Aðalfundur BSSL 2015

107. aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands,
haldinn 16. apríl 2015 að Smáratúni í Fljótshlíð.

1. Fundarsetning, Ragnar Lárusson formaður.
Ragnar Lárusson setti fundinn og bauð fulltrúa, starfsmenn gesti og framkvæmdastjóra Bændasamtakanna velkomna. Hann gerði það að tillögu að Erlendur Ingvarsson, Skarði stýrði fundi og Halla Kjartansdóttir og Kristín Björnsdóttir starfsmenn Búnaðarsambandsins rituðu fundargerð.

2. Skipan kjörbréfanefndar, Sveinn Sigurmundsson.
Sveinn Sigurmundsson bar upp tillögu um skipan kjörbréfanefndar; Þorsteinn Ágústsson Syðra-Velli, Daníel Magnússon, Akbraut og Jóhannes Gissurarson, Herjólfsstöðum. Tillagan samþykkt.

3. Skýrsla stjórnar, Ragnar Lárusson formaður.
Ragnar Lárusson fór yfir skýrslu stjórnar. Þar kom m.a. fram að 8 stjórnarfundir voru haldnir á árinu. Byggt var fjárhús á Stóra Ármóti á árinu og að tilraunastarf þar er í uppnámi eftir að tilraunastjórinn lét af störfum um áramótin og ekki hefur verið ráðið í hans stað. Kynbótastöðin yfirtók kúasæðingar á Austurlandi um áramótin. Ragnar greindi frá verkefni um vinnuvernd hjá bændum sem Búnaðarsambandið er aðili að og var kynnt á síðasta formannafundi. Guðmundur Hallgrímsson hefur ferðast milli bæja og ráðlagt bændum. Formaðurinn kom með tillögu frá stjórn um að árgjald fyrir árið 2015 yrði kr 2000,- á félaga. Þá leggur stjórnin til að greiðsla til stjórnarmanna fyrir akstur lækki frá ríkistaxta í 80 kr á km.

4. Reikningar BSSL og skýrsla framkvæmdastjóra, Sveinn Sigurmundsson.
Sveinn fór yfir reikninga Búnaðarsambandsins fyrir árið 2014. Rekstrartekjur fyrirtækjanna fyrir utan Stóra Ármót er 195,5 milljónir sem er aukning frá fyrra ári úr 189,4 milljónum. Rekstrargjöld eru 199,2 milljónir og er því rekstrartap 3,7 milljónir. Fjármagnsliðir skila 3,3 milljónum og dótturfélagið eða Stóra Ármót kemur út með 16,3 milljón króna hagnað mest vegna sölu á íbúðarhúsi. Tekjuskattur er 128 þúsund. Lokaniðurstaðan er því hagnaður upp á 16,1 milljón en fyrir utan dótturfélagið er tap upp á 374 þúsund sem þýðir að reksturinn er nærri í jafnvægi. Samkvæmt efnahagsreikningi eru heildareignir 279,4 milljónir króna en eigið fé í árslok var 249.5 milljónir og hækkaði á árinu um 16,8 milljónir. Veltufjármunir eru 141 milljónir í árslok. Veltufé frá rekstri er 1,7 milljón á móti 9,3 milljónum sem reksturinn gaf af sér í fyrra. Bændabókhaldið veltir 25 milljónum og þar er 100 þúsund króna tap. Tekjur Sauðfjársæðingastöðvarinnar er rúmar 12,6 milljónir og tap upp á 431 þúsund. Kynbótastöðin veltir nærri 100 milljónum og er réttum megin við núllið sem nemur 119 þúsundum. Búnaðarsambandið er með rekstrargjöld upp á 74,7 milljónir og rekstrartap upp á 1,9 milljónir en að teknu tillliti til fjármagnsliða og dótturfélags er hagnaðurinn 16,5 milljónir. Rekstrartekjur á Stóra Ármóti voru upp á 50,3 milljónir en að viðbættum söluhagnaðí á íbúðarhúsi sem nam 17,6 milljónum eru þær 67,9 milljónir. Rekstrargjöld eru 49,4 milljónir og hagnaður því 16,3 milljónir þegar búið er að taka tillit til skatta og fjármagnsliða. Ef samstæðureikningurinn við Stóra Ármót er skoðaður þá er heildarveltan 263 milljónir og bókfærðar eignir 295 milljónir.

