Aðalfundur BSSL 2018

110. aðalfundur
Búnaðarsambands Suðurlands
haldinn 13. apríl 2018 að Smáratúni í Fljótshlíð.

1. Fundarsetning, Gunnar Kr. Eiríksson formaður.
Gunnar Kr. Eiríksson á Túnsbergi setti fundinn og bauð fulltrúa, starfsmenn, heiðursfélaga, gesti og framkvæmdastjóra Bændasamtakanna velkomna. Hann gerði það að tillögu sinni að Erlendur Ingvarsson stýrði fundi og að starfsmenn Búnaðarsambandsins þau Gunnar Ríkharðsson og Helga Sigurðardóttir rituðu fundargerð og var það samþykkt.

2. Skipan kjörbréfanefndar, Gunnar Kr. Eiríksson.
Gunnar bar upp tillögu um að þeir Þorsteinn Ágústsson Syðra-Velli, Páll Eggertsson Arngeirsstöðum og Þórarinn Bjarnason Þykkvabæ 1 skipuðu nefndina og var tillagan samþykkt.

3. Skýrsla stjórnar, Gunnar Kr. Eiríksson formaður.
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands var haldinn 11. apríl 2017 í Félagslundi Flóahreppi. Gunnar gerði grein fyrir tillögum síðasta aðalfundar og afdrifum þeirra. Breytingar urðu á stjórn en Baldur I. Sveinsson gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og eru Baldri þökkuð vel unnin stjórnarstörf. Helgi Eggertsson var kosinn í aðalstjórn en Helgi starfaði sem varamaður Baldurs um 1 árs skeið og er hann boðinn velkominn. Stjórn skipti með sér verkum Gunnar Eiríksson Túnsbergi formaður, Ragnar M. Lárusson Stóra-Dal varaformaður, Sigurjón Eyjólfsson Eystri-Pétursey ritari, Erlendur Ingvarsson Skarði og Helgi Eggertsson Kjarri meðstjórnendur. Fimm stjórnarfundir voru haldnir á árinu.
Kosið var til Búnaðarþings og hlutu kosningu fyrir utan formann sem er sjálfkjörin; Erlendur Ingvarsson, Skarði; Ragnar Lárusson Stóra-Dal; Ólafur Þ. Gunnarsson Giljum; Jóhann Nikulásson Stóru-Hildisey; Sigríður Jónsdóttir Arnarholti og Trausti Hjálmarsson Austurhlíð.
Uppbygging einangrunarstöðvar vegna innflutnings á Aberdeen Angus fósturvísum var í gangi allt árið en Sveinn Sigurmundsson er framkvæmdastjóri stöðvarinnar og hefur verkefnið tekið töluverðan tíma. Baldur I. Sveinsson starfsmaður verkefnisins hefur staðið sig með prýði og eru honum færðar þakkir fyrir.
Í sumar var hafist handa við breytingar í fjósinu á Stóra-Ármóti í lausagöngufjós með legubásum. Bústjórarnir Hilda Pálmadóttir og Höskuldur Gunnarsson sáu um breytinguna að mestu leyti og eru þeim færðar þakkir fyrir gott starf, en kýrnar komu inn í október og una hag sínum vel.
Á haustdögum hafði Hitaveita Selfoss samband við Búnaðarsambandið og lýsti áhuga sínum til frekari heitavatnsöflunar í landi Stóra-Ármóts en fyrir er samningur sem nær yfir um helming jarðarinnar og eru 3 borholur nýttar í dag. Nýr samningur var gerður um þann hluta jarðarinnar sem eldri samningur nær ekki yfir og var hann undirritaður í upphafi þessa árs.

4. Reikningar BSSL og skýrsla framkvæmdastjóra, Sveinn Sigurmundsson.
Sveinn fór yfir helstu mál sem snertu starfsemi BSSL á árinu 2017.
BSSL var stofnað þann 6. júlí 1908 og er þessi fundur því 110. aðalfundurinn. Á síðasta ári voru stofnuð tvö ný einkahlutafélög í eigu BSSL, annars vegar Kynbótastöð ehf sem yfirtók alla starfsemi tengda nautgripa- og sauðfjársæðingum svo og klaufsnyrtingu og hins vegar Bændabókhald ehf sem selur þjónustu tengda bókhaldi og rekstri. Áður var búið að stofna einkahlutafélag um búreksturinn á Stóra Ármóti. Á þessum fundi er því eingöngu farið yfir reikninga sem skýra rekstur Búnaðarsambandsins sem slíks og þeir bornir upp til samþykktar en niðurstöður reikninga dótturfélaga eru bara lagðar hér fram til kynningar.

