Aðalfundur BSSL 2014

106. aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands,
haldinn 11. apríl 2014 í Félagsheimili Hrunamanna, Flúðum.

1. Fundarsetning, Guðbjörg Jónsdóttir formaður.
Guðbjörg Jónsdóttir setti fundinn og bauð fulltrúa, starfsmenn og gesti velkomna. Hún gerði það að tillögu að Gunnar Eiríksson, Túnsbergi stýrði fundi og Halla Kjartansdóttir og Grétar Már Þorkelsson starfsmenn Búnaðarsambandsins rituðu fundargerð.

2. Skipan kjörbréfanefndar, Sveinn Sigurmundsson.
Sveinn Sigurmundsson bar upp tillögu um skipan kjörbréfanefndar; Bjarni Þorkelsson, Oddný Steina Valsdóttir, Ólafur Helgason. Tillagan samþykkt.

3. Skýrsla stjórnar, Guðbjörg Jónsdóttir formaður.
Á aðalfundinum sem haldinn var 17. apríl á Hótel Kötlu, Höfðabrekku urðu engar breytingar á stjórninni, en kosið var um stjórnarmann úr Vestur-Skaftafellssýslu. Á starfsárinu 2013 voru haldnir voru haldnir sex stjórnarfundir. Formannafundur Búnaðarsambandsins var haldinn að Árhúsum, Hellu 17. janúar þar sem mál vegna komandi Búnaðarþings voru rædd. Gestir fundarins voru formaður og framkvæmdastjóri BÍ sem fóru yfir afdrif mála frá síðasta Búnaðarþingi. Á fundinn kom Jón Geir Pétursson skrifstofustjóri umhverfisráðuneytisins og fjallaði um samstarf Umhverfisstofnunar og bænda. Grétar Már Þorkelsson starfsmaður BSSL flutti erindi um málefni sem snúa að álftum og gæsum. Samráðsfundur var haldinn að venju þegar mál lágu fyrir til Búnaðarþings með stjórn og öllum fulltrúum af svæðinu.
Gunnar K. Eiríksson var fulltrúi stjórnarinnar í nefnd sem fjallaði um hlutverk og framtíð búnaðarsambandanna. Nefndin skilaði niðurstöðu sinni fyrir Búnaðarþing og hefur þessi vinna m.a. verið lögð til grundvallar í vinnu sem er í gangi um endurskoðun á félagskerfi bænda.
Á síðasta Búnaðarþingi voru samþykktar breytingar á samþykktum BÍ. Helstu breytingarnar tengdust aðildarfélögunum beint. Kjósa skal árlega til Búnaðarþings og aðildarfélög greiði laun og uppihald þingfulltrúa, annan þingfararkostnað greiðir BÍ. Fækkun verður í stjór úr sjö í fimm. Ljóst er að endurskoða þarf lög Búnaðarsambands Suðurlands í samræmi við nýjar samþykktir BÍ.
Stjórn Búnaðarsambandssins hefur tekið ákvörðun um að byggja nýtt fjárhús á Stóra-Ármóti. Ragnar Finnur Sigurðsson Litla-Ármóti vann að hönnun hússins í samráði við framkvæmdastjóra, tilraunastjóra og bústjóra, stefnt er að því að taka húsið í notkun í haust.
Fyrir liggur félagsleg ákvörðun um að taka yfir kúasæðingar í Austur-Skaftafellssýslu á þessu ári, auk þess liggur fyrir formleg ósk Búnaðarsambands Austurlands sama efnis sem borist hefur stjórninni og verður rædd á aðalfundinum.
Verkefnin á starfsárinu hafa mest snúist um þær miklu breytingar á starfsemi Búnaðarsambandsins sem urðu með tilkomu RML. Unnið hefur verið að því aðlagast nýrri stöðu í starfseminni og kortleggja reksturinn.
Það er ljóst að miklar breytingar eru í farvatninu varðandi innheimtu búnaðargjalds til félagslegrar starfsemi. Landbúnaðarráðherra hefur boðað að frumvarp verði lagt fyrir í haust um lækkun búnaðargjalds og ekki verði heimild til að nota það í félagslega starfssemi. Fara verður í vinnu í samráði við grasrótina að móta félagskerfi bænda, enda verður hagsmunagæslan kostuð af félagsgjöldum í framtíðinni. Hafa ber í huga að sterk eignastaða og góður rekstur Búnaðarsambands Suðurlands er traustur bakhjarl okkar. Guðbjörg gaf ekki kost á sér áfram sem formaður og vildi hún þakka stjórn og starfsfólki Búnaðarsambandsins gott samstarf á árinu sem og bændum.

