Aðalfundur BSSL 2002

94. aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands
Haldinn 24. apríl 2002 í Þingborg, Hraungerðishreppi

1. Fundarsetning, Þorfinnur Þórarinsson formaður.
Þorfinnur setti fundinn og bauð viðstadda velkomna, nefndi sérstaklega gest fundarins frá BÍ, Sigurgeir Þorgeirsson.. Hann kynnti tillögu að starfsmönnum fundarins. Lagt var til að Ólafur Einarsson, Hurðarbaki og Baldur I. Sveinsson, Litla- Ármóti yrðu fundarstjórar og Pétur Halldórsson og Jóhannes Hr. Símonarson rituðu fundargerð. Tillagan var samþykkt. 

2. Skipan kjörbréfanefndar.
Tillaga að skipan kjörbréfanefndar: Ólafur Jósepsson, Syðri-Gegnishólum, Þórir Ólafsson, Miðkoti og Jón Jónsson, Prestbakka. Jón Jónsson var ekki mættur svo varamaður hans, Snorri Björnsson á Kálfafelli var tilnefndur í hans stað. Tillagan samþykkt. 

3. Skýrsla stjórnar, Þorfinnur Þórarinsson.
Þorfinnur rakti lauslega starfsemi Bs. Suðurlands á árinu og tengdra stofnana. Heildarvelta samstæðunnar voru tæpar 150 milljónir og rekur Búnaðarsambandið nú fimm aðskildar deildir frá sl. áramótum, bókhaldsþjónustan sú nýjasta. Laun og launatengd gjöld voru tæpar 72 milljónir, þar af 48 milljónir hjá leiðbeiningarstöðinni. Stóra-Ármót er þar undanskilið því það fellur undir verktakagreiðslur. Þrátt fyrir að rekstrarumhverfið hafi verið flestum fyrirtækjum erfitt á síðasta ári hjálpaði góð fjárhagsstaða Búnaðarsambandsins til. Í máli Þorfinns kom fram að búskapur á Stóra-Ármóti hafi gengið vel og að undanfarin ár hafi ekkert fjármagn verið flutt frá almennri starfsemi að Stóra-Ármóti. Búið virðist ega staðið undir rekstrinum, en öll uppbygging verður að fjármagna annarsstaðar frá. Nýir tekjuliðir, s.s. vatnsréttindi og veiðitekjur hjálpa til. Samvinna Landbúnaðarháskólans og RALA varðandi tilraunaþáttinn virðist vera í höfn því til stendur að skrifa undir samkomulag þar að lútandi þann 14. maí n.k.
Stjórnarfundir Búnaðarsambandsins voru 7 á árinu 2001, flestir á skrifstofu Búnaðarsambandsins utan tveir sem haldnir voru annars vegar á Stóra-Ármóti og hins vegar í Skálholtsskóla.
Þorfinnur vakti athygli á því að Búnaðarsamband Suðurlands fagnaði 100 ára afmæli sínu árið 2008 og hefur stjórn Búnaðarsambandsins samið við Pál Lýðsson í Litlu-Sandvík um að hann afli gagna um sögu Sambandsins. Til er sérstakur afmælissjóður sem mætti nota í þessu skyni.
Í lok ræðu sinnar kom Þorfinnur inn á samþykkt síðasta Búnaðarþings um lækkun búnaðargjaldsins á næsta ári. Þetta mun þýða tveggja milljóna króna lækkun til Búnaðarsambandsins. 

