Kátt er í Kjósinni
Kjósverjar buðu til mikillar hátíðar um síðustu helgi en þetta er í annað sinn þeir bjóða gestum í sveitina undir nafninu “Kátt í kjósinni”. Veðrið lék við gesti sem heimsóttu bændur og kynntu sér það fjölbreytta starf sem unnið er í Kjósinni. Í Félagsgarði var haldinn sveitamarkaður þar sem m.a. voru seldar og kynntar framleiðsluvörur af svæðinu, s.s. nautakjöt, broddur, sultur, mjólkurvörur frá Mjólku, skart og ullarvörur.
Skógræktin með góða sýningu á Landbúnaðarsýningunni
Nokkrir aðilar innan skógræktargeirans á Íslandi slá sér saman um að kynna skógrækt á Íslandi og þau störf sem þessi tiltölulega nýlega búgrein hefur skapað. Þessir aðilar eru Skógrækt ríkisins, Suðurlandsskógar, Hekluskógar og Landssamtök skógareigenda. Ætlunin er að reisa skógarhús þar sem starfsemin verður kynnt í máli og myndum og þar geta áhugasamir kynnt sér hvar best sé að sækja ráðgjöf um skógrækt. Þá verða vélar tengdar skógariðnaðinum til sýnis og hugmyndir eru uppi um að sýna í notkun sérstaka plöntunarvél á fyrirfram ákveðnum tímum yfir sýningardagana.
Býflugur á Landbúnaðarsýningu
Nú er orðið ljóst að býflugur verða til sýnis á Landbúnaðarsýningunni á Hellu en sýningin leggur metnað sinn í að sýna öll húsdýr sem yfirleitt er mögulegt. Félagsmenn í Býflugnaræktendafélagi Íslands munu sýna og kynna býflugnarækt en félagsskapurnn var stofnaður árið 2001. Áhugi á ræktun býflugna hefur vaxið með hverju árinu og hunangið sem er afurð býflugnanna fyrir löngu orðið vinsælt meðal þjóðarinnar.
Nú fer hver að verða síðastur!
Nú styttist óðum í 21. júlí en þann dag eru síðustu forvöð sýnenda að panta sýningarpláss og auglýsingaskilti á Landbúnaðarsýninguna á Hellu. Eftir þann dag förum við að móta sýningarsvæðið endanlega með tilliti til þeirra pantana sem þá verða komnar. Siðustu daga hafa pantanir á sýningarsvæðinu því tekið kipp og sem dæmi um fyrirtæki sem pantað hafa sýningarpláss á síðustu dögum eru Landsvirkjun, Varmavélar ehf. og IMPRA á Nýsköpunarmiðstöð.
Bylgjan með beina útsendingu frá Landbúnaðarsýningunni
Mikil áhersla verður lögð á að kynna Landbúnaðarsýninguna á Hellu vel fyrir landsmönnum. Nú þegar hefur sýningin verið auglýst vel í Bændablaðinu og í Fréttablaðinu auk þess sem veggspjöld og einblöðungar (flyer) hafa verið útbúnir og dreift á valda staði víðsvegar um land. Aðal auglýsingaherferðin hefst þó ekki fyrr en eftir verslunarmannahelgi og mun tíðni auglýsinga og fjöldi aukast dag frá degi og ná hámarki þann föstudag sem sýningin hefst, 22. ágúst. Þann dag mun útvarpsstöðin Bylgjan verða með beina útsendingu frá sýningunni sem hefst strax með „Íslandi í bítið“ og ekki ljúka fyrr en kvöldfréttir hefjast kl. 18.30.
www.bssl.is verður fyrir árás
Heimasíða Búnaðarsambands Suðurlands, www.bssl.is hefur legið niðri undanfarin sólarhring þar sem uppgötvaðist að hún hefði orðið fyrir árás tölvuþrjóta. Fyrirtækið Aicon á Selfossi sem hýsir vefsíðuna tók hana því úr umferð tímabundið og hefur unnið að því í dag að auka öryggi hennar sem koma í veg fyrir að slíkar árásir megi heppnast.
