Jóhannes Hr. Símonarson framkvæmdastjóri

Jóhannes Hr. Símonarson, ráðunautur BSSL hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Landbúnaðarsýningarinnar á Hellu sem haldin verður dagana 22.-24. ágúst í sumar. Sýningin er stærsti viðburður afmælisfagnaðar Búnaðarsambands Suðurlands sem er 100 ára á árinu.

Að sögn Jóhannesar er þetta spennandi verkefni þar sem ætlunin er að sameina góða fagsýningu fyrir bændur og afar öfluga neytendasýningu.  Á sýningunni mun landbúnaðurinn sýna allt það sem hann hefur upp á að bjóða í víðustu skilgreiningu orðsins. Allir landsmenn ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á þessari sýningu.

Undirbúningur er kominn ágætlega af stað þó enn sé mikið verk óunnið. Jóhannes segir að samningur um leigu á svæðinu á Gaddstaðaflötum sé á lokastigum en svæðið henti vel til sýningarhalds af þessu tagi. Þá verður risin stórglæsileg reiðhöll fyrir Landsmót hestamanna sem haldið verður á svæðinu um mánaðarmótin júní/júlí en sú aðstaða mun nýtast Landbúnaðarsýningunni afar vel.

Formaður sýningarstjórnar er Kjartan Ólafsson alþingismaður en hann var einmitt framkvæmdastjóri Landbúnaðarsýningarinnar á Selfossi 1978 sem haldin var í tilefni af 70 ára afmæli Búnaðarsambands Suðurlands. Með honum í sýningarstjórn er Sigurbjartur Pálsson, stjórnarmaður í Bændasamtökum Íslands og Sigurður Loftsson, formaður Félags kúabænda á Suðurlandi. Sýningarstjórn og framkvæmdastjóra til fulltingis og ráðgjafar er sýningarráð þar sem fulltrúar stærstu búgreinanna eiga sína fulltrúa.


back to top