Flóð í Hvítá í rénun

Á bænum Auðsholti vöknuðu íbúar við það í gærmorgun að bærinn var umlukinn vatni. Krakkarnir á bænum komust því ekki á litlu-jólin, þeim til mikillar armæðu, og pósturinn sneri fljótt við þegar hann sá í hvað stefndi enda aðeins var hægt að komast að bænum á mjög stórum bílum eða dráttarvélum. Talið er að vatnavextirnir hafi náð hámarki síðdegis í gær og þrátt fyrir að spáð sé rigningu í dag muni vatnshæðin minnka.

Steinar Halldórsson íbúi á Auðsholti sagði það ótrúlega tilviljun að fyrir nákvæmlega ári, eða að kvöldi 19. desember, flæddi einnig. Það flóð var hins vegar töluvert meira og náð rúmlega þremur metrum þar sem dýpst mældist. Í gær mældist vatnið einn og hálfur metri yfir veginum.


Að sögn lögreglunnar á Selfossi í gærkvöldi var talið að vatnavextirnir hefðu náð hámarki og myndu ekki valda frekari usla. Enginn viðbúnaður var því vegna flóða.

Fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins í morgun að flóðið í Hvítá væri í rénun en enn væri að vaxa í Ölfusá og væri flóðið nú svipað og 2004. Það vantar hins vegar mikið á að renssli Ölfusár sé eins og það varð mest í flóðunum í fyrra.


back to top