Fjármálakreppan kemur illa við landbúnaðinn – tryggja verður matvælaframleiðslu í landinu

Á þessu stigi er ekkert hægt að segja um framhaldið og bændur á sama báti og annað atvinnulíf í landinu,“ segir Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtaka Íslands aðspurður um þá stöðu sem uppi er í efnahagslífinu vegna óstöðugleika á fjármálamarkaði.
Hjá Bændasamtökunum hefur verið settur á laggirnar starfshópur til þess að fjalla um þá stöðu sem margir bændur standa frammi fyrir vegna slæmrar skuldastöðu og erfiðs reksturs. Á morgun fimmtudag munu forsvarsmenn bænda funda með landbúnaðarráðherra til þess að ræða vandann og koma á framfæri þeim hagsmunum sem snerta bændur landsins. Haraldur segir að miklir rekstrarerfiðleikar steðji að bændum og margir sem sjái fram á erfiða tíma.

Síðustu forvöð að tryggja sér sæti

Nú eru að verða síðustu forvöð að tryggja sér sæti í hrossaræktarferð Hrossaræktarsamtaka Suðurlands og Búnaðarsambands Suðurlands til Svíþjóðar dagana 28. nóvember til 1. desember 2008 í tilefni af 100 ára afmæli Búnaðarsambandssins. Á dagskrá er að fara á alþjóðlega hestasýningu í Globen í Stokkhólmi og heimsækja hrossaræktarbú rétt fyrir utan Stokkhólm. Fararstjóri verður enginn annar en Sigurður Sæmundsson.

Smölun Hvítmögu

Hvítmaga var smöluð um síðustu helgi. Hvítmaga liggur milli Skógafjalls og Sólheimaheiðar í Mýrdal og er ekki hægt að komast yfir í Hvítmögu nema með því að fara yfir Sólheimajökul sem er skriðjökull úr Mýrdalsjökli. Að sögn Einars Guðna Þorsteinssonar bónda á Ytri Sólheimum smalaðist nokkuð vel þó að enn sé vitað af nokkrum kindum eftir.

Missti 120-130 nautgripi







Talið er að 120-130 gripir hafi farist í eldinum. mbl.is/Árni Sæberg

Milli 120 og 130 nautgripir fórust í eldsvoða á bænum Vestra-Fíflholti í Landeyjum í morgun. Ágúst Rúnarsson bóndi sagði að búið væri að slökkva eldinn. Lögreglunni á Hvolsvelli var tilkynnt um eld í útihúsi á bænum rétt eftir klukkan sjö í morgun. Þá lagði mikinn reyk frá húsinu.
Ágúst hefur keypt kálfa af kúabændum og alið þá til slátrunar. Hann sagði að mikið af gripunum sem hann missti hafi verið orðnir stórir. Farga þurfti nokkrum gripum sem komust lífs úr húsinu en þóttu ekki á setjandi.

140 nautgripir drápust í bruna

Mikill bruni er nú í Landeyjum og er talið að um 140 nautgripir hafi orðið eldinum að bráð. Slökkviliðið á Hvolsvelli var kallað út um kl. 7 í morgun að bænum Vestra-Fíflholti í Vestur-Landeyjum þar sem kviknaði í gripahúsi.  Að sögn Magnúsar Hlyns Hreiðarsonar, fréttamanns, sem er á staðnum tókst að bjarga um 60 gripum út en alls voru um 200 gripir í húsinu.

50 þúsund grunnskólabörnum boðið upp á mjólk

Þann 24. september næstkomandi verður alþjóðlegi skólamjólkurdagurinn haldinn hátíðlegur í níunda sinn. Í tilefni dagsins býður Mjólkursamsalan öllum grunnskólabörnum landsins upp á mjólk í skólunum og má reikna með að þar verði drukknir 12.000 lítrar af mjólk. Alþjóðlegi skólamjólkurdagurinn er haldinn hátíðlegur víða um heim en það er Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna sem hvetur til að haldið sé upp á daginn. Á Íslandi er haldið upp á hann undir kjörorðunum „Holl mjólk og heilbrigðir krakkar“.

