Landbúnaður í kröggum

Fjármagnskostnaður ætlar allt lifandi að drepa, sagði Einar K. Guðfinnsson landbúnaðarráðherra í utandagskrárumræðum á Alþingi í gær og taldi hvorki landbúnað né annað atvinnulíf geta þrifist við þessar aðstæður. Hafði hann áhyggjur af stöðu landbúnaðar og bætti við að ná þyrfti tökum á efnahagslífinu þannig að Seðlabankinn gæti lækkað vexti.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, var málshefjandi og sagði flest benda til þess að framlegð væri nánast horfin úr helstu greinum íslensks landbúnaðar, sem hefði auk fjármagnskostnaðar þurft að þola miklar og skyndilegar hækkanir, m.a. á fóðri, áburði og olíu. „Það er erfitt að meta nákvæmlega hversu illa þessar snöggkomnu aðstæður hafa leikið greinina,“ sagði Steingrímur.


Einar sagðist hafa átt viðræður við Byggðastofnun um hvort hún gæti með einhverjum hætti komið að málum þannig að hægt væri að stuðla að lækkun fjármagnsgjalda. Þær viðræður væru þó á frumstigi. Þá ítrekaði Einar að skoða þyrfti hvort ekki væri hægt að breyta samningum við sláturleyfishafa þannig að greiðslum yrði flýtt og lyki í janúar.


 


back to top