Folald tekið í fóstur

Móðurlaust folald var tekið í fóstur af mjólkandi hryssu með folald. Tókst þetta afar vel og annast hryssan bæði folöldin jafn vel. Fyrr í sumar gerðist sá leiðinlegi atburður að hryssan Ástríða frá Feti veiktist illa og féll. Ástríða var háættuð fyrstu verðlauna hryssa í eigu hrossaræktarbúsins Fets. Var hún undan Orra frá Þúfu og gæðingamóðurinni Ásdísi frá Neðra-Ási.

Eigendum þótt mikill missir að hryssunni og strax var gripið til aðgerða til að reyna að bjarga mánaðargömlu hestfolaldi sem hún átti undan Samber frá Ásbrú.


Var leitað í reynslubanka Brynjars Vilmundarsonar, fyrrum eiganda Fetbúsins, þar sem hann sólaði sig á Spáni.


Ráðlagði Brynjar að sótt yrði gömul hryssa sem mjólkaði vel og reynt yrði að venja folaldið undir hana.


Eftir þessum ráðum var farið og var Arney frá Skarði sótt út í stóð ásamt tveggja vikna gömlu merfolaldi undan Freymóði frá Feti.


Til að byrja með var folöldunum báðum haldið frá hryssunni og svo hleypt til hennar á nokkurra tíma fresti. Arney tók þessu ljómandi vel og eftir einungis þrjá daga var hún búin að taka folaldið að sér og hægt var að sleppa þeim saman út.


Hryssan og folöldin tvö eru nú í góðu yfirlæti heima við á Feti og ómögulegt er fyrir alla nema sérfróða að sjá hvort folaldið Arney á sjálf á því hún hugsar jafnvel um bæði.


back to top