Búnaðarþing hefst 3. mars 2013

Sunnudaginn 3. mars verður búnaðarþing sett í Súlnasal Hótels Sögu kl. 13:30. Þingið hefst samdægurs.
Frá sunnlenskum bændum koma fjölbreyttar tillögur og má þar nefna, breytt landnot, öryggismál í landbúnaði, orkukostnaður í dreifbýli, velferðarmál dýra og skólamál.  Önnur mál er varða fjármál bænda eru ráðgjöf við ábúendaskipti, endurreikningar lána og lánasamninga, biðlán, leiðréttingar verðtryggðra lána og langtímafjármögnun í landbúnaði.

Búnaðarþing hefst 3. mars
Sunnudaginn 3. mars verður búnaðarþing sett í Súlnasal Hótels Sögu kl. 13:30. Þingið hefst samdægurs en dagskrá þingsins verður kynnt þegar hún liggur fyrir.
Frá sunnlenskum bændum koma fjölbreyttar tillögur og má þar nefna, breytt landnot, öryggismál í landbúnaði, orkukostnaður í dreifbýli, velferðarmál dýra og skólamál.  Önnur mál er varða fjármál bænda eru ráðgjöf við ábúendaskipti, endurreikningar lána og lánasamninga, biðlán, leiðréttingar verðtryggðra lána og langtímafjármögnun í landbúnaði.
Fulltrúar sunnlenskra bænda eru 12 talsins, 7 kosnir á aðafundi BSSL og 5 fulltrúar frá búgreinafélögum.
Eftirtaldir fulltrúar koma eftir kosningu á aðalfundi BSSL;
Guðbjörg Jónsdóttir, Læk 
Ólafur Þ. Gunnarsson, Giljum 
Oddný Steina Valsdóttir, Butu 
Gunnar Kr. Eiríksson, Túnsbergi 
Guðrún Stefánsdóttir, Hlíðarendakoti
Stefán Geirsson, Gerðum 
Egill Sigurðsson Berustöðum í stað Þóris Jónssonar Selalæk
Fulltrúar sem koma eftir kosningu búgreinafélaga;
Sigurður Loftsson Steinsholti
Jóhann Nikulásson Stóru Hildisey
Fanney Ólöf Lárusdóttir Kirkjubæjarklaustri
Sveinn Sæland Espiflöt
Helena Hermundardóttir Friðheimum
Af málum sem koma frá sunnlenskum bændum má nefna.
Breytt landnot
Búnaðarþing 2013 ályktar að stórauka þurfi hagsmunagæslu bænda vegna breyttra landnota.
 
Greinargerð
Með ört vaxandi ferðaþjónustu og aukins áhuga almennings á útivist, hefur oft á tíðum skapast núningur milli hagsmuna bænda og fyrrgreindra aðila. Brýnt er að bændur standi fast á rétti sínum og njóti aðstoðar Bændasamtaka Íslands til þess. Þá er nauðsynlegt að Bændasamtök Íslands kynni bændum réttarstöðu sína sem landeigenda.
Öryggismál í landbúnaði
Markmið
Búnaðarþing 2013  samþykkir að móta stefnu um fræðslu og forvarnarstarf um slysavarnir, vinnuvernd og öryggismál bænda.
 
Leiðir
Bændasamtök Íslands leyti eftir samstarfi við búnaðarsambönd, búgreinasambönd, Vinnueftirlit ríkisins, tryggingafélög og eftir atvikum fleirri aðila um framgang verkefnisins.
 
Framgangur máls
Stjórn Bændasamtaka íslands er falið að vera samnefnari fyrir þessu verkefni.  Gerð skal grein fyrir framgangi verkefnisins á Búnaðarþingi 2014.
 