Sveinn fór yfir starf sitt í fagráði um dýravelferð og væntanlegra sekta við illri meðferð dýra. Fjallaði um ráðstefnu í Gunnarsholti um ágang álfta og gæsa sem er einnig gríðarlegt vandamál í nágrannalöndunum. Sveinn fór yfir fyrirspurn frá Samkeppniseftirlitinu vegna lóðablaða og túnkortagerðar. Ræddi samdrátt í jarðabótaúttektum haustið 2014 borið saman við fyrra ár. Fór yfir verkefni um vinnuvernd en þegar hafa 45 bændur á Suðurlandi verið heimsóttir. Fjallaði um starfsemi Kynbótastöðvar og Sauðfjársæðingastöðvar Bændabókhaldið er sér fyrirtæki, með sér kennitölu og reksturinn aðgreindan frá Búnarsambandinu. Stóra-Ármót, komst inná lista Kreditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki vegna rekstrar 2013. Kjarnfóðurútgjöld hækkuðu gríðarlega af ýmsum ástæðum. Fjárhús var byggt á árinu fyrir 25 milljónir, þar var ákvæði gjafabréfsins um að sauðfénu sé sýndur sómi efnt. Á Stóra Ármóti þarf að huga vel að tilraunastarfi og gera nýjan samsstarfssamning við LbhÍ. Breytingar á fjármögnun félagskerfisins er framundan þar sem líkur eru til þess að búnaðargjald til slíkrar starfsemi verði fellt út. Á næstu árum mun reyna á um framtíð búnaðarsambanda.

5. Umræður um skýrslur og reikninga.
Ólafur Þorsteinn, Giljum tók til máls, ræddi heimild til sekta varðandi brot á lögum um dýravelferð en þar er enginn andmælaréttur. Hefði þurft að hafa fulltrúa MAST til svara. Brýndi stjórn BSSL til að vanda sig við svar vegna kvörtunar Samkeppniseftirlits. Spurði einnig um sæðingar.

Sveinn svaraði Ólafi Þorsteini.

6. Matarhlé.

7. Kjörbréfanefnd skilar áliti.

Daníel Magnússon, formaður nefndarinnar tók til máls. Rétt til setu eiga 31 búnaðarfélög, þar af 2 með 2 fulltrúa. Búgreinafélögin 6 eiga rétt á 17 fulltrúum. Kjörbréf eru lesin upp og í ljós kemur að eftirfarandi fulltrúar eru mættir:

