Aðalfundur BSSL 2019

111. aðalfundur

Búnaðarsambands Suðurlands

haldinn 12. apríl 2019 að Hótel Dyrhólaey

1.Fundarsetning, Gunnar Kr. Eiríksson formaður.
Gunnar Kr. Eiríksson á Túnsbergi setti fundinn og bauð fulltrúa og gesti velkomna. Hann gerði það að tillögu sinni að Ragnar M. Lárusson í Stóra-Dal stýrði fundi og að Gunnar Ríkharðsson starfsmaður BSSL ritaði fundargerð. Var það samþykkt og tóku þeir til starfa og var gengið til dagskrár.

2. Skipan kjörbréfanefndar, Gunnar Kr. Eiríksson.
Gunnar bar upp tillögu um að þeir Ólafur Þ. Gunnarsson Giljum, Eyvindur Ágústsson Stóru-Mörk og Samúel U. Eyjólfsson Bryðjuholti skipuðu kjörbréfanefnd og var það samþykkt.

3. Skýrsla stjórnar, Gunnar Kr. Eiríksson formaður.
Vorið var kalt og votviðrasamt og sumarið með svipuðum hætti, ekki rættist úr fyrr en í upphafi júlímánaðar. Heyfengur virðist vera nokkuð góður þrátt fyrir þessa erfiðu heyskapartíð.

Aðalfundur BSSL, haldinn í Hótel Smáratúni 13. apríl 2018.  Á fundinum var kosið um 2 stjórnarmenn úr Rangárvallasýslu, þá Ragnar Lárusson og Erlend Ingvarsson. Þeir voru endurkjörnir til 3 ára. Stjórn skipti með sér verkum, Gunnar formaður, Ragnar varaformaður, Sigurjón ritari, Erlendur og  Helgi meðstjórnendur.

Afdrif tillagna á aðalfundi:

  • Tillaga um að Búnaðarstofa verði sjálfstæð eining. Búnaðarstofa er í dag orðin sjálfstæð eining.
  • Tillaga um aukna tilraunastarfsemi í Stóra Ármóti, ræddum við Sæmund Runólfsson rektor LBHÍ, taldi hann að áhugi starfsfólks LBHÍ væri að gera tilraunir á Hvanneyri en skoða mætti samstarf við Stóra Ármót. Þess má geta að tilraun með þaramjöl í fóðri mjólkurkúa er í gangi á Stóra Ármóti í vetur. Að tilrauninni koma Ásta Heiðrún Pétursdótttir efnafræðingur hjá Matís, Gunnar Ríkharðsson BSSL og Jóhannes Sveinbjörnsson RML.

Starfsemi Nautís hefur gengið vel en þar er Sveinn Sigurmundsson framkvæmdarstjóri og Baldur I Sveinsson, starfsmaður. Í september fæddust 12 kálfar af Aberdeen Angus kyni, 7 kvígur og 5 naut. Vel gekk með burð og að koma kálfunum á legg.

Fjósbreytingar á Stóra Ármóti hafa komið vel út heilsufar kúnna batnað og nyt aukist, er nú 7340 kg eftir árskú. Borhola var boruð á virkjunasvæðinu á Stóra Ármóti af Selfossveitum og lofar hún mjög góðu.

Á árinu voru haldnir 5 formlegir stjórnarfundir auk fundahalda og ákvarðanatöku í síma.

Formannafundur BÍ var 22. nóvember og fórum við Sveinn Sigurmundsson og Gunnar Ríkharðsson á fundinn. Þann 11. febrúar undirritaði Búnaðarsambandið afsláttarsamning á raforku við Orkusöluna, sem veitir 15% afslátt til félagsmanna BSSL. Sparar þetta félagsmönnum töluverðar upphæðir á árs grundvelli.

Formannafundur Bssl var haldinn að Stóra Ármóti, 15.febrúar. Þar var allgóð mæting og góð umræða. Að lokum þakkaði Gunnar stjórn, starfsfólki og bændum gott samstarf á árinu.

4. Reikningar BSSL og skýrsla framkvæmdastjóra, Sveinn Sigurmundsson.

Sveinn fór yfir starfsemi Búnaðarsambandsins og dótturfélaganna og rauði þráðurinn í máli hans var að fyrirtækin verða standa undir sér. Þjónustan má ekki vera undirverðlögð. Í uppstokkun á félagskerfi bænda er mikilvægast að ná sem mestri samstöðu á meðal bænda. Bændur eiga að standa saman í einu öflugu liði. Búnaðarsambandið er samband 35 aðildarfélaga með um 1140 félagsmenn sem eru bændur og fólk búsett í dreifbýli á Suðurlandi.

Sveinn skýrði svo reikninga BSSL og dótturfélaga.