4. Reikningar BSSL og skýrsla framkvæmdastjóra, Sveinn Sigurmundsson.
Sveinn fór yfir reikninga Búnaðarsambandsins fyrir árið 2013. Búnaðarsamböndin í landinu eru að fá 20 milljónir af 338 sem ætlaðar til leiðbeiningastarfs af búnaðarlagasamningi. Sveinn fór yfir starfsfólk, fyrirtæki og verkefni BSSL, samstarf við RML, m.a. útleigu tækja og húsnæðis ásamt því sem hluti starfsmanna BSSL er með verkefni og ákveðið starfshlutfall hjá RML. Verkefni fyrir austan eru að minnka m.a. vegna yfirfærslu fóðureftirlits til MAST.

Velta síðasta árs var 74.2 milljónir, en tap fyrir utan fjármagnsliði var upp á 1,2 milljónir. Að teknu tilliti til þeirra, dótturfélags og skatta er hagnaður Búnaðarsambandsins 5,6 milljónir.

Kynbótastöð Suðurlands var með hagnað upp á 8,1 milljónir. Fastráðnum frjótæknum hefur fækkað, í fjóra úr fimm og sinna þeir sæðingum frá Vík að Hellisheiði en svo sér starfandi kúabóndi um sæðingar í Skaftárhreppi. Mikið er að gera í sæðingum og meira hagræði hjá frjótæknum vinnulega séð, t.a.m. hafa frí aukist. Framkvæmdar voru 17.463 sæðingar á árinu 2013. Lækkun hefur orðið á kostnaði við akstur í 36,08 kr/km, eknir eru að meðaltali 17,5 km á sæðingu. Kynbótastöðin tók yfir sæðingar í A-Skaft. nú um áramótin. Lögð er rík áhersla á að rekstri Kynbótastöðvarinnar verði haldið áfram hér. Það á ekki að hækka sæðingagjöld að svo stöddu. Þorsteinn Ólafsson er væntanlegur til starfa hjá Nautastöð BÍ á miðju ári
Aukning varð í klaufsnyrtingu milli ára en snyrtar voru klaufir á 4261 kú á 118 bæjum. Ódýrast að fá klaufskurð á kúm hér á þessu svæði, en komugjald er 15000.- og tímagjald er 5000.- og meðalkostnaður á kú er 1000.- sem bóndi greiðir.

Sauðfjársæðingastöðin var með tekjur uppá 12.9 milljónir og hagnaður þar upp á 300 þúsund. Sæddar ær með fersku sæði voru 14.486fanghlutfall með öllu sæði frá stöðinni var 66% sem þykir gott á landsvísu, enda erum við með dýralækni sem gæðametur sæðið og ákveður meðhöndlun þess samkvæmt þéttleika. Ásókn í ferskt sæði er mest í 10 daga og því betra að vera með tvær stöðvar. Mikil þátttaka er í sæðingum í uppsveitum Árnessýslu.