Búnaðarfélag Gaulverjabæjarhrepps
Þorsteinn Ágústsson, Syðra-Velli.
Búnaðarfélag Stokkseyrarhrepps
Sigurfinnur Bjarkarson, Tóftum.
Búnaðarfélag Sandvíkurhrepps
Ari Páll Ögmundsson, Stóru-Sandvík.
Búnaðarfélag Hraungerðishrepps
Ágúst Guðjónsson, Læk.
Búnaðarfélag Villingaholtshrepps
Reynir Þór Jónsson, Hurðarbaki.
Búnaðarfélag Skeiðahrepps
Jón Vilmundarson, Skeiðháholti.
Búnaðarfélag Gnúpverjahrepps
Einar Gestsson, Hæli.
Búnaðarfélag Hrunamannahrepps
Aðalsteinn Þorgeirsson, Hrafnkelsstöðum.
Gunnar Eiríksson, Túnsbergi.
Búnaðarfélag Bláskógabyggðar
Trausti Hjálmarsson, Austurhlíð 2.
Theódór Vilmundarson, Efstadal 1.
Búnaðarfélag Þingvallahrepps
Gunnar Þórisson, Fellsenda.
Búnaðarfélag Grímsneshrepps
Björn Snorrason, Björk II.
Búnaðarfélag Ölfushrepps
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag Eyrabakka
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag A-Eyjafjallahrepps
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag V-Eyjafjallahrepps
Ragnar Lárusson, Stóra-Dal.
Búnaðarfélag A- Landeyjarhrepps
Rafn Bergsson, Hólmahjáleigu.
Búnaðarfélag V-Landeyjarhrepps
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag Fljótshlíðarhrepps
Páll Eggertsson, Kirkjulæk.
Búnaðarfélag Hvolhrepps
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag Rangárvallahrepps
Ásgerður Sjöfn Guðmundsdóttir, Lambhaga.
Búnaðarfélag Landmannahrepps
Páll Sigurjónsson, Galtalæk.
Búnaðarfélag Holtahrepps
Daníel Magnússon, Akbraut.
Búnaðarfélag Djúpárhrepps
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag Ásahrepps
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag Hörgslandshrepps
Bjarki Guðnason, Maríubakka.
Búnaðarfélag Kirkjubæjarhrepps
Þórarinn Bjarnason, Þykkvabæ 1.
Búnaðarfélag Álftavers
Jóhannes Gissurarson, Herjólfsstöðum.
Búnaðarfélag Leiðvallahrepps
Enginn fulltrúi.
Búnaðarfélag Skaftártungu
Sigurður Ómar Gíslason, Hemru.
Búnaðarfélag Hvammshrepps
Ólafur Þorsteinn Gunnarsson, Giljum.
Búnaðarfélag Dyrhólahrepps
Gunnar Þormar Þorsteinsson, Dyrhólum.
Félag sauðfjárbænda í Árnessýslu
Ágúst Ingi Ketilsson, Brúnastöðum.
Jökull Helgason, Ósabakka 1.
Félag sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu
Erlendur Ingvarsson, Skarði.
Oddný Steina Valsdóttir, Butru.
Baldur Björnsson, Fitjamýri.
Félag sauðfjárbænda í V-Skaftafellssýslu
Fanney Ólöf Lárusdóttir, Kirkjubæjarklaustri.
Loðdýraræktarfélag Suðurlands
Enginn fulltrúi.
Hrossaræktarsamtök Suðurlands
Helgi Eggertsson, Kjarri.
Sigríkur Jónsson, Syðri-Úlfsstöðum.
Þuríður Einarsdóttir, Oddgeirshólum.
Ólafur Þórisson, Miðkoti.
Félag kúabænda á Suðurlandi
Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ.
Borghildur Kristinsdóttir, Skarði.
Pétur Guðmundsson, Hvammi.
Jórunn Svavarsdóttir, Drumboddsstöðum (varam).
Karel G. Sverrisson, Seli (varam).

Mættir eru 40 fulltrúar.

Álit kjörbréfanefndar er samþykkt samhljóða.

8. Félagskerfi bænda, væntanlegir búvörusamningar ofl., Sigurður Eyþórsson

Sigurður Eyþórsson framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, tók til máls og fjallaði m.a. um að búvörusamningar væru að renna út og farið væri að huga að gerð nýrra. Sigurður fór stuttlega yfir áherslur sem fram koma í ályktun Búnaðarþings 2015 varðandi nýjan samning og einnig sambærilegar samþykktir frá aðalfundum Landssambands kúabænda og Landssamtaka sauðfjárbænda. Núverandi hugmyndir ganga út á að gera einn rammasamning byggðan á búnaðarlagasamningi og síðan undirsamninga fyrir einstakar búgreinar, bæði þær sem nú hafa samninga og e.t.v. fleiri. Hugmyndir stjórnvalda hafa verið um að færa meira af stuðningnum yfir á greiðslur út á land en binda þær ekki ákveðinni framleiðslu. Búnaðarþing tók þeim hugmyndum ekki vel. Af hálfu BÍ hefur m.a. verið lögð áhersla á að fjallað verði um tollverndina í nýjum samningi. Formlegar viðræður eru þó ekki hafnar.