BSSL að meðtöldum dótturfélögum var með um 292 milljónir í rekstrartekjur sem er aukning frá fyrra ári úr um 280 milljónum. Rekstrargjöld voru 293,6 milljónir og var því rekstrartap upp á 1,6 milljónir. Fjármunaliðir skila 3,6 milljónum sem er þó aukning frá fyrra ári þar sem þeir skiluðu 2,1 milljón. Hagnaður með vaxtatekjum er því rúmar 2 milljónir króna en eftir skatta er það rúm milljón sem er í hagnað.
Samkvæmt efnahagsreikningi eykst eigið fé um rúma milljón og er nú 254,6 milljónir. Eignir lækka hinsvegar sem skýrist af því að eignir og skuldir voru færðar yfir í dótturfélög. Áhrif þess má sjá í sjóðstreymi en þar lækka rekstrartengdar eignir og skuldir um 9,6 milljónir en höfðu árið á undan hækkað um 8,6 milljónir. Veltufjármunir aukast úr 157,2 milljónum í 161,6 milljónir. Eiginfjárhlutfall vex úr 85,8 % í 91,6 %. Í efnahagsreikningi samstæðunnar koma fram bókfærðar eignir upp á 311 milljónir króna.

Búnaðarsambandið (aðalskrifstofan) er með veltu sem nemur um 77,5 milljónum og hagnað upp á 1,1 milljón króna þegar búið er að taka tillit til dótturfélaga og skatta. Reynt var að hagræða á síðasta ári m.a með því að fækka og breyta ráðningarfyrirkomulagi starfsfólks, selja bíl og taka við nýjum verkefnum.

Bændabókhald ehf. velti 35,4 milljónum og var með tæpar 400 þúsund kr í hagnað. Verkefnin eru að aukast og áhugi er á að auka starfsemina. Starfsmenn eru núna fjórir og viðskiptamenn á þriðja hundrað.

Á Stóra Ármóti voru rekstrartekjur um 54,7 milljónir. Rekstrargjöld voru 47,3 milljónir og hagnaður 6,3 milljónir þegar búið er að taka tillit til skatta og fjármagnsliða. Á árinu var farið í miklar framkvæmdir í fjósinu og því breytt í lausagöngufjós. Mikilvægt er að nýta aðstöðu á Stóra Ármóti meira tengt rannsóknum og athugunum.

Kynbótastöð ehf. sá um allan rekstur á sæðingum og klaufsnyrtingu á síðasta ári og rekstrartekjur voru um 144 milljónir. Tap varð á rekstri á árinu upp á 3,1 milljón og þar af var tap á sauðfársæðingum rúmlega 1 milljón en um 25% samdráttur varð á síðasta ári í sölu á hrútasæði enda rekstur sauðfjárbúa erfiður um þessar mundir. Alls voru klaufir snyrtar á 5663 kúm á síðasta ári sem er aukning um 1000 kýr milli ára, en fjöldi nautgripasæðinga var svipaður milli ára.

BSSL sá um úttektir á jarðabótum og vatnsveitum fyrir MAST. Tekið var í notkun nýtt tölvukerfi við úttektir haustið 2017 og þessu fylgdi mikil vinna en samstarfið við Búnaðarstofu var mjög gott, en hún sér um þessi mál fyrir hönd MAST. Áhugi er hjá báðum aðilum á að halda þessu samstarfi áfram og auka við það ef hægt er.
Nautgriparæktarmiðstöð Íslands kláraði að reisa einangrunarstöð fyrir holdagripi á árinu en stöðin er staðsett á Stóra Ármóti. Heildarkostnaður við verkefnið frá upphafi er núna orðinn um 153 milljónir og er það heldur meira en kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir. Fluttir voru inn Angus fósturvísar frá Noregi og settir í 33 íslenskar kýr. Staðfest fang var í 11 kúm og er það heldur lakari útkoma en vonast var eftir en það skýrist helst af því að flutningurinn átti sér stað á mjög óhentugum árstíma.
BSSL er samband 35 aðildarfélaga og með um 1140 félagsmenn. Framtíðarsýnin er að búnaðarsambandið reki öflug þjónustufyrirtæki fyrir bændur á svæðinu, sinni öflugri hagsmunagæslu og taki síðan að sér ýmis verkefni fyrir aðrar stofnanir sem snúa að bændum t.d. úttektarverkefni fyrir Búnaðarstofu og jafnvel komi meira að hagtölusöfnun í landbúnaði.