Landbúnaður í kröggum

Fjármagnskostnaður ætlar allt lifandi að drepa, sagði Einar K. Guðfinnsson landbúnaðarráðherra í utandagskrárumræðum á Alþingi í gær og taldi hvorki landbúnað né annað atvinnulíf geta þrifist við þessar aðstæður. Hafði hann áhyggjur af stöðu landbúnaðar og bætti við að ná þyrfti tökum á efnahagslífinu þannig að Seðlabankinn gæti lækkað vexti.

Mikið fé í húfi

Þessa dagana er verið að taka fyrir nokkur mál tengdum úrskurði óbyggðanefndar um þjóðlendur á svokölluðu svæði fimm, sem nær frá Fljótsdal í suðri til Þistilfjarðar í norðri. Óbyggðanefnd úrskurðaði nokkur svæði sem voru innan þinglýstrar eignar jarðanna sem þjóðlendur og vilja landeigendur fá þeim úrskurðum hnekkt.

Sumarið 2008 með sólríkari sumrum

Veðrátta í ágúst var hagstæð um land allt, nokkuð hvasst var þó þann 29. að því er fram kemur í yfirliti á vef Veðurstofu Íslands.
Meðalhiti í Reykjavík var 11,5 stig og er það 1,2 stigum ofan meðallags og er níundi hlýjasti ágústmánuður frá upphafi mælinga. Talsvert hlýrra var í ágúst 2003 og 2004. Á Akureyri var meðalhitinn einnig 11,5 stig og er það 1,5 stigum ofan meðallags. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 10,9 stig, 0,7 stigum ofan meðallags og 7,7 stig á Hveravöllum og er það 1,5 stigum ofan meðallags.

Bændur hugleiða að bregða búi

Þungt hljóð er í sauðfjárbændum og telja þeir framtíðarhorfur greinarinnar slæmar. Þeir segja að hækkun á afurðaverði sem sláturleyfishafar boða nægi engan veginn til að vega upp hækkanir sem orðið hafa á tilkostnaði. Margir bændur munu hugleiða að bregða búi ef ástandið batnar ekki.
Sláturleyfishafar telja sig á hinn bóginn ekki hafa svigrúm til að hækka afurðaverð á lambakjöti. Hár vaxtakostnaður geri birgðahald ákaflega dýrt og eins muni markaðurinn ekki kyngja því að lambakjöt hækki langt umfram aðrar kjöttegundir.

Um 12.000 gestir komu á Landbúnaðarsýningu og Töðugjöld á Hellu

Um 12.000 manns lögðu leið sína á Landbúnaðarsýningu og Töðugjöld á Hellu um helgina og er óhætt að segja að mætingin hafi farið fram úr björtustu vonum en gert hafði verið ráð fyrir 5.000-8.000 gestum. Gestir komu hvaðanæva að af landinu, úr þéttbýli jafnt sem dreifbýli, ungir sem aldnir. Sumir komu jafnvel lengra að, t.d. stór hópur grænlenskra bænda sem brá sér til Íslands gagngert til að skoða Landbúnaðarsýninguna.

Landbúnaðarsýning um helgina

Vegna Landbúnaðarsýningarinnar áHellu helgina 22.-24. ágúst verða skrifstofur Búnaðarsambandsins lokaðar föstudaginn 22. ágúst, þ.e. á morgun.

Við hvetjum bændur og búalið sem og aðra landsmenn til þess að mæta á Landbúnaðarsýninguna og berja augum íslenskan landbúnað dag.

Verið velkomin á Hellu dagana 22.-24. ágúst. Við tökum vel á móti ykkur.

100 ára afmælisrit BSSL komið út

Í ár fagnar Búnaðarsamband Suðurlands 100 ára afmæli sínu og af því tilefni er nýkomið út 100 ára afmælisrit Búnaðarsambandsins þar sem rakin er saga sambandsins s.l. 100 ár. Bókina ritaði Páll Lýðsson heitinn, bóndi og sagnfræðingur í Litlu-Sandvík. S.l. mánudagskvöld afhenti Guðbjörg Jónsdóttir, formaður BSSL, þeim Elínborgu Guðmundsdóttur, ekkju Páls Lýðssonar og Þorfinni Þórarinssyni, fyrrverandi formanni BSSL, fyrstu eintökin af bókinni.