Þá ræddi Sigurður breytingar á félagskerfi BÍ sem einnig voru samþykktar á liðnu Búnaðarþingi. Þar var verið að móta stefnu um félagsgjald sem kæmi í stað tekna af búnaðargjaldi þegar því sleppir, en nú hefur verið lögð fram kæra vegna álagningar þess. Ætlunin er þá að í staðinn komi 0,3% veltutengt félagsgjald hvað varðar rekstur BÍ. Niðurstaðan varð að sú tilhögun nær eingöngu til BÍ en aðildarfélögin eiga að móta eigin áherslur hvað málið varðar. Búnaðarþing verður annað hvert ár framvegis og aðildarfélög þurfa að bera laun og uppihald sinna fulltrúa. Sigurður nefndi einnig skýrslu um framtíð búnaðarsambanda sem tekin var saman af vinnuhópi sambandanna fyrir nokkru þar sem velt er upp þeim verkefnum sem þau gætu hugsanlega sinnt til framtíðar litið.

Páll Sigurjónsson. Kom inná félagsmál og vildi stuðla að nýliðun í landbúnaði.
Trausti Hjálmarsson. Ræddi um gerð gerð nýrra búvörusamninga.
Guðrún Stefánsdóttir. Fjallaði um búnaðargjald. Bændur gera sér ekki grein fyrir því hvað það er mikilvægt að efla félagskerfið. Vill efla og halda búnaðarsambandsstarfinu áfram.
Daníel Magnússon Er ósáttur við að Búnaðarstofa sé að fara til MAST.
Ólafur Gunnarsson. Ræddi um félagslega starfsemi og ræddi um hvernig eigi að sannfæra bændur um að greiða veltuskatt til B.Í.

Sigurður Eyþórsson svaraði framkomnum fyrirspurnum. Ljóst væri að bændur væru ekki og hefðu ekki verið sáttir við framgöngu MAST í ýmsum málum. BÍ brygðust við þeim athugasemdum og ábendingum sem til þeirra berast. Til stendur að flytja stjórnsýsluverkefni BÍ líka tíl MAST (verkefni Búnaðarstofu). Bændur hafa lagt á það áherslu að Búnaðarstofa verði sjálfstæð stofnun undir atvinnuvegaráðuneytinu, en niðurstaða þess er enn óljós. Varðandi tjón af völdum álfta og gæsa þá hefðu stjórnvöld áhuga á að koma á fót sérstökum aðgerðahóp um málið sem væri þá ætlað að gera beinar tillögur til úrbóta. BÍ fylgir því áfram eftir. Að lokum ítrekaði hann að bæði BÍ og búnaðarsamböndin þyrftu að sýna bændum fram á að þau skiptu þá máli. Aðeins þannig myndu þeir vilja starfa innan þeirra áfram.

9. Lagabreytingar lagðar fram til afgreiðslu

Sveinn Sigurmundsson lagði fram lagabreytingar frá stjórn BSSL.

Fyrir fundinn var lögð tillaga um 1.-4. greinar laganna sem óbreyttar. Enginn kvað sér hljóðs. Tillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

Fyrir fundinn er lögð breyting á 5. grein laganna. Enginn kvað sér hljóðs. Tillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

Lögð var fyrir breytingar á 6. grein laganna. Ýmsar athugasemdir komu fram en fundarstjóri tók af skarið og bar tillöguna upp óbreytta og var hún samþykkt með meirihluta, þrír voru á móti.

Lögð er fyrir breyting á 8. grein. Enginn kvað sér hljóðs. Tillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

Grein nr. 7 um breytt númer. Enginn kvað sér hljóðs. Tillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

Breyting á grein nr. 9. var 8.
Guðrún kom með breytingar tillögu„Kosið skal til búnaðarþings annað hvert ár …“ Með 11, móti 13. Breytingartillagan er felld með 13 á móti 11.
Óbreytt tillaga borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða

Breyting á nr.10. Enginn kvað sér hljóðs. Tillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

Lögð er fyrir breyting á 11. grein. Borið undir fundinn, enginn kvaddi sér hljóðs, samþykkt samhljóða.

