Frá aðalfundi BSSL

100. aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands fór fram í blíðskaparveðri í Aratungu í gær. Fram í skýrslum formanns og framkvæmdastjóra að reksturinn var samkvæmt áætlun, þó sýnu lakari en árið áður. Tap varð á rekstri BSSL og dótturfélaga og nam það 185 þús. kr. Heildareignir samstæðunnar eru samkv. efnahagsreikningi 221 millj. kr. og skuldir 23,6 millj. kr. Eiginfjárhlutfall er því 90%.


Sigurgeir Þorgeirsson, ráðuneytisstjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, ávarpaði fundinn, flutti kveðjur ráðherra og óskaði sambandinu til hamingju með afmælið. Hann gerði matvælafrumvarpið að umtalsefni í ávarpi sínu og sagði m.a. að vegna reglna og tilskipana ESB væri ekki um annað að ræða en heimila innflutning á hráu kjöti. Reglur ESB væru þannig úr garði gerðar að öll matvæli féllu undir sama hatt og ef Íslendingar ætluðu að stunda viðskipti við ESB með t.d. fiskafurðir væri þetta eina leiðin. Hann sagði jafnframt að hættan væri kannski ekki mjög mikil og meðan að tollverndin héldi yrðu áhrifin af þessu hverfandi fyrir landbúnaðinn.


Eiríkur Blöndal, framkvæmdastjóri BÍ, og Sveinn Ingvarsson, varaformaður BÍ, fluttu BSSL árnaðaróskir Bændasamtakanna á þessum tímamótum sem 100 ára starf væri. Eiríkur ræddi um rannsókn Samkeppniseftirlitsins á því að Bændasamtökin hefðu gengið of hart fram í hagsmunagæslu og brotið gegn samkeppnislögum. Hann sagði þetta hafa komið þeim mjög á óvart en Bændasamtökin biðu nú úrskurðar Samkeppniseftirlitsins.
Þórunn og Ketill á Brúnastöðum ásamt Magnúsi B. Jónssyni.
Magnús B. Jónsson, landsráðunautur í nautgriparækt, afhenti verðlaun fyrir besta nautið í 2001 árgangi nauta. Þau féllu að þessu sinni í hlut þeirra Ketils og Þórunnar á Brúnastöðum fyrir nautið Spotta 01028. Magnús sagði að þessi árangur Brúnastaðabænda væri engin tilviljun, þetta væri í þriðja sinn sem naut frá Brúnastöðum hlyti þessa nafnbót. Þá hefði mikill fjöldi nauta verið tekinn á Nautastöðina frá Brúnastöðum.


Þá voru afurðahæstu kúnum og búunum á Suðurlandi 2007 veittar viðurkenningar. Afurðahæstu kýrnar voru þær Dóra 550 á Selalæk, Pífa 997 í Nýjabæ og Brynja 594 á Selalæk. Afurðahæstu búin voru þessi Akbraut í Holtum, Kirkjulækur í Fljótshlíð, Hrepphólar og Núpstún í Hrunamannahreppi og Vorsabær í A-Landeyjum. Þorfinnur Þórarinsson afhenti verðlaunin eigendum kúnna og ábúendum ofangreindra búa.


Við munum birta fleiri fréttir af aðalfundinum á næstu dögum, m.a. samþykktar tillögur og ályktanir.


back to top