Búnaðarsambandið, eitt og sér, er með rekstrartekjur sem nema um 68,7 milljónum, rekstrargjöld eru um 69,7 milljónir, en að teknu tilli til fjármagnstekna er hagnaður um 800 þúsund kr. Árið 2017 var tap af þessum rekstri um 3,1 milljón kr.

Kynbótastöð ehf er með rekstrartekjur upp á 144,4 milljónir sem er nánast sama upphæð og árið áður. Rekstrargjöldin hækka hins vegar um 10,9 milljónir eða 7,4% á milli ára og varð tap af rekstri Kynbótastöðvar ehf um 13,8 milljónir króna á árinu.

Bændabókhald ehf  er með rekstrartekjur upp á 39,8 milljónir og skilar um 1,8 milljón í hagnað. Árið áður voru rekstrartekjur um 35,4 milljónir og hagnaður um 400 þúsund kr.

Stóra Ármót ehf er með um 60,0 milljónir í rekstrartekjur á árinu 2018 en 54,7 milljónir árið áður. Rekstrargjöldin hækka þó um 8,4 milljónir eða um tæp 18% milli ára og lækkar því hagnaður búsins úr 6,3 milljónum á árinu 2017 í 4,2 milljónir 2018 að teknu tilliti til skatta og fjármagnsliða.

Samstæðan öll þ.e. BSSL ásamt fyrrnefndum þremur dótturfélögum, er með um 291 milljón í rekstrartekjur þegar tekið hefur verið tillit til innbyrðis sölu á milli fyrirtækjanna, en þetta er nánast sama tala og árið áður. Rekstrargjöldin hækka hins vegar rétt um 6,0 milljónir eða 2% á milli ára og er því rekstrartapið um 8,6 milljónir. Fjármagnsliðir  skila um 3,2 milljónum sem er ívið minna en á fyrra ári en þá skiluðu þeir um 3,6 milljónum. Að teknu tilliti til fjármagnsliða og skatta þá er tap af rekstri samstæðunnar um 7,3 milljónir á árinu 2018 en á árinu 2017 var um 1,2 milljón kr hagnaður.

Eignir samstæðunnar eru metnar í bókhaldinu í árslok 2018 á um 305,5 milljónir, eigið fé er 247,6 milljónir og eiginfjárhlutfallið reiknast því um 81%.

5. Umræður um skýrslur og reikninga.
Gunnar Eiríksson tók til máls og bauð Einar Ófeig Björnsson varaformann Bændasamtakanna velkomin til fundarins en Guðrún Tryggvadóttir formaður BÍ átti ekki heimangengt.

Gunnar skýrði betur niðurstöðu hallareksturs hvað varðar Kynbótastöðina ehf.

Ari Páll Ögmundsson spurði hvað félagsmenn væru að fá fyrir félagsgjald til BSSL og var efins um að rétt væri að hækka árgjaldið.

Kjartan Ólafsson tók til máls og ræddi um árgjöld og ávinning af starfsemi BSSL og taldi að sambandið ætti að vinna ennfrekar að útboðum og hagstæðum samkaupum bænda. Ræddi einnig um hlutverk búnaðarfélaga t.d. varðandi hagsmunagæslu landeigenda gagnvart lagningu vega.

6. Matarhlé.

7. Kjörbréfanefnd skilar áliti.
Samúel U. Eyjólfsson kynnti niðurstöður nefndarinnar. Rétt til setu á fundinum eiga fulltrúar frá 30 búnaðarfélögum og 5 búgreinafélögum. Mættir voru 32 fulltrúar af 44 sem höfðu rétt á fundarsetu frá 21 búnaðarfélagi og 4 búgreinafélögum. Álit kjörbréfanefndar var samþykkt.samhljóða.

8. Einar Ófeigur Björnsson – varaformaður BÍ
Einar ræddi um helstu mál sem hafa komið til kasta stjórnar BÍ að undanförnu. Ræddi um fyrirliggjandi endurskoðun á búvörusamningum, tollvernd, sýklalyfjaónæmi og afnám frystiskyldu á matvælum. Lýsti ánægju sinni með að nú er unnið að Matvælastefnu fyrir Ísland en tryggja þarf eins og hægt er sjálfbærni við matvælaframleiðslu. Móta þarf og kynna betur stefnu íslenskra bænda og allir þurfa að standa saman sem ein heild.
Þurfum að sækja fram og skapa jákvæða umræðu um íslenskan landbúnað en varast stöðuga umræðu um vandamál. Þurfum að vita hvert við viljum stefna en tækifæri eru til staðar en við þurfum að nýta þau.

9. Tillögur lagðar fram og kynntar
Sveinn Sigurmundsson gerði grein fyrir hvaða tillögur hafa borist frá stjórn og aðildarfélögum og vísaði þeim til nefnda til afgreiðslu.

