Hátíðarkvöldverður BSSL

Búnaðarsamband Suðurlands hélt árlegan formannafund sinn síðastliðinn föstudag, 18. janúar 2008, þar sem saman komu formenn allra búnaðar- og búgreinafélaga á starfssvæði Búnaðarsambandsins. Fundurinn endaði með hátíðarkvöldverði í tilefni þess að Búnaðarsambandið fagnar 100 ára afmæli sínu á þessu ári. Fundurinn, sem og hátíðarkvöldverðurinn voru hvoru tveggja á Hótel Selfossi.
Meðal dagskráratriða yfir kvöldverðinum var söngur Karlakórs Selfoss, kjör nýrra heiðursfélaga og Páll Lýðsson flutti erindi um Guðmund Þorbjarnarson frá Stóra-Hofi sem var formaður Búnaðarsambands Suðurlands í 33 ár, frá árunum 1916 – 1949. Þá var og sýnd kvikmynd frá Landbúnaðarsýningunni á Selfossi 1978 sem haldin var í tilefni af 70 ára afmæli Búnaðarsambandsins.

Fordrykkur var í boði fjármálaráðherra og fyrsta þingmanns Suðurkjördæmis en Guðni Ágústsson alþingismaður og fyrrverandi landbúnaðarráðherra var veislustjóri.

Hátíðarkvöldverðurinn heppnaðist afar vel.


back to top