4. Reikningar Búnaðarsambands Suðurlands og skýrsla framkvæmdastjóra, Sveinn Sigurmundsson.
Sveinn fór yfir reikninga Búnaðarsambands Suðurlands og skýrslu framkvæmdastjóra. Rakti tekjur og gjöld, fjárfestingar, afskriftir og aðrar lykitölur rekstrar á liðnu rekstrarári, hjá Sambandinu og tengdri starfsemi.
Sveinn fór yfir nýbreytni í starfsemi Búnaðarsambandsins, s.s. stofnun nýrrar bókhaldsdeildar og nýja starfsmenn henni tengdri. Fór svo fáum orðum um nauðsyn á öflugari rekstrarráðgjöf en áður hefur verið veitt.  Sveinn kom inn á þær breytingar á aðstöðu sem eru fyrirliggjandi á skrifstofuhúsnæði Búnaðarsambandsins. Sunnlenska fréttablaðið sem leigt hefur aðstöðu af Búnaðarsambandinu er farið út og mun Búnaðarsambandið sjálft taka plássið til eigin nota.
Sveinn kom inn á væntingar sínar til búrekstrartengdrar ráðgjafar, sagði að sínar vonir stæðu til að bráðlega yrðu um 100 bú með sértæka og samningsbundna rekstrarráðgjöf hjá Búnaðarsambandinu. Hann ræddi þó að þær tekjur sem af þessu hlytust hefðu ekki skilað sér sem skyldi á rekstrarárinu. Sveinn lýsti í nokkrum atriðum hvernig þessi rekstrarráðgjöf fer fram í raun, þ.e. með heimsóknum til bænda og rekstrargreiningu/rekstaráætlunum unnum af ráðunautum Sambandsins.
Sveinn mynntist á þær fjölbreyttu sýningar sem í vændum eru, þ.e. kynbótasýningar hrossa og væntanlega kúasýningu, Kýr 2002, sem áætlað er að halda í Ölfushöll í ágústmánuði. Hann ræddi nokkuð þau námskeið sem staðið hafa bændum til boða á árinu og þau námskeið sem nú eru í gangi, s.s. í almennri tölvunotkun og á forritum B.Í.
Sveinn rakti í nokkru þær breytingar á búnaðargjaldi sem samþykktar voru á nýliðnu búnaðarþingi. Taldi hann að þessar breytingar væru í raun ekki jafn miklar eða erfiðar fyrir rekstur Búnaðarsambandsins eins og hann hafði fyrirfram talið.
Sveinn sagði Búnaðarsambandið fara varlega í aukna gjaldtöku, um tvísköttun yrði aldrei að ræða. Hann rakti þá þætti sem í dag falla undir sérstaka gjaldtöku, s.s. rekstraráætlanir, mælingar, hrossaskoðanir o.fl.
Sveinn kom sérstaklega inn á erfiða stöðu fjölskyldubúa í svínarækt og taldi að verulega hefði hallaði undan fæti hjá búum af þessari stærð og gerð.
Stöðu mjólkurframleiðslunnar taldi Sveinn allgóða og mikil aukning á Suðurlandi öfugt við aðra landshluta, órækt vitni þess. Sveinn taldi stöðu garðyrkjunnar a.m.k. ekki verri en fyrir ári síðan.
 Að lokum þakkaði Sveinn samstarfsfólki, stjórn, starfsmönnum og bændum öllum fyrir ánægjulegt samstarf á árinu.