 
Orkukostnaður í dreifbýli
Búnaðarþing 2013 lýsir yfir þungum áhyggjum af þróun orkuverðs í dreifbýli og þeim ójöfnuði sem er á raforkuverði í dreifbýli annars vegar og í þéttbýli hins vegar.
Búnaðarþing 2013 ítrekar fyrri ályktanir um jöfnun raforkuverðs og dreifingu.
Velferðarmál dýra
Búnaðarþing 2013 lýsir áhyggjum yfir frumvarpi til laga um velferð dýra sem er til umsagnar á Alþingi þessa dagana. Í frumvarpinu kemur fram að taka eigi upp leyfi til þess að eiga búfénað. Það er alveg ljóst að öll leyfi kosta fjármuni og leggst Búnaðarþing gegn þessari gjaldtöku. Í frumvarpinu er kveðið á um skipan fimm manna fagráðs um velferð dýra, sem  í eiga sæti yfirdýralæknir er verður formaður fagráðs og fulltrúar skipaðir af Bændasamtökum Íslands, Dýralæknafélagi Íslands, Dýraverndarsambandi Íslands og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. 
Búnaðarþing mótmælir því hversu fáa menn Bændasamtökin eiga í fagráðinu.
Skólamál
Búnaðarþing 2013 lýsir áhyggjum á inntökuskilyrðum til háskólanáms í búfjárrækt á Hvanneyri. Búnaðarþing telur mikla afturför að búfræðinám hafi verið tekið út sem inntökuskilyrði til háskólanáms í búfjárrækt.
Ráðgjöf við ábúendaskipti
Búnaðarþing 2013 beinir því til nýrrar ráðgjafamiðstöðvar að efla ráðgjöf við ábúendaskipti á búum.
Markmið: Aðgengileg verði öflug ráðgjöf og fræðsluefni er varðar þætti sem skipta máli við ábúendaskipti, þar sem bent er á mismunandi lausnir.
Leiðir: Draga saman þekkingu ráðunauta og eftir atvikum lögfræðinga er varðar mismunandi fyrirkomulag við ábúendaskipti. Skilgreina þarf kosti og galla mismunandi rekstrarforma, leigusamninga og annarra samninga. Þá þarf að hafa í huga réttarstöðu aðila, meðferð skattstofna o.fl.
Greinargerð
Við ábúendaskipti á bújörðum þarf gjarnan að formfesta ýmsa þætti, hvort sem um er að ræða kaup og sölu, leigu, lán eða blandaða leið. Það er mikilvægt að vandað sé til þessa ferlis, þegar  ábúendaskipti eiga sér stað, og getur án efa skilið á milli þess hvort ferlið gangi upp eða ekki.
Endurreikningar lána og lánasamninga
Búnaðarþing 2013 skorar á fjármálafyrirtæki að hraða vinnu við endurreikninga á erlendum, ólöglegum lánum og lánasamningum  og lýsir yfir áhyggjum sínum yfir þeim tíma sem það hefur tekið hjá fjármálafyrirtæknum að leiðrétta þau.
  
Greinargerð
Allstór hluti bænda var með hluta skulda eða allar skuldir sínar bundnar erlendum myntum. Nokkur fjöldi dómsmála hefur fallið á þá leið að viðkomandi lánasamningar hafa verið dæmdir ólögmætir og  fjármögnunarfyrirtækjunum og viðskiptabönkum gert skylt að endurreikna viðkomandi  lán og lánasamninga.  Ekki er enn lokið endurreikningi nema hluta þeirra samninga. 
Biðlán
Búnaðarþing 2013 hvetur lánastofnanir til að ljúka sem fyrst samningum um biðlán þeirra bænda sem þurftu að takast á við sína stöðu á þann veg að hluti skulda þeirra var settur í bið þar sem fyrstu biðlánin gjaldfalla nú á vormánuðum
Greinargerð  
Mikilvægt er að afdrif viðkomandi biðlána verði skýrð sem fyrst og þá þann veg sem getið er um í skýrslu eftirlitsnefndar, sem starfar eftir lögum nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins. Í því áliti sem fram kom í skýrslu nefndarinnar til þáverandi  efnahags- og viðskiptaráðuneytis í september 2011 segir svo á bls  66: 
„Í ljósi takmarkaðra möguleika bænda til að bæta greiðslugetu sína í náinni framtíð, er það álit nefndarinnar að líklegt sé að stór hluti biðlána muni ekki innheimtast að öllu öðru óbreyttu. Vegna þessa ríkir óvissa um framtíð og meðferð þeirra. Komi til eignasölu skapast forsendur til að greiða rekstrarlánin upp, en án þess er vandséð með hvaða hætti biðlán verði greidd. Vegna þessarar óvissu telur nefndin að æskilegt væri að tekið væri á því með einhverjum hætti í samkomulagi milli banka og bænda hvað gert verði með biðlánið að þremur árum liðnum.“
Leiðréttingar verðtryggðra lána
Búnaðarþing 2013 skorar á Ríkistjórn Íslands beita sér fyrir því að mótaðar verði leiðir til leiðréttingar á verðtryggðum lánum með sanngirnisjónarmið að leiðarljósi, hvort sem það verður gert í gegnum skattkerfið eða með öðrum hætti. 
Búnaðarþing hvetur stjórn Bændasamtaka Íslands að beita sér af afefli í þessum málum og leita lausna í samstarfi við önnur hagsmunasamtök.
Langtímafjármögnun í landbúnaði
Búnaðarþing 2013 hvetur stjórn Bændasamtaka Íslands að kanna viðhorf Lífeyrissjóðs bænda til þess að hann komi að  langtímafjármögnun í landbúnaði. 
Greinargerð
Eðli hefðbundinnar framleiðslu innan landbúnaðarins er, að greinin er mjög fjármagnsfrek með tilliti til veltu á hverjum tíma.  Mikilvægt er að eðlileg endurnýjun geti átt sér stað innan landbúnaðarins og að ungt fólk fáist til starfa innan greinarinnar.  Einn liður í því er að skoða fjölbreyttari möguleika til stofnfjármögnunar. Síðustu misseri hefur  verið erfitt  fyrir lífeyrissjóðina að finna nægilega fjölbreytta ávöxtunarmöguleika.   Eðlilegt er að fram fari skoðun á þessum möguleika í ljósi þessara þátta.

back to top