Lög í heild sinni. Borin undir fundinn enginn kvaddi sér hljóðs, 35 með, enginn á móti. Samþykkt samhljóða.

Lög Búnaðarsambands Suðurlands

1.gr.
Búnaðarsamband Suðurlands er samband búnaðar- og búgreinafélaga sem starfa að einhverju eða öllu leyti í Árnessýslu, Rangárvallasýslu og V-Skaftafellssýslu. Það er aðili að Bændasamtökum Íslands. Heimili og varnarþing þess er á Selfossi.
Nái starfssvæði aðildarfélags inn á starfssvæði annars búnaðarsambands skal leitað eftir samstarfssamningi við það.

2.gr.
Aðild að Búnaðarsambandinu geta átt þeir einstaklingar og lögaðilar, sem þess óska og stunda búrekstur í atvinnuskyni, enda séu þeir félagar í búnaðar- eða búgreinafélagi, sbr.1. gr
Aðild einstaklinga skal óháð því hvort þeir stunda búrekstur í eigin nafni eða annarra. Undir búrekstur fellur hverskonar búfjárrækt, jarðrækt, skógrækt, garðrækt og ylrækt. Einnig eftirfarandi starfsemi fari hún fram á lögbýlum:
Eldi og veiðar vatnafiska, nýting hlunninda, framleiðsla, úrvinnsla og þjónusta.
Einstaklingar sem félagar eru í fleiri en einu aðildarfélagi skulu tilnefna eitt þeirra sem sitt aðalfélag, sem þar með ber ábyrgð á aðild þeirra. Samkvæmt því skal Búnaðarsambandið halda skrá yfir aðildarfélög sín og samræmda félagaskrá yfir alla félagsmenn þeirra. Sú félagaskrá er jafnframt félagaskrá Búnaðarsambandsins.

3. gr.
Tilgangur Búnaðarsambandsins er að vera heildarsamtök sunnlenskra bænda og vera í forsvari fyrir sunnlenskan landbúnað.
Efla hvers konar framfarir í landbúnaði, gæta hagsmuna og auka hagsæld þeirra sem landbúnað stunda
Að framfylgja á hverjum tíma gildandi löggjöf um íslenskan landbúnað í samstarfi við þá aðila sem annast framkvæmd slíkra laga.

4. gr.
Búnaðarsambandið hyggst ná tilgangi sínum með því að:
a) Vera í forsvari fyrir sunnlenskan landbúnað, koma fram fyrir hans hönd og annast kynningu á honum og standa vörð um hagsmuni sunnlenskra bænda.
b) Reka ýmis konar þjónustu fyrir bændur, eftir því sem þörf er fyrir á hverjum tíma.
c) Styðja hvers konar félagslega starfsemi í héraðinu sem stuðlar að framförum í landbúnaði.
d) Annast miðlun fróðleiks og kynningarefnis eftir því sem henta þykir á hverjum tíma.
e) Vera tengiliður aðildarfélaganna og félagsmanna við Bændasamtök Íslands. Sjá um kosningu til Búnaðarþings og önnur þau hlutverk sem kveðið er á um í samþykktum Bændasamtaka Íslands.
f) Annast ýmis konar umsóknir, eftirlit, umsjón, úttektir og vottun eftir því sem lög og reglur kveða á um.
g) Sjá um rekstur þeirra fyrirtækja sem eru í eigu Búnaðarsambandsins og annast eignir þær, sem eru innan vébanda þess.

5.gr.
Heimilt er Búnaðarsambandinu að innheimta árgjald af félögum. Skal þá hvert aðildarfélag standa skil á greiðslu þess í samræmi við fyrirliggjandi félagaskrá samkv. 2.gr. Árgjald Búnaðarsambandsins er ákveðið á aðalfundi sambandsins. Gjöldum þessum skal skilað fyrir 1. desember ár hvert ásamt félagatali.
Reikningssár Búnaðarsambandsins er almanaksárið.