Hagnaður á Stóra-Ármóti var tæpar 7,5 milljónir og gekk búreksturinn vel. Búið er nánast skuldlaust. Tekjur hækkuðu um 1.600 þúsundir en gjöld voru óbreytt. Samstarf er við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri um rannsóknir.BSSL ræður tilraunamanninn og borgar honum laun, en rukkar svo LBHÍ. Það hefur vantað kraft og starfsfólk í tilraunir en núverandi tilraunir eru í tengslum við NorFor og er tilraunamaður Baldur I. Sveinsson. Byrjað er að byggja 308 m2 fjárhús, í samræmi við upphaflegt gjafabréf þeirra sem gáfu BSSL Stóra-Ármót. Það hljóðaði uppá að rekin yrði öflug starfssemi tengd sauðfjárrækt. Guðbjörg Jónsdóttir var aðalhvatamaður að byggingu fjárhússins. Þá skapast góð aðstaða fyrir námsskeið sem tengjast sauðfjárrækt

Miklar breytingar eru framundan á félagskerfi bænda. Á nýliðnu Búnaðarþingi boðaði ráðherra í ANR að lög um búnaðargjald yrði endurskoðað og miklarlíkur á að búnaðargjald verði lækkað og ekki notað til félagslegrar starfssemi. Búgreinafélög munu hugsanlega verða af miklum fjármunum og þurfa að leita annarra leiða til fjármögnunar. Félagsgjöld og frjáls aðild að félögum koma í staðinn sem gæti leitt til þess að að félagskerfi bænda verði veikara.

Sveinn þakkaði að lokum bændum og samstarfsfólki ánægjulegt samstarf á liðnu ári.

5. Umræður um skýrslur og reikninga.
Páll á Galtalæk sté í pontu, hann hvatti menn til að hlúa að félagsstarfinu og passa það að starfsemi Búnaðarsambandsins yrði áfram öflug. Það væri áfram þörf á heildarafli bænda.

Þorsteinn Ágústsson taldi að stofnun RML hafi ekki verið til hagsbóta fyrir bændur, og taldi þann gjörning ekki hafa skapað skilyrði til hagræðingar.

Valdimar Guðjónsson taldi að þær breytingar sem orðið hafa á landbúnaðarkerfinu og þ.m.t stofnun RML hafi verið þörf og sagði að svona miklar breytingar muni taka tíma. Þær muni leiða til öflugra starfs og aðgengilegri sérfræðinga. Hann þakkaði Guðbjörgu á Læk fyrir vel unnin störf og gott samstarf. Hann sagði einnig að hann og fleiri hafi rætt mögulegt samstarf um sæðingar á svæði Búnaðarsambands Austurlands og hafi menn tekið því vel.

Sveinn Sigurmundsson sagði að þó að eftirsjá hafi verið af því starfi sem Búnaðarsamband Suðurlands stóð fyrir telji hann að markmið RML sé af hinu góða og vill líta svo á að þarna séu jákvæðir möguleikar hvað varðar sérhæfingu starfsmanna og faglega þjónustu við bændur. Hinsvegar sé fjárhagsstaða RML ekki góð en fyrirtækið þurfi tíma til að endurskipuleggja sig.

Guðbjörg Jónsdóttir sagði að RML hafi tveggja ára aðlögunartíma, það sé rekið að mestu fyrir almannafé en breytingar verða á því innnan tíðar og þarf fyrirtækið að takast á við það. Bændur þurfa að vinna að því að finna leiðir til að styðja við starfsemi Búnaðarsambandsins.

6. Matarhlé.

7. Kjörbréfanefnd skilar áliti.

Oddný Steina Valsdóttir formaður nefndarinnar tók til máls. Rétt til setu eiga 31 búnaðarfélög, þar af 2 með 2 fulltrúa. Búgreinafélögin 6 eiga rétt á 17 fulltrúum. Kjörbréf eru lesin upp og í ljós kemur að eftirfarandi fulltrúar eru mættir:

Búnaðarfélag Gaulverjabæjarhrepps
Þorsteinn Ágústsson, Syðra-Velli.

Búnaðarfélag Sandvíkurhrepps
Ari Páll Ögmundsson, Stóru-Sandvík IV.

Búnaðarfélag Hraungerðishrepps
Baldur Indriði Sveinsson, Litla-Ármóti.

Búnaðarfélag Villingaholtshrepps
Bjarni Pálsson, Syðri-Gróf.

Búnaðarfélag Skeiðahrepps
Jón Vilmundarson, Skeiðháholti.

Búnaðarfélag Gnúpverjahrepps
Einar Gestsson, Hæli.

