Dýrt og flókið og veldur áhyggjum af heilnæmi

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, segir að með væntanlegum breytingum á matvælalöggjöfinni, innleiðingu gerðar ESB, sem heimilar innflutning á hráu kjöti, sé verið að leika sér að eldinum. „Það er mjög gott heilbrigðisástand hér á landi svo sem í kjúklinga-, svína- og nautgriparæktinni en varnirnar verða veikari til að verjast því að hingað berist vörur sem eru ekki jafn heilnæmar og við framleiðum hér á landi,“ segir Haraldur.

Haraldur segir að innleiðing Evrópureglnanna um matvæli og framkvæmd þeirra verði bæði óhemju dýr og flókin og kostnaðurinn geti lent bæði á neytendum og framleiðendum. Bendir hann á að Matvælastofnun sé falið í hendur risavaxið  verkefni sem hún þurfi  verulega fjármuni til að geta valdið.

„Við óttumst að þessu verði skellt á neytendur og bændur,“ segir hann. Haraldur segir að breytingarnar geti líka falið í sér tækifæri fyrir bændur til útflutnings. Einn af ókostum breytinganna sé hins vegar sá að skilja þurfi að héraðsdýralæknaþjónustuna og dýralæknaþjónustu úti í héruðunum. Reynslan hafi sýnt að ekki hafi gengið vel að manna dýralæknastöður á sumum landsvæðum og bændur hafi miklar áhyggjur af þessari breytingu.

Haraldur á von á að lagasetningin muni hafa í för með sér meiri fjölbreytni í framboði á kjöti. Breytingarnar varði hins vegar ekki innflutningstolla og ekkert sé hægt að fullyrða um hver áhrifin verða á verð á matvælum en hættan sé hins vegar sú að menn freistist til þess í harðri verðsamkeppni að flytja inn vafasamari vöru. „Umræðan um heilnæmi matvælanna er því mjög brýn,“ segir Haraldur.


back to top