Fjármálakreppan kemur illa við landbúnaðinn – tryggja verður matvælaframleiðslu í landinu

Á þessu stigi er ekkert hægt að segja um framhaldið og bændur á sama báti og annað atvinnulíf í landinu,“ segir Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtaka Íslands aðspurður um þá stöðu sem uppi er í efnahagslífinu vegna óstöðugleika á fjármálamarkaði.
Hjá Bændasamtökunum hefur verið settur á laggirnar starfshópur til þess að fjalla um þá stöðu sem margir bændur standa frammi fyrir vegna slæmrar skuldastöðu og erfiðs reksturs. Á morgun fimmtudag munu forsvarsmenn bænda funda með landbúnaðarráðherra til þess að ræða vandann og koma á framfæri þeim hagsmunum sem snerta bændur landsins. Haraldur segir að miklir rekstrarerfiðleikar steðji að bændum og margir sem sjái fram á erfiða tíma.

Það er mikil óvissa í landbúnaðinum um þessar mundir eins og í öðrum atvinnugreinum. Við leggjum áherslu á að bændur fái sem fyrst tækifæri til þess að semja um lán sín, hvort sem er til endurfjármögnunar eða lengingar. Við þessar aðstæður verður með öllum ráðum að tryggja rekstargetu búanna því ekki má missa framleiðsluna niður. Til lengri tíma verða bændur að fá tekjur til að standa straum að hækkuðum rekstrarkostnaði, mikilvægi atvinnugreinar okkar krefst þess. Það er kappsmál að halda innlendri matvælaframleiðslu gangandi, tryggja verður nægjanlegt fóður í landinu fyrir búfé, atvinnu þeirra sem tengjast úrvinnslugreinum landbúnaðarins og ekki síst afkomu bændafjölskyldna,“ segir Haraldur.


Fjármálaráðgjöf fyrir bændur
Bændasamtökin hafa um nokkurra mánaða skeið í samstarfi við búnaðarsambönd staðið fyrir fjármálaráðgjöf fyrir bændur. Þar er sérstaklega tekið á erfiðri stöðu og farið yfir mögulegar aðgerðir með bændum. Að sögn Haraldar hefur ráðgjöfin reynst vel og nýst bændum í viðræðum við viðskiptabanka sína. Hann hvetur bændur til þess að leita sér aðstoðar fyrr en síðar og bendir jafnframt á úrræði sem heilbrigðis- og félagsmálaráðherrar hafa undirbúið til aðstoðar fólki sem á við erfiðleika að glíma.


Að lokum segir Haraldur að sem betur fer sé stærsti hluti bænda ekki í alvarlegum vanda. „Bændasamtökin leggja áherslu á að búrekstri verði skapað viðunandi starfsumhverfi í þeim erfiðleikum sem fram undan eru. Umgjörðin er að nokkru leyti í uppnámi og það er mikilvægt að það skýrist á næstu dögum hvernig t.d. skuldir bænda og veð í jörðum verði meðhöndluð í nýjum ríkisbanka sem er í burðarliðnum samkvæmt fréttum. Bændur, líkt og meginþorri landsmanna, verða að bera gæfu til þess að koma sér í gegnum fjármálakreppuna með öllum tiltækum ráðum,“ segir Haraldur Benediktsson formaður BÍ.


back to top