6. gr.
Á aðalfundi skulu kosnir fulltrúar til setu á Búnaðarþingi til tveggja ára og jafn margir til vara. Formaður sambandsins skal vera sjálfkjörin sem aðalmaður. Falli atkvæði jöfn skal hlutkesti varpað.

7. gr.
Stjórn Búnaðarsambandsins skal skipuð fimm mönnum. Formaður, varaformaður, ritari og tveir meðstjórnendur. Kosnir skulu jafnmargir til vara. Stjórn og varastjórn skal þannig skipuð: Úr Vestur-Skaftafellssýslu einn stjórnarmaður, úr Rangárvallasýslu tveir og úr Árnessýslu tveir. Stjórnarmenn og varamenn þeirra skulu kosnir til þriggja ára, þannig að Árnesingar skulu kosnir eitt árið, Rangæingar annað árið og Vestur-Skaftfellingar hið þriðja.

Tveir skoðunarmenn reikninga skulu kosnir til tveggja ára í senn og tveir til vara. Skoðunarmaður reikninga skal eigi starfa lengur en sex ár í senn.

Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Hún ræður framkvæmdastjóra, er sér um daglegan rekstur sambandsins, reikningshald og ráðningu starfsfólks í samráði við stjórn sambandsins.

8.gr.
Aðalfundur Búnaðarsambandsins skal haldinn árlega, eigi síðar en í júní-mánuði. Skal boða til hans með minnst hálfsmánaðar fyrirvara.
Á aðalfundi eiga sæti kjörnir fulltrúar félaga sem aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands hefur samþykkt sem aðildarfélög.
Hvert aðildarfélag á rétt á fulltrúum sem hér segir:
Þar sem félagatala er allt að 60, einn fulltrúa.
Þar sem félagatala er 61-120, tvo fulltrúa.
Þar sem félagatala er 121-180, þrjá fulltrúa.
Þar sem félagatala er 181-240, fjóra fulltrúa, o.s.frv.

Auk kjörinna fulltrúa eiga stjórn sambandsins og framkvæmdastjóri þess málfrelsi og tillögurétt, svo og allir félagsmenn aðildarfélaga. Atkvæðisrétt hafa aðeins kjörnir fulltrúar. Þó skal enginn fara með nema eitt atkvæði.
Aðalfundur er lögmætur ef helmingur kjörinna fulltrúa er mættur ásamt meirihluta stjórnar sambandsins. Afl atkvæða ræður úrslitum. Þó þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða á lögmætum aðalfundi til þess að lagabreytingar hljóti löglega afgreiðslu, enda hafi tillaga að lagabreytingu verið send út með fundarboði.
Auka fulltrúafund skal halda ef meirihluti stjórnar eða einn þriðji hluti kjörinna fulltrúa krefst þess.

9. gr.
Á aðalfundi skal stjórnin leggja fram til umræðu og afgreiðslu:
1. Reikninga sambandsins fyrir undanfarið ár, áritaða af skoðunarmönnum, ásamt félagaskrá skv. 2. gr.
2. Skýrslu um starfsemi sambandsins undanfarið ár.
3. Fjárhagsáætlun fyrir yfirstandandi reikningsár.
4. Kjósa trúnaðarmenn samkvæmt 7. grein.
5. Kosið skal til Búnaðarþings samkvæmt 6. grein

10. gr.
Stjórn Búnaðarsambandsins er heimilt að kjósa heiðursfélaga. Hvorki aðalfundur né aðrir opnir fundir eru ályktunarfærir um kjör heiðursfélaga. Fjölda heiðursfélaga skal stilla mjög í hóf. Við kjör heiðursfélaga skal afhenda heiðursskjal undirritað af stjórnarmönnum sambandsins. Heiðursfélögum skal boðið að taka þátt í öllum hátíðarfundum sambandsins. Þeir skulu einnig boðaðir á aðalfund sambandsins og hafa þar málfrelsi og tillögurétt.

11. gr.
Lög þessi öðlast gildi þegar þau hafa verið samþykkt af aðalfundi Búnaðarsambands Suðurlands.
10. Tillögur lagðar fram og kynntar

Sveinn kynnir tillögu Búnaðarfélags Hraungerðishrepps.

