Hlakkar til að finna fjósalyktina

Byrjað var að reisa nýtt fjós á bænum Stærri-Árskógi í Dalvíkurbyggð við utanverðan Eyjafjörð í gær, en útihúsin þar gjöreyðilögðust í eldsvoða í nóvember. Guðmundur Geir Jónsson bóndi var að störfum við fimmta mann þegar Morgunblaðið kom í heimsókn skömmu fyrir hádegi. Gámar með stálbitum og öðru efni í eitt stykki fjós voru komnir í hlað og von á fleirum.

„Ef veðrið verður gott klárum við að reisa húsið og komum því undir þak á sex til átta dögum,“ sagði Guðmundur Geir við blaðamann. Að því loknu verður sjálfvirkum mjólkurþjóni (róbóta) komið fyrir í nýja húsinu og Guðmundur bóndi stefnir að því að taka fjósið í gagnið einhvern tíma í febrúar. „Því fyrr, því betra.“

Í fyrsta áfanga reisa þeir Guðmundur þetta nýja fjós en mjólkurhúsið verður í gámi við hliðina og er raunar nær tilbúið nú þegar. Þar verður stjórntölvan og skrifstofuaðstaða bóndans. Verið er að hanna nýtt mjólkurhús en það verður byggt seinna, sem og pláss fyrir geldneyti, á gömlu sökklunum við hlið nýbyggingarinnar.

Bróðurparturinn af bústofni Guðmundar Geirs og Freydísar Ingu Bóasdóttur, sem var rúmlega 200 nautgripir, drapst í brunanum, en þau búast við því að byrja með fullt fjós á ný þegar þar að kemur. Nokkrir gripanna komust út úr brennandi húsinu á sínum tíma „og menn eru búnir að vera ótrúlega magnaðir að safna fyrir mig gripum“, sagði Guðmundur í gær. Enda segir hann mikilvægt að fjósið verði fullt strax frá byrjun og fullum afköstum náð sem fyrst.
 
„Þetta hefur verið botnlaus vinna,“ svarar Guðmundur þegar spurt er um tímann sem liðinn er frá brunanum. „Öðruvísi vinna en ég er vanur og ekki eins skemmtileg; hálfgerð skrifstofuvinna því ég hef setið heilu dagana við símann. Ég vil frekar vera úti í svona vinnu eins og í dag en það verður að sinna hinu líka og gera það vel.“
 
Guðmundur ber öllum, sem hann hefur þurft að hafa samskipti við frá brunanum, vel söguna. „Það er alveg sama hvað ég hef þurft að gera, tala við tryggingamenn eða þá hjá Landstólpa, sem ég kaupi húsið af, eða einhverja aðra; allir hafa tekið mér vel og ég er mjög sáttur.

Hann segist hafa fundið fyrir ótrúlegum stuðningi, frá fólki alls staðar að af landinu. „Margir hafa hringt og stappað í okkur stálinu og svo var líka stofnaður reikningur til þess að safna peningum handa okkur og það á eftir að hjálpa okkur mikið,“ segir Guðmundur, en bætir svo við: „Þetta verður ekkert auðvelt, en það verður að halda áfram. Þetta er það sem maður kann.“ Guðmundur segir að það taki væntanlega um það bil mánuð að venja kýrnar við mjólkurþjóninn þannig að allt komist í fullan gang á nýjan leik. „Ég gef mér allan þann tíma sem þær þurfa til þess að ég fái sem mestan arð út úr þessu í framhaldinu,“ segir hann.

Og Guðmundur játar því að hann sé farinn að hlakka til að hefjast handa við bústörfin á ný: „Já, það er tilhlökkun að finna almennilega fjósalykt aftur í staðinn fyrir bölvaða sótlyktina sem maður hefur verið með í nefinu.“

Hann vill að kúm sínum líði vel í fjósinu og segir kýr hafa það mjög gott nú til dags. „Mannskepnan tók kúna inn sem húsdýr á sínum tíma og þær urðu að sætta við ýmsar aðstæður en í dag er aðstaðan mjög góð. Hallinn á básunum er fundinn með því að mæla hallann þar sem kýrnar liggja úti í náttúrunni; það má segja að við flytjum náttúruna inn í fjós fyrir þær.“

Freydís Inga Bóasdóttir er unnusta Guðmundar Geirs. Þau búa í Stærri-Árskógi og eiga eina dóttur, sem verður ársgömul eftir fáeina daga. Húsmóðurinni finnst, eins og manni sínum, ótrúlegt hve allir hafa verið hjálplegir eftir brunann. „Maður veit ekki hve mikill samhugurinn er fyrr en maður lendir í svona sjálfur. Karlarnir í sveitinni flykktust hingað til þess að hjálpa okkur að hreinsa til, allir klöppuðu manni á bakið og hughreystu okkur og konurnar stóðu heima og bökuðu og færðu okkur kökur og brauð,“ sagði Freydís Inga við Morgunblaðið þar sem hún stóð yfir pottunum í eldhúsinu í gær ásamt Kristínu systur Guðmundar.

Kristín kom í fjósið, síðust allra, síðdegis daginn örlagaríka, laugardaginn 17. nóvember síðastliðinn. Ekki nema klukkutíma áður en eldsins varð vart, kannski ekki nema hálftíma áður. Þær gera sér ekk alveg grein fyrir því. „Ég fékk fyrst bakþanka vegna þess að ég hefði ekki orðið vör við neitt. Það er oft sagt að dýr finni svona á sér, en það var ótrúlega mikil kyrrð og ró í fjósinu. Ég gantaðist meira að segja með það við kálfana að þeir væru svo merkilegir með sig að standa ekki upp þegar ég kom; að þeir vildu ekki þekkja mig nema þegar ég væri í drullugallanum!“

Hún veit því að gripunum leið vel. Og nytin hafði verið mjög mikil: Þau höfðu aldrei séð aðrar eins tölur. Sólarhringinn áður en brann höfðu verið mjólkaðir 1.300 lítrar. „Þá höfðu 17 kýr mjólkað yfir 30 lítra þann daginn, þar af sjö yfir 40 lítra og ein yfir 50 lítra. Það verður bið á því að við sjáum aðrar eins tölur,“ sagði Kristín í gær.
 
En það var glatt á hjalla í eldhúsinu í gær. Kristín og Freydís Inga vita að þeirra býður ærið verkefni að fæða alla þá sem verða við vinnu á bænum á næstunni. Heit máltíð í hádeginu og önnur á kvöldin og kaffi um miðjan daginn. Karlarnir koma inn á matmálstímum en þær færa þeim veitingar í kaffitímanum. „Þá þurfa þeir ekki að eyða tíma í að fara úr vinnugöllunum. Það er eins gott að nýta tímann vel. Og spáin er góð næstu daga; við treystum á að nágranninn í næsta húsi útvegi gott veður,“ sagði Kristín og leit út um eldhúsgluggann – á kirkjuna norðan við bæinn.

Morgunblaðið 9. janúar 2008, bls. 17. / Skapti Hallgrímsson


back to top