5. Umræður um skýrslur og reikninga.
Þorsteinn á Syðra-Velli taldi Búnaðarsambandið vel rekið. Taldi að einangrunarstöðin á Stóra Ármóti ætti undir högg að sækja ef tollalaus innflutningur á nautakjöti myndi aukast mikið vegna nýrra tollasamninga. Taldi að auka ætti tilraunir á Stóra Ármót.
Daníel í Akbraut þakkaði Sveini fyrir vel unnin störf í gegnum tíðina. Vildi frekar nota orðið klaufsnyrting heldur en klaufskurður. Spurðist fyrir um hvort von væri á nýju forriti til að halda utan um jarðræktarskýrsluhaldið í stað forritsins „Jörð“ sem Daníel taldi flest til foráttu.
Gunnar á Túnsbergi, stjórnarmaður í BÍ, svaraði því til að ekki hefðu fengist fjármunir til að endurskrifa jarðræktarforritð Jörð frá grunni og því væri stefnt að endurbótum á eldra forriti frekar en nýju forriti nú í ár.
Samúel í Bryðjuholti spurðist fyrir um kostnað við úttektir á jarðabótum.
Sveinn Sigurmundsson sagði að allur kostnaður við aðstoð við umsóknir, úttektir, akstur og heimsóknir væri um 250 kr á ha.

6. Matarhlé.

7. Kjörbréfanefnd skilar áliti.
Þorsteinn Ágústsson, Syðra-Velli, formaður nefndarinnar kynnti niðurstöður nefndarinnar. Rétt til setu á fundinum eiga fulltrúar frá 30 búnaðarfélögum og 5 búgreinafélögum.
Kjörbréf fulltrúa lesin upp og eftirfarandi fulltrúar eru mættir:

Búnaðarfélag Gaulverjabæjarhrepps:
Þorsteinn Ágústsson, Syðra-Velli
Búnaðarfélag Stokkseyrarhrepps:
Sigurfinnur Bjarkarson, Tóftum.
Búnaðarfélag Sandvíkurhrepps:
Ari Páll Ögmundsson, Stóru-Sandvík.
Búnaðarfélag Hraungerðishrepps:
Gísli Hauksson, Stóru Reykjum.
Búnaðarfélag Villingaholtshrepps:
Kristinn Matthías Símonarson, Kolsholti 1
Búnaðarfélag Skeiðahrepps:
Jón Vilmundarson, Skeiðháholti.
Búnaðarfélag Gnúpverjahrepps:
Arnór Hans Þrándarson, Þrándarholti
Búnaðarfélag Hrunamannahrepps:
Benedikt Kristinn Ólafsson, Auðsholti
Þórunn Andrésdóttir, Bryðjuholti
Búnaðarfélag Bláskógabyggðar:
Daníel Pálsson, Hjálmsstöðum
Theódór Vilmundarson, Efstadal
Búnaðarfélag Grímsneshrepps:
Ágúst Gunnarsson, Stærri-Bæ
Búnaðarfélag Ölfushrepps:
Pétur B. Guðmundsson, Hvammi
Búnaðarfélag Eyrabakka:
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag A-Eyjafjallahrepps:
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag V-Eyjafjallahrepps:
Eyvindur Ágústsson, Stóru-Mörk 3
Búnaðarfélag A- Landeyjarhrepps:
Jóhann Nikulásson, Hildisey
Búnaðarfélag V-Landeyjarhrepps:
Berglind Bjarnadóttir, Ey
Búnaðarfélag Fljótshlíðarhrepps:
Páll Eggertsson, Arngeirsstöðum.
Búnaðarfélag Hvolhrepps:
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag Rangárvallahrepps:
Enginn fulltrúi
Búnaðarfélag Landmannahrepps:
Enginn Fulltrúi
Búnaðarfélag Holtahrepps:
Daníel Magnússon, Akbraut.
Búnaðarfélag Djúpárhrepps:
Birkir Ármannsson, Brekku
Búnaðarfélag Ásahrepps:
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag Hörgslandshrepps:
Enginn Fulltrúi.
Búnaðarfélag Kirkjubæjarhrepps:
Þórarinn Bjarnason, Þykkvabæ 1.
Búnaðarfélag Álftavers:
Þorbergur Jónsson, Holti
Búnaðarfélag Leiðvallahrepps:
Hörður Daði Björgvinsson, Efri-Ey 1
Búnaðarfélag Skaftártungu:
Bergur Sigfússon, Austurhlíð
Búnaðarfélag Hvammshrepps:
Gísli Guðbergsson, Lækjarbakka 2
Búnaðarfélag Dyrhólahrepps:
Magnús Örn Sigurjónsson, Pétursey
Félag sauðfjárbænda í Árnessýslu:
Jökull Helgason, Ósabakka 1.
Félag sauðfjárbænda í Rangárv.sýslu:
Erlendur Ingvarsson, Skarði.
Hulda Brynjólfsdóttir, Tyrfingsstöðum
Ragnar M. Lárusson, Stóra-Dal
Félag sauðfjárbænda í V-Skaft.:
Sigurjón Fannar Ragnarsson, Þykkvabæ 3
Loðdýraræktarfélag Suðurlands:
Hjalti Logason, Neðri-Dal.
Félag kúabænda á Suðurlandi:
Rafn Bergsson, Hólmahjáleigu
Reynir Þór Jónsson, Hurðarbaki
Samúel U. Eyjólfsson, Bryðjuholti
Bjarni Másson, Dalbæ (varam).

