Lausir hestar skapa mikla hættu

Mikið er um að tilkynnt sé um lausa hesta við þjóðveginn í umdæmi Hvolsvallarlögreglunnar og skapar þetta mikla hættu. Hafa orðið slys af þessum sökum undanfarið, að því er varðstjóri greinir frá.

Höfum innleitt nær alla landbúnaðarstefnu ESB nema styrkjakerfið

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, vakti athygli á því að Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefði í síðustu viku mælt fyrir frumvarpi sem meðal annars gerir ráð fyrir frjálsum innflutningi á hráu kjöti frá ríkjum ESB. Benti hún á að með þessu hefðu Íslendingar innleitt alla löggjöf ESB í landbúnaðarmálum nema styrkjakerfið.

Páll Lýðsson látinn

Páll Lýðsson sagnfræðingur og bóndi lést af slysförum í gærmorgun á 72. aldursári. Hann var fæddur í Litlu-Sandvík 7. október 1936, sonur hjónanna Lýðs Guðmundssonar bónda þar og konu hans, Aldísar Pálsdóttur.
Páll lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni árið 1956 og BA-prófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1959. Hann var bóndi á föðurleifð sinni, Litlu-Sandvík, en þar hefur föðurætt hans búið frá 1793.

Dýrt og flókið og veldur áhyggjum af heilnæmi

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, segir að með væntanlegum breytingum á matvælalöggjöfinni, innleiðingu gerðar ESB, sem heimilar innflutning á hráu kjöti, sé verið að leika sér að eldinum. „Það er mjög gott heilbrigðisástand hér á landi svo sem í kjúklinga-, svína- og nautgriparæktinni en varnirnar verða veikari til að verjast því að hingað berist vörur sem eru ekki jafn heilnæmar og við framleiðum hér á landi,“ segir Haraldur.

Bændur búa sig undir frelsi í innflutningi

Með frumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um breytingar á matvælalöggjöfinni verður innleidd matvælalöggjöf Evrópusambandsins. Eins og fram hefur komið verður þá m.a. heimill innflutningur á hráu kjöti. Ísland verður hluti af innri markaði ESB hvað matvæli varðar og settar verða upp landamærastöðvar vegna kjöt- og mjólkurvara eins og gert hefur verið með fisk. Þessar breytingar hafa engin áhrif á fyrirkomulag tolla á innfluttar landbúnaðarvörur. Íslensk yfirvöld hafa frest til 27. október 2009 til þess að innleiða þær ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem gilda um búfjárafurðir, kjöt, mjólk og egg.

Gömul landbúnaðarverkfæri á nýjum frímerkjum

Þann 27. mars sl. komu út frímerki sem minna á tæknisögu sveitanna: Þau sýna Ólafsdalsplóg, Þúfnabanann, Jarðýtu IHC TD6 og gráan Ferguson með vagnsláttuvél. Frímerkin hannaði Hlynur Óskarsson en Landbúnaðarsafn veitti nokkur ráð við gerð þeirra. Sjá má allar tegundirnar fjórar með því að smella hér eða á síðunni www.postur.is

Vill ekki óheftan innflutning

Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segist ekki styðja það að innflutningur á svínakjöti og kjúklingakjöti verði gerður óheftur.
Yfirlýsingar Ingibjargar Sólrúnar hafa lagst mjög illa í forsvarsmenn bænda sem hafa sagt að með því að lækka tolla verulega á innflutning þessara kjötvara sé verið að slá af atvinnugreinarnar með einu pennastriki. Hugmyndir Ingibjargar séu óábyrgar.

Hugmyndir formanns Samfylkingar hefðu alvarlegar afleiðingar

Hugmyndir Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, lækkun tolla á innflutt svína- og alifuglakjöt eru umdeildar svo ekki sé meira sagt. Ingibjörg sagði í ræðu á flokksstjórnarfundi flokksins 30. mars s.l. að hún teldi rétt að skoða þann kost að lækka verulega tolla á innflutt matvæli sem ekki teljast til hefðbundinslandbúnaðar, svo sem á fugla- og svínakjöt. „Það snertir hag bænda ekki nema óbeint en hefði veruleg áhrif á hag neytenda,“
sagði Ingibjörg.

Bændasamtökin grunuð um að starfa fyrir bændur

Í Fréttablaðinu í dag er grein eftir Ögmund Jónasson, alþingismann og formann BSRB, þar sem hann gagnrýnir viðbrögð Samkeppniseftirlitsins gagnvart hagsmunagæslu Bændasamtaka Íslands fyrir bændur. Þar veltir hann því upp hvort Samkeppniseftirlitið sé orðið endanlega galið og hvort Bændasamtökunum beri ekki beinlínis skylda til að vinna að hagsmunum bænda.

Losnaði undan fjallskilaskyldu

Landeigandi á Norðurlandi hefur, með dómi, losnað undan fjallskilaskyldu þar sem hann nýtir ekki afrétt. Hann fékk ógilt fjárnám sem Eyjafarðarsveit hafði látið gera til greiðslu fjallskilagjalda.
Á síðasta ári var gert fjárnám í eigum Harðar Snorrasonar, bónda í Hvammi í Eyjafjarðarsveit, vegna vangoldinna fjallskilagjalda til Eyjafjarðarsveitar fyrir árin 2003-2006 en þau námu tæpum hundrað þúsund krónum.