Hægt að baka úr íslensku heilhveiti með haustinu

Íslenskt heilhveiti kemur á markaðinn í haust. Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum, hefur ræktað það um árabil en hingað til aðeins notað það sem skepnufóður.
Ólafur hefur kynnt sér hveitirækt í Noregi og Svíþjóð og gert eigin tilraunir til að athuga hvaða afbrigði henta best.

Folald tekið í fóstur

Móðurlaust folald var tekið í fóstur af mjólkandi hryssu með folald. Tókst þetta afar vel og annast hryssan bæði folöldin jafn vel. Fyrr í sumar gerðist sá leiðinlegi atburður að hryssan Ástríða frá Feti veiktist illa og féll. Ástríða var háættuð fyrstu verðlauna hryssa í eigu hrossaræktarbúsins Fets. Var hún undan Orra frá Þúfu og gæðingamóðurinni Ásdísi frá Neðra-Ási.

Áhrif loftslagsbreytinga á íslenskan landbúnað að mestu jákvæð

Í kjölfar útgáfu fjórðu úttektar Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) skipaði Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra vísindanefnd um loftslagsbreytingar á haustdögum 2007 og fól henni að skila skýrslu um líkleg áhrif hnattrænna loftslagsbreytinga á Íslandi. Nefndin skilaði skýrslu fyrir skömmu og í henni kemur fram að áhrif hlýnunar á gróðurfar eru þegar umtalsverð. Aukning hefur orðið á gróðri á síðustu árum og áratugum og samtímis hafa skógarmörk birkis færst ofar í landið. Að minnsta kosti ein fjallaplanta sem fylgst hefur verið með, fjallkrækill, er talin á undanhaldi vegna hlýnunar. Þá hafa aðstæður til kornræktar og skógræktar batnað með hlýnandi loftslagi.

Dráttarvéladagur og áttræð Hvítárbrú

Á laugardaginn nk. stendur mikið til hjá Borgfirðingum. Er þá ætlunin að minnast tveggja merkra viðburða í landbúnaðar- og samgöngusögu Íslands. Í tilkynningu Landbúnaðarsafns Íslands á Hvanneyri kemur fram að frá klukkan 11 til 15:30 verði dagskrá á Hvanneyri helguð dráttarvélum en um þessar mundir eru 90 ár frá því fyrsta dráttarvélin kom til lands á Akranesi. Verða nokkrar af elstu og yngstu dráttarvélum þar til m.a. til sýnis. Þegar dagskránni er lokið á Hvanneyri verður haldið inn að Hvítárbrú við Ferjukot, en þangað eru 6 km. Þar á að minnast þess að 80 ár eru liðin frá því að brúin var vígð.

Grænlendingar heimsækja Landbúnaðarsýninguna á Hellu

Von er á 29 manna hóp grænlenskra bænda á Landbúnaðarsýninguna á Hellu. Um er að ræða hóp frá Vatnahverfi á Suður-Grænlandi sem kemur til Íslands gagngert til að heimsækja sýninguna. Vatnahverfi er nálægt bæjunum Narsarsuaq og Qassiaruk.

Bændur vilja í lífræna ræktun

Bændur eru farnir að hugleiða að skipta yfir í lífræna ræktun vegna hækkandi verðs á kjarnfóðri, tilbúnum áburði og skordýraeitri . Hér á landi fá bændur þó ekki aðstoð til að breyta yfir í lífræna ræktun líkt og annars staðar í Evrópu.

Styrkjakerfi til bænda mun breytast

Lítið þokaðist í gærkvöld og nótt í Doha-viðræðunum svokölluðu hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni í Genf í Sviss. Þar er nú reynt að útkljá ýmis deilumál um alþjóðaviðskipti svo sem um tollfrjálsa verslun með landbúnaðarvörur. Aðeins er tímaspursmál hvenær breyta þarf styrkja- og niðurgreiðslukerfi landbúnaðarins á Íslandi, segir Sigurgeir Þorgeirsson, aðalfulltrúi Íslands í viðræðunum.

back to top