla njóti sambærilegra styrkja og innflutt korn.
Á Suðurlandi hefur umfang kornræktar á afmörkuðum svæðum aukist verulega. Reynslan af því sýnir að hægt er að auka kornrækt á Suðurlandi, þar sem verulegt landrými er til staðar.

Samþykkt samhljóða.

Egill Sigurðursson, Berustöðum, formaður allsherjarnefndar bar upp tillögur nr. 2-5 frá allsherjarnefnd.

Tillaga nr. 2 frá allsherjarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 skorar á Bændasamtök Íslands að hlutast til um að ekki sé settar á markað kjötafurðir langt undir framleiðsluverði.

Greinargerð
Veruleg röskun á kjötmarkaðnum hefur orðið vegna offramboðs á svínakjöti sem er vegna tilstuðlans fjármálastofnana. Þetta hefur haft áhrif á allan kjötmarkaðinn. Það eru liðin rúm sjö ár síðan svipað ástand á kjötmarkaðinum kom upp og þá einnig vegna óeðlilegrar afskipta fjármálastofnunar af framleiðslu á kjötafurðum.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 3 frá allsherjarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 hvetur Búnaðarsamband Suðurlands til að veita bændum nú sem hingað til upplýsingar og ráðgjöf í samskiptum við fjármálastofnanir í lánamálum sínum, eftir því sem kostur er.

Greinargerð
Ráðunautar Búnaðarsambands Suðurlands hafa unnið gott starf síðan hrunið varð, lögð verði áhersla á að þeirri vinnu og þeim stuðningi sé haldið áfram. Það virðist vera að langt sé í land með niðurstöðu á gengistryggðum lánum bænda sem og annarra. Einnig er fyrirgreiðsla banka mjög misvísandi.

Orðalagsbreyting Daníels Magnússonar, Akbraut, samþykkt. Tillagan svo samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 4 frá allsherjarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 styður eindregið þá breytingu á búvörulögum sem liggur nú fyrir Alþingi og að sú breyting verði samþykkt sem fyrst á komandi haustþingi.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 5 frá allsherjarnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 skorar á Bændasamtök Íslands að beita sér með markvissari hætti til að standa vörð um réttindi bænda í samningum við ríkisvaldið á næstu mánuðum. Jafnframt að halda úti markvissari kynningu á stöðu bænda og kjörum þeirra. Fundurinn mótmælir skerðingu á mótframlagi til Lífeyrissjóðs bænda á núverandi fjárlögum, sem og hugsanlegri skerðingu á öðrum samningum við bændur.

Samþykkt samhljóða.

Jón Vilmundarson, Skeiðháholti, formaður fjárhagsnefndar bar upp tillögur nefndarinnar. Fór nokkuð ýtarlega yfir forsendur fyrirliggjandi fjárhagsáætlunar í upphafi.

Tillaga nr. 6 frá fjárhagsnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 samþykkir fyrirliggjandi fjárhagsáætlun BSSL fyrir árið 2010.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 7 frá fjárhagsnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 leggur til að við gerð fjárhagsáætlunar Kynbótastöðvar Suðurlands fyrir árið 2010 verði sæðingagjöld, kr 1.000,- á kú.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 8 frá fjárhagsnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 samþykkir óbreytt árgjald til BSSL, alls kr. 1.000,- á félagsmann.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 9 frá fjárhagsnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 samþykkir að þóknun aðalfundarfulltrúa miðist við dagpeninga ríkisstarfsmanna. Miða skal við fæðispeninga heilan dag og minnst 10 tíma ferðalag (nú kr 8.750,-) x 2, (þ.e. nú 17.500,-).

Samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 10 frá fjárhagsnefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 samþykkir að laun stjórnarmanna verði kr. 10.000,- fyrir hvern stjórnarfund auk dagpeninga og aksturs samkvæmt ríkistaxta og framreiknað með vísitölubreytingum samkvæmt grunni í launavísitölu frá apríl 2005. Formaður fái tvöföld laun og dagpeninga á við aðra stjórnarmenn auk aksturs. Formaður fái að auki eingreiðslu sem nemur kr. 150.000,- miðað við árið 2003 sem framreiknast með launavísitölu.

Samþykkt samhljóða.

