Rannsóknir á átgetu íslensku mjólkurkýrinnar

Nú í febrúar hófust mælingar á átgetu íslensku mjólkurkýrinnar á Stóra-Ármóti. Mælingarnar eru hluti af M.S. verkefni Lilju Daggar Guðnadóttur við LbhÍ undir leiðsögn Jóhannesar Sveinbjörnssonar og Grétars H. Harðarsonar. Halla Kjartansdóttir, starfsmaður BSSL, hefur verið henni til aðstoðar við framkvæmd mælinganna. Notast er við 18 kýr á fyrri hluta mjaltaskeiðs, flestar eru á fyrsta mjaltaskeiði, en sú elsta er á 7. mjaltaskeiði.Verkefninu er ætlað að auka við þau gögn sem áður hefur verið aflað um átgetu og er áætlað að frekari rannsókn verði gerð næsta vetur á Stóra-Ármóti í þessum sama tilgangi. Markmið verkefnisins er að geta notað þær upplýsingar sem aflað er með áðurnefndum rannsóknum til að bæta þær spár sem nú eru notaðar í fóðurmatskerfinu NorFor um átgetu íslensku mjólkurkýrinnar.

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins opnar heimasíðu rml.is

Í dag fór í loftið heimasíða Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins rml.is.

Þar má finna ýmsan fróðleik um RML og hverjir sitja í stjórn hins nýja félags. 
Við óskum RML til hamingju með síðuna sem er í alla staði hin aðgengilegasta. 

Þátttaka í sæðingum 2012

Á vef Landsambands kúabænda naut.is var Baldur Helgi Benjamínsson að taka sama upplýsingar frá Bændasamtökum Íslands og Matvælastofnun (MAST) um þátttöku í sæðingum 2012.
Þar kemur fram að samkvæmt upplýsingum úr skýrsluhaldskerfi Bændasamtaka Íslands voru framkvæmdar 44.357 sæðingar hér á landi árið 2012. Þar af var fjöldi 1. sæðinga 25.905. Úr gagnabanka MAST kemur fram að fjöldi mjólkurkúa árið 2012 var alls 25.661, fjöldi holdakúa var 1.639 og fjöldi kelfdra kvígna var 6.539. Heildarfjöldi kúa og kvígna var því 33.839.
 

Ný stjórn Bændasamtaka Íslands

Búnaðarþing er búið að kjósa nýja stjórn Bændasamtaka Íslands til næstu þriggja ára. Stjórnin er skipuð sex stjórnarmönnum auk formanns sem er kosinn sérstaklega. Nýja stjórn skipa Sindri Sigurgeirsson, Bakkakoti, sem kosinn var formaður, Guðbjörg Jónsdóttir, Læk, Fanney Ólöf Lárusdóttir, Kirkjubæjarklaustri, Guðný Helga Björnsdóttir, Bessastöðum, Vigdís M. Sveinbjörnsdóttir, Egilsstöðum, Þórhallur Bjarnason frá Laugalandi og Einar Ófeigur Björnsson í Lóni.

Búnaðarsamband Suðurlands óskar nýjum stjórnarmönnum til hamingju og óskar þeim velfarnaðar í störfum sínum.

Breytingar hjá Búnaðarsambandi Suðurlands

Um síðustu áramót tók Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins RML til starfa.  Fyrirtækið tekur yfir faglegt starf og ráðgjöf til bænda sem verið hefur á höndum búnaðarsambanda og ráðgjafasviðs Bændasamtakanna.  Það er hægast að lista það upp sem eftir verður hjá Búnaðarsambandinu. Fyrirtæki Búnaðarsambandsins.  Kynbótastöð Suðurlands, Sauðfjársæðingastöð Suðurlands, Tilraunabúið Stóra Ármóti og bændabókhaldsdeildin. Búnaðarsambandið leigir RML starfsaðstöðu og afnot af bílum.  Þá mun BSSL áfram sinna félagslegum störfum, umsýslu og úttektum jarða- og húsabóta, umsóknum um lögbýli og sjá um fleiri verkefni  sem m.a. lúta að lögum um búfjárhald, girðingalögum, vörnum vegna landbrots  ofl. Búnaðarsamböndin munu sjá um túnkortagerð, úttektir og eftirlit vegna umsókna m.a. í Framleiðnisjóð og Bjargráðasjóð. Þá urðu þær breytingar um áramót að Ólafur Þór tók við umsjón yfir bændabókhaldi í stað Skafta Bjarnasonar sem fór í 70 % starf um leið og hann tók við oddvitastöðu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Nýr formaður BÍ Sindri Sigurgeirsson

Búnaðarþing var núna rétt í þessu að kjósa nýjan formann BÍ Sigurgeir Sindra Sigurgeirsson bónda í Bakkakoti.  

