Aðalfundur BSSL 2009

101. aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands,
Haldinn 17. apríl 2009 í Árhúsum við Hellu

1. Fundarsetning, Egill Sigurðsson varaformaður.
Egill Sigurðsson setti fundinn og bauð fulltrúa, starfsmenn og gesti velkomna. Hann bar fundarmönnum kveðju Guðbjargar Jónsdóttur formanns BSSL sem er vant við látin. Því næst kynnti hann tillögu um skipan starfsmanna á fundinum; Þóri Jónsson, Selalæk, sem fundarstjóra og Eggert Þröst Þórarinsson sem fundarritara. Tillagan samþykkt. Skipun kjörbréfanefndar; Helgi Eggertsson, Kjarri, Guðrún Stefánsdóttir, Hlíðarendakoti, og Jón Jónsson, Prestbakka. Tillagan samþykkt. Guðmundur Jóhannesson ráðunautur er skipaður yfirmaður talninganefndar. Starfsmenn fundarins taka þegar til starfa. Þórir tekur til máls og býður fundarmenn velkomna.

2. Skýrsla stjórnar, Egill Sigurðsson varaformaður.
Egill fer yfir síðasta starfsár sem var 100 ára afmælisár BSSL. Gefin var út bók um sögu sambandsins rituð af Páli Lýðssyni og haldin landbúnaðarsýning á Gaddstaðaflötum. Þakkaði hann starfsmönnum sambandsins fyrir óeigingjarnt starf við sýninguna. Áréttaði að mikilvægt væri að halda slíkar sýningar reglulega. Rekstur BSSL á síðasta ári gekk vel þrátt fyrir eilítið tap sem framkvæmdastjóri gerir betur grein fyrir síðar. Egill áréttaði að ekki væri markmið með rekstri sambandsins að skila afgangi í rekstri heldur að vera með öfluga ráðgjafaþjónustu.
Því næst fór Egill yfir þróun landbúnaðar á Suðurlandi sl. 20 ár. Þar koma hann víða við, meðalstærð kúabúa hefði stækkað hratt síðustu ár samfara fækkun búa. Í sauðfjárræktinni hefur sauðfé á Suðurlandi fækkað nokkuð, sérlega í Árnessýslu. Hrossum á svæðinu hefur fjölgað nokkuð en stöðugum fjölda virðist hafa verið náð. Í svínarækt hefur framleiðendum fækkað mikið en framleiðslan verið nokkuð stöðug. Ylrækin er mjög sterk á Suðurlandi, sérlega í uppsveitum Árnessýslu og Ölfusi. Því næst fór hann yfir skiptingu búnaðargjalds eftir búgreinum. Sem hlutfall af landsframleiðslunni er Suðurland með um 80% í kartöflurækt, gulrófum og grænmeti og um 40% í hrossaafurðum og nautgriparækt. Minna í öðrum greinum.
Fram á veginn taldi Egill að stærsta verkefnið framundan væri ytra umhverfi landbúnaðarins. Fáar greinar færu jafn illa út úr efnahagsþrengingum og landbúnaður þar sem velta væri bæði lítil og hæg. Öllum væri ljóst mikilvægi matvæla- og fæðuöryggis. Allar þjóðir þyrftu að hafa á að skipa öflum landbúnaði. Öll umræða um að þetta væri æxli í samfélaginu væri þögnuð, þess í stað væri talað um matvælaöryggi, fæðuöryggi og gjaldeyrissparnað af greininni. Inn á við væri margir skuldsettir eftir uppbyggingu síðustu ára. Bæði þyrfti að koma til almennar aðgerðir og aðgerðir gagnvart einstaka býlum. Forgangsverkefni væri að að bankakerfið kæmist í viðunandi lag.
Varðandi aðildarfélög BSSL væru væru menn farnir að huga að því að sameina búnaðarfélögin til að þau yrðu öflugri í tækjakaupum og öðru slíku, til hagsbóta fyrir bændur.
Að lokum kom Egill inn á að áfram yrði það metnaðarmál BSSL að reka sem öflugasta ráðgjafaþjónustu. Stóra-Ármót þyrfti að nýta betur og koma upplýsingum þaðan betur á framfæri við bændasamfélagið. Þakkaði hann starfsfólki BSSL og bændum fyrir samstarf og samvinnu á liðnu ári. Sérstaklega þakkaði hann Sveini Sigurmundssyni framkvæmdarstjóra samstarf síðastliðins árs.