Fanney Ólöf Lárusdóttir, Kirkjubæjarklaustri, formaður fagmálanefndar tók því næst til máls og bar upp tillögur nr. 11 og nr. 12 frá fagmálanefnd.

Tillaga nr. 11 frá fagmálanefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 lýsir yfir ánægju sinni með skjót viðbrögð almannavarna, fagaðila og sjálfboðaliða vegna eldgoss í Eyjafjallajökli. Fundurinn þakkar fyrir alla þá miklu vinnu og aðstoð sem íbúar fengu hjá þessum aðilum á áhrifasvæði gossins í Eyjafjallajökli.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 12 frá fagmálanefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 sendir kærar kveðjur til norskra bænda með innilegu þakklæti fyrir þann samhug og stuðning sem þeir hafa sýnt bændum við Eyjafjallajökul, m.a. með myndarlegri fjársöfnun í Noregi vegna eldgossins 2010.

Samþykkt samhljóða.

Guðrún Stefánsdóttir, Hlíðarendakoti, bar upp tillögu nr. 13 frá fagmálanefndar.

Tillaga nr. 13 frá fagmálanefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 beinir því til Matvælastofnunar að rannsökuð verði áhrif ösku og flúors á búfénað vegna eldgossins í Eyjafjallajökli, sérstaklega m.t.t. lungna, meltingarfæra og beina ungviðis.

Nokkur umræða um orðalag. Tillagan svo samþykkt samhljóða.

Margrét Ósk Ingjaldsdóttir, Þjórsárnesi, bar upp tillögu nr. 14 frá fagmálanefndar.

Tillaga nr. 14 frá fagmálanefnd.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 samþykkir að stjórn BSSL beiti sér fyrir því að farið verið yfir stöðu mála vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Mætti þar nefna það sem betur mætti fara í viðbrögðum og upplýsingaöflun. Auk þess verði könnuð langtímaáhrif á búfénað, vélar og fleira. Leitað verði eftir áliti bænda á áhrifasvæði gossins.

Umræður urðu um orðalag tillögunnar. Dagskrárliðir 13. og 14. voru afgreiddir meðan tillagan var umorðuð. Samþykkt að lokum eftir nokkrar umræður um orðalagsbreytingar.

13. Reikningar bornir undir atkvæði.

Reikningur BSSL fyrir 2009 samþykktir samhljóða.

14. Guðlaug Jónsdóttir, formaður bað um orðið.
Heiðraði Ólöf Karlsdóttir fyrir vel unnin störf í þágu BSSL. Ólöf lét af störfum hjá sambandinu á árinu eftir að hafa starfað á skrifstofu sambandsins á Selfossi árum saman.

15. Önnur mál.
Ragnar Lárusson, Stóra-Dal. Hann óskaði Jóni Jónssyni til hamingju með kosningu til stjórnar og þakkaði Guðna Einarssyni fyrir vel unnin störf og samstarf sl. ára.

Jón Jónsson, Prestbakka, þakkaði traustið með kosningu sinni til stjórnar.

Guðrún Stefánsdóttir, Hlíðarendakoti, skoraði á fundarmenn að skora á stjórn BSSL að haldinn yrði sérstakur fundur um stöðuna í ESB umsókninni.

Guðni Einarsson, Þórisholti, óskaði nýjum stjórnarmönnum til hamingju með kosninguna og þakkaði stjórninni fyrir samstarfið sl. ár. Sérstaklega þakkaði Guðni framkvæmdastjóra BSSL, Sveini Sigurmundssyni, fyrir samstarfið á liðnum árum. Þakkaði framkvæmdastjóranum það hversu stöðugur og góður rekstur BSSL sé. Mikilvægt sé að hlúa að þessu félagi og rekstri þess.

16. Fundarslit.
Guðbjörg Jónsdóttir, formaður. Þakkaði Guðna fyrir stjórnarsetuna og vel unnin störf. Óskaði jafnframt Jóni Jónssyni til hamingju með kosninguna. Þakkaði fundarmönnum fyrir fundarsetuna. Þakkaði ábendinguna frá Guðrún í Hlíðarendakoti. Taldi mikilvægt að bændur væru í stöðugu sambandi við stjórnarmenn til að koma að ábendingum.

 

Fundið slitið kl: 18:57.
Eggert Þ. Þórarinsson.

back to top