Um 12.000 gestir komu á Landbúnaðarsýningu og Töðugjöld á Hellu

Um 12.000 manns lögðu leið sína á Landbúnaðarsýningu og Töðugjöld á Hellu um helgina og er óhætt að segja að mætingin hafi farið fram úr björtustu vonum en gert hafði verið ráð fyrir 5.000-8.000 gestum. Gestir komu hvaðanæva að af landinu, úr þéttbýli jafnt sem dreifbýli, ungir sem aldnir. Sumir komu jafnvel lengra að, t.d. stór hópur grænlenskra bænda sem brá sér til Íslands gagngert til að skoða Landbúnaðarsýninguna.


Jóhannes Hr. Símonarson, framkvæmdastjóri Landbúnaðarsýningarinnar, segir sérstaklega ánægjulegt að fólk hafi ekki látið votviðrið á sig fá og er alsæll með mætinguna og stemninguna: „Sýningin gekk ljómandi vel og gestir hæstánægðir. Ég vil fyrir hönd Búnaðarsambands Suðurlands þakka kærlega öllum þeim sem lögðu hönd á plóg; metnaðarfullum sýnendum, frábæru starfsfólki, dyggum samstarfsaðilum og hinum fjölmörgu gestum sem gerðu Landbúnaðarsýninguna og Töðugjöldin að ógleymanlegum viðburði.”


Landbúnaðarsýningin var haldin í tilefni af 100 ára afmæli Búnaðarsambands Suðurlands.


Nánari upplýsingar veitir:
Jóhannes Hr. Símonarson, framkvæmdastjóri Landbúnaðarsýningarinnar á Hellu,
í síma 898 3109


back to top