3. Reikningar BSSL og skýrsla framkvæmdastjóra, Sveins Sigurmundssonar.
Sveinn bauð fundarmenn velkomna og þakkaði Agli fyrir hlý orð. Sveinn minntist, til viðbótar við áðurnefnda atburði sl. árs hjá Agli, á jarðskjálftann sem skók Suðurland sl. vor. Hann fór því næst í gegnum reikninga hvers fyrirtækis BSSL fyrir sig. Fyrst aðalskrifsstofu BSSL sem sýndi að tekjur hafa aukist nokkuð milli ára. Laun og launatengd gjöld hafa einnig aukist nokkuð. Sem skýrist að mestu af samkeyrslu launa fyrir Samband garðyrkjubænda. Niðurstaðan var jákvæð um 456 þúsund fyrir fjármagnsliði. En þó nokkuð tap er af fjármagnsliðum vegna bankahrunsins, rúmar 10 milljónir og tap ársins því um um 9,2 milljónir. Sveinn fór því næst yfir tekjuskiptingu BSSL milli einstakra tekjuliða. Bæði sjóðagjöld, framlög frá ríkinu og útselda þjónustu. Landbúnaðarsýningin var með tekjur upp á um 26,9 milljónir en gjöld upp á um 29,6 milljónir. Tap því upp á um 2,7 milljónir en það er nánast eingöngu launakostnaður starfsmanna BSSL. Sveinn þakkaði sérstaklega fyrirtækjum sem styrktu sýninguna með raunsnarlegum framlögum og sýningin hefði verði öllum til sóma. Hjá BSSL hefðu um 3.000 tímar farið í sýninguna sem eðlilega hefði komið niður á ráðgjafastörfunum. Sauðfjársæðingastöðin er að velta rúmum 10 milljónum. Tap ársins er um 500 þúsund en markmiðið er núll rekstur. Sveinn lýsti ánægju sinni með rekstrarniðurstöðuna og fór yfir það helsta sem bar á góma í rekstrinum á árinu. Markmið Kynbótastöðvarinnar var að ganga á sjóðina og skila honum aftur til bænda. Tekjur koma af klaufskurðinum, sæðistekjur og af mjólkursamningi. Reksturinn gekk almennt vel og tap fyrir fjármagnsliði var um 1,7 milljón. Tap af fjármagnsliðum voru um 2,2 milljónir. Gengið var frá lóðasamningi í Þorleifskoti. Rekstur klaufskurðarbássins er kominn í reglulegt horf. Þá var komið að Stóra-Ármóti ehf. tekjur ársins tæpar 40 milljónir. Kostnaðarliðir hækka verulega. Rekstrartap ársins er um 565 þúsund fyrir fjármagnsliði en eftir fjármagnsliði og skatta um 1,8 milljónir. Sveinn minntist á helstu eignir á Stóra-Ármóti. Hann fór yfir helstu fyrirliggjandi tilraunir. Sveinn tók undir að menn þyrftu að vera duglegir að auglýsa búið út á við og vinna að tilraunum um málefni sem brenna á bændum. Bændabókhaldið hefur verið í tapi síðustu ár, er enn öfugu megin við núllið þrátt fyrir að jákvæð merki séu á rekstrinum. Mikill styrkur af þessu fyrir BSSL og því þarf að nást hagkvæmur rekstur. Fór að lokum yfir afmælissjóð BSSL og LÍ. Eignabreyting þar milli ára var óveruleg. Því næst las Sveinn upp heildarreikning samstæðunnar. Tap ársins var 15,7 milljónir, þar af tap á fjármagnsliðum um 11,4 milljónir. Lagt er til að það verði fært til lækkunar á eigin fé. Fór nákvæmlega í hvern lið í reikningum samstæðunnar. Rekstrarniðurstaðan ársins 2008 fyrir fjármagnsliði er heldur betri en var á árinu 2007.
Sveinn fór að lokum yfir helstu verkefni framundan. Minntist þar sérstaklega á fjármála- og rekstrarráðgjöf, áburðar og jarðræktarráðgjöf, kynbótasýningar, kúaskoðun og túnkortagerð. Minntist á bók Páls Lýðssonar um 100 ára sögu BSSL og hvatti félagsmenn til að kaupa hana. Minntist á að skuldastaða BSSL er mjög lág og tekjustreymi stöðugt. Blikur væru hins vegar á lofti og horfur á niðurskurði á framlagi frá ríkinu og sjóðagjöld skv. tillögu frá síðasta búnaðarþingi. Hann þakkaði stjórn, starfsmönnum og bændum samstarf síðastliðins árs.

