Mjaltaþjónn í Hvanneyrarfjósið

Nú er verið að leggja lokahönd við á frágang á DeLaval mjaltaþjóni í fjósinu á Hvanneyri en hann verður tekinn í notkun í næstu viku. Básinn getur þjónað 65-70 kúm. Hér er um að ræða hefðbundinn mjaltaþjónn með frumuteljara. Snorri Sigurðsson framkvæmdastjóri búrekstrar LbhÍ sagði að seinna verði settur upp sérstakur búnaður sem getur gert fullkomnar efnamælingar á mjólkinni um leið og kýrnar eru mjólkaðar. Sá búnaður er í prófun erlendis og lofar góðu. Árleg framleiðsla Hvanneyrarbúsins er um 320 þúsund lítrar sem er áþekkt framleiðsluréttinum.

Snorri sagði að nýi mjaltaþjónninn breytti litlu varðandi hefðbundna nautgriparæktarkennslu. Eftir sem áður eru nemendur þjálfaðir venjulegum í fjósstörfum og við mjaltaþjóninn er sérhönnuð aðstaða fyrir nemendur og kennara. “Hægt er að kenna hefðbundnar mjaltir eftir sem áður ef kennarar telja ástæðu til,” sagði Snorri.


Við þessa breytingu á mjaltabúnaði hefur jafnframt verið gerðar breytingar á burðaraðstöðu fjóssins. Nú verða tvær burðarstíur í fjósinu og verður gólfflötur þeirra mun stærri en í gömlu stíunni. Snorri sagði að rannsókn sem gerð var síðsta vetur hefði leitt í ljós að gólfflötur í burðarstíum væri of lítill og að þetta væri sérstaklega áberandi ef kýrnar þyrftu á burðarhjálp að halda. Þá er búið að koma upp sérstakri sjúkrastíu í fjósinu sem er eingöngu fyrir gripi í meðferð.


Á meðfylgjandi mynd má sjá nýja mjaltaþjóninn en fyrir framan hann eru þeir Snorri Sigurðsson framkvæmdastjóri búrekstrar, Þorkell Þórðarson starfsmaður Hvanneyrarbús og Helgi Björn Ólafsson verkefnisstjóri. Davíð Ólafsson verktaki stendur næst mjaltaþjóninum.



back to top