Framkomnar tillögur

Eftirfarandi tillögur hafa borist frá aðildarfélögum Búnaðarsambandsins og verða lagðar fram á aðalfundinum næstkomandi föstudag. Um er að ræða þrjár tillögur frá Félagi sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu, eina frá Búnaðarfélagi Landmanna og eina frá sérstakri nefnd sem stjórn BSSL skipaði eftir síðasta aðalfund og var ætlað að endurskoða starfsemi Búnaðarsambandsins.

Framkomnar tillögur eru eftirfarandi:

Stjórn Félags sauðfjárbænda í Rangárvallarsýslu haldinn á Hvolsvelli 7. apríl 2008,
hefur þungar áhyggjur af afkomu greinarinnar og bendir á að vonlaust verði að sækja þær miklu verðhækkanir sem orðið hafa á aðföngum í hærra afurðarverði, leggi stjórnvöld niður útfluttningsskyldu eða tolla á innfluttar kjötvörur. Stjórn BSSL verður að beita sér fyrir hönd bænda að algjört hrun verði ekki í afkomu bænda.


Greinagerð:
Áburðarverð hefur hækkað um 80% milli ára, sem þýðir að miðað við meðal sauðfjárbú yrði afurðarverð að hækka um 70 kr/kg af framleiddu dilkakjöti. Einnig hefur díselolía  hækkað um 26,3% frá feb. ´07 til feb. ´08 sem er 5-6kr/kg svo og önnur aðföng og vaxtarkostnaður en ljóst er að afurðarverð yrði að hækka um 25%  til að halda í við hækkun aðfanga og þá er launaliðurinn ekki tekinn inn í. Með aukinni samkeppi á kjötmarkaðinum, með afnámi útfluttningssyldunar eða auknum innfluttningi yrði vonlaust að ná þessum nauðsynlegu verðhækkunum og án þeirra er brostinn forsenda fyrir rekstri sauðfjárbúa.


Stjórn Félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu haldinn á Hvolsvelli 7. apríl 2008 skorar á fjármálaráðherra að lækka gjöld og skattaálögur á díselolíu og vera sjálfri sér samkvæm í að draga úr koltvísýringslosun í samræmi við Kyoto-samþykktina. Og koma á móts við dreifbýlisbúa sem oft eiga um langan veg að fara eftir nauðsynjum og að stjórn BSSL beiti sér í þeirri baráttu.


Greinagerð:
Díselbílar eru taldir menga minna en bensínbílar. Og fólk á landsbyggðinni þurfa að eiga jeppa til að komast leiðar sinnar og oft um erfiða fjallvegi að fara. Lækkun á verði á díselolíu væri mikið hagsmunarmál og stuðlaði einnig að notkun díselbíla sem myndi draga úr koltvísýringsmengun.


Stjórn Félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu haldinn á Hvolsvelli 7. apríl 2008 lýsir furðu á framfylgni Matvælastofnunar á reglugerð um merkingu búfjár no 289/2005. Fundurinn skorar á Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðherra að gerðar verði breytingar á reglugerðinni þar um að lámarksfrávik þurfi til að til afskipta komi. Stjórnin skorar á stjórn BSSL að beita sér fyrir því að ekki sé farið offari gegn bændum.

Greinargerð:
Fjöldi ábendinga hafa borist frá bændum um bréf frá Matvælastofnun, þar sem bændum hefur verið hótað meðferð hjá sýslumanni ef vantað hafa eyrnamerki í lamb í sláturhúsi. Teljum við að hér fari Matvælastofnun offari þar sem það er þekkt að gripir hafi glatað merki á sláturbíl eða í sláturrétt. Lámarksfrávik ( td. 2-3% af heildar fjölda fjár af bæ ) frá reglugerð gæti komið í veg fyrir óþægindi og óþarfa rannsókn á eðlilegum afföllum merkja.Aðalfundur Búnaðarfélags Landmanna, haldinn að Skeiðvöllum 27. mars 2008 lýsir þungum áhyggjum af heyflutningum af riðusvæðum inná hrein svæði eins og Landsveit er í dag.  Minnum við á að um er að tefla lífsafkomu fjölda fólks.Niðurstöður nefndar um endurskoðun á starfsemi Búnaðarsambands Suðurlands