Búnaðarfélag Hrunamannahrepps
Þórunn Andrésdóttir, Bryðjuholti.
Páll Jóhansson Núpstúni.

Búnaðarfélag Bláskógabyggðar
Trausti Hjálmarsson, Austurhlíð 2.

Búnaðarfélag Þingvallahrepps
Gunnar Þórisson, Fellsenda.

Búnaðarfélag Grímsneshrepps
Björn Snorrason, Björk II.

Búnaðarfélag Ölfushrepps
Pétur Guðmundsson, Hvammi.

Búnaðarfélag Eyrarbakka
Enginn fulltrúi.

Búnaðarfélag A-Eyjafjallahrepps
Enginn fulltrúi.

Búnaðarfélag V-Eyjafjallahrepps
Ragnar Lárusson, Stóra-Dal.

Búnaðarfélag A- Landeyjarhrepps
Rafn Bergsson, Hólmahjáleigu.

Búnaðarfélag V-Landeyjarhrepps
Sævar Einarsson, Stíflu.

Búnaðarfélag Fljótshlíðarhrepps
Páll Eggertsson, Kirkjulæk.

Búnaðarfélag Hvolhrepps
Enginn fulltrúi.

Búnaðarfélag Rangárvallahrepps
Ásgerður Sjöfn Guðmundsdóttir, Lambhaga.

Búnaðarfélag Landmannahrepps
Páll Sigurjónsson, Galtalæk.

Búnaðarfélag Holtahrepps
Daníel Magnússon, Akbraut.

Búnaðarfélag Djúpárhrepps
Enginn fulltrúi.

Búnaðarfélag Ásahrepps
Enginn fulltrúi.

Búnaðarfélag Hörgslandshrepps
Jón Jónsson, Prestsbakka.

Búnaðarfélag Kirkjubæjarhrepps
Þórarinn Bjarnason, Þykkvabæ 1.

Búnaðarfélag Álftavers
Engin fulltrúi.

Búnaðarfélag Leiðvallahrepps
Engin fulltrúi.

Búnaðarfélag Skaftártungu
Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, Ljótarstöðum.

Búnaðarfélag Hvammshrepps
Ólafur Þorsteinn Gunnarsson, Giljum.

Búnaðarfélag Dyrhólahrepps
Gunnar Þormar Þorsteinsson, Vatnskarðshólum.

Félag sauðfjárbænda í Árnessýslu
Ágúst Ingi Ketilsson, Brúnastöðum.
Sævar Bjarnhéðinsson, Arnarholti.

Félag sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu
Erlendur Ingvarsson, Skarði.
Oddný Steina Valsdóttir, Butru.
Baldur Björnsson, Fitjamýri.

Félag sauðfjárbænda í V-Skaftafellssýslu
Fanney Ólöf Lárusdóttir, Kirkjubæjarklaustri.

Loðdýraræktarfélag Suðurlands
Engin fulltrúi.

Hrossaræktarsamtök Suðurlands
Bjarni Þorkelsson, Þóroddsstöðum.
Sigríkur Jónsson, Syðri-Úlfsstöðum.
Þuríður Einarsdóttir, Oddgeirshólum.
Viðar Steinarsson, Kaldbak.

Félag kúabænda á Suðurlandi
Elín B. Sveinsdóttir, Egilsstaðakoti.
Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ.
Samúel U. Eyjólfsson, Bryðjuholti.
Ólafur Helgason, Hraunkoti.
Jórunn Svavarsdóttir, Drumboddsstöðum 1.

Mættir voru 39 fulltrúar.

Álit kjörbréfanefndar er samþykkt samhljóða.

