Aðalfundur BSSL 2001

93. aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands
Haldinn 20. apríl 2001 í Gunnarshólma, Austur-Landeyjum

1. Fundarsetning, Þorfinnur Þórarinsson formaður.
Þorfinnur setti fundinn og bauð viðstadda velkomna. Hann kynnti tillögu að starfsmönnum fundarins. Lagt var til að Haraldur Konráðsson, Búðarhóli og Þórir Jónsson, Selalæk yrðu fundarstjórar og Halla Eygló Sveinsdóttir og Jón Finnur Hansson rituðu fundargerð. Tillagan var samþykkt.

2. Skipan kjörbréfanefndar.
Tillaga að skipan kjörbréfanefndar: Ólafur Einarsson, Ragnar Lárusson og Margrét Guðmundsdóttir.

3. Skýrsla stjórnar, Þorfinnur Þórarinsson.
Þorfinnur byrjaði á minnast látins félaga Jóns Ólafssonar, Eystra-Geldingarholti. Hann benti fundarmönnum einnig á að kosið yrði í launanefnd BSSL sem myndi ákveða laun stjórnarmanna en það væri mun nútímalegar en að stjórnarmenn tæku ákvörðun um það sjálfir. Hann kallaði eftir áliti fundarins á því hvert stefna bæri með Bókhaldsþjónustu BSSL, hvort ekki væri rétt að undanskilja hana meira frá öðrum rekstri BSSL. Þorfinnur drap því næst á ýmis atriði sem finna má í skýrslu stjórnar sem birtist í heild sinni í Ársriti Búnaðarsambands Suðurlands 2000 bls 17-19.

4. Reikningar Búnaðarsambands Suðurlands og skýrsla framkvæmdastjóra, Sveinn Sigurmundsson.
Sveinn fór yfir reikninga Búnaðarsambands Suðurlands og skýrslu framkvæmdastjóra. Reikningarnir eru birtir í Ársritinu 2000 á bls.146-154. Tekjur ársins námu um 133,4 milljónum króna og rekstrargjöld voru 136,6 milljónum króna. Tap ársins fyrir fjármagnstekjur og fjármagnsgjöld var því um 3,3 milljónir. Heildartap ársins reyndist rúmar 2 milljónir króna. Fastafjármunir voru tæpar 142,6 milljónir króna og veltufjármunir tæpar 63,4 milljónir króna, eignir alls því 205,9 milljónir króna. Skuldir voru í árslok tæpar 32,9 milljónir króna og eigið fé 173 milljónir. Farið var yfir sjóðstreymi ársins.
Sveinn fór yfir reikninga dótturfyrirtækja og ræddi um hvert og eitt sjá nánar á bls. 154 í Ársritinu. Metþátttaka var í sauðfjársæðingum á árinu 10.783 ær voru sæddar. Verulegt tap er á Kynbótastöð Suðurlands eins og ráð var fyrir gert. Þátttaka í kúasæðingum er 98%. Kúabúum fækkaði um 30 á árinu. Á tilraunabúinu á Stóra-Ármóti var farið í miklar fjárfestingar m.a. fjárfest í nýjum mjaltabás.