4. Umræður um skýrslur og reikninga.
Fundarstjóri gaf því næst orðið laust og hvatti fundarmenn til að taka til máls. Tók því næst sjálfur til máls og velti fyrir sér spurningunni um; Hvað gerir Búnaðarsambandið fyrir mig? Hann spurði á móti; Hvað geri ég fyrir Búnaðarsambandið? Minnist á að mikilvægi gagnrýnnar umræðu og að þannig næði mestur árangur í starfi sambandsins.
Sigurður Hannesson, Villingavatni, kvaddi sér því næst hljóðs og flutti fundarmönnum hugvekju um stöðu landbúnaðarins sérlega í nærsveitum höfuðborgarsvæðisins. Taldi að tæknivæðingin í sveitum væri ekki alltaf til góðs og mjög hefði hallað á verri veg hin síðari ár.
Arnheiður D. Einarsdóttir, Guðnastöðum, tók næst til máls. Ræddi hvað Búnaðarsambandið væri að gera fyrir sig. Ýmis grunnþjónusta sem menn teldu í dag sjálfsagða og yrði að varðveita ef niðurskurður yrði á fjármagni til sambandsins á næstunni. Taldi að skýra þyrfti muninn á milli þess hvað væri grunnþjónusta og hvað ekki. Hrósaði Kynbótastöðinni fyrir hóflega gjaldtöku og góðan rekstur sem skilað hefði nautgriparækt á Suðurlandi miklu forskoti. Taldi að kúaskoðanir þyrftu að vera áhugaverðari og meira spennandi að fá ráðunaut í heimsókn. Nautgriparæktin þyrfti ekki alltaf að vera byggð á tölum heldur þyrfti meiri tilfinningu í ræktunarstarfið sem væri til staðar í sauðfjárrækt og hrossarækt. Kvatti til að bændur gætu pantað sér kúaskoðun þegar þeim hentaði. Impraði á athugasemd sinni frá síðasta fundi um að nauðsynlegt væri að kynna betur verkefni og rannsóknarniðurstöður frá Stóra-Ármóti. Minnist á mikilvægi að tilraun um heystæður lægi fyrir þar sem möguleiki væri á skorti á rúlluplasti í landinu nú í sumar. Áréttaði að eitt væri gott en líka dýrt. Því væri mikilvægt að tilraunstarfið skilaði hagkvæmum rekstrarforsendum fyrir kúabændur. Hún taldi einnig of fáa ráðunauta einbeita sér eingöngu að nautgriparækt. Velti fyrir sér möguleikum á gjaldtöku fyrir kvíguskoðanir líkt og í sauðfjárskoðunum.
Daníel Magnússon, Akbraut, tók undir orð Arnhildar. Sauðfjárbóndinn væri stoltur en nautgripabóndinn væri alltaf öfundsjúkur út í árangur annarra. Vantaði að sjá ástríðu í nautgriparæktinni eins og væri fyrir hendi í sauðfjár- og hrossaræktinni.
Sveinn Sigurmundsson, framkvæmdarstjóri, þakkaði fyrir innleggin og þau lýstu áhuga á starfi BSSL. Fór yfir tekjuskiptingu sambandsins og í hvað þeir fjármunir væru ætlaðir. Spurning væri hins vegar um hvað sjóðagjöldin ættu að ná yfir, þau væru áætluð í margháttaða starfssemi. BSSL hefur forðast tvísköttun og starfssemin sé rekin nokkurn veginn á núllinu. Hugmyndir að ræktunarráðgjöf fyrir nautgriparæktina hefðu legið fyrir í nokkurn tíma. Tekur undir með að mikilvægt sé að frá Stóra-Ármót sé miðlað upplýsingum. Varðandi nautgriparæktarráðunautana þá séu þeir vissulega í fleiri störfum. Sveinn kannaðist ekki sérlega við öfundina sem Daníel nefndi en ræktunaráhuginn í nautgriparækt mætti vera meiri.
Egill Sigurðsson varaformaður, tók því næst til mál. Minntist á Kynbótastöðina og það væri einlægur áhugi stjórnar BSSL að skila þeim tekjum sem koma í gegnum mjólkursamninginn aftur til bænda á formi lægri sæðisgjalda. Nauðsynlegt að stöðugt væri umræða um sjóðagjöld og hvaða þjónustu ætti að veita. Kostnaðarvitund í því sambandi væri lykilatriði.

Matarhlé.