8. Flutningur stjórnsýsluverkefna frá Bændasamtökum Íslands til stofnana atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Jón Baldur Lorange.
Jón Baldur Lorange frá Bændasamtökum Íslands, tók til máls. Jón sagði þetta aðallega snúast um stjórnsýsluverkefni sem yrðu flutt frá BÍ til stofnana atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Yfirlit verkefna á að vera tilbúið fyrir 15. apríl 2014 en lagafrumvarp og drög að breytingum fyrir 20. ágúst 2014. Talið er óæskilegt að BÍ sjái um framkvæmd og eftirlit með stjórnsýsluverkefnum sem þau hafa haft yfirumsjón með hingað til.
Jón Baldur fór yfir markmið landbúnaðarstefnunnar sem er nátengd búvörusamningum og hagsmunum bænda almennt. Jón sagði frá þeirri vinnu sem verið hefur á höndum BÍ við ýmsa gagnagrunna og þau verðmæti sem þessir gagnagrunnar hafa að geyma. Hann taldi einnig að farsælast væri að öll þessi gögn væru vistuð á einum stað sem gæti verið nokkurskonar búnaðarstofa. Markmiðið væri að tryggja faglega framkvæmd sem hlýst af því að koma verkefnum og þekkingu á einn stað undir einni yfirstjórn. Tryggja betri samræmingu og þekkingu á viðfangsefninu, skapa ný tækifæri og stöðugleika í allri framkvæmd. Sú stofnun bæri ábyrgð á öllum gangagrunnunum og sérfræðiþekking á regluverki væri þar alltaf til staðar. Búnaðarstofan hefði þrjú meginsvið þ.e. greiðslustofu, stoðdeild og Búnaðarstofa innri. Setti hann fram kortlagt verkefnið sem sýndi glöggt hve flókið og margþætt þetta verkefni er.

9. Eiríkur Blöndal framkvæmdastjóri B.Í.
Eiríkur Blöndal framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands tók til máls. Hann fór yfir starfsemi Bændasamtakanna og RML. Eiríkur sagði frá því að nú væri m.a. verið að vinna að því að finna fjármuni fyrir félagskerfi bænda sem rýrnaði mjög við breytingar á starfsemi Búnaðarsambandanna og breytingar á búnaðargjaldinu. Þó eigi að nota búnaðargjaldið til félagsmála, Bjargráðasjóðs og almenns kynningarstarfs og ráðgjafar. Þá kom hann inn á mál er varða innflutning á hráu kjöti og þá vinnu sem BÍ lagði í til að koma í veg fyrir það með tilliti til sjúkdómavarna. ESA telur að fyrirkomulag laga um innflutning á hráu kjöti samræmist ekki EES reglum.
Eiríkur fór yfir mál er rætt var á Búnaðarþingi um framleiðslu lífrænna afurða og hvaða möguleikar væru fyrir hendi í þeim málum. Kröfur erlendis til lífrænna framleiðslu eru almennt ekki eins strangar og hérlendis. Eiríkur sagði einnig frá málum er varða tjón vegna álfta og gæsa og áfram sé unnið að þeim málum. Meiri áhugi virðist vera á álfta- og gæsamálum í Umhverfisráðuneytinu.
Vinna er hafin að gerð landbúnaðarstefnu með tillit til gerðar nýs búvörusamnings. Eiríkur kom inn á mál er varða innflutning erfðaefnis þá aðallega til kynbóta á Angus nautgripum þar sem vöntun er á nautakjöti, en það hefur verið á dagskrá undanfarin ár og verið mjög umdeilt. Eiríkur sagði frá viðbrögðum Bændasamtakanna vegna upprunamerkinga matvæla. Eiríkur kom inn á loftlagsmál sem verið hafa í umræðunni. Þar er komið inn á fæðuöryggismál og eru Bændasamtökin þegar farin að hugsa um þessi mál. Möguleikar íslendinga í þessum málum er að framleiða meiri mat. Þar sem skilyrði til ræktunar ýmissa tegunda aukist með hærra hitastigi. Eiríkur sagði lítillega frá sameiningarmálum Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskóla Íslands.
Eiríkur útskýrði starfsemi RML og hvaða tilgangi því væri ætlað að ná. Eiríkur sagði að tap hafi verið á fyrsta starfsári RML en ástæður voru fyrir því. Markmiðið með stofnun RML var að búa til faglegri ráðgjafapökkum og selja þjónustu. Það hefur komið stjórnendum þar á óvart að eftirpurn eftir ráðgjöf var minni en talið var. Eiríkur sagði að stöðugar breytingar væru á starfsemi búnaðarsambandanna og hvaða verkefni gætu hugsanlega hentað þeim.

