Fimmtan hross drápust vegna hræeitrunar

Fimmtán hross hafa drepist á bænum Geirlandi við Kirkjubæjarklaustur vegna bráðrar hræeitrunar á síðastliðnum dögum. Fram kemur á fréttavef Eiðfaxa, að fyrstu hrossin byrjuðu að veikjast á fimmtudagsmorgun í síðastliðinni viku og frá þeim tíma hafa hross drepist eitt af öðru.

Haft er eftir  Gísla Kjartanssyni og Erlu Ívarsdóttur, eigendum hrossanna, að allt verið gert til þess að reyna að bjarga þeim. 


Hrossin sem drápust voru bæði á útigangi og inn í hesthúsi  og því kom eitrunin ekki úr sömu heyrúllu. Þó koma rúllurnar af sama túni, sem er tveggja ára nýrækt.  Að sögn Erlu leit heyið vel út og telur hún að þarna gæti hafa verið um músahreiður að ræða sem dreifst hafi um túnið. Þó sé ekkert hægt að fullyrða um slíkt, enda gæti þetta komið beint úr jarðveginum.


Ekki er unnt að segja til um hvort að þeim hrossum sem eftir lifa á Geirlandi sé borgið því að ferlið getur tekið allt að hálfan mánuð. Gunnar Þorkelsson héraðsdýralæknir, segir við Eiðfaxa að hann vonist til þess að hættan sé liðin hjá.


Sambærileg eitrun hefur komið upp á 6 bæjum á svæðinu á síðastliðnum 14 árum en er mjög sjaldgæf annars staðar.


back to top