Þátttaka í sæðingum 2012

Á vef Landsambands kúabænda naut.is var Baldur Helgi Benjamínsson að taka sama upplýsingar frá Bændasamtökum Íslands og Matvælastofnun (MAST) um þátttöku í sæðingum 2012.
Þar kemur fram að samkvæmt upplýsingum úr skýrsluhaldskerfi Bændasamtaka Íslands voru framkvæmdar 44.357 sæðingar hér á landi árið 2012. Þar af var fjöldi 1. sæðinga 25.905. Úr gagnabanka MAST kemur fram að fjöldi mjólkurkúa árið 2012 var alls 25.661, fjöldi holdakúa var 1.639 og fjöldi kelfdra kvígna var 6.539. Heildarfjöldi kúa og kvígna var því 33.839.
 

Neðangreindar upplýsingar má einnig finna á naut.is

Eðlilegast er að meta þátttöku í sæðingum sem fjölda 1. sæðinga og deilda heildarfjölda kúa og kelfdra kvígna upp í þá tölu. Heildarfjöldi 1. sæðinga árið 2012 var 25.905 eins og áður segir, þannig að þátttaka í sæðingum á síðasta ári var 76,6%. Af þessu má draga þá ályktun að rúmlega 6.000 gripir, tæplega 20% kúa og kvígna, hafi fengið fyrsta sinni við heimanauti, sem er nokkuð hærra hlutfall en þekkist í nálægum löndum. Í Noregi er þátttaka í sæðingum 85%. Væri hlutfallið hér svipað og þar, væri annað hvort hægt að prófa 2-3 naut til viðbótar á hverju ári, eða stækka afkvæmahópana hjá nautum í afkvæmaprófun um 10-15%. Hvort tveggja myndi leiða til aukinna framfara í ræktunarstarfinu. Þetta er þekkt staðreynd sem hamrað hefur verið á svo árum skiptir, án árangurs. Af ætterni kúnna (70% undan sæðinganautum og 30% undan heimanautum) má svo ráða, að talsvert er um að kýr séu sæddar 1. sæðingu en haldi þær ekki við henni, er notað heimanaut í kjölfarið. Í töflunni hér að neðan má sjá þátttöku í sæðingum eftir héruðum, eins og hún var árið 2012.

 
Hérað Fj. sæð. Fj. 1. sæð. Fj. mj.kúa Fj. h.kúa Fj. kvíg. Þáttt. í sæð. Þáttt. án holdak.
Kjalarnes 503 302 318 194 114 48,2% 69,9%
Borg. og Snæf.nes 5.072 2.969 2.936 201 648 78,4% 82,8%
Dalasýsla 745 460 451 0 81 86,5% 86,5%
Vestfirðir 966 600 761 30 182 61,7% 63,6%
Strandir 82 68 60 0 8 100% 100%
V-Hún. 885 546 531 139 147 66,8% 80,5%
A-Hún. 1.456 1.016 902 46 191 89,2% 93,0%
Skagafj. 3.571 2.186 2.301 230 629 69,2% 74,6%
Eyjafj. 7.690 4.838 4.689 142 1.305 78,8% 80,7%
S-Þing. 2.753 1.499 1.522 87 426 73,7% 77,0%
Austurl. 1.801 1.000 1.093 18 273 72,3% 73,2%
A-Skaft. 692 414 461 11 84 74,5% 76,0%
V-Skaft. 1.610 847 964 82 166 69,9% 75,0%
Rang. 6.735 3.572 3.704 254 992 72,2% 76,1%
Árn. 9.796 5.588 4.968 205 1.293 86,4% 89,3%
Samtals 44.357 25.905 25.661 1.639 6.539 76,6% 80,5%
 
Í ljósi þess að holdanautabændur nota sæðingar lítið, enda erfðaefnið sem þeim stendur til boða orðið nærri því 20 ára gamalt og eftir því úrelt, er þátttakan einnig mæld að frátöldum holdakúnum og mælist hún þá um 80%. Líkur standa til að sæðingar holdakúa muni aukast talsvert frá því sem nú er, þegar búið verður að endurnýja erfðaefni holdanautastofnanna. Þá möguleika ber að skoða sérstaklega í ljósi þess að bændum í nágrannalöndunum býðst nú kyngreint sæði, bæði í mjólkur- og holdakýr, sem vafalítið mun hafa byltingarkennd áhrif á rekstrarumhverfi mjólkur- og kjötframleiðslunnar á komandi árum./BHB

back to top