Þá var opnað fyrir fyrirspurnir.

Samúel U. Eyjólfsson, Bryðjuholti spurði um verðmiðann á Nautastöðinni.

Páll Sigurjónsson, Galtalæk spurði hvað lífræn ræktun þýddi, þar sem skortur á matvælum væri yfirvofandi og taldi hann að þetta hentaði ekki í íslenskum landbúnaði m.t.t. veðurfars. Páll taldi að slæmt væri að of margir málaflokkar væru komir til MAST sem hefði litla tengingu við bændur. Páll kom einnig inn á tolla á landbúnaðarafurðir.

Erlendur á Skarði kom einnig inn á tollamál og hræddist þá umræðu sem yrði ef bændur næðu ekki að anna eftirspurn eftir fersku kjöti. Hann spurði einnig hvort ekki væri tækifæri núna til að selja Hótel Sögu þar sem uppgangur væri í ferðaþjónustu. Hann spurði einnig hvort að það væri eftirspurn eftir lífrænum afurðum.

Páll Jóhannsson, Núpstúni taldi að samræma þyrfti ýmsa gagnagrunna og lagfæra suma eins og Huppuna. Hann spurði hvers vegna er ekki hægt að skoða gripi í Huppu eins og í WorldFeng. Erfitt sé að vinna með marga þessara grunna. Hann sagði einnig að talsmenn BÍ mættu vera duglegri að svara pistlum Þórólfs Matthíassonar vegna rangfærslna hans.

Bjarni Þorkelsson, Þóroddsstöðum orti vísu vegna erindis Sveins þar sem mikið var um smátt letur varðandi reikninga Búnaðarsambandsins og er vísan svona:
Rausnarbú er rekið hér
og ræðan vekur sálartetrið
ef hinsvegar útaf ber:
einfalt mál að smækka letrið

Eiríkur Blöndal svaraði varðandi Nautastöðina að þar væri einungis talað um að búa mætti til hlutafélag um hana og það dytti engum í hug að ætla að græða á henni.
Um lífræna ræktun sagði Eiríkur að mikið væri til að ónotuðu landi og ef að regluverk um ræktunina væru vægari yrði jafnvel ágæt skilyrði til þessháttar framleiðslu. Í Danmörku til að mynda mætti nota búfjáráburð frá öðrum búum. Eiríkur taldi að eftirspurn væri eftir ákveðnum lífrænum vörum og sagði lífræn bú erlendis ekki síður vélvædd en önnur bú.
Niðurstaða Búnaðarþings um það hvort selja ætti Hótel Sögu var sú að reka hótelið áfram. Eiríkur sagði að varðandi Þórólf væri stundum erfitt að svara og það skilaði ekki alltaf árangri. Það hefði þó oft verið gert með rökstuðningi.

Jón Baldur svaraði því til varðandi forrit bændasamtakanna að þá séu þessi kerfi í stöðugri þróun og þá með tilliti til þeirrar skyldu bænda er snýr að ýmsum reglugerðum og búfé. Varðandi Huppu og aðgengi að gripum annarra líkt og er í Worldfeng, að þá er litið svo á að gögn í Huppu séu eign bænda. Upp hafi komið óskir varðandi WorldFenginn að aðrir sæju ekki allt um gripi annarra.

10. Tillögur lagðar fram og kynntar

11. Nefndir hefja störf
Sveinn Sigurmundsson lagði til að nefndirnar yrðu 3 sem hér segir; Allsherja- og framtíðarnefnd formaður Gunnar Eiríksson Túnsbergi, laganefnd formaður Valdimar Guðjónsson Gaulverjabæ og fjárhagsnefnd formaður Fanney Ólöf Lárusdóttir, Kirkjubæjarklaustri.

12. Kosningar. Kosið um 2 stjórnarmenn og 2 í varastjórn úr Árnessýslu. Kosið um 2 skoðunarmenn til tveggja ára og 2 til vara.

