Fullur vilji til að hjálpa viðskiptamönnum eins og kostur er

Í gær áttu formaður og framkvæmdastjóri Bændasamtakanna ásamt ráðuneytisstjóra sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins fund með Elínu Sigfúsdóttur bankastjóra Nýja Landsbankans. Farið var yfir það hvernig efnahagskreppan horfir við landbúnaði og mikilvægi þess að hægt verði að tryggja áframhaldandi rekstur búa til skemmri og lengri tíma. Rætt var um rekstrargrundvöll, dýravelferð, matvælaöryggi og sérstöðu landbúnaðar. Fulltrúar BÍ fóru yfir hvað samtökin geta í samvinnu við búnaðarsamböndin boðið upp á varðandi ráðgjöf.

Fram kom að hjá Nýja Landbsbankanum er fullur vilji til þess að hjálpa viðskiptamönnum eins og kostur er gegnum þessa erfiðu fjárhagslegu tíma. Sú aðferð er viðhöfð innan bankans að skoða hvert mál fyrir sig en fram kom að nokkrir aðilar innan landbúnaðar, eins og í öðrum atvinnugreinum, hafa fengið frestun á greiðslum afborgana þó ekki sé endilega mælt með þeirri lausn í öllum tilvikum. Fram kom vilji til þess að skoða sérstaklega rekstrarfjárvanda sem kann að rísa vegna t.d. fóður- eða áburðarkaupa.


Að mati Bændasamtakanna lýsir viðhorf bankans bjartsýni á framtíð landbúnaðar og því að menn vilja bíða og sjá hvað verður eftir að fjármálaóveðrinu slotar. 


back to top