Grænlendingar heimsækja Landbúnaðarsýninguna á Hellu

Von er á 29 manna hóp grænlenskra bænda á Landbúnaðarsýninguna á Hellu. Um er að ræða hóp frá Vatnahverfi á Suður-Grænlandi sem kemur til Íslands gagngert til að heimsækja sýninguna. Vatnahverfi er nálægt bæjunum Narsarsuaq og Qassiaruk.

Bændur á þessum slóðum stunda aðallega sauðfjárbúskap með íslensku fé sem flutt var til Grænlands á 3ja áratugnum. Þá eru þeir sér sjálfbjarga um mjólk en íslenska nautið Eiríkur rauði og kálffulla kvígan Björk voru flutt til Grænlands árið1998. Nautgripirnir voru einmitt frá bænum Helluvaði sem er skammt frá sýningarsvæðinu á Gaddstaðaflötum.

Grænlensku bændurnir hafa sótt sér mikla þekkingu til Íslands, t.a.m. fór Stefán Scheving sérfræðingur á RALA, árum saman haustferð til Grænlands til að hjálpa þeim að velja ásetningsfé. Þorsteinn Ólafsson dýralæknir fór einnig fyrir nokkrum árum til að kenna þeim nautgripasæðingar og góð tengsl hafa skapast milli þessa hóps og starfsmanna Landgræðslunnar sem hafa aðstoðað þá við uppgræðslurannsóknir.


Tengiliður hópsins hér á landi er Magnús Jóhannsson, sérfræðingur hjá Landgræðslunni.


back to top