Höfum innleitt nær alla landbúnaðarstefnu ESB nema styrkjakerfið

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, vakti athygli á því að Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefði í síðustu viku mælt fyrir frumvarpi sem meðal annars gerir ráð fyrir frjálsum innflutningi á hráu kjöti frá ríkjum ESB. Benti hún á að með þessu hefðu Íslendingar innleitt alla löggjöf ESB í landbúnaðarmálum nema styrkjakerfið.

Valgerður sagði ráðherra hafa flutt látlausa ræðu um málið á þingi og ekki sagt um grundvallarbreytingu að ræða. Hins vegar hefði kveðið við annan tón þegar ráðherra hefði komið í Valhöll á laugardag og talað um það með stjörnum í augum sem grundvallarbreytingu í landbúnaði. Spurði hún Arnbjörgu Sveinsdóttur, þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins, hvort sjálfstæðismenn væru með frumvarpinu að flytja póst frá Brussel, eins og hún orðaði það, eða hvort verið væri að breyta landbúnaðinum í grundvallaratriðum.


Íslendingar á óheftan aðgang með sjávarafurðir í staðinn


Arnbjörg benti á að Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hefði hafið vinnuna að frumvarpinu. Reyndin væri sú að Íslendingar hefðu ekki lengur undanþágu frá því að flytja inn hrátt kjöt. Þetta væri hluti af þeim samningum að Íslendingar hefðu fengið óheftan aðgang inn á Evrópumarkað með sjávarafurðir sínar. Til þess að afurðirnar yrðu ekki meðhöndlaðar eins og þriðja ríkis vara yrðu Íslendingar að taka umrædda löggjöf upp. Hér væri um heilmikla breytingu að ræða og landbúnaðarnefnd færi nú yfir málið.


Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði flokk sinn ánægðan með hinar nýju áherslur og verið væri að afnema viðskiptahindranir sem bætti stöðu neytenda til lengri tíma. Menn þyrftu hins vegar að ræða það á næstu árum hvernig þeir vildu tolla kjötið. Þá tók hann undir með Valgerði og benti á að á fundi landbúnaðarnefndar í morgun hefðu fulltrúar Matvælastofnunar bent á að með hinu nýja frumvarpi hefði Ísland innleitt nær alla landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins fyrir utan styrkjakerfið.


Valgerður tók aftur til máls og benti á að löggjöfin væri í raun póstur frá Brussel en ekki sú grundvallarbreyting á landbúnaði sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefði látið í veðri vaka.


back to top