Mættir eru 35 fulltrúar úr 23 búnaðarfélögum og 5 búgreinafélögum.
Álit kjörbréfanefndar var samþykkt samhljóða.

Kjörbréf Gísla Guðbergssonar barst síðar en var borið upp af fundarstjóra og samþykkt af fundinum

8. Af vettvangi BÍ og helstu mál Búnaðarþings 2018, Sigurður Eyþórsson
Sigurður Eyþórsson framkvæmdastjóri BÍ færði fundinum góðar kveðjur frá stjórn og starfsfólki Bændasamtakanna. Stærsta breytingin á umhverfi BÍ á árinu 2017 var niðurfelling búnaðargjaldsins sem gjörbreytir allri tekjuöflun samtakanna.
Skráðir aðildarfélagar í BÍ eru nú um 3.400 en á bak við eina aðild geta verið fleiri en einn einstaklingur.
Sigurður greindi frá helstu málum sem eru í vinnslu hjá BÍ og hafa verið síðustu mánuði. Er þar helst að nefna tollasamninga, hrátt kjöt, umhverfismál, búvörusamninga og félagskerfið.

Tollasamningar. Fyrsti áfangi í lækkun innflutningstolla tekur gildi 1.maí 2018 en athugun sérfræðinga leiddi í ljós að áætlað tekjutap bænda gæti verið um 16% vegna aukins innflutnings í kjölfar nýrra tollasamninga. Taka þarf tillit til þess hvort um er að ræða kjöt á beini eða úrbeinað kjöt og einnig þarf að efla tollaefirlit svo t.d vöðvar séu ekki fluttir inn sem hakkefni. Þá þarf að fara yfir tollverndina við endurskoðun búvörusamninga m.a. með tilliti til magntolla og verðtolla.

Hrátt kjöt þ.e. ófrosið hrátt kjöt (ferskt kjöt). Samkvæmt úrskurði EFTA dómstólsins er okkur ekki heimilt að krefjast frystingar á kjöti fyrir innflutning og ekki má takmarka innflutning á ógerilsneyddri mjólk og eggjum. Eftir sem áður megum við hafa í gildi bann við markaðsetningu á ógerilsneyddri mjólk hérlendis svo innflutningsleyfi á henni hefur sennilega lítil áhrif.
Dómstóll EFTA samþykkir ekki að áhætta aukist á búfjár- og matarsýkingum með innflutningi á fersku kjöti. Áhætta eykst þó örugglega með innflutningi á fersku kjúklingakjöti frá ýmsum löndum miðað við ástand innlendrar framleiðslu ekki hvað síst m.t.t. kamfýlóbakter sýkinga.
Vinna er í gangi á vegum BÍ við að skoða möguleika á endurskoðun samninga og Sigurður metur það svo að ráðherra hafi ekki útilokað þann möguleika.

Umhverfismál. Loftslagsmál eru mjög áberandi í umræðunni nú um stundir og kannski er umræðan kominn fram úr raunverulegri þekkingu á vissum sviðum. Mikilvægt er að bændur taki jákvætt undir þessi mál en á sama tíma geri kröfu um að rannsóknir liggi að baki ákvörðunum t.d. varðandi áhrif landnýtingar á losun kolefnis. Síðasta Búnaðarþing samþykkti ítarlega greinargerð um þessi mál.

Búvörusamningar og breytingar á þeim. Áherslur búgreinafélaganna varðandi búvörusamninga hafa komið fram á aðalfundum þeirra að undanförnu. Aðalfundur LS samþykkti t.d. að skynsamlegt væri að frysta allar stuðningsgreiðslur til að taka út alla framleiðsluhvata. Aðalfundur LK samþykkti ályktun í þá veru að nauðsynlegt sé að halda áfram með framleiðslustýringu í mjólkurframleiðslu en atkvæðagreiðsla er nú fyrirhuguð á meðal kúabænda um framhaldið. Garðyrkjubændur vilja beingreiðslur út á fleiri tegundir afurða heldur en nú er greitt út á. Samráðshópur um endurskoðun búvörusamninga var nýlega endurskipaður af nýjum ráðherra en rétt er að benda á að þetta er ekki samninganefnd sem slík heldur skipar BÍ í samráði við hverja búgrein fulltrúa í slíka nefnd þegar að því kemur.