11. Nefndir hefja störf
Sveinn Sigurmundsson lagði til að nefndirnar yrðu 2 sem hér segir; Allsherjarnefnd formaður Gunnar Eiríksson og fjárhagsnefnd formaður Theódór Vilmundarson.

12. Kosningar. Kosið um 2 stjórnarmenn og 2 í varastjórn úr Rangárvallasýslu.

Niðurstöður kosninga – aðalmenn Rangárvallasýslu
Ragnar M. Lárusson hlaut 38 atkvæði og Erlendur Ingvarsson hlaut 39 atkvæði. Aðrir fengu færri atkvæði. Auðir seðlar voru engir.

Niðurstöður kosninga – varamenn Rangárvallasýslu
Sigurður Sæmundsson hlaut flest atkvæði eða 25 alls.
Borghildur Kristinsdóttir hlaut næstflest atkvæði eða 17 alls
Páll Eggertsson hlaut þar á eftir 13 atkvæði. Auðir seðlar voru 4.
Aðrir fengu færri atkvæði.

Þá óskaði fundarstjóri eftir fundarhléi meðan stjórnin skipti með sér verkum. Formaður var kosin Ragnar Lárusson og er hann sjálkjörin á Búnaðarþing. Varaformaður Gunnar Kr Eiríksson og ritari Jón Jónsson. Þá var einnig lesin upp bókun frá stjórnarfundinum um að ári þá tekur Gunnar við formannsembættinu en Ragnar verður varaformaður.

13. Kosningar til Búnaðarþings

Ólafur Þorsteinn Gunnarsson, Trausti Hjálmarsson, Guðrún Stefánsdóttir, Páll Eggertsson, og Gunnar Kristinn Eiríksson gáfu kost á sér til Búnaðarþings, Pétur í Hvammi kom með tillögu um Hrafnhildi Baldursdóttur. Oddný Steina Valsdóttir gaf ekki kost á sér því hún er komin inn á Búnaðarþing fyrir sauðfjárbændur, Fanney Ólöf Lárusdóttir gaf ekki kost á sér, Erlendur Ingvarsson gaf kost á sér og tilkynnti að Ágúst Rúnarsson gæfi einnig kost á sér. Niðurstöður kosninga til Búnaðarþings fyrir árin 2016 og 2017 urðu eftirfarandi;

Aðalmenn:
Ólafur Þorsteinn Gunnarsson Giljum
Páll Eggertsson Arngeirsstöðum
Hrafnhildur Baldursdóttir Litla-Ármóti
Erlendur Ingvarsson Skarði
Gunnar K. Eiríksson Túnsbergi
Trausti Hjálmarsson Austurhlíð

Varamenn:
1. Ágúst Rúnarsson Vestra-Fíflholti
2. Guðrún Stefánsdóttir Hlíðarendakoti
3. Helgi Eggertsson Kjarri
4. Borghildur Kristinsdóttir Skarði
5. Jón Vilmundarson Skeiðháholti
6. Valdimar Guðjónsson Gaulverjabæ
7. Þorsteinn Ágústsson
14. Tillögur lagðar fram frá nefndum, umræður, afgreiðsla.

Tillaga nr. 1 frá allsherjarnefnd

Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Smáratúni, Fljótshlíð þann 16. apríl 2015 samþykkir að skora á landbúnaðarráðherra að hætta við að flytja verkefni Búnaðarstofu til MAST.

Orðið gefið laust um tillöguna. Enginn kvað sér hljóðs. Tillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 2 frá allsherjarnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Smáratúni, Fljótshlíð þann 16. apríl 2015, telur afturför hafa verið í leiðbeiningarstarfsemi landbúnaðarins eftir að Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins var sett á fót.
Þá mun fjárhagsgrundvöllur RML ekki vera traustur. Telur fundurinn brýna þörf á að efla og bæta starfsemi RML á starfssvæði BSSL.