5. Umræður og afgreiðsla skýrslna og reikninga
Sigurður Hannesson, Villingavatni vildi fá ættfræðatengsl við hitaveituholuna á Stóra-Ármóti og hitaveituholuna sem bora á í Öndverðanesi. Hvort það sé ef til vill sama vatnsæðin.
Guðmundur Lárusson, Stekkum þakkaði fram komnar skýrslur. Hann var ekki allskostar ánægður með útgáfustarfssemi BSSL og taldi að birta mætti víðar en í ársritinu þær umræður sem skapast á aðalfundi BSSL. Guðmundur taldi að þolinmæði bænda væri á þrotum gagnvart gjaldheimtu Búnaðarsambandsins og aðeins tímaspursmál hvenær fram kæmi kæra til samkeppnisyfirvalda. Hann taldi aðskilnað lögbundinna verkefna og seldrar þjónustu nauðsynlegan. Hann velti því einnig fyrir sér hvað stjórn BSSL starfaði, honum sýndist að frumkvæði kæmi miklu fremur frá starfsmönnum þess en stjórn. Hann taldi einnig að markaðslögmálið yrði að ráða verði á greiðslumarki, því yrði ekki handstýrt. Hann sagði að bændur væru greinilega ánægðir með afurðarverð þar sem ekki kæmi fram nein hagræðingarkrafa á afurðastöðvar.
Þorfinnur Þórarinsson, Spóastöðum taldi mjög mikilvægt að BSSL héldi áfram að reka bókhaldsþjónustu sem stæði undir sér. Faglega þekking á bókhaldi bænda væri mikil þar og hann hefði reynslu af öðru.
Egill Sigurðsson, Berustöðum taldi að stjórn, starfsmenn og búgreinafélögin ásamt aðalfundi Búnaðarsambandsins ættu að sjá um stefnumótun faglegra mála. Hann var sammála Guðmundi Lárussyni um að búnaðargjaldið ætti að lækka og meðan það gerðist ekki væri ef til vill hæpið að leggja á bændur aukin þjónustugjöld. Miklu eðlilegra væri að í stað skattheimtu kæmu þjónustugjöld.
Sveinn Sigurmundsson svaraði Sigurði Hannessyni því að hitakerfið í landi Stóra-Ármóts tengdist ekki hitakerfinu í Laugardælum og að hann teldi að þetta væri ekki tengt hitaveitukerfinu í Grímsnesinu. Jafnframt sagði hann að vegna samkeppnislaga væri e.t.v. nauðsynlegt að undanskilja bókhaldsþjónustuna öðrum rekstri BSSL.
Daníel Magnússon, Akbraut þakkaði fyrir fróðleg erindi. Hann sagði frá því að á heimasíðu Landssambands kúabænda hefði komið fram fyrirspurn um útflutning á nautasæði og fósturvísum úr íslenskum kúm til Bandaríkjanna og honum fyndist að því máli væri sýndur mikill tómleiki. Hann taldi fulla ástæðu til að taka það mál alvarlega og aðstoða eftir föngum. Hann vildi einnig að menn borguðu “stefgjald” á nautasæði til ræktenda nautanna.
Sveinn Sigurmundsson sagði að þær tekjur sem kæmu af útflutningi á hrútasæði færi til lækkunar á sæðingagjöldum, ekki væri um aukagreiðslur til ræktenda hrútanna að ræða.

6. Matarhlé.

7. Kjörbréfanefnd skilar áliti.
Formaður nefndarinnar Ólafur Einarsson kynnti niðurstöðu nefndarinnar. Ekki bárust kjörbréf frá þrem aðildarfélögum Búnaðarfélagi Hvolhrepps, Búnaðarfélagi Eyrabakka og Svínaræktarfélagi Suðurlands. Kjörbréf voru samþykkt.

5. Umræður og afgreiðsla skýrslna og reikninga, framhaldið
Reikningar voru bornir undir atkvæði og samþykktir samhljóða.

8. Mál í brennidepli. Ari Teitsson formaður BÍ. 
Ari Teitson ræddi þau mál sem eru í brennidepli í landbúnaðinum í dag. Hann sagði frá því að kjötsala í mars hefði aukist um 7% miðað við mars á síðast ári. Hann rakti gang sölumála í garðyrkjunni og sagði að smásöluaðilarnir væru að taka meira og meira og það væri einnig að gerast í öðrum greinum. Hann velti þeirri spurningu upp hvernig mjólkurframleiðslan stæði í þessum málum en mjólkurframleiðslan og garðyrkjan njóta mjög svipaðra tollaíviljana. Hann taldi ólíklegt að hægt væri að halda uppi sömu tollastefnu á næstu árum. Hann taldi að kvótaverðið í mjólkinni yrði fljótlega fastur liður í framleiðslukostnaði á mjólk. Hann sagði að í samkeppni framtíðarinnar myndi þetta háa verð á kvóta ekki ganga því ná yrði niður framleiðslukostnaði á mjólk.
Ari gerði að umtalsefni gæðastýringu í sauðfjárrækt og lagði áherslu á að framkvæmdin væri lögfest en eftir væri að útfæra hana. Hann fór í gegnum það hver markmiðin væru með gæðastýringu og lagði ríka áherslu á að það fjármagn sem fæst frá hinu opinbera hefði aldrei fengist ef þessi gæðastýringarákvæði hefðu ekki verið til staðar.

9. Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra. Ávarp
Guðni gat þess að sterk bein þyrfti til að vera bóndi í dag en einnig þyrfti sterk bein til að vera landbúnaðarráðherra. Mikil tilfinningarmál væru oft í gangi og sagðist hann vera að takast á við fimmtu pláguna núna, þ.e. grænmetismálið, á sínum stutta ferli. Landbúnaðarráðherra fjallaði vítt og breitt um helstu mál landbúnaðarins m.a. krýningu Gateway kýrinnar. Hann sagðist viss um að landbúnaður á Íslandi ætti framtíðina fyrir sér og bændur ættu að minnast þess að þeir væru í mikilvægu starfi. Verðlagningu landbúnaðarafurða þyrfti að skoða því sér virtist að smásalinn hefði haft algjört frelsi í verðlagningu og fákeppnin gerði framleiðendunum erfitt fyrir. Lagði hann áherslu á að afurðarstöðvarnar starfi fyrir bændur nú sem fyrrum. Hann bað bændur um að ganga heilir til verks við að þróa gæðastýringuna í sauðfjárrækt. Hann taldi að einstaklingsmerking gripa ætti að vera skylda en það þyrfti að skoða þau mál vel áður en þau kæmu til framkvæmda hér á landi. Hann sagði að nú væri unnið að því að breyta forðagæslulögunum og þeim væri ætlað að einfalda og gera forðagæsluna skilvirkari. Hann benti fundarmönnum á að í næsta samningi (árið 2005) mættu kúabændur eiga von á að ríkisstuðningi yrði breytt og hann yrði ekki framleiðslutengdur. Samningurinn sem nú væri í gildi samræmdist ekki stefnu Evrópusambandsins. Nýr samningur við ríkið yrði að standast alþjóða skuldbindingar og njóta þjóðarsáttar. Landbúnaðarráðherra sagðist að lokum vera bjartsýnn á framtíð íslensks landbúnaðar en nauðsynlegt væri að fylgjast vel með í þróun og markaðsetningu landbúnaðarvara til að sitja ekki eftir og verða ýtt út af markaðinum.

10. Álit laganefndar. Guðmundur Stefánsson.
Á síðasta aðalfundi var skipuð nefnd sem hafði það verkefni að skoða félagslega uppbyggingu Búnaðarsambandsins með það að markmiði að einfalda hana. Nefndin skilaði 5 valkostum til aðalfundarins og kynnti Guðmundur þær og fór yfir helstu kosti og galla. Nefndin lagði til við stjórn Búnaðarsambandsins að ekki yrði boðaðar lagabreytingar nú heldur yrðu tillögur nefndarinnar einugnis til kynningar og umræðu á aðalfundi. Síðan gæti aðalfundur vísað þeim til kynningar og umræðu í aðildarfélögunum og lagabreytingar yrðu íhugaðar að ári fengju tillögurnar hljómgrunn meðal bænda (sjá nánar á fylgiskjali 1 og 2).

11. Umræður.
Kjartan Ólafsson kom inn á mál sem Guðni og Ari komu inn á varðandi málefni garðyrkunnar. Hann taldi nauðsynlegt að ræða það á þessum fundi því það skipti alla bændur máli og varðaði framtíð landbúnaðar á Íslandi. Kjartan kynnti hvernig tollamálum garðyrkjunnar væri háttað. Garðyrkubændur og fleiri fengju ákúrur á hverju vori vegna hárra tolla á grænmeti. Kjartan lagði áherslu á að íslenskur landbúnaður keppti ekki við erlendar landbúnaðarvörur ef hann nyti ekki verndar og nauðsynlegt væri að standa vörð um þessa framleiðslu. Ef það yrðu teknir af allir tollar á t.d. papriku væri líklegt að fleiri landbúnaðarvörur fylgdu í kjölfarið. Búgreinar yrðu að standa saman og allar ákvarðanir verði að vera vel íhugaðar og teknar án allrar pressu þrýstihópa. Að lokum sagðist hann vonast til að bændur bæru gæfu til að standa saman í þessu máli.
Runólfur Sigursveinsson var sammála Ara um að markmiðið með gæðastýringunni væri allra góða gjalda verð. Hins vegar væri mjög mikilvægt að fá skýrari línur varðandi landnot og hvernig eftirliti með gæðastýringunni verði háttað. Einnig beindi hann þeirri spurningu til Ara hvort búið væri að kanna hug afurðarstöðva til gæðastýringar.
Valur Oddsteinsson þakkaði erindi frummælenda. Spurði hvort álagsgreiðslur í gæðastýringu verði miðaðar við árin 1997-1999. Hann taldi að það gæti komið illa við suma og spurði hvort fundarmönnum fyndist þetta réttlátt. Hann tók undir orð Ara að þróun í sauðfjárrækt hefði verið alltof hæg. Málin verði að skoða alla leið, líka hjá afurðastöðvunum.
Gunnar Þórisson langaði til að vita hvort ekki yrði borgað hærra verð fyrir vistvænt lambakjöt í haust.
Ari Teitsson sagðist ekki vera sammála því að verið sé að taka fé frá einum og rétta öðrum þetta væru í raun sjálfstæðir samningar hvor fyrir sig. Í landbúnaðarráðuneytinu væri verið að vinna að því að útbúa reglur í sambandi við umsóknir og eftirlit með gæðastýringu. En enn væru landnotin í nokkru uppnámi. Reiknað væri með að á að giska 50 bændur verði heimsóttir árlega og það skoðað hvernig þeir standa að sínum gæðastýringarmálum og þetta ætti því ekki að vera mikið verk. Afurðarstöðvarnar muni ekki koma til með að auglýsa sérstaklega að lambakjötið sé gæðavottað fyrr en 80-90% framleiðslunnar sé vottað.
Guðni Ágústsson tók undir þau orð með Kjartani Ólafssyni að grænmetismálið varðaði alla bændur. Hann taldi að landbúnaðarinn hefði aldrei haft aðra eins þörf fyrir öfluga leiðbeiningarþjónustu. Það væri vilji ríkisvaldsins að sjá öflugan landbúnaða og þess vegna væri hann styrktur. Guðni óskaði bændum velfarnaðar á komandi árum.