5. Kjörbréfanefnd skilar áliti.
Guðrún Stefánsdóttir, Hlíðarendakoti, formaður nefndarinnar tók til máls. Rétt til setu eiga 54 fulltrúar. Kjörbréf eru lesin upp og í ljós kemur að eftirfarandi fulltrúar eru mættir:
Búnaðarfélag Gaulverjabæjarhrepps
Bragi Ásgeirsson, Selparti.
Búnaðarfélag Stokkseyrarhrepps
Sævar Ástmundsson, Eystri-Grund.
Búnaðarfélag Sandvíkurhrepps
Ólafur Kristjánsson, Geirakoti.
Búnaðarfélag Hraungerðishrepps
Ketill Ágústsson, Brúnastöðum.
Búnaðarfélag Villingaholtshrepps
Bjarni Pálsson, Syðri-Gróf.
Búnaðarfélag Gnúpverjahrepps
Einar Gestsson, Hæli II.
Búnaðarfélag Hrunamannahrepps
Aðalsteinn Þorgeirsson, Hrafnkelsstöðum.
Búnaðarfélag Bláskógabyggðar
Óttar Bragi Þráinsson, Miklaholti.
Theódór Vilmundarson, Efstadal.
Búnaðarfélag Þingvallahrepps
Gunnar Þórisson, Fellsenda.
Búnaðarfélag Grímsneshrepps
Björn Snorrason, Björk II.
Búnaðarfélag Grafningshrepps
Sigurður Hannesson, Villingavatni.
Búnaðarfélag Ölfushrepps
Þórarinn Snorrason, Vogsósum.
Búnaðarfélag V-Eyjafjallahrepps
Ragnar Lárusson, Stóra-Dal.
Búnaðarfélag A- Landeyjarhrepps
Jóhann Nikulásson, Stóru-Hildisey.
Búnaðarfélag V-Landeyjarhrepps
Ágúst Rúnarsson, Vestra-Fíflholti.
Búnaðarfélag Fljótshlíðarhrepps
Páll Eggertsson, Arngeirsstöðum.
Búnaðarfélag Hvolhrepps
Bóel Þórisdóttir, Móeiðarhvoli.
Búnaðarfélag Rangárvallahrepps
Viðar Hafsteinn Steinarsson, Kaldbak.
Búnaðarfélag Landmannahrepps
Hannes Ólafsson, Austvaðsholti.
Búnaðarfélag Holtahrepps
Daníel Magnússon, Akbraut.
Búnaðarfélag Djúpárhrepps
Ágúst Sæmundsson, Bjólu.
Búnaðarfélag Ásahrepps
Egill Sigurðsson, Berustöðum.
Búnaðarfélag Hörgslandshrepps
Jón Jónsson, Prestbakka.
Búnaðarfélag Kirkjubæjarhrepps
Kjartan Magnússon, Fagurhlíð.
Búnaðarfélag Álftavers
Þórarinn Eggertsson, Hraungerði.
Búnaðarfélag Leiðvallahrepps
Sigursveinn Guðjónsson, Lyngum.
Búnaðarfélag Skaftártungu
Sigurður Ómar Gíslason, Hemru.
Búnaðarfélag Hvammshrepps
Guðni Einarsson, Þórisholti.
Búnaðarfélag Dyrhólahrepps
Sigurjón Eyjólfsson, Eystri- Pétursey.
Félag sauðfjárbænda í Árnessýslu
Þorsteinn Logi Einarsson, Egilsstaðarkoti.
Félag sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu
Guðrún Stefánsdóttir, Hlíðarendakoti.
Baldur Björnsson, Fitjamýri.
Oddný Steina Valsdóttir, Butru.
Félag sauðfjárbænda í V-Skaftafellssýslu
Fanney Ólöf Lárusdóttir, Kirkjubæjarklaustri.
Félag skógarbænda á Suðurlandi
Sigurður Hermannsson, Gerðakoti
Hrossaræktarsamtök Suðurlands
Helgi Eggertsson, Kjarri.
Þuríður Einarsdóttir, Oddgeirshólum.
Bertha Kvaran, Miðhjáleigu.
Hrafnkell Karlsson, Hrauni.
María Þórarinsdóttir, Fellskoti.
Félag kúabænda á Suðurlandi
Þórir Jónsson, Selalæk.
Arnheiður D. Einarsdóttir, Guðnastöðum.
Ólafur Helgason, Hraunkoti.
Elín B. Sveinsdóttir, Egilsstaðakoti.
Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ.

Mættir eru 46 fulltrúar. Kjörbréf bárust ekki frá 3 félögum; Búnaðarfélagi Skeiðahrepps, Búnaðarfélagi Eyrarbakka og Búnaðarfélagi A-Eyjafjallahrepps.

6. Ávörp gesta.

Sveinn Ingvarsson, varaformaður Bændasamtaka Íslands, flutti fundarmönnum kveðju stjórnar BÍ í forföllum formanns samtakanna. Í máli Sveins kom fram að undanfarna daga hafa staðið yfir samningaviðræður milli ríkisvaldsins og BÍ varðandi endurnýjun á búvörusamningum við kúabændur, sauðfjárbændur og garðyrkjubændur. Þeim viðræðum ætti að ljúka á allra næstu dögum. Sveinn fór yfir helstu verkefni BÍ að undanförnu og taldi starfið einkennast af meiri varnarbaráttu en áður. Af verkefnum bar tvennt hæst. Annars vegar álit á Matvælafrumvarpinu, en BÍ eru sammála frumvarpinu að öðru leyti en því að í því er innflutningur á hráu kjöti leyfður. Hins vegar er um að ræða álit Samkeppnisstofnunar, þess efnis að BÍ hafi gerst brotleg við samkeppnislög. Af öðrum málum minntist Sveinn á að fyrir lægi að innheimta búnaðargjaldsins yrði tekin til endurskoðunar.