Félagskerfi bænda hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu. Félög bænda þurfa að vinna betur saman og einfalda þarf kerfið ef hægt er. Búnaðarþing samþykkti skipun nefndar til að skoða félagskerfið og koma með tillögur til breytinga ef þörf er á.
Ýmsum spurningum þarf að svara t.d. hvaða verkefni eiga að vera hvar, hvað á að gera og hvað ekki og hvernig á aðildin að Bændasamtökunum að vera, er hún bein fyrir hvern einstakling eða óbein gegnum aðildarfélög ?
Er aðild að Bændasamtökunum bara tengd búsetu í dreifbýli eða er gerð krafa um búvöruframleiðslu til að eiga möguleika á aðild ?
Spurningin er hvernig náum við hagkvæmasta skipulaginu og nýtum best þá fjármuni sem fyrir hendi eru.
Sigurður lauk máli sínu og þakkaði fundarmönnum gott hljóð.

9. Helstu verkefni RML, Runólfur Sigursveinsson.
Runólfur Sigursveinsson fagstjóri rekstrar hjá Ráðgjafarmiðstöð Landbúnaðarins (RML) flutti ítarlegt erindi um stöðu og framtíð RML. Sagði hann frá helstu verkefnum og hvernig staðið er að fjármögnun rekstrarins en fyrirtækið hefur nú starfað um 5 ára skeið.
Heildartekjur RML á árinu 2017 voru um 545 milljónir. Þar af komu um 343 milljónir úr Rammasamningi búvörusamninga og rúmlega 39 milljónir úr Framleiðnisjóði og Þróunarsjóðum búgreina til ákveðinna verkefna og námu framlög því um 70% af tekjum fyrirtækisins. Framlög úr Rammasamningi munu þó lækka um 15 milljónir á ári næstu 10 árin skv. ákvæðum samningsins. Útseld vinna og þjónusta skilaði um 120 milljónum en aðrir tekjuliðir eru kynbótasýningar hrossa sem skiluðu tæpum 25 milljónum og lambadómar sem skiluðu rúmum 18 milljónum á síðasta ári.
Laun og annar starfsmannakostnaður RML nam um 349 milljónum eða um 70% af rekstrargjöldum, en meðalfjöldi starfsmanna á árinu 2017 var um 38 en var tæplega 50 þegar fyrirtækið hóf starfsemi árið 2013. Fyrstu tvö árin var verulegt tap (um 47 milljónir) af rekstri RML en frá árinu 2015 hefur verið hagnaður af rekstri og á árinu 2017 nam hagnaður fyrir skatta rúmum 48 milljónum. Samanlagður hagnaður eftir skatta fyrstu fimm ár starfseminnar er um 46 milljónir kr.
Af hefðbundnum verkefnum sem RML sinnir má nefna framkvæmd kynbótastarfsins í nautgripa-, sauðfjár og hrossarækt, þjónusta við skýrsluhald og ýmiss almenn verkefni í búfjárrækt eins og lambadómar og kynbótadómar hrossa. Sérhæfð ráðgjöf fyrir einstaka bændur er m.a. á sviði rekstrar, bútækni, fóðrunar, jarðræktar og kynbóta. Á rekstrarsviði má nefna að unnar eru um 200-250 fjárfestingaáætlanir á ári en þær tengjast t.d. jarðakaupum, framkvæmdum og ættliðaskiptum. Á bútæknisviði er áhersla lögð á að aðstoða bændur við að uppfylla kröfur um aðbúnað dýra og einnig að bæta vinnuaðstöðu. Þá er aukin áhersla á gerð verkáætlana og kostnaðargreiningu einstakra verkþátta við stórar framkvæmdir.
Fóðuráætlangerð er mikilvægur þáttur í ráðgjöf til kúabænda en RML leggur áherslu á að óháð ráðgjöf á þessu sviði sé mikilvæg en flestir fóðursalar bjóða einnig upp á ráðgjöf til sinna viðskiptavina.
Á jarðræktarsviði er lögð áhersla á að tengja jarðvinnslu, ræktun og áburðargjöf við hagkvæmni gróffóðuröflunar en ljóst er að sá þáttur hefur hvað mestu áhrif á afkomu búsins.
Á sviði nautgriparæktar er vaxandi áhugi á gerð pörunaráætlana og ekki hvað síst norðanlands en um 120 kúabændur kaupa nú þessa þjónustu.
Þá hefur RML í vaxandi mæli notið aðstoðar erlendra ráðgjafa við sölu á þjónustu m.a. á sviði kornræktar og garðyrkju og einnig nýtt sér þekkingu utanaðkomandi innlendra sérfræðinga m.a. á sviði bútækni og bygginga.
Þá má nefna nýtt verkefni sem RML vinnur nú að í samvinnu við Umhverfis- og auðlindaráðuneytið en markmið þess er að meta umfang losunar gróðurhúsalofttegunda frá búrekstri og finna hagkvæmar leiðir til að draga úr henni.
Eins og áður kom fram munu framlög til RML skv. Rammasamningi búvörusamninga skerðast um 15 milljónir á ári næstu 10 árin en bregðast verður við því með því að auka sölu á þjónustu, auka skilvirkni og þróa ný verkefni. Takist það ekki er óhjákvæmilegt að draga úr starfsemi á einhverjum sviðum sem ekki skila nægum tekjum.
Lauk Runólfur þar máli sínu en fundarstjóri leyfði þá umræður um erindi framsögumanna.