Stórsýning garðyrkju- og blómaframleiðenda
Samband garðyrkjubænda stendur fyrir stórsýningu garðyrkjunnar á Landbúnaðarsýningunni á Hellu þann 22.-24. ágúst n.k. Júlíanna Einarsdóttir blómaskreytir hefur verið ráðin til að hanna sýningarsvæði garðyrkjunnar en sýningin fer fram í öðrum helmingi andyrsins í Rangárhöllinni (um 100 fermetrar) og á útisvæði jafnstóru þar við.
Brenna pylsur sem má selja
Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli lagði hald á tæp 5 tonn af ólöglegum matvælum sem ferðamenn komu með til landsins í fyrra, þar af rúm 2,7 tonn af hráu kjöti eða um 600 kg meira en árið 2006. Stór hluti hráa kjötsins sem tekinn er af ferðamönnum er pylsur sem leyft er að selja í verslunum hér, að sögn Bjargar Valtýsdóttur, deildarstjóra hjá Tollgæslunni á Suðurnesjum.
Samstarfsaðilar Landbúnaðarsýningarinnar á Hellu
Búnaðarsamband Suðurlands stendur sem kunnugt er fyrir viðamikilli Landbúnaðarsýningu dagana 22. – 24. ágúst n.k. á Gaddstaðaflötum við Hellu. Sýning sem þessi kostar mikið fé og því var leitað eftir samstarfi við nokkur fyrirtæki og stofnanir sem standa landbúnaðinum nærri.
Aukið eftirlit með dýravernd á landsmóti hestamanna
Dýraheilbrigðissvið Matvælastofnunar, Landssamband hestamannafélaga og Landsmót ehf. höfðu samstarf um aukið eftirlit með dýravernd á nýafstöðnu landsmóti. Allir keppnishestar í fullorðinsflokkum voru heilbrigðisskoðaðir fyrir keppni og var þeirri skoðun fylgt eftir fyrir milliriðla og úrslit. Skoðunin, sem fengið hefur vinnuheitið “Klár í keppni”, fékk góðar viðtökur hjá knöpum og almennt var gerður góður rómur að þessu framtaki.
Ekki meiri mjólk takk fyrir
Yfirmaður landbúnaðarmála hjá Evrópusambandinu, Mariann Fischer Boel, biður þýska bændur um að hætta að senda sér mjólk í pósti. Hefur hún fengið um tíu þúsund lítra af mjólk senda og mikið af mjólkinni kemur með almennum pósti heim til hennar.
Hamingjuóskir til sunnlenskra hestamanna
Stjórn Búnaðarsambands Suðurlands kom saman í gær, mánudaginn 7. júlí í tilefni af 100 ára afmæli Búnaðarsambandsins en afmælisdagurinn sjálfur var þann 6. júlí. Á fundinum var m.a. færðar til bókar hamingjuóskir Búnaðarsambandsins til sunnlenskra hestamanna með afar góðan árangur á nýafstöðnu Landsmóti hestamanna.
Stórgóðir stóðhestar á Landsmóti
Það má með sanni segja að sýning stóðhesta á Landsmótinu á Hellu í gær hafi verið með miklum glæsibrag. Magnaðir hestar voru dæmdir í flokki 4 vetra stóðhesta. Seiður frá Flugumýri hlaut hæsta dóminn, hækkaði hæfileikaeinkunn eilítið, fór úr 8,33 í 8,35. Seiður lækkaði lítillega fyrir stökk en hækkaði á móti fyrir skeið. Hesturinn er lipur, léttbyggður og háfættur. Hann er með 8,5 fyrir vilja og geðslag og er afar jákvæður að sögn ræktandans Páls Bjarka Pálssonar á Flugumýri.