Niðurstöður kosninga – aðalmenn Árnessýslu
Gunnar Kr. Eiríksson, Túnsbergi gaf kost á sér aftur og var kosinn með 37 atkvæðum ásamt Baldri Indriða Sveinssyni, Litla-Ármóti með 35 atkvæðum.

Niðurstöður kosninga – varamenn Árnessýslu
Gerð var tillaga um að María Hauksdóttir, Geirakoti og Helgi Eggertsson, Kjarri yrðu áfram og var það samþykkt samhljóða.

Niðurstöður kosninga – skoðunarmenn til tveggja ára
Gerð var tillaga um að Theódór Vilmundarson, Efstadal og Páll Eggertsson, Kirkjulæk yrðu áfram. Var það samþykkt samhljóða.

Niðurstöður kosninga – skoðunarmenn til vara
Gerð var tillaga um að Elín Bjarnheiður Sveinsdóttir, Egilsstaðakoti og Valdimar Guðjónsson í Gaulverjabæ yrðu áfram til tveggja ára. Tillagan var samþykkt samhljóða.

13. Tillögur lagðar fram frá nefndum, umræður, afgreiðsla.

Tillaga nr. 1 frá fjárhagsnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Félagsheimili Hrunamanna, Flúðum 11. apríl 2014, samþykkir að árgjald til Búnaðarsambands Suðurlands fyrir árið 2014 verði alls kr. 2.000,- á félagsmann.

Enginn kvað sér hljóðs. Tillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 2 frá fjárhagsnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Félagsheimili Hrunamanna, Flúðum 11. apríl 2014, samþykkir að þóknun aðalfundarfulltrúa miðist við sem svarar tvöföldum dagpeningum ríkisstarfsmanna. Það er kr. 21.600,-

Enginn kvað sér hljóðs. Tillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 3 frá fjárhagsnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Félagsheimili Hrunamanna, Flúðum 11. apríl 2014, samþykkir að laun stjórnarmanna verði kr. 17.808,- (sem er kr. 10.000 framreiknað með launavísitölu frá apríl 2005) fyrir hvern stjórnarfund auk dagpeninga og aksturs samkvæmt ríkistaxta. Formaður fái tvöföld laun og dagpeninga á við aðra stjórnarmenn auk aksturs. Formaður fái að auki eingreiðslu sem nemur kr. 296.534,- (sem er kr. 150.000 framreiknað með launavísitölu frá árinu 2003).

Guðbjörg ræddi tillöguna og sagði fundi stjórnar hafa fækkað frá því sem áður var. Tillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 4 frá fjárhagsnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Félagsheimili Hrunamanna, Flúðum 11. apríl 2014, samþykkir fyrirliggjandi fjárhagsáætlun Búnaðarsambands Suðurlands fyrir árið 2014.

Enginn kvað sér hljóðs. Tillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 5 frá allsherjarnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Félagsheimili Hrunamanna, Flúðum 11. apríl 2014, beinir því til stjórnar Búnaðarsambands Suðurlands að fyrirkomulag innheimtu árgjalds af félagsmönnum verði endurskoðað.
Greinargerð :
Eðlilegt má teljast að félög og félagasamtök innheimti sín félags- og árgjöld og beri þann kostnað sem til fellur.
Staða félagsmanna 70 ára og eldri verði skoðuð sérstaklega. Hjá Búnaðarfélagi Landmanna eru 70 ára og eldri ævifélagar með fullum réttindum og skyldum en greiða ekki félagsgjald til félagsins en fullt árgjald til BSSL.
Aðildarfélög Búnaðarsambandsins; búnaðarfélög, búgreinafélög hafa séð um innheimtu árgjalds fyrir BSSL. Þessu fyrirkomulagi fylgja ýmsir gallar fyrir aðildarfélög BSSL.
Sem dæmi má nefna að ef árgjald er ekki greitt fyrir 1. desember ár hvert verða aðildarfélögin að leggja út fyrir gjaldinu og fjölmörg dæmi eru um að viðkomandi fjárhæð fáist aldrei greidd til aðildarfélaganna.
Innheimta árgjalds BSSL og félagsgjald aðildarfélaganna í einu lagi virkar íþyngjandi fyrir aðildarfélögin.