7. Kosningar til búnaðarþings. Kosnir 7 fulltrúar til búnaðarþings til næstu 3. ára.
Fundarstjóri gaf orðið laust. Egill Sigurðsson, Berustöðum, tók til máls og gaf kost á sér.
Jafnframt bar hann kveðju Guðbjargar Jónsdóttir, Læk, og tjáði fundarmönnum að hún gæfi kost á sér.
Guðni Einarsson, Þórisholti, gaf kost á sér til áframhaldi setu á búnaðarþingi. Í máli hans kom fram að hann hefur setið á búnaðarþingi í 7 ár.
Sveinn Ingvarsson, Reykjahlíð, segir að starfið hafi verið skemmtilegt og gefur kost á sér áfram.
Guðrún Stefánsdóttir, Hlíðarendakoti, gefur kost á sér áfram.
Ágúst Rúnarsson, Vestra-Fíflholti. Óskaði eftir að fá hverjir væru þegar orðnir búnaðarþingsfulltrúar fyrir búgreinafélögin. Hefur setið sl. 4 ár sem varamaður og óskaði nú eftir kosningu. Hann nefnir sérstaklega Fanney Ólöfu Lárusdóttir, Kirkjubæjarklaustri, sem hefur þegar verið kosin á búnaðarþing fyrir Landssamtök sauðfjárbænda.
Uppástunga úr sal, Jóhann Nikulásson, Stóru-Hildisey II. Jóhann tók til máls og sagðist tilbúinn að taka kjöri.
Fundarstjóri tekur til máls og skýrir frá því að eftir því sem hann best viti séu það einungis Arnheiður D. Einarsdóttir, Guðnastöðum, til viðbótar við Fanney sem nú þegar hafi öðlast setu á búnaðarþingi í gegnum búgreinafélögin.

Kjörgögnum dreift.

Egill tekur til máls og útskýrir reglur í kosningunni nokkuð ítarlega.

Gengið til kosninga.

8. Tillögur lagðar fram og kynntar.
Fundarstjóri les upp fyrirliggjandi tillögur. Sveinn Sigurmundsson, framkvæmdarstjóri, tekur til máls og segir að til viðbótar við fyrirliggjandi tillögur liggi fyrir fjárhagsáætlun og gjaldskrá gjalda. Gerir tillögur um skipan nefndarmanna í fagnefndir.

Nefndarstörf hefjast.

Kaffihlé.

9. Úrslit búnaðaþingskosninga.
Talningu er lokið og úrslit liggja fyrir. Aðalmenn kjörnir á búnaðarþing til næstu 3 ára eru:
Ágúst Rúnarsson, Vestra-Fíflholti, með 40 atkvæðum.
Egill Sigurðsson, Berustöðum, með 39 atkvæðum.
Guðbjörg Jónsdóttir, Læk, með 39 atkvæðum.
Guðni Einarsson, Þórisholti, með 37 atkvæðum.
Sveinn Ingvarsson, Reykjahlíð, með 37 atkvæðum.
Jóhann Nikulásson, Stóru-Hildisey, með 34 atkvæðum.
Guðrún Stefánsdóttir, Hlíðarendakoti, með 32 atkvæðum.

Varamenn þeirra eru:
1. Helgi Eggertsson, Kjarri.
2. Kjartan Magnússon, Fagurhlíð.
3. Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ.
4. Oddný Steina Valsdóttir, Butru.
5. Þórir Jónsson, Selalæk.
6. Hrafnkell Karlsson, Hrauni.
7. Jón Jónsson, Prestsbakka.

Varpa varð hlutkesti um röðun 1. og 2. varamanns. Þar sem Helgi og Kjartan hlutu jafn mörg atkvæði í 1. varamannssætið. Svo fór að Helgi vann hlutkestið. Fundarstjóri óskar nýkjörnum búnaðarþingsfulltrúum og varamönnum þeirra til hamingju með kjörið.

Samþykkt var samhljóða breyting á dagskrá um frestun á kosningu til stjórnar, kosningu skoðunarmanna og löggilts endurskoðanda vegna símafundar Egils Sigurðssonar, varaformanns.

10. Reikningar bornir undir atkvæði.
Reikningur BSSL fyrir 2008 er samþykktur samhljóða.
Sveinn Ingvarsson, Reykjahlíð, bað um orðið. Þakkaði traustið með kosningu til búnaðarþings. Sveinn áréttaði að þeir samningar sem nú er verið að vinna að verði kynntir meðal bænda síðar og fari síðan í almenna atkvæðagreiðslu meðal þeirra.

11. Afgreiðsla tillagna.
Guðni Einarsson, Þórisholti, formaður allsherjarnefndar tók til máls og bar upp tillögur 1, 2 og 3 frá Allsherjarnefndar.

