Skortur á erlendri samkeppni í fóðri

„Mér finnst nú, þegar þessar gífurlegu hækkanir verða á fóðrinu, að ekki sé lengur forsvaranlegt að ráðamenn verji áfram fákeppni og trufli heilbrigða samkeppni á þessum markaði,“ segir Guðbjörg Jónsdóttir bóndi.
Hún rekur kúabú á Læk í Flóa ásamt manni sínum, Gauta Gunnarssyni. Þau hjónin hafa á milli 40 og 50 kýr í fjósi og 215 þúsund lítra greiðslumark.

Tvö fyrirtæki starfa á fóðurmarkaði hérlendis, Fóðurblandan og Lífland. „Þetta tel ég vera fákeppni. Það sem hamlað hefur innflutningi á tilbúnu fóðri er 3,6 prósenta tollur sem kúabændur hafa ítrekað farið fram á að verði aflagður til að styrkja samkeppni.“ Einnig hafi kaup Mjólkursamsölunnar á Fóðurblöndunni farið fyrir brjóstið á mörgum. „Mér finnst ekki forsvaranlegt að ríkjandi afurðastöð í mjólkuriðnaði sé að setja sig í slæma stöðu gagnvart bændum, með þátttöku á fóðurmarkaði.“


Guðbjörg segir að verð á kjarnfóðri hafi hækkað um fjórðung undanfarið ár og um sautján prósent umfram vísitölu neysluverðs á sama tíma. Verð á mjólk til bænda hafi í raun lækkað á sama tímabili um 0,6 prósent miðað við vísitöluna. „Það er því ljóst að hækkun á verði mjólkur til bænda heldur engan veginn í við verðþróun á aðföngum og það að flestar ef ekki allar kostnaðarleiðréttingar í þessum rekstri koma talsvert eftir á. Hækkun á kjarnfóðri til bænda á síðustu misserum hefur haft gríðar­leg áhrif á rekstur búsins og höfum við gripið til þess ráðs að kúvenda okkar rekstrar­plönum á síðari hluta ársins 2007 og dregið verulega úr notkun kjarnfóðurs.“


Það verði þó að fara varlega í því að draga úr kjarnfóðurgjöf því kýrnar séu viðkvæmar, einkum í kringum burð.
Guðbjörg segir að í hittifyrra hafi þau hjónin keypt um 50 tonn af kjarnfóðri, en fóðurkostnaðurinn sé langstærsti einstaki kostnaðarliður búsins. Verðhækkunin nú skili sér í um hálfrar milljónar króna auknum rekstrarútgjöldum á ári og fari fast að 2,2 milljónum króna. „Annar þáttur sem hefur áhrif á þessa ákvörðun er að það hefur verið gefið út af forsvarsmönnum mjólkuriðnaðarins að aðeins verði greiddar 27 krónur á lítrann af umframmjólk, en í hitti­fyrra nam breytilegur kostnaður 34 krónum á lítrann. Við fengjum sem sagt minna en ekki neitt.“


Guðbjörg bendir á að fleira hækki í verði en fóður. „Það hefur verið gefið út að áburður muni hækka um að minnsta kosti 40 prósent. Einnig er það staðreynd að olía, rafmagn, aðkeypt þjónusta, vextir og verðbætur hafa hækkað. Mín tilfinning er að mjólkurframleiðslan yfir heildina hefur verið rekin með tapi síðari hluta ársins 2007 og róðurinn virðist þyngjast í rekstri.“


Þessi staða kalli á enn frekari hagræðingu í rekstri búa. Þá sé knýjandi að breyta verðlagningu búvara. „Til framtíðar kallar þetta á fleiri þætti eins og afkastameira kúakyn. Ég vona að í framtíðinni takist okkur að fullnægja þörfum íslenskra neytenda með hollum og góðum mjólkurvörum á sanngjörnu verði.“


back to top