12. Tillögur lagðar fram og kynntar. Nefndir hefja störf.
Sveinn Sigurmundsson gerði tillögur um nefndarskipan og lagði fram innsendar tillögur. Formenn nefnda voru eftirfarandi;
Félagsmálanefnd: Ólafur Einarsson, Hurðarbaki
Allsherjarnefnd: Bergur Pálsson
Launanefnd: Jón Finnur Hansson
Fjárhagsnefnd: Kjartan Ólafsson

13. Kaffihlé.

14. Kosningar. 1 stjórnarmann og 1 í varastjórn úr V-Skaft. og löggiltan endurskoðanda
Valur Oddsteinsson greindi frá því að hann gæfi ekki kost á sér áfram það sama gerði varamaður hans Tómas Pálsson.
Frá uppstillingarnefnd kom uppástunga um Guðna Einarsson, Þórisholti sem aðalmann og varamann Þórhildi Jónsdóttir, Ketilsstöðum. Gengið var til kosninga og atkvæði fóru þannig Guðni Einarsson hlaut 44 atkvæði í aðalstjórn og Þórhildur Jónsdóttir hlaut 41 atkvæði í varastjórn.
Formaður stjórnar lagði til að löggiltur endurskoðandi verði endurkjörinn. Það var samþykkt samhljóða með lófaklappi.