Sindri hlaut 31 atkvæði en Guðbjörg Jónsdóttir bóndi á Læk fékk 13 atkvæði, tveir seðlar voru auðir og einn ógildur.  

Sala á mjólkurafurðum jókst í fyrra

Mjólkurframleiðslan árið 2012 var 125,1 milljónir lítra, en það er aukning um 630 þúsund lítra frá árinu 2011.  Mjólkurframleiðendur á Íslandi í árslok 2012 voru 668 og þeim hafði fækkað um þrettán á árinu.  Framleiðsla á hverju kúabúi 2012 var að meðaltali 187.265 lítrar og jókst um 4.036 lítra á árinu.




Hækkun á klaufskurði

Hækkun á klaufskurði
Á árinu 2012 var tap á rekstri klaufskurðarbásins sem nemur 600 þúsundum.  Á síðasta stjórnarfundi Búnaðarsambandsins var ákveðið að hækka gjaldskrá  fyrir klaufskurð frá og með 1. mars að telja. Timagjald verður kr 5000,- á mann og komugjald óháð vegalengdum 15.000,- kr. Þorsteinn Logi Einarsson og Birkir Þrastarson sjá um klaufsnyrtingu fyrir Kynbótastöð Suðurlands. Þeir bændur sem áhuga hafa á að láta snyrta klaufir kúa sinna hafi samband við Þorstein Loga í síma 867-4104 og eða í netfangið thorsteinn82@simnet.is.  Þá er líka hægt að panta klaufskurð á skrifstofu Búnaðarsambandsins. Rannsóknir á áhrifum klaufskurðar á afurðir og velferð kúa í nágrannalöndum okkar sýna ótvíræðan árangur. 

Búnaðarþing 2013 „Bændur segja allt gott“

Búnaðarþing 2013 var sett í gær á Hótel sögu.  Yfirskrift þingsins þetta árið er „Bændur segja allt gott“.  Búnaðarþing stendur til miðvikudags og er fjöldi mála yfir 30.  Setningarræðu hélt Haraldur Benediktsson og ávarp flutti Steingrímur J. Sigfússon, sem jafnframt veitti Landbúnaðarverðlaun 2013.  Verlaunin í ár fengu bændurir í Laxárdal II í Skeiða- og  Gnúpverjahrepp og handverkshópurinn Handverkskonur milli heiða.   

Samanburður á áburðarverði

Samanburð á áburðarverði þeirra fjögurra aðila sem hafa auglýst áburð til sölu handa bændum. Í töflunni er verð borið saman miðað við að bera 100 kg N á hektara. Greiðslukjör eru mismunandi en miðað er við greiðslu í maí og að pantað sé fyrir 15. mars. Er þetta birt með fyrirvara um villur og verðbreytingar.

Landsýn vísindaþing landbúnaðarins

LANDSÝN — vísindaþing landbúnaðarins
verður haldið í aðalbyggingu Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri föstudaginn 8. mars kl. 10:00-16:30.
Boðið verður upp á rútuferð frá Reykjavík til Hvanneyrar og til baka eftir þingið. Brottför frá BSÍ kl. 8 og Keldnaholti kl. 8:20, heimferð frá Hvanneyri í síðasta lagi klukkan 17:00.
LANDSÝN tekur við af Fræðaþingi landbúnaðarins og að ráðstefnunni standa Háskólinn á Hólum, Landbúnaðarháskóli Íslands, Landgræðsla ríkisins, Matvælarannsóknir Íslands (Matís), Skógrækt ríkisins og Veiðimálastofnun.
 

Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Framleiðnisjóður landbúnaðarins auglýsir eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum, en í Búnaðarlagasamningi 2013-2017 er starfsfé sjóðsins aukið stighækkandi út samningstímann.  Umsóknafrestur er til 4. apríl 2013 

Búnaðarþing hefst 3. mars 2013

Sunnudaginn 3. mars verður búnaðarþing sett í Súlnasal Hótels Sögu kl. 13:30. Þingið hefst samdægurs.
Frá sunnlenskum bændum koma fjölbreyttar tillögur og má þar nefna, breytt landnot, öryggismál í landbúnaði, orkukostnaður í dreifbýli, velferðarmál dýra og skólamál.  Önnur mál er varða fjármál bænda eru ráðgjöf við ábúendaskipti, endurreikningar lána og lánasamninga, biðlán, leiðréttingar verðtryggðra lána og langtímafjármögnun í landbúnaði.

Aðalfundur Nautgriparæktarfélags Austur-Skaftfellinga

Nautgriparæktarfélag Austur-Skaftfellinga boðar til aðalfundar í veitingasal á Brunnhól á Mýrum, miðvikudaginn 27. febrúar n.k. og hefst hann kl. 20.30.

Nautgripabændur og aðrir áhugasamir eru hvattir til þess að mæta.