Orðið gefið laust um tillöguna. Enginn kvað sér hljóðs. Tillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 3 frá fjárhagsnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Smáratúni, Fljótshlíð 16. apríl 2015, samþykkir að árgjald til Búnaðarsambands Suðurlands fyrir árið 2015 verði alls kr. 2.000,- á félagsmann.

Orðið gefið laust um tillöguna. Enginn kvað sér hljóðs. Tillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 4 frá fjárhagsnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Smáratúni, Fljótshlíð 16. Apríl 2015, samþykkir að þóknun aðalfundarfulltrúa miðist við sem svarar tvöföldum dagpeningum ríkisstarfsmanna. Það er kr. 21.600,-

Orðið gefið laust um tillöguna. Enginn kvað sér hljóðs. Tillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 5 frá fjárhagsnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Smáratúni, Fljótshlíð 16. apríl 2015, samþykkir að laun stjórnarmanna verði kr. 18.955,- (sem er kr. 10.000 framreiknað með launavísitölu frá apríl 2005) fyrir hvern stjórnarfund auk dagpeninga samkvæmt ríkistaxta og aksturs kr. 80 pr.km. Formaður fái tvöföld laun og dagpeninga á við aðra stjórnarmenn auk aksturs kr. 80 pr.km. Formaður fái að auki eingreiðslu sem nemur kr. 315.630,- (sem er kr. 150.000 framreiknað með launavísitölu frá árinu 2003).

Orðið gefið laust um tillöguna. Enginn kvað sér hljóðs. Tillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 6 frá fjárhagsnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Smáratúni, Fljótshlíð 16. apríl 2015, samþykkir fyrirliggjandi fjárhagsáætlun Búnaðarsambands Suðurlands fyrir árið 2015.

Orðið gefið laust um tillöguna. Enginn kvað sér hljóðs. Tillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga nr. 7 frá fjárhagsnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Smáratúni, Fljótshlíð 16. apríl 2015, samþykkir að beina því til stjórnar að ákveða greiðslur til búnaðarþingsfulltrúa sinna fyrir árin 2016-2017.

Orðið gefið laust um tillöguna. Enginn kvað sér hljóðs. Tillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

15. Reikningar bornir undir atkvæði.
Reikningur BSSL fyrir 2014 samþykktir samhljóða með handauppréttingu.

16. Önnur mál
Gunnar Þórisson, Fellsenda kom í pontu og gaf BSSL myndir sem hann hefur tekið af ferðum og fundum Búnaðarsambnadsins á rúmlega 30 ára bili. Oddný Steina Valsdóttir, kom með þá tillögu til stjórnar að á aðalfundum ætti að skipta fundarmönnum í minni hópa í nefndarstörfum. Hún hvatti einnig til þátttöku í vinnuverndarverkefni BÍ og búnaðarsambanda

Gunnar Þórisson kom með þessa vísu.

Í minkskottið máttu ei taka,
mundu það bóndi minn.
Matvælastofnun mun þig saka,
um meinlegan verknaðinn.

Páll Sigurjónsson rifjaði upp tillögu um landnýtingu frá aðalfundi 2014 og ræddi hana. Ábyrga og styrka stefnumótun þurfi um nýtingu landsins.

Pétur í Hvammi spurði varðandi eldri bændur, hvort þeir þurfi að borga félagsgjöld?
Ragnar Lárusson svaraði því að ákveðið hefði verið að láta búnaðarfélögin ráða þessu sjálf.

Trausti Hjálmarsson ræddi landnýtingu, beit á láglendi og hálendi, hann benti á að BSSL gæti aðstoðað bændur ef til kemur að hálendinu verði lokað verði fyrir beit.

17. Fundarslit, Ragnar Lárusson
Fundarstjóri, dró saman helstu atriði fundarins, þakkaði góðan fund og gaf Ragnari Lárussyni formanni orðið. Ragnar þakkaði fundargestum fyrir fundarsetuna, starfsmönnum fyrir vel unnin störf. Þá óskaði hann fólki góðrar heimferðar í vorið og sleit fundi.
Fundið slitið kl: 18.02
Halla Kjartansdóttir,
Kristín Björnsdóttir

back to top