5. Umræður um skýrslur og reikninga.
 Eiríkur Jónsson í Gígjarhólskoti spurði um greiðslumark í reikningum – hvort það væri ekki niðurfært milli ára. Ólafur Þór Þórarinsson svaraði því til að þar sem umrætt greiðslumark var keypt rétt fyrir áramót og kom ekki til beinnar noktkunar, var því ákveðið að sleppa því að fyrna það á þessu ári.
Margrét á Þverlæk þakkaði Sveini greinargóða skýrslu og yfirlit yfir rekstur Búnaðar-sambandsins.
 Einar Þorsteinsson fyrrverandi ráðunautur, Sólheimahjáleigu, kom í pontu og lýsti ánægju sinni með störf sambandsins og taldi vel að verki staðið og bjart yfir. Taldi sambandið vera sem hann kallaði afskaplega ærufríða stofnun. Einar minnti þingfulltrúa á ábyrgð þeirra sem fulltrúa og áhrifamenn á strauma og stefnur, og sagði að mikilsvert væri hvernig talað er um stofnun sem þessa heima í héraði og ekki síst heima í eldhúsi.
 Kjartan Ólafsson kom í pontu og lýsti einnig ánægju sinni með öflugt starf sambandsins. Þá vék hann máli sínu að þeim kerfisbreytingum sem fyrir liggja í grænmetisframleiðslunni, s.s. afnám tolla á erlenda framleiðslu, hvort heldur litið er til magns eða árstíma. Þess í stað eru teknar upp beingreiðslur til  innlendra fram-leiðenda. Upphæðin er sem nemur alls 195 milljónir króna á ári og skiptist í nokkra þætti s.s.: raforkustyrk, styrk til afsetningar, styrk til markaðs og þróunarstarfs. Kjartan lísti vonum sínum um að umræða um garðyrkjuna yrði á jákvæðari nótum framvegis en verið hefur á undangengnum árum.
Sem stjórnarmaður Framleiðnisjóðs rakti Kjartan þær staðreyndir að stærstur hluti umsókna og styrkveitinga sjóðsins væri frá þessu svæði komið. Taldi mikla grósku og framkvæmdagleði einkenna
 samanborið við aðra landshluta.
 Guðrún Stefánsdóttir, Hlíðarendakoti, kom í pontu og þakkaði Sveini og sambandinu gott starf. Þá vék hún að tillögu laganefndar um breytingu á skilgreiningu starfssvæðis, sem hún var ekki sátt við . Þá beindi hún spurningu til nefndarinnar á þá leið hvert yrði vægi búgreina/búnaðarfélaga ef breytingar nefndarinnar ná fram að ganga – mun það breyta fulltrúafjölda mikið?
Guðmundur Stefánsson var til svara. Hann taldi að búgreinafulltrúar færu úr 27 í 20, en búnaðarfélagsfúlltrúar úr  39-34, þ.e. fækkun hjá báðum hópum. Mest breyting yrði hjá hrossabændum sem haft hafa 5 fulltrúa en þeim mun fækka. Guðmundur nefndi að starfsemi innan búgreinafélaga væri afskaplega misjafnlega mikil – en þó sínu mest í stærsta og minnsta félaginu, þ.e. hjá kúabændum og loðdýrabændum. 

6.  Erindi Guðmundar Stefánssonar um álit laganefndar.
Í laganefd voru Guðmundur Stefánsson, Sigurður Loftsson og Þórir Jónsson, Tillögur laganefndar voru lagðar fyrir stjórn þegar niðurstaða nefndarinnar lá fyrir.
Aðalltillaga laganefndar er að fara svo kallaða Búnaðarþingsleið, þ.e. að velja  fulltrúa m.t. þess fjármagns sem búgreinafélög leggja til hlutfallslega. Auk þess að búgreinafélög hafi 20 fulltrúa, fyrst einn fyrir hverja búgrein og svo fleiri eftir nánari reglum sem miða við upphæð búnaðargjalds búgreinarinnar (Í meginatriðum að fyrsti fulltrúi dekki 5% af tekjum sem koma inn á viðkomandi búgrein, svo þurfi önnur 5% og þannig áfram fyrir hvern viðbótarfulltrúa).
 Lagt er til að fyrsti fulltrúi frá hverju búnaðarfélagi dekki fyrstu 80 félagsmenn, búnaðarfélög með færri en 10 félaga kjósi með aðliggjandi félagi. Þetta má tengja þeirri staðreynd að sveitarfélög eru í óðaönn að sameinast og búnaðarfélög mörg og víða.
 Nefndin leggur til að sérstakt samráð sé haft við búgreinafélögin um ráðstöfun búnaðargjalds sem hver grein leggur til.
 Nefndin leggur til að starfssvæði Bs. sé skilgreint frá Hellisheiði í vestri að Skeiðarársandi í austri. 

7. Matarhlé. 

8. Kjörbréfanefnd skilar áliti.
Formaður nefndarinnar Ólafur Einarsson kynnti niðurstöðu nefndarinnar. Ekki bárust kjörbréf frá þrem aðildarfélögum Búnaðarfélagi Hvolhrepps, Búnaðarfélagi Eyrabakka og Svínaræktarfélagi Suðurlands. Kjörbréf voru samþykkt. 

