Mestar meðalafurðir í fjósum með mjaltaþjóna

Fjós þar sem notast er við mjaltaþjóna skila að meðaltali meiri afurðum en fjós þar sem mannshöndin sér um mjaltir. Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri búrekstrarsviðs Landbúnaðarháskólans, segir að ástæðan fyrir þessu sé sú að með því að nota mjaltaþjóna séu kýrnar mjólkaðar oftar á sólarhring og það skili sér í meiri afurðum.

Í rannsókn sem gerð var árið 2005 voru meðalafurðir í fjósum með mjaltaþjóna 5.326 kg eftir kú, en rannsókn sem Snorri gerði á afurðum síðasta árs sýndi að þá námu meðalafurðir í þessum fjósum 5.791 kg. Þetta eru talsvert meiri afurðir en eru í fjósum þar sem mannshöndin sér um mjaltir, en í fyrra voru meðalafurðir eftir kú 5.590 kg. Snorri sagði að þegar rannsóknin var gerð árið 2005 hefði þessi mjaltatækni verið ný á Íslandi og bændur ekki búnir að ná fullri nýtingu á henni. Þessi niðurstaða núna kæmi ekki á óvart enda væri hún í samræmi við erlendar rannsóknir. Hann sagði að það færi betur með kýr sem mjólka mikið að mjólka þær oftar en tvisvar á sólarhring. Rannsóknir sýndu að það yki heilbrigði þeirra og endingu gripanna. Snorri sagðist hins vegar ekki treysta sér til að svara því hversu fjárhagslega hagkvæmt væri fyrir bændur að nýta sér mjaltaþjóna.

Helmingur í nýjum fjósum
Rannsóknin sýnir jafnframt að meðal afurðuhæstu búanna, þ.e. bú sem skila meira en 6.000 kg eftir kú, eru það básafjós með rörmjaltakerfi sem skila mestum afurðum. Munurinn á þeim og fjósum með mjaltaþjón er 2,3%. Snorri sagði að ástæðan væri að í básafjósi væri hægt að sinna einstökum gripum betur en í róbótafjósi. Þar væri t.d. hægt að mismuna gripunum með því að gefa bestu kúnum betra fóður. Skýrsla Snorra sýnir að liðlega helmingur af öllum kúm á Íslandi er núna hýstur í nýjum fjósum eða fjósum sem hafa verið endurnýjuð.

Morgunblaðið 16.apríl 2008 / Egill Ólafsson


back to top