Við áramót

Veðurfar var óvenjulegt á síðasta ári.  Miklir þurrkar framan af sumri og dró úr sprettu, einkum á sandatúnum.  Nýting heyja var góð enda veðrátta til heyskapar einmuna góð.  Margir luku fyrsta slætti um mánaðarmótin júní-júlí.  Um miðjan ágúst fór að rigna með fáum uppstyttum fram að jólum. Uppskerustörf haustsins voru erfið vegna bleytu og dæmi um að ekki næðist að uppskera korn og garðávexti.  Hálmur sem víða er notaður sem undirburður er ýmist enn úti á akrinum eða illa þurr í rúllum.

Búist er við að Hekla geti gosið þá og þegar

Hekla er komin að því að gjósa og reiknað er með að Grímsvötn geti gosið innan fárra ára. Tvö ár eru nefnd í því sambandi. Lítið er vitað um hversu nálægt gosi Katla er og er fylgst vel með henni þar sem hún er langhættulegasta eldstöð landsins.

Guðni vill kasta krónunni

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, tekur undir með Björgólfi Thór Bjórgólfssyni athafnamanni og vill leggja niður krónuna. Þetta kom fram í viðtali við Guðna á Útvarpi Sögu.

Flóð í Hvítá í rénun

Á bænum Auðsholti vöknuðu íbúar við það í gærmorgun að bærinn var umlukinn vatni. Krakkarnir á bænum komust því ekki á litlu-jólin, þeim til mikillar armæðu, og pósturinn sneri fljótt við þegar hann sá í hvað stefndi enda aðeins var hægt að komast að bænum á mjög stórum bílum eða dráttarvélum. Talið er að vatnavextirnir hafi náð hámarki síðdegis í gær og þrátt fyrir að spáð sé rigningu í dag muni vatnshæðin minnka.

Vatnavextir í Hvítá

Lögreglan á Selfossi varar bændur og þá sem eiga hagsmuna að gæta að vatnavöxtum í Hvítá. Fylgst er gaumgæfilega með vatnavöxtum í ánni í dag. „Þetta er ekki orðið að almannavarnaástandi enn sem komið er,“ sagði Svanur Kristinsson varðstjóri á Selfossi í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

Ísland fær áminningu frá EFTA

Eftirlitsstofnun EFTA hefur ákveðið að senda íslenskum yfirvöldum rökstudda áminningu vegna laga um bætiefni í dýrafóðri. Bætiefni í dýrafóðri mega samkvæmt reglugerðum EFTA ekki fara á markað án leyfis að afstaðinni vísindalegri rannsókn sem staðfesti að bætiefnin hafi ekki skaðleg áhrif á heilsu dýra og manna eða umhverfið.

Fimmtan hross drápust vegna hræeitrunar

Fimmtán hross hafa drepist á bænum Geirlandi við Kirkjubæjarklaustur vegna bráðrar hræeitrunar á síðastliðnum dögum. Fram kemur á fréttavef Eiðfaxa, að fyrstu hrossin byrjuðu að veikjast á fimmtudagsmorgun í síðastliðinni viku og frá þeim tíma hafa hross drepist eitt af öðru.

Ráðherra færðar góðar bækur

Einari K. Guðfinnssyni, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra hafa verið færðar góðar gjafir á síðustu dögum. Í dag var honum færð bókin „Sáðmenn sandanna“, saga landgræðslustarfs á Íslandi sem tekin er saman af Friðriki G. Olgeirssyni sagnfræðingi. Bókin er gefin út af Landgræðslunni í tilefni þess að eitthundrað ár eru liðin frá upphafi skipulegs landgræðslustarfs hér á landi en engin þjóð virðist hafa starfað lengur samfellt að landgræðslu og stöðvun jarðvegseyðingar en við Íslendingar.

Efling íslenska geitfjárstofnsins

Þingmenn úr öllum flokkum hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um eflingu íslenska geitfjárstofnsins þar sem landbúnaðarráðherra verði falið beita sér fyrir eflingu íslenska geitfjárstofnsins. Í því skyni verði bændur sem vilja vinna geitfjárafurðir til sölu og þeir sem halda geitfé sérstaklega aðstoðaðir. Einnig verði kannað hvernig fjölga megi stöðum á landinu þar sem geitfjárrækt fer fram og hafnar verði erfðarannsóknir á stofninum og nýtt til þess þekking sérfræðinga í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og á tilraunastöðinni á Keldum.

Umhverfisvænar og rykfríar pappaflögur í undirburð

Hjónin Ólafur Sigurjónsson og Lilja Guðbjartsdóttir stofnuðu nýverið fyrirtækið Flögur ehf. þar sem þau framleiða pappaflögur sem koma í stað hins hefðbundna spóns. Pappaflögurnar eru hugsaðar sem undirburður fyrir hesta og hænur á kjúklingabúum og hafa marga kosti umfram spón.

Örmerki gerð að skyldu?