9. Umræður og afgreiðsla skýrslna og reikninga, framhald
Reikningar voru bornir undir atkvæði og samþykktir samhljóða.
 
10. Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóri BÍ.  Efst á baugi
Sigurgeir tók undir mál manna um góðan rekstur Bs. Suðurlands. Hljóp yfir búnaðarlagasamninginn sem endurnýjaður var í mars 2002 en taka formlega gildi 2003. Taldi menn almennt sátta um það fjármagn sem fékst með samnignum, lengd hans til 2007 og ýmsar leiðréttingar fengust fram frá fyrri samningi. Lítils háttar lækkun ár frá ári, endar í 555 milljónum árið 2007. Framlög til ráðunautaþjónustu var hækkuð vegna vísitölu launa. Þróun launavísitölu mun ráða framvindunni en samningurinn mun breytast í takt við hann. Einnig var tekið á málefnum lífeyrisskuldbindinga Búnaðarsambandanna og Bændasamtakanna og greiðslur frá ríki tryggðar til að mæta þeim.  Tölurnar eru hins vegar skuggalegar til lengri tíma litið. Komið hefur til tals að færa allar lífeyrisskuldbindingar verði fluttar á Bændasamtökin.
Framlög til búfjárræktar, fékst til baka hluti af lækkun vegna kúasæðinga. Framleiðnisjóður landbúnaðarins mun einnig koma með fjármagn inn til að styrkja þennan þátt.
Þróunarverkefni á lögbýlum fá árlega um 90 milljónir króna á ári, er í raun lækkun vegna þess að ekki var verðtryggt.
Framleiðnisjóður fær árlega 185-190 milljónir króna á ári skv. Samningnum. Breytingar milli ára:  Hækkun um 19 milljónir sem rekstrarframlaga bsb.
Búnaðarlagasamningurinn leggur grunninn að starfsemi Bændasamtaka og Búnaðarsambanda. Búnaðarþing fjallaði um búnaðargjaldið og niðurstaðan var að lítið verður skorið af Búnaðarsamböndunum, en 17 milljónir af B.Í. en svo af Bjargráðasjóði og af LLB. Vinna á að fækkun og eflingu leiðbeiningarmiðstöðva í landinu. Ekki mikið áhyggjuefni á þessu svæði hér.
Á sama tíma hafa rannsóknamenn fjallað um samstarf milli rannsóknastofnanna landbúnaðarins, RALA og LBH. Ágreiningurinn er hins vegar hvar eigi að draga mörkin. Mismunandi skoðanir en markmiðið er alltaf að fá sem mest og skilvirkast fyrir það fjármagn sem fengist hefur. B.Í leggur á það áherslu að styrkja samstarf eða jafnvel samvinnu LBH og RALA og spyr hvort leiðbeiningarnar eigi einnig að ganga inn í það.
Búrekstaráætlanirnar eiga að reyna að efla markmiðstengda ráðgjöf að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Til þess hafa verið þróuð hjálpartæki, minntist sérstaklega á nýtt bókhaldsforrit, dk-Búbót. Fjármunir vegna búrekstaráætlana hafa ekki gengið út, nauðsynlegt er að fara yfir markmiðssetningu verkefnisins og fleiri atriði.
Gæðastýring í sauðfjárrækt, krafan er um að bændur skrái á skipulagðan hátt ýmis atriði til að geta styrkt enn frekar góða ímynd íslensks landbúnaðar. Erfiðasti hluti gæðastýringarinnar er landnýtingarþátturinn en Sigurgeir taldi að menn væru búnir að ná lendingu í því máli til að tryggja framgang verkefnisins.
Gildistaka gæðastýringarinnar verður frestað um eitt ár. Endurskoðun samningsins byrjar strax haustið 2002 en ekki á árinu 2003 eins og ráðgert var í upphafi.
Sigurgeir minntist á ylræktina, gerði sér grein fyrir að mikil breyting væri í vændum þar, sérstaklega í gúrkum, papriku og tómötum. Taldi þó að breytingarnar sem orðnar eru með beingreiðslum og tollalausum innflutningi hafi verið til góðs.

11. Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra. Ávarp
Guðni byrjaði á gamanmálum eins og hans var von, svona til að hita menn upp fyrir ræðuna.
Talaði um það sem efst hefði verið á baugi hjá honum síðustu daga, talaði sérstaklega um sýninguna “Matur 2002” en hann taldi að hún hefði verið mikil auglýsing fyrir íslenskan landbúnað. Hvatti menn til að fara á slíkar sýningar og upplifa hversu mikla trú meistararnir hafa á okkar íslensku landbúnaðarafurðum.
 Grænmetismálið taldi hann stórt mál en taldi að það hefði verið leyst farsællega, bændum hefði verið tryggður 10 ára samningur við ríkið og hvatti menn til að vinna að framtíð garðyrkjunnar, nú þegar meiri friður um málið hefði náðst.
 Gríðarleg þróun er á íslenskum landbúnaði, miklar breytingar eru nú í landbúnaðinum, mikil þekking og mikil vélvæðing hefur átt sér stað. Þó sárt sé að sjá fækkun í sveitunum þá er þróunin svona, rétt eins og erlendis s.s. á Írlandi þar sem hann var nú á haustmánuðum.
 Taldi mikilvægt að  bændur sjálfir ættu afurðastöðvarnar eins og nú er og taldi mjög mikilvægt að halda utan um afurðastöðvarnar. Tók þátt í að fresta frjálsri verðlagningu á heildsölustigi mjólkur en hvatti menn til að vinna hratt að þessum málum og nýta tíman sem gefst vel til að mæta þessum breytingum.
 Talaði um salmonellu í svínum, að neikvæð umræða í einni grein landbúnaðar hefur áhrif á landbúnað í heild sinni og að bændur séu ein stétt í einu landi og verði að koma fram sem slíkir gagnvart neytendum.
 Gæðastýring í sauðfjárrækt var honum að umtalsefni, þótti mikilvæt að reyna að ná sátt í málinu, Alþingi mun lögfesta að gæðastýring skuli nota sem menn framleiði eftir. Frestað til 1. janúar 2004 vegna andstöðunnar við þennan samning og gefa mönnum tækifæri til að kynna sér samninginn betur og undirbúa jarðveginn betur. Takmörkun á frjálsu framsali greiðslumarks verður aflétt frá gildistöku samningsins að telja en nú hefur mörkunum um uppkaup á 45 þúsund ærgildum verið náð.
 Mynntist á afgreiðslu umsóknar NRFÍ. Leit á það sem allt annað mál en umókn LK og BÍ þar sem ekki var um samanburðarrannsókn að ræða. Á grundvelli laganna hafnaði hann því þessari tilraun og taldi að það yrði ekki hrakið eftir lögfræðilegum leiðum. Nú þyrftu bændur að sættast, vera samherjar og koma þannig fram gagnvart neytendum. Lagði ríka áherslu á að menn leystu sín mál á félagslegum grunni.
 Leit á Bs. Suðurlands sem fyrirmynd að því fyrirkomulagi sem hann taldi réttan gagnvart leiðbeiningarþjónustunni í framtíðinni. 

12. Tillögur lagðar fram og kynntar
Þorfinnur Þórarinsson:
Tillaga frá stjórn: Að færa eignir og skuldir tilraunabúsins á Stórar-Ármóti yfir í einkahlutafélagsform. Formlega er búið að stofna slíkt félag en reksturinn hefur enn ekki verið færður yfir.  Hér með sótt eftir formlegu leyfi aðalfundar. Leggist fyrir allsherjarnefnd. Engar frekari tillögu bárust.

Orðið gefið laust:  Bergur Pálsson kemur í pontu. Gerði að umtalsefni sínu stækkun leiðbeiningamiðstöðva og búnaðarsambanda, og vitnaði þar til ræðu Sigurgeirs Þorgeirssonar og Guðna þar sem hugmyndum um eina leiðbeiningamiðstöð fyrir allt landið var hreyft. Taldi að Sunnlendingar hafi fundið þessa stærðarhagkvæmni fyrir að verða öld síðan enda væri Bs. Suðurlands eina sambandið sem veitti fulla þjónustu á fjölmörgum sviðum. Og jafnframt að ef önnur sambönd vildu áfram vera lítil og vanmáttug, mættu þau vera það fyrir honum. 