Bjarni Másson í Dalbæ spurði Sigurð Eyþórsson að ef samþykkt verður af kúabændum að halda áfram með framleiðslustýringu í mjólkurframleiðslu hvort þá þurfi að gera alveg nýjan búvörusamning eða hvort dugi að breyta núverandi samningi.
Sigurður Eyþórsson svaraði því til að ef samþykkt verður að halda áfram með framleiðslustýringu í mjólkurframleiðslu þá muni hún byggjast á núverandi kerfi skv. Búvörusamningi.

Þorsteinn á Syðra-Velli sagði bændur ekki hafa gert nægar kröfur um bætt kjör og því þyrfti að breyta þar sem aðrar stéttir hafi fengið miklar kjarabætur. Hvatti hann framámenn BÍ til dáða. Hann spurði Runólf hvernig fjármagn komi til RML frá Framleiðnisjóði.
Runólfur svaraði því til að fjármagn kæmi til RML til ákveðinna verkefna og kæmi það ýmist beint frá Framleiðnisjóði eða í gegnum Þróunarsjóði búgreinanna.

Sveinn Sigurmundsson þakkaði Runólfi fyrir gott erindi en sagði RML kannski hafa vantað meiri sýnileika. Þá sagði hann það valda áhyggjum hve fáir virðast sækja um fagleg störf í landbúnaði og spurði Runólf um umsóknir um starf naugriparæktarráðunauts hjá RML sem auglýst var fyrir skömmu.
Runólfur sagðist sammála Sveini um að sýnileiki RML þyrfti að vera meiri og nú væri lag til að bæta það þar sem staða RML væri nú mun betri fjárhagslega heldur en áður. Staða nautgriparæktarráðunauts var auglýst, tvær umsókir bárust en ákveðið var að bíða með ráðningar í bili en unnið er að skipulagsbreytingum og tilfærslu verkefna hjá RML.

Sveinn Sigurmundsson spurði Sigurð Eyþórsson um nýstofnaðan velferðarsjóð BÍ.
Sigurður sagði að sjóðurinn taki til starfa nú í vor og fái fjármagn núna úr B-deild Bjargráðasjóðs. Tilgangur og markmið sjóðsins er að styðja fjárhagslega við félagsmenn BÍ er þeir verða fyrir meiriháttar áföllum í búrekstri sínum, s.s. vegna veikinda og slysa. Sjóðurinn styður einnig forvarnarverkefni tengd vinnuvernd og slysavörnum eða önnur verkefni sem hafa það að markmiði að bæta velferð sjóðsfélaga.

Erlendur í Skarði spurði Sigurð hvort rétt væri að formaður Bændasamtakanna hefði tekið illa í tillögur frá aðalfundi LS varðandi endurskoðun á búvörusamningi.
Sigurður svaraði því til að engin yfirlýsing hafi verið gefin út af stjórn BÍ varðandi þessar tillögur og ekki vildi hann fullyrða neitt um persónulegar skoðanir formannsins.

