Skógræktin með góða sýningu á Landbúnaðarsýningunni

Nokkrir aðilar innan skógræktargeirans á Íslandi slá sér saman um að kynna skógrækt á Íslandi og þau störf sem þessi tiltölulega nýlega búgrein hefur skapað. Þessir aðilar eru Skógrækt ríkisins, Suðurlandsskógar, Hekluskógar og Landssamtök skógareigenda. Ætlunin er að reisa skógarhús þar sem starfsemin verður kynnt í máli og myndum og þar geta áhugasamir kynnt sér hvar best sé að sækja ráðgjöf um skógrækt. Þá verða vélar tengdar skógariðnaðinum til sýnis og hugmyndir eru uppi um að sýna í notkun sérstaka plöntunarvél á fyrirfram ákveðnum tímum yfir sýningardagana.

Eins og glöggt má sjá þegar keyrt er um landið okkar hefur skógrækt og skjólbeltarækt hérlendis aukist mjög á síðustu árum. Þéttbýlisbúar ekki síst hafa fundið í því hvíld og frið frá amstri hversdagsins að skipuleggja og planta trjám á landskikum sem þeir hafa umráðarétt yfir.

Þessir aðilar sem og aðrir sem áhuga hafa á íslenskri skógrækt ættu því að geta fundið ýmislegt áhugavert á Landbúnaðarsýningunni á Hellu dagana 22. – 24. ágúst n.k.


back to top