Hrossum og geitum fjölgar

Uppgjöri forðagæsluskýrslna lauk 26. maí sl., nokkru fyrr en verið hefur um árabil. Bændasamtök Íslands annast uppgjörið fyrir hönd Matvælastofnunar en það er byggt á skýrslum frá öllum bændum og öðrum eigendum búfjár í landinu, bæði haust- og vorskýrslum. Jafnframt sýnir uppgjörið gróffóður­forða miðað við haustbirgðir.

Þar kemur m.a. þetta fram:


Nautgripir: 70.681
  -þar af mjólkurkýr 26.049
Sauðfé: 454.846
Geitfé: 535
Hross: 77.052
Varphænsni: 184.265
Holdahænsni: 25.165
Svín: 4.182
Minkar: 41.552
Refir: 152 

Miðað við seinni ár hafa breytingar á fjölda búfjár ekki verið miklar. Þó er ljóst að hrossum fer fjölgandi. Hrossin eru þó ekki orðin eins mörg og þegar flest voru nokkru fyrir aldamótin en geiturnar eru nú orðnar fleiri en þær hafa verið um áratuga skeið. Þó er geitfjárstofninn í útrýmingarhættu og þarfnast verndunaraðgerða nú sem fyrr.


Gróffóðurforði á liðnu hausti var vart í meðallagi, tæplega tvær milljónir fóðureininga. Heyskorts gætti sums staðar í vor og fyrningar voru með minna móti. Bygguppskeran var að heita má sú sama og árið áður, 11.250 tonn, en birgðir af kornhálmi voru mun minni.


Líkt og árið áður gerðu búfjáreftirlitsmenn athugasemdir við aðbúnað og fóðrun hjá rúmlega 200 búfjáreigendum, oft þeim sömu ár eftir ár, og eru nokkrir þeirra undir eftirliti héraðsdýralækna. Flest þessi mál snerta hross, sauðfé og nautgripi og sýnir reynslan að taka þarf eftirlit með velferð búfjár fastari tökum. Beita þarf markvissari úrræðum því að ljóst er að dálítill hópur búfjáreigenda er af ýmsum ástæðum ekki hæfur til að stunda neins konar búfjárhald. Hafin er endurskoðun dýraverndarlaga og er reiknað með að jafnframt verði lög um búfjárhald endurskoðuð.

Höfundur greinar er Ólafur R. Dýrmundsson hjá Bændasamtökum Íslands


back to top