Bergur efast um að orðalagsbindingur um þrjár sýslur væri nauðsynlegur – gæti heft stækkun í framtíðinni. Og átti þar við breytingatillögur laganefndar.
Einnig kom hann á framfæri því að hrossaræktendur greiða talsverð gjöld í formi sýningargjalda og kostnað við útflutning. Og því ekki raunhæft að láta fækkun fulltrúa bitna að fullu á hrossaræktendum – nema að fullu tilliti til þess.

 Jón Vilmundarson, Skeiðháholti.. Tók til máls og gerði hugsanlegar lagabreytingar að umtalsefni sínu. Taldi hrossabændur m.a. standa undir u.þ.b. helmingi útseldrar þjónustu. Taldi umrædda lagabreytingu vera algera umpólun – sem þyrfti að skoðast vel.

 Guðmundur Lárusson, Stekkum.  Varpaði fram þeirri spurningu – Hvað er það sem hefur rekið bændur til að hagræða í sínum rekstri?? Guðmundur taldi að fagstofnanir bænda gætu margt lært af sunnlenskum bændum sem sameinuðu krafta sína fyrir um hundrað árum.  Þess í stað taldi hann fagstofnanirnar hafa varið sig sem mest þær mega gegn sameiningu og samstarfi.

Guðmundur sagðist viss um að íslenskir bændur myndu þurfa að keppa við inn-flutning á komandi árum. Taldi að við mættum alls ekki loka okkur frá umheiminum og einblína bara á innanlandsmarkað eða freistast til að halda að hann muni að eilífu tryggur og samur. Guðmundur varaði mjög við þeirri hugsun að bændur þættust eiga þennan innanlandsmarkað og allt væri slétt/fellt og áhyggjulaust. Hann taldi þá framtíðarsín að mörgu leyti harla raunsæja að innan fárra ára yrðu kúabændur um 200-300 talsins og sauðfjárrækt aðeins stunduð sem hobbý.
Guðmundur skoraði á landbúnaðarráðherra að taka til í ranni landbúnaðarstofnana og taldi að þannig mætti spara mikið fé.
Hann gagnrýndi sæðingastöðina fyrir hærra verðlag á sæðingum hér á þessu svæði en gengur og gerist fyrir norðan. Á sama tíma benti hann á aukningu eigin fjár hjá stöðinni.

Sigurður á Villingavatni.  Kom fram með spurningu til Sigurgeirs og Guðna. Hvort þeir vissu hvernig staðið er að hirðingu innmats í erlendum sláturhúsum í samanburði við innlend, þar sem hann taldi miklu hent og miklu sóað. Hann ræddi einnig af nokkrum hita fall Goða og slæma stjórnun sláturhúsa, að hans mati.

Stefán Guðmundsson,  Vildi biðja Guðmund Stefánsson að skýra betur tillögu laganefndar, þar sem fram hafði komið að “smærri búgreinafélög fengju einn fulltrúa/eða engan”. Af þessu –eða engan- hafði Stefán áhyggjur.

 

Guðni Ágústsson.  Tók undir með Bergi Pálssyni að Sunnlendingar hefðu verið mjög framsýinir á sýnum tíma við skipulag afurðastöðva og búnaðarsambands. Taldi öflugar afurðastöðvar og öflug búnaðarsambönd forsendur fyrir því að landbúnaðaur fengi þrifist í landinu. Fór stuttlega yfir þá erfiðleika sem afurðastöðvarnar hafa staðið frammi fyrir.
Guðni taldi að hann og Guðmundur Lárussona væru meira sammála en oft látið er í veðri vaka. Guðni bar af sér ásakanir um að einblína um of á innanlandsmarkað eða að telja þann markað á einhvern hátt gulltryggan. Taldi að auðvitað þyrfti að horfa til útflutnings – en hann taldi litla skömm að því að draga fram fjölmörg jákvæð sérkenni íslensks landbúnaðar. Guðni taldi landbúnaðinn vera í mikilli þróun, en jafnframt búa við margar hættur, m.a. að kjósa yfir sig vitlausa stjórnmálamenn. Því næst flutti Guðni nokkra hugvekju um gildi bjartsýninnar fremur en að aðhyllast endalausan bölmóð og nöldur. 

