Hyggst afnema fóðurtoll

„Við erum að skoða að afnema kjarnfóðurtollinn. Það er mikill áhugi fyrir þessu í landbúnaðinum,“ segir Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Einar segir að verð á áburði, kjarnfóðri og fleiru hafi hækkað hratt, því sé tollurinn í endurskoðun. „Þetta skýrist í mars í síðasta lagi, hvað verður.“ Tvö fyrirtæki framleiða kjarnfóður hér á landi, í heild um níutíu þúsund tonn á ári, en innflutningur er hverfandi.

Guðbjörg Jónsdóttir kúabóndi gagnrýndi í seinasta Markaði að lítil samkeppni væri á fóðurmarkaði, þar sem lítið væri um innflutning. 55 prósenta tollur er á innfluttum fóðurblöndum. Tollurinn er svo endurgreiddur, að frátöldum þremur krónum og níutíu aurum á kíló. Þetta fyrirkomulag hefur verið gagnrýnt.
 
„Þetta eru bara bullandi viðskiptahindranir,“ segir Arnar Bjarni Eiríksson, bóndi og framkvæmdastjóri Landstólpa, sem flytur inn fóður. Ekki sé tollur á hráefni til fóðurgerðar. Þá fullyrðir hann að leggja þurfi út fyrir tollinum, stundum hundruð þúsunda, en endurgreiðslur frá landbúnaðarráðuneytinu séu lengi á leiðinni.

„Menn hafa þrjá mánuði til að ganga frá greiðslunni og þegar það er komið, þá er þetta bara kredit,“ segir Ólafur Friðriksson, skrifstofustjóri í landbúnaðarráðuneytinu, sem bætir því við til skýringar að menn þurfi ekki að leggja út fyrir tollinum heldur aðeins nettóupphæðinni. Þá sé óvenjulegt að greiðslur frá ráðuneytinu tefjist, það hljóti að skýrast af því að menn hafi ekki sótt um niðurfellingu á tollinum strax.

„Þetta er bara ekki rétt. Ég hef stundum þurft að bíða mánuðum saman,“ segir Arnar Bjarni, sem fagnar því að tollurinn heyri vonandi brátt sögunni til.

Markaðurinn, 16. janúar 2008


back to top