15. Tillögur lagðar fram frá nefndum, umræður, afgreiðsla.
Kjartan Ólafsson sagði frá því að 15 manns hefður starfað í fjárhagsnefnd og nefndin leggði til að félagsgjald yrði óbreytt 1.000 kr. Sveinn Sigurmundsson tók síðan við og fjallaði um fjárhagsáætlun Kynbótastöðvar Suðurlands. Sæðingagjöld mundu hækka, fyrir þá sem standa utan skýrsluhalds úr 1.500 kr. í 1.700 kr. og fyrir þá sem eru í skýrsluhaldi úr 1.320 kr í 1.500 kr. Fjárhagsáætlun Kynbótastöðvarinnar var samþykkt samhljóða.
Sveinn kynnti síðan fjárhagsáætlun Búnaðarsambandsins og var hún samþykkt samhljóða. Tillaga um óbreytt félagsgjald var tekið fyrir og samþykkt samhljóða.
Bergur Pálsson kynnti tillögu frá allsherjarnefnd en hún var svohljóðandi: Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Gunnarshólma 20. apríl 2001 felur stjórn Búnaðarsambands Suðurlands að fylgjast með áformum um notkun á kjötmjöli til uppgræðslu og að leitast við að hafa áhrif á að það geti ekki valdið neinni hættu á útbreiðslu smitsjúkdóma. Tillagan var samþykkt samhljóða.
Bergur kynnti aðra tillögu og var hún svohljóðandi: Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Gunnarshólma 20. apríl 2001 mótmælir harðlega lækkandi verði á nautgripakjöti til bænda. Með sama áframhaldi er veruleg hætta á að framleiðsla ungneytakjöts leggist af hér á landi, sem aftur kallar á innflutning til að fullnægja þörfum markaðarins. Jafnframt bendir fundurinn sunnlenskum sláturleyfishöfum á að nýta sér þá fjármuni sem í boði eru af hálfu Landssambands kúabænda til auglýsinga og efla með þeim hætti markaðsstöðu nautgripakjöts. Og var hún samþykkt samhljóða.
Bergur kynnti síðan þriðju og síðustu tillögu allsherjarnefndar og var hún svohljóðandi: Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Gunnarshólma 20. apríl 2001 mótmælir harðlega því vantrausti á bændur sem fram kemur í nýrri reglugerð um dýralyf. Fundurinn skorar á stjórn Búnaðarsambands Suðurlands að þrýsta á um breytingar á umræddri reglugerð.
Greinargerð:
Fundurinn telur að með reglugerðinni sé bændum gert erfiðara fyrir að sinna velferð dýra sinna og kostnaður við húsdýrahaldið eykst.
Tillagan var samþykkt samhljóða.
Jón Finnur Hansson mælti fyrir tillögu launanefndar en hún var svohljóðandi. Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Gunnarshólma 20. apríl 2001 ákveður að laun stjórnarmanna verði kr. 8.210 kr. fyrir hvern fund auk fæðisdagpeninga og útlagðs kostnaðar við akstur. Formaður stjórnar fái tvöföld laun.
Samþykkt eftir breytingar.
Ólafur Einarsson mælti fyrir tillögu félagsmálanefndar en hún var svohljóðandi: Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Gunnarshólma 20. apríl 2001 leggur til að stjórnin skipi nefnd sem útfæri frekar þær tillögur sem til greina koma í félagslegri uppbyggingu Búnaðarsambandsins. Þær tillögur verði sendar aðildarfélögunum til kynningar og umræðu. Þau sendi frá sér álit innan tilskilins frests. Samantekt á því verði lögð fyrir aðalfund 2002.
Tillagan var ykkt samhljóða.

16. Önnur mál.
Guðni Einarsson þakkaði stuðninginn með stjórnarkjörið og einnig þakkaði hann fráfarandi stjórnarmanni Val Oddsteinssyni vel unnin störf.
Halldór Guðmundsson gerði gæðastýringu í sauðfjárrækt að umtalsefni, sérstaklega landvottun. Einnig kom hann inn á þjóðlendumálið en hann hafði verulegar áhyggjur af því. Hann taldi nauðsynlegt fyrir bændur að standa saman í öllum búgreinum. Einnig taldi hann að afurðastöðvar ættu að vera í eigu bænda og stjórnað af þeim. Halldór ræddi einnig slæman aðbúnað fjárins á Stóra-Ármóti.
Eggert Pálsson þakkaði Val Oddsteinssyni fyrir samstarfið.
Valur Oddsteinsson sagði að mikil endurnýjun væri í sveitunum sem endurspeglaðist í fulltrúavali á aðalfundinn. Einnig taldi hann það happ búnaðarsambandsins að hafa ávalt gott starfsfólk innan sinna raða. Hann þakkaði Sveini kærlega fyrir samstarfið og sagði ánægjulegt að hverfa frá þegar staðan væri eins góð og raun bæri vitni.
Hjalti Gestsson tók til máls og þakkaði Val Oddsteinssyni vel unnin störf og frábært samstarf. Hann væri fæddur bóndi og foringi. Það væri mikilvægt að njóta hans starfskrafta áfram þó á öðru sviði væri. Að lokum óskaði hann Búnaðarsambandinu heilla í framtíðinni.

17. Fundarslit.
Þorfinnur Þórarinsson þakkaði Hjalta hlý orð í garð BSSL og tók undir hans orð í garð Vals. Hann kvað fundinn hafa verið góðan og málefnalegan. Fundargerð yrði send fulltrúum. Þorfinnur þakkaði Val kærlega fyrir samstarfið í stjórn Búnaðarsambandsins. Hann bauð nýja stjórnarmenn velkomna til starfa. Að því búnu sleit hann fundi.

