Samþykktar tillögur og ályktanir á 100. aðalfundi BSSL

Eftirfarandi tillögur og álögur voru samþykktar á aðalfundi Búnaðarsambands Suðurlands í Aratungu þann 18. apríl s.l:


Tillaga 1
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Aratungu 18. apríl 2008, beinir því til stjórnar að auka upplýsingastreymi um starfsemi Stóra- Ármótsbúsins og þær rannsóknir sem þar fara fram. Eins verði tryggð gagnvirk samskipti rannsóknaaðila við bændur á svæðinu.


Greinargerð:
Tilraunastöðin að Stóra-Ármóti hefur frá upphafi borið þungann af því rannsóknastarfi sem unnið er í nautgriparækt hérlendis. Eins hefur stöðin þá sérstöðu að vera að fullu í eigu heimamanna og staðsett í einu blómlegasta landbúnaðarhéraði landsins. Mikilvægur grunnur öflugs tilraunastarfs er gott og gagnvirkt upplýsingaflæði milli rannsóknaaðila og bænda. Staðsetning tilraunastjóra Stóra-Ármóts á svæðinu og tengsl hans við kúabændur hér hafa skipt miklu máli í þessu tilliti og hafa oftast verið með ágætum.
Með sameiningu alls tilraunastarfs í nautgriparækt undir Land-búnaðarháskólann á Hvanneyri hefur dregið úr beinni aðkomu bænda á svæðinu við starfsemina á Stóra-Ármóti. Fundurinn leggur áherslu á að breytt fyrirkomulag þessara mála verði ekki til að draga úr tengslum tilraunastarfsins við kúabændur á svæðinu.  



Tillaga 2
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Aratungu þann 18. apríl 2008 beinir því til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,  vegna fyrirhugaðrar upptöku matvælalöggjafar ESB, að eftirfarandi verði gert:
• Að áhrif þess á starfsskilyrði landbúnaðarins verði skoðuð í samstarfi við hagsmunaaðila.
• Að stefna stjórnvalda í tollamálum á hverjum tíma sé ljós og fyrirsjáanleg.
• Að við allar breytingar á starfsskilyrðum verði þess gætt að landbúnaðurinn fái eðlilegan aðlögunartíma.
• Að tryggt verði að umræddar lagabreytingar skapi ekki aukna hættu varðandi lýðheilsu og dýraheilbrigði.
• Að matvælaöryggi þjóðarinnar verði tryggt til framtíðar með framleiðslu íslenskra búvara.



Tillaga 3
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Aratungu þann 18. apríl 2008 samþykkir að fela stjórn Búnaðarsambands Suðurlands að leita leiða til að koma á einföldu en skilvirku rafmagnseftirliti í sveitum.


Greinargerð:
Þau miklu tjón sem orðið hafa í eldsvoðum að undanförnu kalla á aðgerðir. Eftirlit með raflögnum og búnaði í útihúsum er líklega áhrifamesta aðgerðin sem um er að ræða. Því er hvatt til að Búnaðarsamband Suðurlands hafi forgöngu um að koma á einhverskonar eftirliti sem hjálpi bændum að hafa hlutina í lagi. Ef til vill mætti ná samstarfi við tryggingafélög um framkvæmdina.



Tillaga 4
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Aratungu þann 18. apríl 2008 lýsir þungum áhyggjum af afkomu kjötframleiðslugreina í landinu, leggi stjórnvöld niður útflutningsskyldu á dilkakjöti eða lækki tolla á innfluttar kjötvörur. Við þær aðstæður yrði vonlaust að sækja þær miklu verðhækkanir, sem orðið hafa á aðföngum, í hærra afurðaverði. Fundurinn skorar á stjórn Búnaðarsambands Suðurlands að beita sér fyrir hönd bænda, til að ekki komi til uppnáms á kjötmarkaði og algers hruns í afkomu bænda.