Ari Páll Ögmundsson kynnti tillögu: Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Hótel Dyrhólaey í Mýrdal 12. apríl 2019 samþykkir að að aðalfundarfulltrúar þiggi ekki greiðslur vegna aðalfundar.

10. Nefndir hefja störf
Sveinn Sigurmundsson tilnefndi sem formenn nefnda þá Jóhann Nikulásson Stóru- Hildisey fyrir allsherjarnefnd og Pál Eggertsson Arngeirsstöðum fyrir fjárhagsnefnd.

11. Kosningar.
Kosið um einn stjórnarmann og einn í varastjórn úr V-Skaftafellssýslu.
Sigurjón Eyjólfsson í Pétursey tók til máls gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Þakkaði hann stjórn og starfsmönnum BSSL gott samstarf á liðnum árum.
V-Skaftfellingar réðu ráðum sínum og síðan flutti Sverrir Gíslason á Kirkjubæjarklaustri tillögu þeirra um að Björn Helgi Snorrason á Kálfafelli verði aðalmaður í stjórn BSSL og Magnús Örn Sigurjónsson Eystri Pétursey sem varamaður.
Var tillagan samþykkt með lófataki fundarmanna.

12. Fundarhlé
Nú var gert fundarhlé og á meðan ný stjórn BSSL hélt sinn fyrsta fund og skipti með sér verkum. Var Gunnar Eiríksson á Túnsbergi kjörinn formaður, Ragnar M. Lárusson í Stóra-Dal varaformaður og Björn Helgi Snorrason Kálfafelli ritari. Sem formaður BSSL er Gunnar Eiríksson er því sjálfkjörinn fulltrúi á Búnaðarþing næstu 2 árin.

13. Kosningar til Búnaðarþings
Ólafur Þ. Gunnarsson tók til máls og baðst undan kosningu til Búnaðarþings. Fundarstjóri kynnti bréf frá Oddnýju Steinu Valsdóttur í Butru þar sem hún býður sig fram til setu á Búnaðarþingi. Trausti Hjálmarsson Austurhlíð, Sigríður Jónsdóttir Arnarholti, Ragnar M. Lárusson Stóra-Dal og Jóhann Nikulásson Hildisey tóku öll til máls og gáfu kost á sér til áframhaldandi setu á Búnaðarþingi. Þá tók Magnús Örn Sigurjónsson í Eystri Pétursey til máls og gaf einnig kost á sér en kosningar fóru þannig:

Aðalmenn á Búnaðarþing til næst tveggja ára:
Magnús Örn Sigurjónsson, Eystri Pétursey   32 atkvæði
Oddný Steina Valsdóttir, Butru               32   –
Ragnar M. Lárusson, Stóra-Dal               29   –
Trausti Hjálmarsson,   Austurhlíð            29   –
Jóhann Nikulásson, Hildisey                  28   –
Sigríður Jónsdóttir, Arnarholti              24   –

 Varamenn til næstu tveggja ára:
Berglind Guðgeirsdóttir, Skarði               13 atkvæði
Páll Eggertsson, Arngeirsstöðum             13   –
Hulda Brynjólfsdóttir, Tyrfingsstöðum     9   –
Ágúst Ingi Ketisson, Brúnastöðum             8   –
Sverrir Gíslason, Kirkjubæjarklaustri        7   –
Reynir Þór Jónsson, Hurðarbaki                7   –
Sæunn Káradóttir, Norðurhjáleigu            6   –

14. Tillögur frá nefndum, umræður og afgreiðsla.
Páll Eggertsson kynnti allar tillögur fjárhagsnefndar

Tillaga nr.1 – frá fjárhagsnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Hótel Dyrhólaey í Mýrdal 12. apríl 2019 samþykkir að árgjald til Búnaðarsambands Suðurlands fyrir árið 2019 verði kr. 6.000 á hvern  félagsmann.

Erlendur Ingvarsson og Jóhann Nikulásson tóku til máls en síðan var tillagan borin upp og samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 2 – frá fjárhagsnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Hótel Dyrhólaey í Mýrdal 12. apríl 2019 samþykkir að aðalfundarfulltrúar þiggi ekki greiðslur vegna aðalfundar 2019.

Ólafur Þ. Gunnarsson og Jóhann Nikulásson tóku til máls og töldu að samþykkt tillögunnar yrði ekki til að hvetja fulltrúa til mætingar á aðalfundinn.

Jóhann lagði fram breytingartillögu sem var samhljóða upphaflegri tillögu stjórnar:

Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Hótel Dyrhólaey í Mýrdal 12. apríl 2019 samþykkir að þóknun aðalfundarfulltrúa miðist við sem svarar einföldum dagpeningum ríkisstarfsmanna þ.e. kr.11.800.