Sigurgeir Þorgeirsson. Svaraði Sigurði á Villingavatni þeim orðum að meðferð og hirðing innmats væri hrein harmsaga hér heima. Ástæðan fyrst og fremst dýrt vinnuafl og lítil verðmæti þessara afurða.
Sigurgeir taldi Berg Pálsson hafa verið nokkuð innblásinn af sunnlensku lofti, og hafa ofmetið áhrif Sunnlendinga. Taldi ástæðu þess að Sunnlendingar hafi ekki náð meiri fjármunum en raun ber vitni sé fyrst og fremst vegna þess að áhugi bænda sé einfald-lega ekki fyrir hendi. 

Sveinn Sigurmundsson kom í pontu og staðfesti að Eyfirðingar hafi lengi haft ódýrar sæðingar – væru líklega ódýrastir yfir landið. Sveinn taldi að Sunnlendingar kæmu þar næst á eftir. Sveinn fullyrti að hér væri eitthvað málum blandið.
Þá kynnti Sveinn fyrirliggjandi skipan nefnda: Formaður allsherjarnefndar er Bergur Pálsson. Formaður félagsmálanefndar: Þórir Jónsson. Formaður fjárhagsnefndar: Kjartan Ólafsson.

13. Tillögur lagðar fram til umræðu og samþykktar.
Kjartan Ólafsson mælti fyrir tillögum fjárhagsnefndar. Fyrst tillaga samþykkt samhljóða og án frekari umræðu (Um óbreytt árgjald kr.1000,- fyrir árið 2002).

Önnur tillaga fjárhagsnefndar um laun stjórnar. Breytingatillaga kom fram frá Guðmundi Lárussyni um hækkun launa formanns. Tillagan með breytingu Guðmundar borin undir atkvæði og samþykkt með 25 atkvæðum gegn 8.

Þriðja tillaga fjárhagsnefndar um samþykki rekstraráætlunar Bs. Suðurlands samþykkt óbreytt og án frekari umræðu. 

Fyrsta (1.) Tillaga félagsmálanefndar (um breytingar á kjörgengi –mönnun aðalfundar) varð tilefni nokkurrar umræðu og var það mál manna að málið yrði að forvinna betur áður en hægt er að bera það undir atkvæði. Til máls tóku Þorfinnur Þórarinsson og Egill Sigurðsson. Þorfinnur taldi málið langþæft og vafasamt að málefnalegri umræða fengist eftir frekari nefndavinnu, lagði til að málið yrði borið undir atkvæði á fundinum. Egill taldi málið illa unnið af hálfu stjórnar og að fyllri greinargerð þyrfti að fylgja máli sem þessu.Þórir Jónsson á Selalæk taldi forvinnuna allt of litla og engin leið að mynda sér málefnalega afstöðu á fundinum, hann gagnrýndi vinnubrögð stjórnar í þessu máli. Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 15 atkvæðum gegn 9. 

Bergur Pálsson mælti fyrir tillögum Allsherjarnefndar. 
Fyrsta tillaga Allsherjarnefndar um breytingu rekstrar Stóra-Ármóts í einkahlutafélag. Kjartan Ólafsson tók til máls og spurði hvort tillagan gengi gegn skilyrðum í gjafabréfi, þegar Bs. Suðurlands þáði Stóra-Ármót að gjöf. Sveinn Sigurmundsson varð til svara og las upp ákvæði gjafabréfsins fyrir fundinn. Bergur Pálsson kom í pontu og gerði grein fyrir áður gerðu mati óháðra aðila mati á þessum gjörningi. Niðurstaða þess mats var að viðkomandi tillaga gengi ekki í berhögg við ákvæði gjafabréfsins. Guðmundur Lárusson kom með tillögu að orðalagsbreytingu sem tekur af allan vafa um eignarhald einkahlutafélagsins – sem er í eigu Bs. Suðurlands.  Tillagan í heild (með orðalagsbreytingu) samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. 