Auglýsing um takmarkanir á flutningum sláturfjár
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur birt auglýsingu um takmarkanir á sláturfjár innan og milli sauðfjárveikivarnarsvæða þar sem fram kemur að bannað er að flytja til slátrunar á Hornafirði fullorðið fé úr Mýrdals- og Skaftártunguhólfum og einnig af svæðum norðan Hamarsár. Sama gildir um fullorðið fé úr varnarhólfum vestan Þjórsár.
Auglýsinguna í heild sinni má sjá með því að smella á lesa meira.
Landbúnaðarsýningin á Hellu 22.-24. ágúst
Í tilefni af 100 ára afmæli Búnaðarsambands Suðurlands 2008 verður haldin landbúnaðarsýning á Gaddstaðaflötum við Hellu dagana 22.-24. ágúst næstkomandi. Sýningin á Hellu verður ein sú stærsta sinnar tegundar sem haldin hefur verið hérlendis um árabil. Landbúnaðarsýningin verður þróunar- og tæknisýning jafnframt því sem hún kynnir hlutverk og stöðu íslensks landbúnaðar í þjóðfélaginu. Markmið sýningarinnar er að kynna fjölbreytni íslensks landbúnaðar, hátt tæknistig og þá miklu þekkingu sem er að finna innan greinarinnar.
Fyrsta slætti víða lokið
Allmargir bændur á Suðurlandi hafa nú þegar lokið 1. slætti sem hlýtur að teljast óvenju snemmt, þ.e. að ljúka honum í júní. Víðast hvar hefur viðrað vel til heyskapar, verið góður þurrkur og ættu því að hafa náðst hey með hámarksgæðum.
Þurrkurinn hefur hins vegar verið það mikill að sums staðar er hann farinn að hamla sprettu og þær skúrir sem fallið hafa undanfarna daga gera ekki mikið þó þær hjálpi vissulega til.
Virkjanir samþykktar
Hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti samhljóða á fundi sínum í gærkvöldi breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins 2004-2016 varðandi Hvamms- og Holtavirkjun.
Landbúnaðarsýningin á Hellu
Dagskrá Landbúnaðarsýningarinnar er nú sem óðast að taka á sig mynd. Vönduð og fjölbreytt skemmtidagskrá verður í boði alla sýningardagana og verða hin árlegu Töðugjöld á Hellu hluti af dagskrá sýningarinnar.
Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, setur sýninguna föstudaginn 22. ágúst kl. 13 að viðstöddum boðsgestum. Kl. 14 verður sýningarsvæðið svo opnað almenningi. Laugardag og sunnudag hefst sýningin kl. 10 og stendur hún alla dagana til kl. 20.
Aukin hætta á grjóthruni
Almannavarnanefndir á jarðskjálftasvæðinu á Suðurlandi hafa látið meta hættu á grjóthruni í kjölfar jarðskjálftanna. Niðurstöður rannsókna eru þær að hætta á grjóthruni er talin hafa aukist á svæðinu kringum Hamarinn við Hveragerði, Reykjafjall og Ingólfsfjall. Almannavarnanefndir hvetja fólk til sýna sérstaka aðgát og vera ekki á ferð á umræddum svæðum að nauðsynjalausu.
Skyr.is til Englands
Mjólkursamsalan er að hefja sölu á skyri á Bretlandsmarkaði. Tilraunasendingar hafa farið í nokkrar heilsubúðir í London og nágrenni og stefnt er að því að Skyr.is verði til sölu í mörgum smásöluverslunum í haust.
MS hefur unnið að undirbúningi markaðssetningar skyrsins í Bretlandi um tíma. Að sögn Guðbrands Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Nýlands ehf. sem annast útflutning mjólkurafurða fyrir MS, hefur tilraunaútflutningur gefist vel. Umfangsmeiri útflutningur hefst í haust þegar Skyr.is verður kynnt og boðið til sölu í smásöluverslunum.