Aðdragandi:
Í kjölfar ályktunar síðasta aðalfundar Búnaðarsambands Suðurlands, skipaði stjórn þess eftirtalda í nefnd til að endur skoða starfsemi sambandsins.
Guðbjörgu Jónsdóttur  tilnefnda af stjórn Búnaðarsambands Suðurlands,
Sigurð Loftsson tilnefndan af Félagi kúabænda á Suðurlandi,
Sigríði Jónsdóttur tilnefnda af félögum sauðfjárbænda á Suðurlandi og
Berg Pálsson tilnefndan af Hrossaræktarsamtökum Suðurlands.
Auk þess naut nefndin aðstoðar Runólfs Sigursveinssonar ráðunauts.


Ályktun aðalfundarins var svohljóðandi.
“Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Heimalandi 20. apríl 2007 beinir því til stjórnar, að skipa starfsnefnd til að endurskoða starfsemi Búnaðarsambandsins. Nefndin skal m.a. vinna, í samráði við búgreinafélögin á svæðinu, tillögur um eftirfarandi og skila fyrir næsta aðalfund:
1. Hvaða verkefni skuli kostuð af búnaðarlagasamningi.
2. Hvert sé eðlilegt grunngjald hverrar búgreinar af búnaðargjaldi.
3. Hvað skuli teljast grunnþjónusta hverrar búgreinar og hvaða þjónusta skuli seld.”


Niðurstaða:
Nefndin leggur til að unnið verði áfram að endurskipulagningu leiðbeiningastarfs Búnaðarsambandsins. Lögð er áhersla á að starfseminni sé gert fært að þróast í takt við þarfir notendanna og sérhæfing verði aukin. Skilgreina þarf til hvaða verkefna sameiginlegum fjármunum skuli varið. Unnið verði að bættri nýtingu þekkingar og fjármuna með því að draga úr hólfaskiptingu milli búnaðarsambanda og láta frekar einstök verkefni og sérhæfingu starfsmanna ráða um aðgengi notenda að þjónustu en núverandi skiptingu í starfsvæði.


Nefndin leggur áherslu á eftirfarandi atriði í þessu sambandi.
• Eðlilegt er að þeir liðir sem tengjast eftirlitsþáttum séu að fullu kostaðir af búnaðarlagasamningi.
• Tryggt verði að fjármunir sem ætlaðir eru af búnaðarlagasamningi til kynbótaskýrsluhalds séu fullnægjandi fyrir það verkefni.
• Eðlilegt er að það hlutfall búnaðargjalds sem ætlað er að standa straum af þeirri grunnþjónustu sem krafist er verði jafnt hjá öllum búgreinum. Þetta gjald er nú 0.1% hjá öllum greinum nema nautgripa-, sauðfjár-, hrossa- og loðdýrarækt.
• Grunnþjónusta verði bundin við ábendingar varðandi leit að upplýsingum og ráðgjöf svo og hvar aðstoðar er að leita varðandi réttarstöðu viðkomandi. 
• Öll fagleg ráðgjöf, sem ekki nýtur stuðnings annarstaðar frá, skal seld á kostnaðarverði. Sé hinsvegar um að ræða verulega innkomu af búnaðargjaldi einstakra greina, skulu bændur innan hennar njóta þess með afsláttum.
• Samkvæmt þessu verði unnin gjaldskrá sem endurspegli raunverulegan kostnað við þjónustuna. Hún skal vera opinber og aðgengileg öllum, ásamt þeim afsláttarkjörum sem gilda hverju sinni.
• Gjaldskrárkerfið verði nýtt til að efla fagmennsku og sérhæfingu með samstarfi við önnur búnaðarsambönd. Þannig fengist aukin nýting þekkingar, mannauðs og fjármuna.
• Leitast verði við að bjóða hlutlausa ráðgjöf í viðskiptum bænda við sölu- og þjónustuaðila.   


Ljóst er að ekki eru öll þessi atriði á valdi Búnaðarsambands Suðurlands. Því er lagt til að leitað verði samstarfs við önnur búnaðarsambönd sem og Bændasamtök Íslands um leiðir að þessum markmiðum.


back to top