Bylgjan með beina útsendingu frá Landbúnaðarsýningunni

Mikil áhersla verður lögð á að kynna Landbúnaðarsýninguna á Hellu vel fyrir landsmönnum. Nú þegar hefur sýningin verið auglýst vel í Bændablaðinu og í Fréttablaðinu auk þess sem veggspjöld og einblöðungar (flyer) hafa verið útbúnir og dreift á valda staði víðsvegar um land. Aðal auglýsingaherferðin hefst þó ekki fyrr en eftir verslunarmannahelgi og mun tíðni auglýsinga og fjöldi aukast dag frá degi og ná hámarki þann föstudag sem sýningin hefst, 22. ágúst. Þann dag mun útvarpsstöðin Bylgjan verða með beina útsendingu frá sýningunni sem hefst strax með „Íslandi í bítið“ og ekki ljúka fyrr en kvöldfréttir hefjast kl. 18.30.

Á laugardeginum verður svo framhald á en þáttur Hemma Gunn á Bylgjunni verður jafnframt sendur út beint frá Landbúnaðarsýningunni.

Mjólkursamsalan auglýsir sýninguna á nokkrum sendibílum sínum á höfðuborgarsvæðinu auk þess að dreifa einblöðungunum á vörukynningum sínum víða um land. Dagblöð landsins sem og héraðsfréttablöð Sunnan- og Vestanlands verða einnig notuð til að kynna sýninguna og t.a.m. verður gefið út sérstakt aukablað um Landbúnaðarsýninguna með 24 stundum helgina fyrir sýninguna, laugardaginn 15. ágúst. Þá verða nýttar samlesnar auglýsingar á Ríkisútvarpinu, skjáauglýsingar hjá Ríkissjónvarpinu og vefborðar á völdum heimasíðum.

Að öllu samanlögðu ætti þessi viðburður ekki að fara fram hjá nokkrum einasta manni á Íslandi.


back to top