Bergur mælti fyrir annarri tillögu Allsherjarnefndar er fjallar um jarðtengingu í gripahúsum, framborin af Daníel í Akbraut. Haraldur Konráðsson á Búðarhóli taldi slíkar aðgerðir engu myndi breyta, en Haraldur er menntaður rafvirki, taldi útleiðslu fremur stafa af raka í gripahúsum og blautum gólfum. Taldi slys af þessu tagi fremur stafa af því að jarðtengingar væru almennt ekki nógu góðar.
Daníel varð til svars og andmælti þessu. Um þetta spunnust umræður milli þeirra í sal um ýmis rafmagnsfræðileg atriði. Tillagan borin undir atkvæði: Samþykkt með þorra atkvæða, gegn einu. 

Bergur mælti fyrir þriðju tillögu um brunavarnir í gripahúsum, tillaga sem til varð í nefndarstarfi Allsherjarnefndar. Tillaga borin undir atkvæði án frekari umræðu: Samþykkt samhljóða. 

14. Kosningar.
Kosið er um 2 stjórnarmenn og 2 í varastjórn úr Árnessýslu, 2 skoðunarmenn reikninga auk löggilts endurskoðanda.
Fulltrúum úr Árnessýslu gefinn kostur á að ræða tillögur sínar, fundarhlé í 10 mín. 

Kosning tveggja manna í aðalstjórn Búnaðarsambandsins. Sigurður Loftsson í Steinsholti mælti fyrir tillögum Árnesinga. Tillaga um Aðalmenn: Þorfinnur Þórarinsson og Guðmundur Stefánsson – Tillagan samþykkt með lófaklappi. Tillaga um varamenn: Helgi Eggertsson og María Hauksdóttir – Tillagan samþykkt með lófaklappi. Þá var dregið um það hvor varamaðurinn gengi fyrr inn í stjórn. Þar dróst nafn Maríu sem þá er fyrsti varamaður í stjórn en Helgi annar. 

Kosning um 2 skoðunarmenn reikninga. Engar tillögur lágu fyrir fundinum. Guðmundur Lárusson stingur upp á Elvari Eyvindssyni, stungið upp á Vilhjálmi Eiríkssyni á Hlemmiskeiði, Margrét á Þverlæk stingur upp á Þóri Jónsson á Selalæk. Gengið til kosninga. Vilhjálmur Eiríksson:39, Elvar Eyvindsson: 33 Þórir Jónsson: 6, Snæbjörn Sigurðsson 2. 

Kosning löggilts endurskoðanda. Tillaga frá stjórn liggur fyrir fundinum sitjandi endurskoðanda, Arnór Eggertsson. Samþykktur samhljóða. 

15. Önnur mál
Sigurlaug Leifsdóttir í Nýjabæ bar þá spurningu undir fundinn hvrs vegna til stendur að fækka atkvæðisbærum bændum á aðalfundi – eins og tillaga laganefndar virðist m.a. miða að. Guðmundur Stefánsson varð til svara og taldi nýja heildartölu fundarmanna eins góða og hverja aðra – einnig væri fundurinn ansi stór með núverandi sniði og mörg félagsheimili rúmuðu varla fund af þessu tagi. Ólafur Steinar Björnsson spurði úr sal og  vildi frekari rökstuðning fyrir tillögunni. 

Haraldur Konráðsson kom í pontu og benti á brýna þörf að fá óháða aðila til að fara um og meta ástand raflagna á bæjum. 

Sigurlaug Leifsdóttir kom í pontu að nýju og benti á mismunandi tillag búgreina gegnum búnaðargjald og undirstrikaði langsamlega hæsta upphæð er kemur frá kúabændum. Hún kvað kúabændur ekki fá þjónustu í samræmi við það fjármagn sem frá greininni kemur og vísaði til umfangs gimbraskoðana miðað við umfang kvíguskoðunar máli sínu til stuðnings.
Daníel í Akbraut tók til máls og tók undir málflutning Sigurlaugar. 

Formaður tók til máls og þakkaði fundarfólki endurkjör og góða fundarsetu. Óskaði fundarmönnum góðrar heimferðar. Fundi sliti kl. 19:10. 

Jóhannes Hr. Símonarson
Pétur Halldórsson,
fundarritarar

back to top