Búist er við að Hekla geti gosið þá og þegar

Hekla er komin að því að gjósa og reiknað er með að Grímsvötn geti gosið innan fárra ára. Tvö ár eru nefnd í því sambandi. Lítið er vitað um hversu nálægt gosi Katla er og er fylgst vel með henni þar sem hún er langhættulegasta eldstöð landsins.

„Við fylgjumst með jarðhræringum á öllu landinu og aðstæður hér eru orðnar nokkuð góðar til að fylgjast með umbrotum í jarðskorpunni,“ segir Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.


„Fylgst er með eldstöðvunum og eldvirku svæðunum sérstaklega. Þar er nú helst fylgst með megineldstöðvunum því langflest eldgosin verða þar. Þrjár eldstöðvar eru langvirkastar og þær eru allar með einhverju lífi núna; Hekla, Katla og Grímsvötn. Þær eru allar að undirbúa eitthvað.“


Nú eru gerðar mælingar á jarðskorpuhreyfingum í kringum eldstöðvarnar þrjár og unnt er að sjá í hvaða ástandi þær eru, sem Páll segir miklu meira að marka heldur en einhverjar tímasetningar.


Sjá má að Hekla hefur verið að undirbúa gos síðan í síðasta gosi. Hún létti af sér þrýstingnum í gosinu árið 2000 en byrjaði strax að safna í nýtt. Mælingar sýna að þar er þrýstingurinn nú orðinn meiri en hann var fyrir síðasta gos og er Hekla því tilbúin.


back to top