Tillaga 1 / Allsherjarnefnd.
Aðalfundur BSSL, haldinn í Árhúsum við Hellu þann 17. apríl 2009, samþykkir að hafna aðild að ESB með vísan í rök Bændasamtaka Íslands.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga 2 / Allsherjarnefnd.
Aðalfundur BSSL, haldinn í Árhúsum við Hellu þann 17. apríl 2009, samþykkir að skora á Bændasamtök Íslands að halda fast við þá stefnu sem samtökin hafa markað varðandi matvælafrumvarpið, þ.e. að hafna með öllu innflutningi á hráu kjöti.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga 3 / Allsherjarnefnd.
Aðalfundur BSSL, haldinn í Árhúsum við Hellu þann 17. apríl 2009, samþykkir að skora á stjórn BSSL að gerð verði úttekt á samskiptum bænda, vegagerðar og sveitarstjórna varðandi girðingar með þjóðvegi 1 á svæði BSSL.

Samþykkt samhljóða.

Þorsteinn Logi Einarsson, Egilsstaðakoti, bar upp tillögu 4 frá Allsherjarnefnd.

Tillaga 4 / Allsherjarnefnd.
Aðalfundur BSSL, haldinn í Árhúsum við Hellu þann 17. apríl 2009, samþykkir að skora á Bændasamtök Íslands að efla verkefnið Opinn landbúnaður, þar sem mikilvægi landbúnaðar í fæðuöryggi þjóðarinnar er mikið í ljósi stöðunnar í samfélaginu í dag.

Breytingartillaga frá Daníel Magnússyni, Akbraut, um orðalag tillögunnar var felld.

Samþykkt samhljóða.

Viðar Hafsteinn Steinarsson, Kaldbak, bar upp tillögu 5 frá Allsherjarnefnd.

Tillaga 5 / Allsherjarnefnd.
Aðalfundur BSSL, haldinn í Árhúsum við Hellu þann 17. apríl 2009, beinir því til stjórnar BSSL að vinna að því að gerð verði úttekt á möguleikum þess að hefja áburðarframleiðslu á Suðurlandi, þar sem stærsta markaðssvæðið er.

Greinargerð:
 Fæðuöryggi.
 Auka rekstraröryggi bænda.
 Lækka áburðarverð.
 Spara gjaldeyri.
 Auka atvinnu.

Ágúst Rúnarsson, Vestra-Fíflholti, tók til máls. Hann setti fyrirvara um þessa tillögu. Á nýliðnum aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda var lagt til að hefja frekar innflutning en að setja upp áburðarverksmiðju. Magnið skipti heldur ekki alltaf máli, heldur hvaðan áburðurinn væri keyptur og hvenær.
Jóhann Nikulásson, Stóru-Hildisey II, sagði að þetta hefði þegar verið skoðað annars staðar á landinu. Þarf hefði komið það út að eina arðbæra hér á landi væri að framleiða köfnunarefni.
Viðar tók aftur til máls og sagði að rök gegn tillögunni væru þau nákvæmlega sömu og að flytja ætti inn allar landbúnaðarafurðir. Markmiðið væri að gera íslenskan landbúnað óháðan erlendum aðföngum.
Guðrún Stefánsdóttir, Hlíðarendakoti, nefndi að frekar ætti að ræða um fæðuöryggi en matvælaöryggi. Húnvetningar hefðu þegar skoðað kosti áburðarframleiðslu hér á landi og þar hefði niðurstaðan verið að þetta væri óarðbært nema framleiðsla í mjög miklu magni.

Smávægilegar breytingartillögur við orðalag samþykktar, m.a. að breyta í greinargerð úr matvælaöryggi í fæðuöryggi.

Samþykkt með þorra atkvæða.

Jóhann Nikulásson, Stóru-Hildisey II, formaður fjárhagsnefndar bar upp tillögur fjárhagsnefndar.

Tillaga 6 / Fjárhagsnefnd.
Aðalfundur BSSL, haldinn í Árhúsum við Hellu þann 17. apríl 2009, samþykkir fjárhagsáætlun BSSL fyrir árið 2009.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga 7 / Fjárhagsnefnd.
Aðalfundur BSSL, haldinn í Árhúsum við Hellu þann 17. apríl 2009, leggur til að við gerð fjárhagsáætlunar Kynbótastöðvar Suðurlands fyrir árið 2009 verði sæðingagjöld, kr 1.000,- á kú.

Arnheiður D. Einarsdóttir, Guðnastöðum, spurði hvort nauðsynlegt væri að fá þessa hækkun til rekstrar.