/Halla Eygló Sveinsdóttir
Jón Finnur Hansson

Fulltrúar 2001

Búnaðarfélag Gaulverjabæjarhrepps: Elvar Ingi Ágústsson, Hamri
Búnaðarfélag Stokkseyrarhrepps: Björn Harðarson, Holti
Búnaðarfélag Sandvíkurhrepps: Guðmundur Lárusson, Stekkum
Búnaðarfélag Hraungerðishrepps: Baldur I. Sveinsson, Litla-Ármóti
Búnaðarfélag Villingaholtshrepps: Ólafur Einarsson, Hurðabaki
Búnaðarfélag Skeiðahrepps: Rúnar Þór Bjarnason, Reykjum
Búnaðarfélag Gnúpverjahrepps: Högni Guðnason, Laxárdal
Búnaðarfélag Hrunamannahrepps: Grétar Skúlason, Miðfelli og Sigurður Ágústsson, Birtingaholti – ekki mættur
Búnaðarfélag Biskupstungahrepps: Eiríkur Jónsson, Gýgjarhólskoti og Ingólfur Guðnason, Engi
Búnaðarfélag Þingvallahrepps: Gunnar Þórisson, Fellsenda
Búnaðarfélag Laugardalshrepps: Theodór Vilmundarson, Efsta-Dal I
Búnaðarfélag Grímneshrepps: Ágúst Gunnarsson, Stærri-Bæ
Búnaðarfélag Grafningshrepps: Sigurður Hannesson, Villingavatni
Búnaðarfélag Ölfushrepps: Jón Ögmundsson, Króki og Pétur Guðmundsson, Hvammi
Búnaðarfélag A-Eyjafjallahrepps: Fannar Magnússon, Hrútafelli
Búnaðarfélag V-Eyjafjallahrepps: Björgvin Guðjónsson, Syðstu- Mörk
Búnaðarfélag A-Landeyjarhrepps: Haraldur Konráðsson, Búðarhóli
Búnaðarfélag V-Landeyjarhrepps: Haraldur Júlíusson, Akurey
Búnaðarfélag Fljótshlíðarhrepps: Ólafur Þorri Gunnarsson, Bollakoti
Búnaðarfélag Hvolhrepps: Enginn mættur
Búnaðarfélag Rangárvallahrepps: Þórir Jónsson, Selalæk
Búnaðarfélag Landmannahrepps: Hannes Ólafsson, Austvaðsholti
Búnaðarfélag Holtahrepps: Daníel Magnússon, Akbraut
Búnaðarfélag Djúpárhrepps: Óskar Ólafsson, Bjóluhjáleigu
Búnaðarfélag Ásahrepps: Jón Þorsteinsson, Syðri-Hömrum
Búnaðarfélag Hörglandshrepps: Jón Jónsson, Prestsbakka
Búnaðarfélag Kirkjubæjarhrepps: Margrét Eimarsdóttir, Mörk
Búnaðarfélag Álftavers: Þórarinn Eggertsson, Hraungerði
Búnaðarfélag Leiðvallahrepps: Ómar Jónsson, Efri-Ey
Búnaðarfélag Skaftártungu: Gunnar Sveinsson, Flögu
Búnaðarfélag Hvammshrepps: Guðni Einarsson, Þórisholti
Búnaðarfélag Dyrhólahrepps: Margrét Guðmundsdóttir, Vatnskarðshólum
Félag sauðfjárbænda í Árnessýslu: Árni Þorvaldsson, Bíldsfelli, Halldór Guðmundsson, Nautaflötum og Jökull Helgason, Ósabakka
Félag sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu: Jens Jóhannson, Teigi, Baldur Björnsson, Fitjamýri og Eggert Pálsson, Kirkjulæk
Félag sauðfjárbænda í Vestur-Skaftafellssýslu: Þórhildur Jónsdóttir, Ketilsstöðum og Sólrún Ólafsdóttir, Kirkjubæjarklaustri
Loðdýraræktarfélag Suðurlands: Katrín Sigurðardóttir, Ásaskóla
Félag skógarbænda á Suðurlandi: Sigurður Jónsson, Ásgerði
Hrossaræktarsamtök Suðurlands: Helgi Eggertsson, Kjarri –ekki mættur, Jón Finnur Hansson, Selfossi, Jón Vilmundarson, Skeiðháholti, Ólafur Einarsson, Torfastöðum –ekki mættur, Bergur Pálsson, Hólmahjáleigu, Salvar Júlíusson, Jórvík, Snæbjörn Sigurðsson, Efstadal og Ragnar Lárusson, Stóra-Dal
Félag kúabænda á Suðurlandi: Sigurður Loftsson, Steinsholti, Gunnar Eiríksson, Túnsbergi, Sigurlaug Leifsdóttir, Nýjabæ, Ágúst Dalkvist, Eystra- Hrauni og María Hauksdóttir, Geirakoti
Samband garðyrkjubænda: Kjartan Ólafsson, Hlöðutúni og Jóhannes Helgason, Hvammi.

back to top