Vegna heimasíðu BSSL

Heimasíða BSSL hefur ekki verið uppfærð frá mánaðamótum jan/feb. s.l. Ástæðan er sú að um áramót breyttist starfsemi og hlutverk Búnaðarsambandsins í kjölfar stofnunar Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML). Vefstjóri heimasíðunnar Guðmundur Jóhannesson fluttist yfir í í nýja fyrirtækið ásamt flestu starfsfólki Búnaðarsambandsins. Á stjórnarfundi BSSL þann 25. febrúar var ákveðið að halda áfram með heimasíðuna og aðlaga hana að breyttu hlutverki sambandsins.

Fimm kúabú verðlaunuð fyrir góðan rekstur

Á aðalfundi Félags kúabænda á Suðurlandi á Hellu á mánudaginn fengu fimm kúabú viðurkenningu frá Búnaðarsambandi Suðurlands og Auðhumlu fyrir frábæran rekstur og bústjórn á búum sínum. Til grundvallar voru lagðar rekstrartölur áranna 2010 og 2011 samkvæmt bústjórnarverkefninu SUNNA en það er verkefni sem rúmlega 60 sunnlensk kúabú taka þátt í  árlega og hefur verið samvinnuverkefni Búnaðarsambands Suðurlands og viðkomandi búa. 

Námskeið í jörð.is

Við vekjum athygli á námskeiði í jörð.is sem boðið verður upp á dagana 6.-8. febrúar n.k. á þremur stöðum hér á Suðurlandi. Námskeiðið er einkum ætlað bændum, en er þó öðrum opið. Hámark þátttakanda er 12. Námskeiðið verður kennt í kennslustofum með nettengingu. Nemendur mæta með sínar eigin fartölvur, þeir sem geta, aðrir fá lánaðar tölvur á staðnum.

Dalbær í Hrunamannahreppi afurðahæsta kúabú Suðurlands 2012

Eins og við sögðum frá í gær er ársuppgjöri skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir árið 2012 nú lokið. Að venju höfum við tekið saman lista yfir afurðahæstu búin og kýrnar á Suðurlandi. Eins og undanfarin ár er sá háttur hafður á að búunum er raðað eftir kg verðefna þar sem afurðir eftir árskú og efnainnihald innleggsmjólkur er lagt til grundvallar.
Afurðahæsta búið að þessu sinni er Dalbær í Hrunamannahreppi þar sem meðalafurðir ársins reyndust vera 565 kg MFP eftir árskú og 7.525 kg mjólkur. Í öðru sæti Kirkjulækur í Fljótshlíð með nánast sömu afurðir í verðefnum eða 564 kg MFP eftir árskú og 7.454 kg mjólkur. Þriðja sætinu hampar Reykjahlíð á Skeiðum með 560 kg MFP eftir árskú og 7.492 kg mjólkur. Fjórða sætið skipar svo afurðahæsta bú síðasta árs og handhafi Íslandsmetsins, Hraunkot í Landbroti með 558 kg MFP eftir árskú og mestar afurðir í kg mjólkur eða 7.577 kg. Eins og sjá má er í raun aðeins sjónarmunur milli þessara búa.

Afurðir jukust um 170 kg/árskú milli ára

Nú er lokið ársuppgjöri í skýrsluhaldi nautgriparæktarinnar fyrir árið 2012. Niðurstöður eru þær helstar að 22.879,0 árskýr mjólkuðu að meðaltali 5.606 kg á árinu og er það afurðaaukning um 170 kg/árskú frá árinu áður. Þetta eru jafnframt mestu meðalafurðir sem náðst hafa á einu almanaksári til þessa.
Hæsta meðalnytin á á árinu var á búi Guðmundar og Svanborgar í Miðdal í Kjós, 8.086 kg á árskú. Næst á eftir var bú Jóns og Hrefnu á Hóli í Sæmundarhlíð í Skagafirði, þar reiknaðist meðalnytin 8.058 kg eftir árskú. Þriðja búið í röðinni var bú Helga Bjarna Steinssonar á Syðri-Bægisá í Öxnadal en meðalnytin þar var 7.599 kg á árskú.

Frumbýlingastyrkir í sauðfjárrækt

Við vekjum athygli á því að auglýst hefur verið eftir umsóknum um frumbýlingastyrki í sauðfjárrækt fyrir árið 2013. Úmsóknarfrestur er til 1. mars 2013.
Samkvæmt samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar skal árlega verja fjármunum til nýliðunar í stétt sauðfjárbænda, í formi styrkja til bústofnskaupa, bæði til frumbýlinga og við ættliðaskipti á bújörðum. Fjármunirnir eru hluti af liðnum “Nýliðunar- og átaksverkefni” í samningnum og miðast við 43,75% af fjárhæð hans eins og hún er hverju sinni.

back to top