Jóhann svaraði því til að þessi hækkun væri nauðsynleg til að hætta að ganga á sjóð Kynbótastöðvarinnar.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga 8 / Fjárhagsnefnd.
Aðalfundur BSSL, haldinn í Árhúsum við Hellu þann 17. apríl 2009, samþykkir óbreytt árgjald til BSSL, alls kr. 1.000,- á félagsmann.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga 9 / Fjárhagsnefnd.
Aðalfundur BSSL, haldinn í Árhúsum við Hellu þann 17. apríl 2009, samþykkir að þóknun aðalfundarfulltrúa miðist við dagpeninga ríkisstarfsmanna. Miða skal við fæðispeninga heilan dag og minnst 10 tíma ferðalag (nú kr 7.200,-) x 2. (þ.e. nú 14.400,-).

Samþykkt samhljóða.

Tillaga 10 / Fjárhagsnefnd.
Aðalfundur BSSL, haldinn í Árhúsum við Hellu þann 17. apríl 2009, samþykkir að laun stjórnarmanna verði kr. 10.000,- á hvern stjórnarfund auk dagpeninga og aksturs samkvæmt ríkistaxta og framreiknað með vísitölubreytingum samkvæmt grunni í launavísitölu frá apríl 2005. Formaður fái tvöföld laun og dagpeninga á við aðra stjórnarmenn auk aksturs. Formaður fái auki eingreiðslu sem nemur kr. 150.000,- miðað við árið 2003 sem framreiknast með launavísitölu.

Samþykkt samhljóða.

Arnheiður D. Einarsdóttir, Guðnastöðum, formaður fagmálanefndar tók til máls og bar upp tillögur fagmálanefndar.

Tillaga 11 / Fagmálanefnd.
Aðalfundur BSSL, haldinn í Árhúsum við Hellu þann 17. apríl 2009, skorar á landsráðunauta í nautgriparækt og Bændasamtök Íslands að vinnu við nautgriparæktarkerfið Huppu verði hraðað. Sérstök áhersla verði lögð á að koma rafrænni gagnalesningu á, útprentunum og skýrslugerð í gott lag með þarfir bænda og héraðsráðunauta að leiðarljósi.

Greinargerð:
 Kynbótamat ungnauta fæddra 2002 hefur ekki verið birt enn, sem hefur bein áhrif á val nautsmæðra.
 Ársfjórðungayfirlit eru ekki tiltæk.
 Kúadómar frá liðnu sumri hafa ekki borist bændum enn.
Brýnt að vinna að frekari þróun, hvaða þessa þætti varðar, fari fram í góðri samvinnu við
bændur og héraðsráðunauta þannig að þeirra þarfir komi skýrt fram og séu hafðar að leiðarljósi.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga 12 / Fagmálanefnd.
Aðalfundur BSSL, haldinn í Árhúsum við Hellu þann 17. apríl 2009, skorar á Landbúnaðarháskóla Íslands að hefja nú þegar tilraunir með niðurfellingu mykju.

Greinargerð: Tæki til niðurfellingar er nú þegar komið á Suðurland. Lítið er hins vegar vitað
hvort eða hversu miklu niðurfelling skilar en slíkt er mikilvægt að vita á tímum hækkandi
áburðarverðs.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga 13 / Fagmálanefnd.
Aðalfundur BSSL, haldinn í Árhúsum við Hellu þann 17. apríl 2009, skorar á stjórn og framkvæmdastjóra BSSL að haga störfum nautgriparæktarráðunauta þannig að kúaskoðun sé framkvæmd tvisvar sinnum á ári, haust og vor. Að hausti í október mánuði og að vori í mars mánuði. Dómurinn sé í tvíriti og afrit verði eftir í fjósi.

Samþykkt samhljóða.

12. Kosningar.
Kosið um 2 stjórnarmenn og 2 í varastjórn úr Rangárvallasýslu. Núverandi aðalmenn, Egill Sigurðsson, Berustöðum, og Ragnar Lárusson, Stóra-Dal, voru endurkjörnir með lófaklappi. Tillaga um Oddný Steinu Valsdóttur, Butru, og Þórir Jónsson, Selalæk, sem varamenn þeirra var samþykkt samhljóða.
Kosning 2 skoðunarmanna reikninga auk varamanna. Sveinn Sigurmundsson, framkvæmdarstjóri, tók til máls og skýrði fyrir fundarmönnum að skv. lögum geta skoðunarmenn lengst setið í 6 ár. Núverandi skoðunarmenn eru Elvar Eyvindsson, Skíðbakka, sem setið hefur í 6 ár og Ólafur Kristjánsson, Geirakoti, sem setið hefur í 2 ár. Fundarstjóri óskaði eftir tilnefningum úr sal. Stungið upp á Hrafnkeli Karlssyni, Hrauni. Fundarstjóri bar upp tillögu um Hrafnkel Karlsson og Ólaf Kristjánsson. Samþykkt. Tillaga um varaskoðunarmenn; Baldur Björnsson, Fitjamýri, og Kjartan Magnússon, Fagurhlíð. Samþykkt.
Kosning löggilts endurskoðanda. Tillaga um Arnór Eggertsson. Engin önnur tillaga og skoðast tillagan því samþykkt.

