Dráttarvéladagur og áttræð Hvítárbrú

Á laugardaginn nk. stendur mikið til hjá Borgfirðingum. Er þá ætlunin að minnast tveggja merkra viðburða í landbúnaðar- og samgöngusögu Íslands. Í tilkynningu Landbúnaðarsafns Íslands á Hvanneyri kemur fram að frá klukkan 11 til 15:30 verði dagskrá á Hvanneyri helguð dráttarvélum en um þessar mundir eru 90 ár frá því fyrsta dráttarvélin kom til lands á Akranesi. Verða nokkrar af elstu og yngstu dráttarvélum þar til m.a. til sýnis. Þegar dagskránni er lokið á Hvanneyri verður haldið inn að Hvítárbrú við Ferjukot, en þangað eru 6 km. Þar á að minnast þess að 80 ár eru liðin frá því að brúin var vígð.

Borgfirskir fornbílar munu aka um brúna og í broddi fylkingar verður Sæmundur Sigmundsson á langferðabifreið sinni, árgerð 1947. Tjöld brúarsmiðanna og ýmsir aðrir munir, sem notaðir voru við brúarsmíðina, ásamt miklu safni mynda frá framkvæmdatímanum, verða til sýnis í Ferjukoti.Léttar veitingar verða í boði við Ferjukot en það eru Laxveiði- og sögusafnið í Ferjukoti, ásamt Vegagerðinni og Sæmundi Sigmundssyni sem standa fyrir samkomunni.


Frekari upplýsingar um þennan skemmtilega dag sem í vændum er í Borgarfirði má finna á vef Landbúnaðarsafns Íslands.


back to top