Evrópusambandið hefur frestað því að skylt verði að merkja allt sauðfé og geitfé með rafrænu örmerki. Samkvæmt núgildandi reglugerð stóð til að örmerkin yrðu almenn skylda frá og með 1. janúar næstkomandi en nú er ljóst að það dregst um minnsta kosti ár.

Afnám verðtryggingar algerlega ótímabært

Við núverandi aðstæður er enn síður vænlegt en áður að huga að afnámi verðtryggingar fjárskuldbindinga vegna þess mikla óróa sem er á fjármálamörkuðum bæði á Íslandi og erlendis. Þetta er álit Gylfa Magnússonar, dósents við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands.

Nautgriparæktarráðunautar á námskeiði

Síðustu tvo daga hafa margir af nautgriparæktarráðunautum landsins setið námskeið í fóðuráætlanagerð fyrir mjólkurkýr, samkvæmt nýja fóðurmatskerfinu NorFór. Aðalkennari á námskeiðinu er norski fóðurfræðinguinn Harald Volden. Námskeiðinu lýkur í dag, miðvikudag.

Nautið frá Brasilíu

Meira en helmingur af því nautakjöti sem flutt er til Færeyja kemur frá Brasilíu, en innflutningur á evrópsku nautakjöti er í sögulegu lágmarki. Þetta er viðsnúningur frá því sem var fyrir nokkrum árum, að sögn Hagstofu Færeyja.

Brunavarnir í ólagi til sveita

Brunavarnir í sveitum eru víða í miklum ólestri. Einkum á þetta við um gripahús og önnur útihús. Þetta er álit mjög margra sem vinna að málaflokknum. Ástæður þess eru einkum þær að fram til þessa hafa ekki verið til skynjarar og viðvörunarkerfi sem hafa dugað við aðstæður sem einkenna gripahús, þar sem mikill raki og ryk er oft viðvarandi. Sömuleiðis er víða pottur brotinn þegar kemur að eldvarnahólfum, einkum í eldri byggingum. Brunavarnamálum hefur almennt lítið verið hreyft í landbúnaði í áranna rás en alvarlegir eldsvoðar síðustu misseri hafa þó hreyft við fólki.

Landbúnaðarráðherra fagnar stækkun íslenskra búa

Í fyrirspurnatíma á Alþingi í gær beindi Jón Björn Hákonarson, varaþingm. Framsóknarflokksins í NA-kjördæmi, fyrirspurn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um afstöðu hans til þeirrar þróunar sem er við það að hefjast í landbúnaði, þ.e. verksmiðjubú í mjólkurframleiðslu.

Einn maður á hlut í 33 lögbýlum hér á landi

Einn maður á hlut í 33 lögbýlum hér á landi samkvæmt því sem Einar K. Guðfinnsson landbúnaðarráðherra greindi frá á Alþingi í dag. Þar var hann að svara fyrirspurn Birkis Jóns Jónssonar, þingmanns Framsóknarflokksins.

Fyrirheitasöfnun meðal bænda

Í stórbrunanum í Stærra-Árskógi fórust allar mjólkurkýrnar 60 talsins ásamt kvígum, kálfum og fjölda geldneyta. Aðeins 34 kvígur komust undan eldinum. Nú hefur verið efnt til fyrirheita-söfnunar meðal bænda á svæðinu. Öllum mjólkurframleiðendum á samlagssvæðinu var sent bréf fyrir helgina og óskað eftir að þeir sem hefðu tök á, létu af hendi mjólkandi kýr, kelfdar kvígur eða kvígukálfa. Ekki er ætlast til þess að gripirnir fáist endurgjaldslaust en mikilvægt er að gripir séu til staðar um leið og framleiðsla getur hafist á nýjan leik. Vonast er til að fyrirheit fáist um 50-60 mjólkandi kýr, ásamt vænum hópi kelfdra kvígna og hóp yngri kálfa.

Sumir bændur ósáttir við að þurfa að setja kýrnar í haga

Bændur eru sumir ósáttir við að neyðast til að setja kýr sínar á beit út í haga. Bændasamtökin eru hins vegar einbeitt í að halda þeirri reglu til streitu að beljur fái að viðra sig úti – þótt víða í Evrópu séu bændur jafnvel hættir útibeit.

Bújörðum í framleiðslu fækkar

Jörðum þar sem stunduð er búfjárframleiðsla fækkaði um 57 eða 7,2% á Suðurlandi á sex ára tímabili. Á sama tíma fjölgaði lögbýlum í ábúð um 4,1% eða 49 talsins.
Bændasamtök Íslands samþykktu í fyrra að láta kanna og greina þróun á eignarhaldi á bújörðum og meta áhrif hennar á búsetu og byggðaþróun. Niðurstaðan liggur nú fyrir. Skýrsluhöfundar segja að ljósin á bæjum til sveita virðist fjarri því að slokkna jafnhratt nú og var á milli áranna 1980 og 2000.

back to top