Afborganir á myntkörfulánum verði frystar

Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að beina þeim tilmælum til Fjármálaeftirlitsins, f. h. skilanefndar Glitnis hf. og Kaupþings hf., og til stjórna Nýja Landsbankans hf. og Nýja Glitnis hf., að frystar verði afborganir skuldara á myntkörfulánum, sérstaklega vegna húsnæðislána, þar til ró kemst á gjaldeyrismarkaðinn.

Einnig er þeim tilmælum beint til sömu aðila að fólki í greiðsluerfiðleikum verði boðin sömu úrræði og til staðar eru hjá Íbúðalánasjóði vegna greiðsluerfiðleika.


Auk þess er óskum beint til annarra fjármálafyrirtækja að veita sömu fyrirgreiðslu.


Tekið er fram í tilkynningu, að þessi framangreind tilmæli og óskir hafi ekki áhrif á heimild til handa Íbúðalánasjóði til að taka yfir húsnæðislán sem veitt hafi verið af öðrum fjármálafyrirtækjum og gildi á meðan unnið er að yfirfærslu húsnæðislána til Íbúðalánasjóðs.


back to top