Kátt er í Kjósinni

Kjósverjar buðu til mikillar hátíðar um síðustu helgi en þetta er í annað sinn þeir bjóða gestum í sveitina undir nafninu “Kátt í kjósinni”. Veðrið lék við gesti sem heimsóttu bændur og kynntu sér það fjölbreytta starf sem unnið er í Kjósinni. Í Félagsgarði var haldinn sveitamarkaður þar sem m.a. voru seldar og kynntar framleiðsluvörur af svæðinu, s.s. nautakjöt, broddur, sultur, mjólkurvörur frá Mjólku, skart og ullarvörur.

Á bæjum í Kjósinni tóku bændur á móti gestum heim á býlin og fræddu um sín störf. Þá mátti sjá ýmsa renna fyrir fisk í Meðalfellsvatni en þar máttu gestir freista gæfunnar endurgjaldslaust. Talið er að nokkur þúsund manns hafi tekið þátt í viðburðum tengdum “Kátt í Kjósinni” þetta árið. Kvenfélag Kjósarhrepps og Björgunarsveitin Kjölur sameinuðu krafta sína og bökuðu vöfflur fyrir gesti af miklum móð. Á útisvæði var eitt stærsta naut landsins til sýnis ásamt verðlaunahrossum úr sveitinni. Þá voru reglulegar hundasýningar og kassaklifur fyrir ungu kynslóðina.


back to top