Tillaga 5
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Aratungu þann 18. apríl 2008 skorar á fjármálaráðherra að lækka gjöld og skattaálögur á díselolíu.



Tillaga 6
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Aratungu þann 18. apríl 2008 skorar á umhverfisráðherra og Framkvæmdanefnd búvörusamninga að auka framlög til Landbótasjóðs.


Greinargerð:
Í Landbótasjóði eru nú 20 milljónir en til að geta staðið við þær áætlanir sem þegar er verið að vinna eftir þarf sjóðurinn að vera 40 milljónir og æskilegt er að geta hafið ný verkefni.



Tillaga 7
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Aratungu þann 18. apríl 2008 beinir því til Matvælastofnunar að auka fræðslu um þá hættu sem fylgir heyflutningum og flutningi á tækjum, tengdum heyskap og jarðvinnslu, milli varnarhólfa.



Tillaga 8
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Aratungu þann 18. apríl 2008 samþykkir fjárhagsáætlun Búnaðarsambands Suðurlands fyrir árið 2008.



Tillaga 9
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Aratungu þann 18. apríl 2008 leggur til að við gerð fjárhagsáætlunar Kynbótastöðvar Suðurlands fyrir árið 2008 verði sæðingagjöld óbreytt, kr. 500,- á kú.



Tillaga 10
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Aratungu þann 18. apríl 2008 samþykkir óbreytt árgjald til Búnaðarsambands Suðurlands, alls kr 1.000,- á félagsmann.



Tillaga 11
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Aratungu þann 18. apríl 2008 samþykkir að þóknun aðalfundarfulltrúa miðist við dagpeninga ríkisstarfsmanna. Miða skal við fæðispeninga heilan dag og minnst 10 tíma ferðalag (nú kr. 6.000) x 2. (þ.e. nú kr. 12.000).



Tillaga 12
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Aratungu þann 18. apríl 2008 samþykkir að laun stjórnarmanna verði kr. 10.000,- á hvern stjórnarfund auk dagpeninga og aksturs samkvæmt ríkistaxta og framreiknist með vísitölubreytingum samkvæmt grunni í launavísitölu frá apríl 2005. Formaður fái tvöföld laun og dagpeninga á við aðra stjórnarmenn auk aksturs. Formaður fái að auki eingreiðslu sem nemur kr. 150.000,- miðað við árið 2003 sem framreiknast með launavísitölu.



Eftirfarandi ályktunum var vísað til stjórnar Búnaðarsambands Suðurlands til frekari úrvinnslu:


Niðurstöður nefndar um endurskoðun á starfsemi Búnaðarsambands Suðurlands


Aðdragandi:
Í kjölfar ályktunar síðasta aðalfundar Búnaðarsambands Suðurlands, skipaði stjórn þess eftirtalda í nefnd til að endur skoða starfsemi sambandsins.

Guðbjörgu Jónsdóttur  tilnefnda af stjórn Búnaðarsambands Suðurlands,
Sigurð Loftsson tilnefndan af Félagi kúabænda á Suðurlandi,
Sigríði Jónsdóttur tilnefnda af félögum sauðfjárbænda á Suðurlandi og
Berg Pálsson tilnefndan af Hrossaræktarsamtökum Suðurlands.

Auk þess naut nefndin aðstoðar Runólfs Sigursveinssonar ráðunauts.

Ályktun aðalfundarins var svohljóðandi:
“Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Heimalandi 20. apríl 2007 beinir því til stjórnar, að skipa starfsnefnd til að endurskoða starfsemi Búnaðarsambandsins. Nefndin skal m.a. vinna, í samráði við búgreinafélögin á svæðinu, tillögur um eftirfarandi og skila fyrir næsta aðalfund:
1. Hvaða verkefni skuli kostuð af búnaðarlagasamningi.
2. Hvert sé eðlilegt grunngjald hverrar búgreinar af búnaðargjaldi.
3. Hvað skuli teljast grunnþjónusta hverrar búgreinar og hvaða þjónusta skuli seld.”