Gunnar Ríkarðsson sagði að það væri stundum erfitt að átta sig á því hvað einstök ríki mættu gera og hvað ekki m.t.t. alþjóðlegra samninga. Hann spurði Sigurð Eyþórsson hvort það væri réttur skilningur hjá sér að þar sem banna mætti sölu á Íslandi á ógerilsneyddri mjólk þó innflutningur sé núna leyfður þá myndi það sama gilda um aðrar landbúnaðarvörur. Þannig gætum við t.d. bannað sölu á ferskum kjúklingum á Íslandi ef áhugi væri á því þó svo innflutningur væri leyfður.
Sigurður svaraði því til að hann teldi svo vera svo lengi sem bannið gilti bæði fyrir erlenda og innlenda framleiðendur.

10. Tillögur lagðar fram og kynntar
Sveinn Sigurmundsson gerði grein fyrir hvaða tillögur hafa borist frá stjórn og aðildarfélögum og vísaði þeim til nefnda til afgreiðslu.

11. Nefndir hefja störf
Sveinn Sigurmundsson tilnefndi formenn nefnda og gerði tillögur að skipan fulltrúa í nefndir.
Allsherjarnefnd, formaður Jóhann Nikulásson Stóru- Hildisey.
Fjárhagsnefnd, formaður Theódór Vilmundarson Efstadal.
Fagmálanefnd, formaður Jón Vilmundarson Skeiðháholti.

12. Kosningar.
Kosið um tvo stjórnarmenn og tvo í varastjórn úr Rangárvallasýslu.
Fram kom að báðir núverandi stjórnarmenn gefa kost á sér áfram.
Sem aðalmenn voru kosnir Ragnar Lárusson í Stóra-Dal með 31 atkvæði og Erlendur Ingvarsson í Skarði með 29 atkvæði.
Sem varamenn voru kosin Borghildur Kristinsdóttir í Skarði með 26 atkvæði og Sigurður Sæmundsson Skeiðvöllum með 16 atkvæði.

Kosnir tveir skoðunarmenn reikninga
Stungið var upp á Páli Eggertssyni Arngeirsstöðum og Valdimari Guðjónssyni Gaulverjabæ.
Var það samþykkt með lófataki.

13. Tillögur frá nefndum, umræður og afgreiðsla.
Theódór Vilmundarson kynnti tillögur fjárhagsnefndar

Tillaga nr.1 – frá fjárhagsnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Smáratúni í Fljótshlíð 13. apríl 2018 samþykkir að árgjald til Búnaðarsambands Suðurlands fyrir árið 2018 verði kr. 4.000 á hvern félagsmann.
Jóhann Nikuásson vildi halda sig við tillögu stjórnar þar sem gert var ráð fyrir að árgjald yrði 5.000 kr fyrir hvern félagsmann og gerði það að tillögu sinni.
Var sú breytingartillaga borin upp og samþykkt með 17 atkvæðum gegn 14.

Svohljóðandi tillaga var síðan samþykkt samhljóða:
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Smáratúni í Fljótshlíð 13. apríl 2018 samþykkir að árgjald til Búnaðarsambands Suðurlands fyrir árið 2018 verði kr. 5.000 á hvern félagsmann.

Tillaga nr. 2 – frá fjárhagsnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Smáratúni í Fljótshlíð 13. apríl 2018 samþykkir að þóknun aðalfundarfulltrúa miðist við sem svarar einföldum dagpeningum ríkisstarfsmanna þ.e. kr.11.200.
Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða án umræðu.

Tillaga nr. 3 – frá fjárhagsnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Smáratúni í Fljótshlíð 13. apríl 2018 samþykkir að laun stjórnarmanna verði kr. 10.000 fyrir hvern stjórnarfund auk dagpeninga samkvæmt ríkistaxta og aksturs kr. 80 pr.km. Formaður fái tvöföld laun og dagpeninga á við aðra stjórnarmenn auk aksturs kr. 80 pr.km. Formaður fái að auki eingreiðslu sem nemur kr. 300.000 á ári.
Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða án umræðu.

Tillaga nr. 4 – frá fjárhagsnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Smáratúni í Fljótshlíð 13. apríl 2018 samþykkir fyrirliggjandi fjárhagsáætlun Búnaðarsambands Suðurlands fyrir árið 2018.
Tillagan borin upp og samþykkt án umræðu með einu mótatkvæði.

Jóhann Nikulásson mælt fyrir tillögum allsherjarnefndar.
Tillaga nr. 5 – frá allsherjarnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn í Smáratúni í Fljótshlíð 13. apríl 2018 skorar á Landbúnaðarháskóla Íslands að efla og standa betur að rannsóknum í nautgriparækt á Stóra Ármóti og nýta þá aðstöðu sem þar er til staðar, landbúnaði til hagsbóta og framfara.
Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða án umræðu.
Tillagan barst til fundarins frá Búnaðarfélagi Villingaholtshrepps eins og hún var samþykkt.