13. Önnur mál.
Jóhann Nikulásson, Stóru-Hildisey II, þakkaði traustið sem honum var sýnt með kosningu
inn á búnaðaþing.
Elín B. Sveinsdóttir, Egilsstaðakoti, skýrði frá því að hún sæti nú sinn fyrsta aðalfund BSSL. Talaði um að kosning til búnaðaþings hafi verið nokkuð kúnstug. Engin kjörnefnd unnið að einu né neinu. 7 aðalmenn gáfu kost á sér en engir varamenn hafi verið í framboði. Hér áður fyrr voru listar í framboði. Áréttaði að mikilvægt væri að kúaskoðanir færðust í skipulagt horf. Ætti að velta fyrir sér möguleikanum að ráða inn aukafólk á haustin og vorin til að ganga í þessi mál.
Arnheiður D. Einarsdóttir, Guðnastöðum, vildi taka undir orð Elínar. Taldi nauðsynlegt að betri kynning hefði átt sér stað á frambjóðendum og hvaða sjónarmiðum þeir standa fyrir. Taldi æskilegt að þeir ráðunautar sem vinna við nautgriparæktina kæmu í fjósið. Velti upp þeim möguleika að kúaskoðanirnar færu undir Kynbótastöð Suðurlands. Minntist á að sumir möguleikar í Huppunni virkuðu ekki sem skyldi. Taldi samt forritið í heild sinni virka vel. Óskaði eftir skilgreiningu á grunnþjónustu og útseldri vinnu.
Runólfur Sigursveinsson, ráðunautur, tók til máls. Lýsti ánægjunni sinni með þann áhuga sem komið hefði fram með fagstarfið í nautgriparækt. Óskaði nýkjörnum fulltrúum á búnaðaþing til hamingju með kosninguna. Grunneiningar Bændasamtakanna eru búgreinafélögin og búnaðarfélögin. Velti upp þeim möguleika hvort ekki væri rétt að aðalfundir þessara grunneininga væru á undan búnaðaþinginu, ár hvert. Kjörnir fulltrúar á búnaðarþing ættu að velta fyrir sér framtíðar hlutverki bændasamtakanna.
Bóel Þórisdóttir, Móeiðarhvoli, vildi taka undir með Arnheiði og Elínu varðandi nautgriparæktina. Taldi litla hvatningu í ræktunarstarfinu og niðurstöður kúaskoðunar kæmu allt of seint. Taldi að eitthvað mætti bæta kúaskoðunina.
Ágúst Rúnarsson, Vestra-Fíflholti, þakkaði traustið í kosningu á búnaðaþingið. Taldi ástæðu fyrir skorti á áhuga á búnaðarþingskosningum vera félagsleg deyfð milli bænda og benti á að allar fundagerðir búnaðaþings væru inn á vefnum, www.bondi.is.
Þórir Jónsson, Selalæk, þakkaði samstarf Félags kúabænda á Suðurlandi og starfsmanna BSSL.
Daníel Magnússon, Akbraut, taldi að það sem dræpi niður áhuga manna á að ná árangri í nautgriparækt væri öfund.
Óttar Bragi Þráinsson, Miklaholti, þakkaði starfsmönnum BSSL fyrir samstarf og aðstoð við sameiningu búnaðarfélaganna í uppsveitunum.
Sveinn Sigurmundsson, framkvæmdarstjóri, tók til máls og fagnaði umræðunni um fagstarf í nautgriparækt. Það sýndi áhuga. Því miður hefði ekki tekist að klára kúaskoðun/kvíguskoðun á útmánuðum sl. ár. Taldi að fækka þyrfti þeim atriðum sem skoðaðir væru á hverjum grip og sjálfsagt væri að skilja eftir niðurstöður skoðunarinnar í fjósinu hverju sinni.

14. Fundarslit.
Egill Sigurðsson varaformaður, tók til máls og dróg saman niðurstöður fundarins. Taldi að nauðsynlegt væri að stöðugt væri í skoðun hvernig heppilegast væri að velja fulltrúa á búnaðaþing. Tók undir með Runólfi að heppilegt væri að halda aðalfundi búnaðarsambandsins og búgreinafélaganna fyrir búnaðarþing hverju sinni. Taldi einnig að leggja ætti af að kjósa til 3 ára hverju sinni, heldur ætti að kjósa til eins árs í senn. Bæði til búnaðarþings og í stjórn búnaðarsambandssins. Nauðsynlegt sé einnig stöðugt að fara í gegnum hvort gjaldlagning með búnaðargjaldinu sé heppileg. Þakkaði fyrir það traust sem honum var sýnt í búnaðaþingskosningunni.

Fundið slitið kl: 17:19.
Eggert Þröstur Þórarinsson,
fundarritari

back to top