Niðurstaða:
Nefndin leggur til að unnið verði áfram að endurskipulagningu leiðbeiningastarfs Búnaðarsambandsins. Lögð er áhersla á að starfseminni sé gert fært að þróast í takt við þarfir notendanna og sérhæfing verði aukin. Skilgreina þarf til hvaða verkefna sameiginlegum fjármunum skuli varið. Unnið verði að bættri nýtingu þekkingar og fjármuna með því að draga úr hólfaskiptingu milli búnaðarsambanda og láta frekar einstök verkefni og sérhæfingu starfsmanna ráða um aðgengi notenda að þjónustu en núverandi skiptingu í starfsvæði.

Nefndin leggur áherslu á eftirfarandi atriði í þessu sambandi.
• Eðlilegt er að þeir liðir sem tengjast eftirlitsþáttum séu að fullu kostaðir af búnaðarlagasamningi.
• Tryggt verði að fjármunir sem ætlaðir eru af búnaðarlagasamningi til kynbótaskýrsluhalds séu fullnægjandi fyrir það verkefni.
• Eðlilegt er að það hlutfall búnaðargjalds sem ætlað er að standa straum af þeirri grunnþjónustu sem krafist er verði jafnt hjá öllum búgreinum. Þetta gjald er nú 0.1% hjá öllum greinum nema nautgripa-, sauðfjár-, hrossa- og loðdýrarækt.
• Grunnþjónusta verði bundin við ábendingar varðandi leit að upplýsingum og ráðgjöf svo og hvar aðstoðar er að leita varðandi réttarstöðu viðkomandi. 
• Öll fagleg ráðgjöf, sem ekki nýtur stuðnings annarstaðar frá, skal seld á kostnaðarverði. Sé hinsvegar um að ræða verulega innkomu af búnaðargjaldi einstakra greina, skulu bændur innan hennar njóta þess með afsláttum.
• Samkvæmt þessu verði unnin gjaldskrá sem endurspegli raunverulegan kostnað við þjónustuna. Hún skal vera opinber og aðgengileg öllum, ásamt þeim afsláttarkjörum sem gilda hverju sinni.
• Gjaldskrárkerfið verði nýtt til að efla fagmennsku og sérhæfingu með samstarfi við önnur búnaðarsambönd. Þannig fengist aukin nýting þekkingar, mannauðs og fjármuna.
• Leitast verði við að bjóða hlutlausa ráðgjöf í viðskiptum bænda við sölu- og þjónustuaðila.   

Ljóst er að ekki eru öll þessi atriði á valdi Búnaðarsambands Suðurlands. Því er lagt til að leitað verði samstarfs við önnur búnaðarsambönd sem og Bændasamtök Íslands um leiðir að þessum markmiðum.



Erindi frá Félagi sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu:
Stjórn Félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu haldinn á Hvolsvelli 7. apríl 2008 lýsir furðu á framfylgni Matvælastofnunar á reglugerð um merkingu búfjár no 289/2005. Fundurinn skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að gerðar verði breytingar á reglugerðinni þar um að lágmarksfrávik þurfi til að til afskipta komi. Stjórnin skorar á stjórn Búnaðarsambands Suðurlands að beita sér fyrir því að ekki sé farið offari gegn bændum.
 
Greinargerð:
Fjöldi ábendinga hafa borist frá bændum um bréf frá Matvælastofnun, þar sem bændum hefur verið hótað meðferð hjá sýslumanni ef vantað hafa eyrnamerki í lamb í sláturhúsi. Teljum við að hér fari Matvælastofnun offari þar sem það er þekkt að gripir hafi glatað merki á sláturbíl eða í sláturrétt. Lámarksfrávik (t.d. 2-3% af heildar fjölda fjár af bæ) frá reglugerð gæti komið í veg fyrir óþægindi og óþarfa rannsókn á eðlilegum afföllum merkja.


 


back to top