Tillaga nr. 6 – frá allsherjarnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Smáratúni í Fljótshlíð 13. apríl 2018 krefst þess að sú starfsemi sem unnin er í Búnaðarstofu Matvælastofnunar verði færð í sjálfstæða stofnun undir stjórn Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis til að styrkja stjórnsýslu í landbúnaði.

Greinargerð með tillögu:
Stjórnsýsla sem um ræðir er m.a. að sjá um framkvæmd búvörusamninga og hagtölusöfnun í landbúnaði. Þar geta starfsmenn búnaðarsambanda nýtt sína staðbundnu þekkingu með því að vinna að verkefnum fyrir slíka stofnun. Einnig má hugsa að allir miðlægir gagnagrunnar sem eru í eigu bænda í dag færist undir stofnunina sem sæi þá um viðhald þeirra og þróun í samstarfi við fagráð viðkomandi búgreina. Ennfremur gætu fleiri verkefni sem unnin eru í ANR átt þarna heima og má í því sambandi nefna umsjón með tollamálum. Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands telur mjög brýnt að styrkja stjórnsýsluna í landbúnaði svo hún þjóni betur hagsmunum atvinnugreinarinnar svo fæðuöryggi landsmanna sé tryggt til langs tíma.
Nokkrar orðalagsbreytingar voru gerðar á tillögunni í meðförum fundarins en hún síðan samþykkt samhljóða eins og hún er rituð hér.

Jón Vilmundarson mælti fyrir tillögum fagmálanefndar.
Á fundinum hafði komið fram ábending um að auka þyrfti sýnileika RML á meðal bænda og því lagði fagmálanefnd fram eftirfarandi tillögu:

Tillaga nr. 7 – frá fagmálanefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Smáratúni í Fljótshlíð 13. apríl 2018 hvetur RML til að kynna starfsemi, þekkingu og vöruframboð fyrirtækisins á meðal bænda með markvissari og sýnilegri hætti en verið hefur.
Tillagan var samþykkt samhljóða án umræðu.

Í umræðum á fundinum hafði komið fram að í stjórn RML ættu sauðfjárbændur þrjá fulltrúa en kúabændur engan. Nefndin lagði því fram eftirfarandi tillögu.

Tillaga nr. 8 – frá fagmálanefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Smáratúni í Fljótshlíð 13. apríl 2018 hvetur stjórn Bændasamtaka Íslands til að gæta að sjónarmiðum sem flestra búgreina við tilnefningu til stjórnar RML.

Gunnar á Túnsbergi, stjórnarmaður í BÍ, gerði grein fyrir því að stjórn BÍ skipi í stjórn RML en frekar illa hafi gengið að fá fólk til að sinna stjórnarstörfum.
Eftir nokkrar orðalagsbreytingar var tillagan samþykkt samhljóða eins og að ofan greinir.

14. Reikningar bornir undir atkvæði.
Þá voru reikningar félagsins bornir upp til samþykktar
Samúel í Bryðjuholti gerði athugasemd við að reikningum sé ekki dreift til fulltrúa fyrir fund. Spurði út í stofnsjóð BSSL hjá Auðhumlu og SS.
Sveinn Sigurmundsson svaraði Samúel. Stofnsjóðir Stóra Ármóts eru í kringum 40 milljónir og koma fram í reikningum Stóra Ármóts ehf. Ef dreifa á reikningum BSSL til fulltrúa á aðalfundi fyrir fund þá þarf að skila kjörbréfum mun fyrr til BSSL svo það liggi fyrir hvert á að senda gögnin.
Reikningar síðan bornir upp og samþykktir samhljóða

15. Önnur mál
Ragnar Lárusson þakkaði það traust sem honum var sýnt við stjórnarkjör.
Jóhann Nikulásson gerði athugasemd við ummæli Erlendar í Skarði í garð formanns Bændasamtaka ekki hvað síst þar sem hann væri fjarstaddur. Erlendur skýrði sitt mál.
Þorsteinn á Syðra-Velli hvatti bændur til að segja sína skoðun bæði á forystumönnum bænda og þeim málefnum sem að bændum snúa.
Fleiri tóku ekki til máls og þakkaði Erlendur það traust sem honum var sýnt við stjórnarkjör og bauð formanni að slíta fundi.

16. Fundarslit, Gunnar Kr. Eiríksson
Gunnar Kr. Eiríksson þakkaði góðan fund. Var mjög ánægður með tillögu um aukið tilraunastarf á Stóra Ármóti og málefnalegan fund og sagði fundi slitið um kl 16:45.

back to top