Rafmagnstafla brennur yfir

Rafmagnstafla í aðstöðurými tilraunafjóssins á Stóra-Ármóti brann yfir í fyrradag og einskær heppni að ekki hlytist af bruni. Unnið hafði verið að þrifum í aðstöðunni og líklegasta skýringin sú að vatn hafi náð að leka inn í töfluna eftir köplum sem tengdir eru ofan í töfluna og þannig orsakað skammhlaup.

Hafa mikla trú á búrekstrinum

Nýtt 150 bása fjós, búið tveimur mjaltaþjónum, verður tekið í notkun í Flatey á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu eftir 3-4 vikur. Fyrirtækið Lífsval á Akureyri á búið og sagði Jón Björnsson, framkvæmdastjóri Lífsvals, að nú væri verið að leggja lokahönd á fjósið en erfitt veðurfar í vetur hefði tafið framkvæmdirnar.

Rannsaka þarf hví ær láta lömbum

Þörf er á viðamikilli rannsókn þar sem sauðfjárbændur og Matvælastofnun leggjast á eitt um að komast að því hvað veldur því að ungar ær láta lömbum. Þetta er mat Halldórs Runólfssonar yfirdýralæknis.
Halldór segir talsvert hafa verið rannsakað á síðasta ári hvað kunni að valda lambadauða og hversu hátt hlutfall gemlinga lætur lömbum áður en þau koma í heiminn. Einhlýt skýring hafi ekki fundist. Hann telur þó ekki um nýjan sjúkdóm að ræða.

Spennandi folar á ungfolasýningu

Spennandi folar hafa verið skráðir ti leiks á Ungfolasýningu Hrossaræktarsamtaka Suðurlands sem fram fer í Ölfushöllinni á laugardaginn 22.mars n.k. 
Meðal hesta sem skráðir hafa verið eru synir Álfasteins frá Selfossi, Parkers frá Sólheimum, Töfra frá Kjartansstöðum, Glóðars frá Reykjavík, Stála frá Kjarri, Snæs frá Bakkakoti, Keilis frá Selfossi og Gaums frá Auðsholtshjáleigu. Af frægum mæðrum eru Rispa frá Eystri-Hól og Þruma frá Selfossi.
 

Stóraukinn innflutningur landbúnaðarvara

Pétur Blöndal bar á dögunum fram nokkrar spurningar til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á Alþingi um innflutning á landbúnaðarvörum. Meðal annars spurði þingmaðurinn hvernig innflutningur landbúnaðarvara með tollkvótum hafi þróast sem hlutfall af innanlandsneyslu?

Vantar peninga til að ýta undir lífrænan búskap

Íslenskir bændur bíða ekki í röðum eftir að geta hafið lífrænan búskap. Ekki er nægur fjárhagslegur hvati til að fara út í slíkt hér á landi miðað við núgildandi reglur. Ekki stendur þó á faglegri þjónustu Bændasamtakanna, segir formaðurinn, Haraldur Benediktsson, sem segir óraunhæft að ætla sér að ná því markmiði sem sett hefur verið fram í þingsályktunartillögu, að 15% framleiðslunnar verði vottuð lífræn að 12 árum liðnum. Í dag er hlutfallið innan við 1%, líkt og fram kom í máli Ólafs Dýrmundssonar landnýtingarráðunautar í Morgunblaðinu í gær.

Þú sem átt kindur!

Finnst þér að áhugamál þitt / atvinna njóti lítils skilnings og að félagar þínir í sauðfjárrækt séu fáir? Ert þú vondaufur um framtíðina eða hyggst þú sækja fram?

Félag sauðfjárbænda í Árnessýslu er að leita að þér, því nú leitum við félaga, gamalla og nýrra, sem vilja skapa tengsl og samstöðu meðal sauðfjárbænda, efla sauðfjárrækt og láta sig varða kjara- og markaðsmál.

Hótel Saga verði ekki seld

Tillaga um að taka mögulega sölu á Hótel Sögu til umræðu var felld á Búnaðarþingi í gær en 23 fulltrúar greiddu atkvæði gegn henni á móti 22 sem studdu hana. Bændasamtökin eiga bæði Hótel Sögu og Hótel Ísland og hefur hið síðarnefnda verið til sölu frá því í júní.

Kjaramálaályktun við lok Búnaðarþings

Búnaðarþingi lauk í gær og var eftirfarandi kjaramálaályktun samþykkt við lok þingsins:

Eins og Bændasamtök Íslands hafa bent á síðustu mánuði hefur rekstrarkostnaður í landbúnaði hækkað verulega um heim allan. Hliðstæð þróun blasir við hér og rekstrarútgjöld íslenskra bænda hafa á síðustu vikum og mánuðum hækkað meira en áður hefur þekkst.

Starfsgreinasambandið skilur bændur

Yfirlýsingar Skúla Thoroddsens, framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins (SGS), í frétt í 24 stundum í gær um kröfur Búnaðarþings í kjaramálum hafa valdið allnokkrum titringi. Í drögum að kjaramálaályktun þingsins er lögð áhersla á að tollar á innfluttar landbúnaðarvörur verði ekki lækkaðir. Skúli sagði þær kröfur út í bláinn.

Aðalsteinn Baldursson, sviðsstjóri matvælasviðs Starfsgreinasambandsins, segir þetta ekki rétta lýsingu á afstöðu SGS.

back to top