Enginn kvað sér hljóðs. Tillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 6 frá allsherjarnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Félagsheimili Hrunamanna, Flúðum 11. apríl 2014, hvetur alla til að standa vörð um hið almenna búfræðinám á Hvanneyri, hvað sem á dynur.

Nokkrar umræður urðu um tillöguna og var henni breytt lítillega frá upprunalegu tillögunni. Tillaga borin upp til samþykktar og var hún samþykkt með meirihluta atkvæða.

Tillaga nr. 7 frá allsherjarnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Félagsheimili Hrunamanna, Flúðum 11. apríl 2014, samþykkir að heimila stjórn að hefja viðræður við Búnaðarsamband Austurlands um að Kynbótastöð Suðurlands taki yfir rekstur kúasæðinga á Austurlandi um næstu áramót. Til að átta sig betur á rekstrinum er lagt til að fyrst um sinn verði hann aðskilinn frá rekstri Kynbótastöðvar Suðurlands.

Enginn kvað sér hljóðs. Tillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 8 frá framtíðarnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Félagsheimili Hrunamanna, Flúðum 11. apríl 2014, telur mikilvægt að standa vörð um þá starfsemi, sem samtökin standa fyrir nú, og gagnast bændum vel.
Jafnframt beinir fundurinn því til stjórnar Búnaðarsambands Suðurlands að mörkuð verði framtíðarstefna um félagskerfið og hagsmunagæslu fyrir bændur, í samstarfi við aðildarfélögin.

Nokkrar umræður urðu um tillöguna. Guðbjörg Jónsdóttir útskýrði tillögu nánar fyrir fundarmönnum. Tillaga borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

14. Reikningar bornir undir atkvæði.
Reikningar BSSL fyrir 2013 voru bornir upp til samþykktar og voru samþykktir samhljóða með handauppréttingu.

15. Önnur mál
Erlendur í Skarði kom í pontu og taldi það gott fyrir búnaðarþingsfulltrúa að fá skýr fyrirmæli frá formannafundi. Gætu þá verið búnir að undirbúa tillögur frá formönnum fyrir búnaðarþing.

Baldur Indriði á Litla-Ármóti þakkaði fyrir það traust sem honum var sýnt með kosningu í stjórn Búnaðarsambandsins og þakkaði Guðbjörgu fyrir sín störf.

Guðrún í Hlíðarendakoti sagði að búnaðarþingsfulltrúar færu í öllum tilfellum með mál frá bændur á Búnaðarþing

Páll á Galtalæk kom með tillögu er varðar landnotkun og að tillagan yrði skoðuð af stjórn Búnaðarsambands Suðurlands.
Tillagan er svohljóðandi: Páll á Galtalæk beinir því til stjórnar BSSL varðandi breytingar á landnotkun að búnaðarsamböndin hafi umsagnarrétt um landnot bújarða og breytingar á landbúnaðarlandi til annarra nota.
Tillaga Páls á Galtalæk var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

Guðbjörg Jónsdóttir sagði að Bændasamtökin hefðu talsvert með málefni landnotkunar að gera og í gangi sé vinna við kortlangingu landbúnaðarlands og frekari skilgreiningu á því.

Ragnar í Stóra-Dal kom og þakkaði Guðbjörgu gott samstarf og einnig óskaði hann Baldri til hamingju með kjörið.

Sveinn Sigurmundsson kom upp og þakkaði Guðbjörgu gott samstarf og færði henni blóm sem þakklætisvott fyrir vel unnin störf..

16. Fundarslit, Guðbjörg Jónsdóttir
Fundarstjóri þakkaði góðan fund og gaf Guðbjörgu Jónsdóttur formanni orðið. Guðbjörg þakkaði fundarstjóra, fundarmönnum og samstarfsfólki fyrir samstarfið og sleit fundi.
Fundið slitið kl: 17.20
Grétar Már Þorkelsson
Halla Kjartansdóttir

back to top