Tillagan síðan borin upp og samþykkt með þorra atkvæða gegn einu.

Tillaga nr. 3 – frá fjárhagsnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Hótel Dyrhólaey í Mýrdal 12. apríl 2019 samþykkir að laun stjórnarmanna verði kr. 10.000 fyrir hvern stjórnarfund auk dagpeninga samkvæmt ríkistaxta og aksturs kr. 80 pr.km. Formaður fái tvöföld laun og dagpeninga á við aðra stjórnarmenn auk aksturs kr. 80 pr.km. Formaður fái að auki eingreiðslu sem nemur kr. 300.000 á ári.

Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 4 – frá fjárhagsnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Hótel Dyrhólaey í Mýrdal 12. apríl 2019 samþykkir fyrirliggjandi fjárhagsáætlun Búnaðarsambands Suðurlands fyrir árið 2019.

Eftir nokkrar umræður og útskýringar framkvæmdastjóra var tillagan borin upp og samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 1 frá allsherjarnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Hótel Dyrhólaey, 12. apríl 2019, leggst alfarið gegn fyrirhugaðri stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Tilgangur og þörf fyrir stofnun þjóðgarðs er óljós og veruleg hætta er á að nytjaréttur landeigenda muni skerðast og/eða glatast. Einnig hefur reynslan sýnt að kostnaður við rekstur þjóðgarða er verulegur samanber rekstur Vatnajökulsþjóðgarðs.

Berglind Guðgeirsdóttir kynnti tillöguna og var hún síðan samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 2 frá allsherjarnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Hótel Dyrhólaey, 12. apríl 2019, lýsir áhyggjum sínum af hagtölusöfnun í landbúnaði og hvetur stjórn BSSL til að beita sér fyrir úrbótum í þeim efnum.

Jóhann Nikulásson kynnti tillöguna og tilurð hennar og var síðan samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 3 frá allsherjarnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Hótel Dyrhólaey, 12. apríl 2019, hvetur stjórn Kynbótastöðvar ehf að huga að bættum aðbúnaði hrúta á sauðfjársæðingastöðinni.

Hulda Brynjólfsdóttir kynnti tillöguna og nokkrar umræður urðu um meðferð hrúta á fengitíma. Sveinn Sigurmundsson útskýrði aðstæður á Sauðfjársæðingastöðinni og möguleikar úrbætur og síðan var tillagan samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 4 frá allsherjarnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Hótel Dyrhólaey, 12. apríl 2019, mælist til þess að á haustfundum sauðfjárræktarinnar á Suðurlandi veiti BSSL verðlaun fyrir hyrnda, kollótta og mislita hrúta.

Jökull Helgason kynnti tillöguna og var hún síðan samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 5 frá allsherjarnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Hótel Dyrhólaey, 12. apríl 2019, hvetur stjórn BSSL til að standa að tilraunum á Tilraunabúinu á Stóra Ármóti.

Jóhann Nikulásson kynnti tillöguna sem var samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 6 frá allsherjarnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Hótel Dyrhólaey, 12. apríl 2019, hvetur stjórn BSSL til að finna vettvang fyrir aðildarfélögin til að ræða saman um starfsemi sína m.a. um rekstur tækja til útleigu, námskeið og kynningar, sameiginleg innkaup og annað sem henta þykir.

Samúel Eyjólfsson kynnti tillöguna sem síðan var samþykkt samhljóða.

15. Reikningar bornir undir atkvæði.
Þá voru reikningar Búnaðarsambandsins bornir upp og samþykktir samhljóða.

 16. Önnur mál
Erlendur Ingvarsson í Skarði ræddi afkomu bænda og rekstrarniðurstöðu á Stóra Ármóti og taldi blikur á lofti. Þórunn Andrésdóttir í Bryðjuholti ræddi umræðu um landbúnað í fjölmiðlum og hvernig forsvarsmenn landbúnaðar geti ýtt undir jákvæða ímynd landbúnaðarins.

Gunnar Ríkharðsson ræddi um breytingar á framkvæmd jarðræktarstyrkja í haust.

Jóhann Nikulásson ræddi um afkomu bænda og Samúel Eyjólfsson spurðist fyrir um áherslur BÍ í komandi viðræðum um endurskoðun á rammasamningi. Einar Ófeigur sagði að áhersla yrði á tollvernd og fylgt yrði niðurstöðu atkvæðagreiðslu kúabænda og tillögum frá aðalfundi LK.

Gunnar Eiríksson ræddi um komandi samningaviðræður við ríkisvaldið og þau áhersluatriði sem efst yrðu á baugi hjá Bændasamtökunum

 17. Fundarslit, Gunnar Kr. Eiríksson
Gunnar Kr. Eiríksson þakkaði góðan fund og sagði fundi slitið um kl 17:05.

 

back to top